Fréttir
22. maí 2024Okkar árlega og alþjóðlega herferð, Þitt nafn bjargar lífi, fór fram í lok árs 2023 líkt og fyrri ár. Herferðin gekk vel á Íslandi sem og um heim allan. Vakin var athygli á tíu málum þolenda mannréttindabrota víðs vegar um heiminn. Á Íslandi söfnuðust yfir 50 þúsund undirskriftir og stuðningskveðjur. Á heimsvísu var gripið til 5.828.323 aðgerða fyrir málin tíu með ýmsum hætti í 63 löndum. Það eru 500 þúsund fleiri aðgerðir en árið áður.
Viðburðir
Við upphaf herferðarinnar, þann 18. nóvember, var haldinn viðburður í Kringlunni til að vekja athygli á herferðinni. Elín Ey söng lagið, Hvaða frelsi? eftir Hjálmar inn í listrænu búri sem tákn um frelsisskerðingu. Leiklistarhópur MH tók einnig þátt í gjörningi með því að frelsa Elínu Ey með táknrænum hætti. Á meðan viðburðurinn stóð yfir söfnuðust 1.000 undirskriftir.
Á alþjóðlega mannréttindadeginum þann 10. desember 2023 var haldið upp á 75 ára afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna með fjáröflunarsýningu og í lok sýningar var áhorfendum boðið að skrifa undir og senda stuðningskveðjur til þolenda en slíkar kveðjur eru ekki síður mikilvægar til að gefa fólki von.
Að auki var í þriðja skipti gert vegglistaverk við Kaffi Vest til að vekja athygli á einu málanna í Þitt nafn bjargar lífi. Í ár var það listakonan Julia Mai Linné Maria sem málaði mynd af pólska kvenréttindafrömuðinum Justynu Wydrzyńska sem berst fyrir réttinum til öruggs þungunarrofs í heimalandi sínu.
Julia Mai Linné Maria við listaverkið af Justynu við Kaffi Vest
Þátttaka skóla
Á Íslandi fór fram framhaldsskólakeppni í undirskriftasöfnun fyrir herferðina og söfnuðust þar samtals 6.740 undirskriftir. Kvennaskólinn í Reykjavík bar sigur úr býtum með flestar undirskriftir og Framhaldsskólinn á Laugum sigraði með flestar undirskriftir miðað við nemendafjölda. Ekki nóg með það voru rúmlega 20 mannréttindafræðslur haldnar í framhaldsskólum í tengslum við herferðina þar sem yfir þúsund nemendur fræddust um málin tíu.
Alþjóðaskólinn á Íslandi og Háteigsskóli eru þeir tveir grunnskólar sem hafa síðastliðin ár tekið virkan þátt í Þitt nafn bjargar lífi. Nemendur á unglingastigi kynntu sér málin í kennslustund og skrifuðu undir aðgerðakort og stuðningskveðjur. Síðast en ekki síst söfnuðu nemendur undirskriftum hjá vinum og fjölskyldu, nágrönnum og fólki á förnum vegi. Íslandsdeild Amnesty International hélt uppskeruhátíð fyrir báða skólana í maí og skólunum var veitt viðurkenning fyrir einstakt framlag og eldmóð í mannréttindabaráttunni.
Alþjóðaskólinn á Íslandi safnaði 910 undirskriftum og stuðningskveðjum að þessu sinni og Háteigsskóli safnaði 2.141 undirskrift. Það má með sanni segja að það dygga starf sem unga fólkið hefur unnið í þágu betri og jafnari heims er ómetanlegt.
Undirskriftasafnanir fóru einnig fram á landsbyggðinni. Met var slegið í söfnuninni á Egilsstöðum þar sem skrifað var undir rúmlega 1.000 aðgerðakort.
Ragnhildur Rós Indriðadóttir hefur í tæpan áratug haldið utan um söfnunina þar í sjálfboðaliðastarfi og kann deildin henni sérstakar þakkir fyrir öflugt framlag.
Jákvæð áhrif
Jákvæð áhrif herferðarinnar Þitt nafn bjargar lífi er með ýmsum hætti og er ekki síst mikill stuðningur fyrir þolendur. Eitt af málunum var mál Justynu Wydrzyńska frá Póllandi sem var fundin sek um að „aðstoða við þungunarrof“ og dæmd til átta mánaða samfélagsþjónustu.
Mál hennar setur hættulegt fordæmi í landinu og var krafan sú að yfirvöld snéru við dóminum. Justyna hafði orð á því við Amnesty International að herferðin og stuðningurinn hefði verið henni mikils virði og skilaði þakklæti til allra þeirra sem sendu henni stuðningskveðjur:
„Þakkir eru samt ekki nóg að mínu mati. Öll þessi bréf bræddu hjarta mitt.“
Alþjóðlegur þrýstingur er einnig talinn hafa haft áhrif á mál frá Brasilíu. Ana Maria hefur lengi barist fyrir réttlæti í máli sonar síns sem var myrtur þar í landi. Sonur hennar, Pedro Henrique, hafði verið ötull talsmaður gegn lögregluofbeldi. Lögreglumennirnir sem grunaðir eru um morðið á honum störfuðu enn hjá lögreglunni að fimm árum liðnum.
Í kjölfar herferðarinnar voru rannsóknargögn lögreglu í málinu opinberuð en fram að því hafði þeim verið haldið leyndum. Ana Maria fann einnig fyrir auknu öryggi og herferðin gaf henni von á ný í baráttu sinni:
„Ég segi alltaf að Pedro hafi kennt mér margt, þar á meðal hvernig á að vera þrotlaus í baráttunni fyrir réttlæti.“
Íslandsdeild Amnesty International þakkar öllum þátttakendum í Þitt nafn bjargar lífi fyrir stuðninginn!
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu