Fréttir
24. febrúar 2023Alþjóðasamfélagið verður að þróa áætlun um það hvernig hægt sé að ná fram réttlæti fyrir þolendur innrásar Rússlands í Úkraínu, segir Amnesty International nú þegar eitt ár er liðið frá innrásinni. Á þessum degi fyrir ári síðan, þann 24. febrúar, réðst rússneski herinn með fullum þunga inn í Úkraínu, aðgerð sem Amnesty International skilgreinir sem glæp gegn friði og mannréttindakrísu.
Rússneskar hersveitir hafa síðan þá framið stríðsglæpi og önnur brot á mannúðarlögum, þar á meðal aftökur án dóms og laga, banvænar árásir á borgaraleg svæði sem hafa ekki hernaðarleg gildi, þvingaðir flutningar og morð á óbreyttum borgurum.
Ekki er hægt að vita hversu margir alþjóðaglæpir hafa verið framdir í Úkraínu frá innrás Rússlands en kröfur þolenda mannréttindabrota um réttlæti verða að hafa forgang. Alþjóðasamfélaginu ber skylda til að tryggja að þeir aðilar sem hafa framið alþjóðaglæpi verði dregnir til ábyrgðar svo réttlæti sigri refsileysi.
Stríðsglæpir
„Nú þegar rússneskar hersveitir virðast sækja harðar fram í Úkraínu er áríðandi að gerendur mannréttindabrota og stríðsglæpa verði dregnir til ábyrgðar.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Frá upphafi stríðsátakanna hefur Amnesty International skráð stríðsglæpi, þar á meðal eru árásir sem hafa ekki hernaðarleg gildi og setja óbreytta borgara í hættu og hindra mannúðaraðstoð.
Óbreyttir borgarar á átakasvæðum hafa þurft að þola stöðugar árásir og oft er lokað fyrir vatn, rafmagn og hita.
Margt fólk sem þarf nauðsynlega á mannúðaraðstoð og læknishjálp að halda og er staðsett á svæðum sem eru hernumin af Rússlandi fær ekki að ferðast til svæða sem eru undir stjórn Úkraínu.
„Fólkið í Úkraínu hefur þurft að ganga í gegnum óhugsandi hrylling í stríðsátökum síðustu 12 mánuðina. Það er kristalskýrt að hendur Vladimir Putin og hersveita hans eru blóði drifnar. Eftirlifendur eiga skilið réttlæti og stríðsbætur fyrir þjáningar sínar. Alþjóðasamfélagið verður að standa fast á sínu til að sjá til þess að réttlæti nái fram að ganga. Nú ári síðar er ljóst að frekari aðgerða er þörf.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Réttur þolenda
Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar á alþjóðaglæpum sem framdir hafa verið í Úkraínu. Til að ná fram réttlæti verður að draga gerendur fyrir dóm og veita þolendum stríðsbætur. Það er aðeins hægt ef alþjóðasamfélagið veitir kröftugan og stöðugan stuðning í þau kerfi sem tryggja að réttlæti nái fram að ganga.
Huga þarf að nýjum leiðum til að ná fram réttlæti. Ákvörðun mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna um að setja á stofn sjálfstæða rannsóknarnefnd í mars 2022 er gott dæmi um það.
„Auk þess að tryggja að réttmætt kerfi sé til staðar, verðum við að tryggja að gerendur alþjóðaglæpa verði dregnir fyrir dóm og horfist í augu við afleiðingar svívirðilegra aðgerða sinna. Meðal annars þarf að rannsaka þátt háttsettra yfirmanna í hernum og borgaralegra leiðtoga í stríðsglæpum og glæpum gegn friði samkvæmt alþjóðalögum.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Mikilvægt er að alþjóðlegum mannréttindalögum og stöðlum um sanngjörn réttarhöld sé framfylgt þar sem þolendur fá að taka þátt og tekið sé fullt tillit til þarfa þeirra óháð því hvar réttarhöldin fara fram.
Skuldbinding og samvinna er eina leiðin fram á við
„Amnesty International ásamt öðrum borgarlegum samtökum hefur ítrekað kallað eftir sameiginlegum viðbrögðum, að fólk komi saman í þágu málstaðarins. Þetta gæti ekki átt betur við en hér. Hver einasta stofnun og yfirvald sem starfa í þágu alþjóðlegs réttlætis verða vinna saman til að deila þekkingu og samræma aðgerðir en líka til að finna hvar skortir sérfræðiþekkingu og getu. Nú er ekki tími til að starfa í sitt hvoru horninu.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Alþjóðasamfélagið verður að styðja við sanngjarnar, skilvirkar og óháðar rannsóknir og ríki þurfa að hvetja Úkraínu til að fullgilda Rómarsamþykktina og þar með samræma landslögin við alþjóðlega lagalega staðla og til að styrkja samstarf við Alþjóðlega sakamáladómstólinn. Að lokum þurfa lönd með alþjóðlega lögsögu að kanna leiðir hvernig sé hægt að ná fram réttlæti fyrir fólkið í Úkraínu.
Þörf á mannúðaraðstoð
Alþjóðasamfélagið verður að greina þarfir fólks sem er í sérstaklega viðkvæmri stöðu eins og konur, eldra fólk, fólk með fatlanir og börn þegar þau veita aðstoð. Einnig verður það að átta sig á því að margir einstaklingar frá Úkraínu, þar á meðal börn, hafa verið neyddir til að flytjast til Rússlands eða á svæði sem eru hernumin af Rússlandi og geta ekki snúið aftur heim til sín með öruggum hætti. Þessa einstaklinga verður að setja í forgang þegar kemur að mannúðaraðstoð og sjá til þess að komið sé á móts við þarfir þeirra.
Tryggja skal samstarf við úkraínsk borgarlega samtök til að setja þolendur í forgang til að aðstoðin nýtist sem best. Alþjóðasamfélagið verður að tryggja gagnsæi, skilvirkni og taka tillit til þarfa þolenda í öllu samstarfi sem snýr að mannúðaraðstoð, uppbyggingu, réttlæti og stríðsbótum.
„Það er áríðandi að viðurkenna þann gífurlega líkamlega, sálræna og efnahagslega skaða sem fólkið í Úkraínu hefur þurft að þola á árinu til að tryggja réttlæti og stríðsbætur fyrir eftirlifendur og þolendur innrásar Rússlands í Úkraínu.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Rannsóknir Amnesty International
Amnesty International hefur skráð stríðsglæpi og önnur brot á mannúðarlögum frá árinu 2014 þegar Rússland réðst fyrst inn í héruð í Úkraínu og frá upphafi innrásar Rússlands árið 2022.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu