Fréttir
14. nóvember 2024Ár hvert tekur fjöldi fólks um heim allan þátt í alþjóðlegri herferð Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi. Þetta er auðveld leið til þess að hafa mikil áhrif á einfaldan og aðgengilegan hátt. Það eina sem þarf að gera er að skrifa undir málin á vefsíðu Íslandsdeildar Amnesty International. Það er svona auðvelt að breyta heiminum til hins betra!
Frá því að herferðin hófst árið 2001 hafa milljónir einstaklinga um heim allan breytt lífi fjölda þolenda mannréttindabrota. Á rúmum 20 árum hefur verið gripið til 56 milljóna aðgerða og í máli rúmlega 100 einstaklinga hafa orðið jákvæðar breytingar í kjölfar herferðarinnar.
Samtakamátturinn skiptir máli
Í herferðinni í ár eru níu mál þolenda mannréttindabrota frá öllum heimshlutum. TikTok-stjarna í Angólu og baráttukona fyrir réttindum kvenna í Sádi-Arabíu eru í hópi þessara kröftugra einstaklinga sem sætt hafa mannréttindabrotum.
Neth Nahara er áhrifavaldur í Angóla. Hún var handtekin daginn eftir að hún gagnrýndi forsetann í beinni á TikTok. Samkvæmt umdeildum lögum er bannað að „móðga“ forsetann. Hún var dæmd í tveggja ára fangelsi.
Manahel al-Otaibi birti mynd af sér á Snapchat án þess að klæðast abaya, hefðbundnum kufli, og studdi réttindi kvenna á samfélagsmiðlum. Hún var dæmd í 11 ára fangelsi.
Samtakamátturinn skiptir máli. Fólk á Íslandi hefur heldur betur lagt sitt lóð á vogarskálarnar með góðri þátttöku. Enda taka nærri 2% Íslendinga þátt á hverju ári. Það er mun hærra hlutfall íbúa en nokkur staðar í heiminum. Líkt og fyrri ár verða fræðslur í skólum um allt land og ýmir viðburðir til að vekja athygli á málin og safna undirskriftum.
Herferðin hefur svo sannarlega sýnt að almenningur getur umbreytt lífi þolenda mannréttindabrota. Á þessu ári öðluðust þrír einstaklingar nýtt líf í kjölfar þess að hafa verið hluti af herferðinni, Þitt nafn bjargar lífi.
Listakona sem gagnrýndi stríðið fékk frelsi á ný
Aleksandra (Sasha) Skochilenko er listakona sem gagnrýndi stríðið í Úkraínu. Hún fékk frelsi á ný í ágúst í sögulegum fangaskiptum í kjölfar mikils þrýstings. Lönd á borð við Þýskaland, Noreg, Pólland, Slóveníu og Bandaríkin sömdu við Rússland og Belarús um fangaskiptin.
Rússnesk yfirvöld handtóku Söshu í apríl 2022 í kjölfar þess að hún skipti verðmiðum í matvöruverslun út fyrir upplýsingum um innrás Rússlands í Úkraínu. Hún var ákærð fyrir að dreifa „fölskum upplýsingum um beitingu herafla Rússlands.“
„Ég vil lýsa yfir gífurlegu þakklæti til Amnesty International. Það er erfitt að koma orðum að þakklæti mínu því að stórum hluta er það ykkur að þakka að ég sé hér.“
Baráttukona fyrir mannréttindum sýknuð
Rita Karasartova er baráttukona fyrir mannréttindum og sérfræðingur í borgaralegum stjórnarháttum frá Kirgistan. Rita var handtekin ásamt 26 öðrum einstaklingum fyrir andstöðu við samkomulag sem Kirgistan gerði um ný landamæri sem veitir Úsbekistan stjórn yfir ferskvatnssvæðum. Rita var ákærð fyrir tilraun til að „hrekja stjórnvöld frá völdum með ofbeldi“. Hún átti yfir höfði sér 15 ára fangelsisdóm.
Rita var loks sýknuð ásamt 21 einstaklingi úr aðgerðahópnum í júní 2024, nokkrum mánuðum eftir að mál hennar var í herferðinni Þitt nafn bjargar lífi 2023.
„Ég vil lýsa innilegu, innilegu þakklæti. Ykkar skjótu aðgerðir, öll bréfin, áköllin, undirskriftirnar og sá gríðarlegi fjöldi bréfa sem fóru til dómstólsins og á skrifstofu saksóknara, allt þetta var mjög áhrifaríkt.“
Nemandi fær vegabréfsáritun
Í ágúst 2017 hóf herinn í Mjanmar að fremja þjóðernishreinsanir á Róhingjum sem höfðu lengi sætt mismunun í landinu. Af ótta um líf sitt flúði Maung Sawyeddollah, sem var þá aðeins 15 ára gamall, með fjölskyldu sinni til Bangladess í Cox´s Bazar flóttamannabúðirnar.
Sawyeddollah vill ná fram réttlæti. Samhliða námi sínu hefur hann barist fyrir því að fyrirtækið Meta, sem á Facebook, taki ábyrgð á hlut sínum sem leiddi til grimmdarverka gegn Róhingjum. Hatursorðræða þar sem hvatt var með beinum hætti til ofbeldis og mismununar gegn Róhingjum fékk víðtæka dreifingu á Facebook sem kynti undir ofbeldi hersins í Mjanmar.
Hluti af baráttu hans var að kalla eftir því að Meta greiði skaðabætur, meðal annars til að styrkja nám í Cox’s Bazar flóttamannabúðunum
Árið 2023 var öryggi Sawyeddollah ógnað í flóttamannabúðunum. Amnesty International, í samstarfi við tvö önnur samtök, vann að því að koma honum í öruggt skjól. Neyðarsjóður Amnesty International aðstoðaði hann fjárhagslega á meðan öryggi hans var í hættu og studdi hann í umsóknarferli fyrir háskóla.
.
Í ágúst 2024 fékk Sawyeddollah námsmannaáritun til Bandaríkjanna og stundar hann nú nám við háskólann í New York. Hann er fyrsti Róhinginn úr flóttamannabúðunum í Bangladess til að fá námsmannaáritun.
„Ég sendi innilegar þakkir til foreldra minn, fjölskyldu, vina, ættingja og velunnara minna sem hafa hvatt mig til að láta ekki deigan síga. Ég er sérstaklega þakklátur fyrir stuðning fjölmargra einstaklinga og samtaka, þeirra á meðal Amnesty International. Án stuðnings þeirra hefði baráttan verið ómöguleg.“
Níu mál úr öllum heimshlutum
Í krafti fjöldans náum við árangri eins og ofangreindar sögur sanna. Taktu þátt núna og skrifaðu undir öll málin níu og dreifðu þeim á samfélagsmiðlum.
Með þinni hjálp vonumst við til þess að bjarga lífi enn fleiri einstaklinga.
Málin í ár koma frá níu löndum úr öllum heimshlutum.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu