Yfirlýsing

2. febrúar 2024

Yfir­lýsing félaga­sam­taka um móttöku fólks frá Gaza

Undir­rituð félaga­samtök fagna því að um 100 einstak­lingum á Gaza hafi verið veitt dval­ar­leyfi á Íslandi á grund­velli laga um útlend­inga og samein­ingu fjöl­skyldna. Vegna þeirra fordæma­lausu aðstæðna sem nú ríkja á Gaza, hvetja samtökin íslensk stjórn­völd til þess að leggja allt kapp á að tryggja tafar­lausa brottför þessa hóps frá Gaza til Íslands. Hópurinn saman­stendur aðal­lega af konum og börnum í sérstak­lega viðkvæmri stöðu. Þá hvetja undir­rituð félaga­samtök stjórn­völd til þess að taka til efnis­með­ferðar allar þær umsóknir palestínsks fólks sem nú liggja fyrir.

Alþjóðleg hjálpar- og mann­úð­ar­samtök hafa lýst ástandinu á Gaza sem fordæma­lausu og fer staða fólks á svæðinu versn­andi dag frá degi. Samkvæmt upplýs­ingum frá OCHA (Samhæf­ing­ar­skrif­stofa aðgerða Sameinuðu þjóð­anna í mann­úð­ar­málum) hafa minnst 26.637 einstak­lingar verið drepnir á Gaza og 65.387 manns særst frá upphafi átak­anna þann 7. október. Meiri­hluti þeirra er konur og börn.

Ástandið á Gaza

Af þeim 36 sjúkra­húsum sem starf­andi voru á Gaza fyrir 7. október eru nú aðeins 14 talin að hluta til starfhæf. Um 1,7 millj­ónir einstak­linga hafa neyðst til að yfir­gefa heimili sín sökum átak­anna, það er um 75% íbúa Gaza. Samtökin Læknar án landa­mæra full­yrða að á Gaza sé nú engan öruggan stað að finna og Barna­hjálp Sameinuðu þjóð­anna (UNICEF) telur Gaza hættu­leg­asta stað í heimi til að vera barn.

Sameinuðu þjóð­irnar hafa varað við að fæðuóör­yggi á Gaza sé komið yfir í 5. fasa (e. catastrophic thres­hold) og segja líkur á hung­urs­neyð aukast dag frá degi. Samkvæmt upplýs­ingum frá Barna­hjálp­inni eru öll börn á Gaza undir fimm ára aldri vannærð, en hægt er að koma í veg fyrir dauða þeirra fái hjálp­ar­gögn að berast óhindrað inn á svæðið.

Staðan er grafal­varleg og þó að alþjóða­sam­fé­lagið og mann­úð­ar­samtök hafi ítrekað kallað eftir tafar­lausu vopna­hléi og því að neyð­ar­gögn á borð við mat, vatn og lyf fái að berast óhindrað til Gaza, hafa ísra­elsk stjórn­völd enn ekki orðið við þeim kröfum. Á meðan halda árás­irnar áfram og staða fólks á Gaza versnar.

Íslensk stjórn­völd brugðust hratt og örugg­lega við ákalli Sameinuðu þjóð­anna í október um aukin framlög til neyð­ar­að­stoðar á Gaza með 70 milljóna króna fram­lagi til UNRWA (Palestínuflótta­manna­að­stoðar Sameinuðu þjóð­anna).

Félaga­sam­tökin telja ekki forsvar­an­legt að frysta fjár­magn til stofn­un­ar­innar að svo stöddu og minna á mikil­vægi lífs­bjarg­andi mann­úð­ar­að­stoðar til almennra borgara sem enga aðild eiga að átök­unum.

Sem fyrr segir hafa stjórn­völd þegar samþykkt að veita 100 einstak­lingum skjól á Íslandi, á grund­velli fjöl­skyldusam­ein­ingar. Stór hluti þeirra fengu umsókn sína samþykkta eftir að átökin hófust. Ísland hefur um langt skeið sýnt palestínsku þjóð­inni samstöðu. Því ætti að fylgja eftir með áfram­hald­andi stuðn­ingi við fólk sem býr við fordæma­laust ástand, rétt eins og íslensk stjórn­völd gerðu fyrir íbúa Afgan­istan þar sem vel var að verki staðið.

Hvatning til íslenskra stjórnvalda

Við biðlum nú til íslenskra stjórn­valda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja greiða leið þessa hóps frá Gaza til fjöl­skyldna sinna á Íslandi.

Hver dagur sem líður á Gaza ógnar lífi þessara einstak­linga og því brýnt að hafa hraðar hendur. Það að Íslandi beri ekki lagaleg skylda til að aðstoða þennan hóp leysir Ísland ekki undan siðferði­legri skyldu til að aðstoða fólk í svo bráðri hættu. Hollensk yfir­völd hafa aðstoðað fjölda einstak­linga við að yfir­gefa Gaza á grund­velli fjöl­skyldusam­ein­ingar[1] og Kanada er að vinna að því sama fyrir allt að eitt þúsund einstak­linga.[2]

Ísland er lítið land með fáar sendiskrif­stofur á erlendum vett­vangi, en er ekki of lítið til að hafa áhrif. Vald­hafar hafa fyrir hönd lands­manna, gert Ísland að málsvara mann­rétt­inda og jafn­réttis á alþjóða­vett­vangi. Samkvæmt stefnu um alþjóð­lega þróun­ar­sam­vinnu undir­strika íslensk stjórn­völd virð­ingu fyrir lýðræði, mann­rétt­indum, fjöl­breyti­leika, umburð­ar­lyndi, rétt­læti og samstöðu. Í sömu stefnu miðar Ísland einnig að því „að bjarga manns­lífum og standa vörð um mann­lega reisn.“

Nú er einstakt tæki­færi fyrir íslensk stjórn­völd að sýna í verki að alvara liggur að baki þessum orðum.

Sú staða sem upp er komin á Gaza er fordæma­laus og krefst fordæma­lausra aðgerða.

Undir­rituð hvetja íslensk stjórn­völd til að bjarga einstak­lingum úr bráðum háska sem sann­ar­lega hafa fengið viður­kenndan rétt sinn, frá íslenskum stjórn­völdum, til að sameinast fjöl­skyldum sínum á Íslandi.

Með von um skjót viðbrögð.

  • Íslands­deild Amnesty Internati­onal
  • Barna­heill
  • Biskup Íslands
  • Félag Sameinuðu þjóð­anna á Íslandi
  • FTA
  • Geðhjálp
  • GETA-hjálp­ar­samtök
  • Hjálp­ar­starf kirkj­unnar
  • Hjálp­ræð­is­herinn á Íslandi
  • Kven­rétt­inda­félag Íslands
  • Mann­rétt­inda­skrif­stofa Íslands
  • Prestar innflytj­enda
  • Rauði krossinn á Íslandi
  • Réttur barna á flótta
  • Samtökin 78
  • Samtök um kvenna­at­hvarf
  • Siðmennt
  • Solaris hjálp­ar­samtök
  • Stígamót
  • UNICEF á Íslandi
  • UN Women á Íslandi
  • W.O.M.E.N Samtök kvenna af erlendum uppruna
  • Þroska­hjálp
  • ÖBÍ

Lestu einnig