Fréttir
10. september 2025Ný rannsókn Amnesty International leiddi að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld og herlið tengd þeim hefðu tekið fjölda Drúsa í Suwayda af lífi án dóms og laga. Þessi hryllilegu mannréttindabrot eru enn ein grimmilega áminningin um hörmulegar afleiðingar sem refsileysi í Sýrlandi hefur haft þar sem núverandi stjórnvöld og herlið tengd þeim drepa án ótta við að verða sótt til saka.
Aftökur án dóms og laga eru brot á alþjóðalögum og eiga sér stað þegar stjórnvöld eða fulltrúar stjórnvalda taka fólk af lífi utan réttarkerfisins. Þetta getur bæði átt við fyrirskipun um aftöku eða þegar fulltrúar stjórnvalda taka fólk af lífi án eftirlits.
Sýrlensk stjórnvöld verða tafarlaust að rannsaka þessar aftökur með óhlutdrægum, ítarlegum og gagnsæjum hætti og tryggja að gerendur verði sóttir til saka og fái sanngjarna málsmeðferð án dauðarefsingar.
Átök
Atburðarásin í Suwayda hófst dagana 11.–12. júlí þegar spenna myndaðist í suðurhluta Sýrlands milli vopnaðra hópa drúsa og vígamanna Bedúína sem leiddi til vopnaðra átaka. Sýrlenski herinn tilkynnti 15. júlí að hann væri kominn til borgarinnar Suwayda til að „koma á stöðugleika“ og setja útgöngubann. Sama dag hóf Ísrael loftárásir á farartæki sýrlenska hersins þar sem féllu að minnsta kosti 15 einstaklingar.
Fréttir um mannréttindabrot stjórnarhers og herliða tengdum þeim við komu þeirra til borgarinnar 15. júlí leiddu til stigvaxandi átaka á ný sem varð til þess að sýrlenski herinn dró sig til baka degi síðar, seint að kvöld 16. júlí.
Rannsókn Amnesty International
Amnesty International skrásetti aftökur á 46 Drúsum, þar af 44 karlmönnum og 2 konum, ásamt sýndaraftökum tveggja eldri einstaklinga. Aftökurnar án dóms og laga fóru fram dagana 15.-16. júlí á almenningstorgi, heimilum, spítala, í skóla og hátíðarsal í Suwayda dagana tvo sem sýrlenski herinn var í borginni.
Sömu daga og þessar aftökur áttu sér stað hreyttu vopnaðir menn ókvæðisorðum að fólki sem tilheyrir samfélagi Drúsa og trúaðir karlmenn sættu niðurlægjandi meðferð á borð við rakstur yfirvaraskegg sem hefur menningarlegt gildi fyrir þá.
Amnesty International sannreyndi myndbönd af vopnuðum mönnum í herbúningum og einkennisbúningum öryggissveita sem tóku óvopnað fólk af lífi.
Amnesty International tók viðtöl við 13 viðmælendur í Suwayda og tvo viðmælendur frá Suwayda sem búa erlendis. Átta af 15 viðmælendum áttu fjölskyldumeðlimi sem höfðu verið teknir af lífi.
Tveir viðmælendur urðu vitni að aftökum. Annar þeirra sá fjölskyldumeðlimi sína tekna af lífi. Fimm viðmælendur fóru á aftökustaði og sáu lík fjölskyldumeðlima sinna og annarra. Foreldrar einnar konu sem rætt var við sættu sýndaraftökum og tveimur viðmælendum var haldið á heimilum þeirra og ógnað með byssu á meðan vopnaðir menn í herbúningum gerðu leit á heimilinu.
Vitnisburður viðmælanda
Einn viðmælandinn var faðir sem horfði á þrjá syni sína og þrjá frændur tekna af lífi. Faðirinn var á leiðinni með fjölskyldu sína úr borginni Suwayda þann 15. júlí þar sem hann hafði frétt af aftökum á Drúsum. Hann var í bíl með konunni sinni en synir hans og frændur voru í öðrum bíl fyrir aftan þau. Tveir menn í svörtum einkennisbúningi öryggissveita stöðvuðu báða bílana.
„Öryggissveitin spurði hvort bíllinn fyrir aftan mig væri með mér. Ég sagði já. Báðir öryggissveitarmennirnir gengu í átt að bíl sonar míns og ég horfði á í baksýnisspeglinum. Ég sá son minn brosa til þeirra og segja: Salam aalykom [kveðja sem þýðir: Megi friður vera með þér]. Einn mannanna steig skref til baka og tók undir kveðjuna og hóf skyndilega skotríð. Bara allt í einu. Hinn maðurinn byrjaði líka að skjóta. Það versta var að sjá líkama sonar míns kippast til þegar byssukúlurnar hæfðu hann.“
Amnesty International sannreyndi myndir af bílnum þar sem sást að rúður voru brotnar og að minnsta kosti sextíu skotum hafði verið skotið að bílnum úr tveimur mismunandi áttum.
Viðbrögð stjórnvalda
Niðurstöður Amnesty International voru birtar 2. september og sama dag brást innanríkisráðherra vel við þeim og sagðist skuldbinda sig til að vernda alla Sýrlendinga, sama hver bakgrunnur þeirra er.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu