Góðar fréttir

1. apríl 2022

Þitt nafn bjargar lífi: Magai laus úr haldi í Suður-Súdan

Þitt nafn bjargaði lífi Magai árið 2020 þegar dauða­dómur var felldur úr gildi. Nú er hann laus úr haldi. Magai Matiop Ngong var leystur úr haldi í Suður-Súdan þann 22. mars 2022. Mál hans var eitt af málum okkar í árlegri herferð, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2019. Hann var aðeins 15 ára þegar hann var dæmdur til dauða. Í kjölfar herferðar okkar var dauða­dómur yfir honum felldur úr gildi í júlí 2020 á þeim forsendum að hann var barn að aldri þegar dómur var kveðinn upp. Það stríðir gegn alþjóð­legum mann­rétt­inda­lögum og lögum Suður-Súdan að dæma einstak­ling til dauða sem er barn að aldri þegar glæp­urinn er framinn.   

Magai sat tvö ár og átta mánuði á dauða­deild. Hann var dæmdur til dauða fyrir morð en hann hefur ávallt haldið því fram að um slys hafi verið að ræða. Í rétt­ar­höld­unum hafði Magai engan lögfræðing sér til varnar. Fjöl­skylda fórn­ar­lambsins áfrýjaði ógild­ingu dauða­dómsins en áfrýj­un­ar­dóm­stóll stað­festi fyrri niður­stöðu og fór fram á ný rétt­ar­höld.

Í kjölfar nýrra rétt­ar­halda var Magai dæmdur í fimm ára fang­elsi og hlaut að auki sekt. Hann hefur nú setið af sér dóminn þar sem hann var hand­tekinn árið 2017. Mál Magai er þó ekki eins­dæmi í Suður-Súdan. Vitað er um fjóra einstak­linga á árunum 2017-2019 sem voru teknir af lífi fyrir glæp sem var framinn þegar viðkom­andi var undir 18 ára aldri. Amnesty Internati­onal er á móti dauðarefs­ing­unni í öllum tilvikum. 

Um heim allan gripu 765.000 einstak­lingar til aðgerða til stuðn­ings Magai í herferð­inni Þitt nafn bjargar lífi. Á Íslandi söfn­uðust hvorki meira né minna en 8.630 undir­skriftir honum til stuðn­ings.  

Enn og aftur hefur samtaka­mátt­urinn áhrif. Við þökkum öllum sem tóku þátt stuðn­inginn. 

Lestu einnig