Yfirlýsing
17. maí 2024Íslandsdeild Amnesty International fordæmir brottvísanir íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sem eru mansalsþolendur. Deildin harmar þá ómannúðlegu og vanvirðandi meðferð stjórnvalda á þeim viðkvæma og sérstaka hópi umsækjenda sem sviptur var frelsi sínu og þvingaður var úr landi aðfaranótt 14. maí sl. Íslandsdeildin hefur ítrekað gagnrýnt brottvísanir viðkvæmra hópa og harðneskjulega stefnu íslenskra stjórnvalda í málum einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi.
Kyndbundnar ofsóknir
Í skýrslu Evrópuráðsins um kynbundnar umsóknir um alþjóðlega vernd kemur fram að ofsóknir á hendur konum og stúlkum séu oft annars eðlis en ofsóknir sem karlmenn verða fyrir. Konur og stúlkur eigi frekar á hættu að verða fyrir kynbundnum ofsóknum og ofbeldi sem getur t.d. falið í sér kynferðisofbeldi, þvinguð hjónabönd og mansal. Þing Evrópuráðsins kallar eftir því að kynbundið ofbeldi og kynbundnar ofsóknir séu metnar á viðeigandi hátt við meðferð hælisumsókna í aðildarríkjum þess.
Í skýrslunni kemur fram að ekki sé hugtaksskilyrði að kynbundnar ofsóknir stafi frá aðilum tengdum ríkinu og að þær geti allt eins stafað frá einstaklingum ótengdum ríkinu. Kynbundnar ofsóknir séu hins vegar á ábyrgð ríkisins í þeim tilfellum sem það lætur hjá líða að grípa til aðgerða til verndar slíkum ofsóknum. Jafnframt skal horft til leiðbeiningarreglna flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um mansalsfórnarlömb. Þar er það rakið að mansalsfórnarlömb geti fallið undir flóttamannahugtakið, þá grein flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem samsvarar 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga.
Mansal er alvarlegt brot á grundvallarmannréttindum og telst alla jafna til ofsókna.
Íslenskum stjórnvöldum er ekki heimilt, samkvæmt lögum um útlendinga, að senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir eða er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Sú er staðan ef sinnuleysi stjórnvalda viðtökuríkis hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn.
Þrátt fyrir að viðtökuríki lýsi yfir áætlunum um aðgerðir gegn mansali eiga mansalsþolendur ríkari hættu en aðrir á að verða aftur fyrir barðinu á þeim er stunda mansal og nauðungarvinnu séu þeir sendir aftur í sömu aðstæður.
Alþjóðlegir samningar
Í ljósi brottvísunar einstaklinga sem eru mansalsþolendur bendir Íslandsdeild Amnesty International á þá alþjóðlegu mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að og hefur fullgilt, m.a. Istanbúlsamninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, Evrópuráðssamninginn um aðgerðir gegn mansali, Kvennasamning Sameinuðu þjóðanna og Mannréttindasáttmála Evrópu.
Þá er Ísland einnig aðili að Palermósamningnum auk bókana við hann, þar á meðal bókunar til að koma í veg fyrir, berjast gegn og refsa fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Samkvæmt Istanbúlsamningnum skulu aðildarríki gera nauðsynlegar ráðstafanir, með lagasetningu eða öðrum hætti, til að virða þá meginreglu í samræmi við skyldur þjóðaréttar að vísa hælisleitanda ekki aftur þangað sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu.
Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur sem verða fyrir ofbeldi og þarfnast verndar skuli, óháð stöðu þeirra eða búsetu, ekki undir neinum kringumstæðum vera sendar úr landi til nokkurs lands þar sem líf þeirra kann að vera í hættu eða þar sem þær gætu átt á hættu að sæta pyntingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
Meðal markmiða samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali eru að koma í veg fyrir mansal og berjast gegn því og tryggja jafnframt jafnrétti kynjanna, að standa vörð um mannréttindi fórnarlamba, og koma á heildstæðu fyrirkomulagi til verndar og aðstoðar fórnarlömbum og vitnum. Aðildarríki samningsins skulu styðja við fórnarlömb mansals með því að bjóða þeim líkamlega, sálræna og félagslega aðstoð. Aðstoðin skal fela í sér öruggt húsnæði, sálræna og efnislega aðstoð, aðgang að nauðsynlegri læknisaðstoð, túlkaþjónustu og að réttinda fórnarlamba sé gætt á öllum stigum málsmeðferðar hjá lögreglu og í réttarkerfinu.
ákall til íslenskra stjórnvalda
Deildin áréttar jafnframt mikilvægi þess að tekið sé sérstakt tillit til stöðu og þarfa kvenna og stúlkna við mat á umsóknum um alþjóðlega vernd á Íslandi. Kyn og kyngervi skiptir miklu máli þegar fjallað er um málefni flóttafólks. Það er staðreynd að staða kvenna í neyð og á flótta er sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölþættri mismunun, svo sem kynbundinni mismunun og kynferðislegu ofbeldi.
Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður mansalsþolenda og einstaklingsbundinna aðstæðna umsækjenda hvetur Íslandsdeild Amnesty International íslensk stjórnvöld til að endurskoða harðneskjulega stefnu sína varðandi brottvísanir þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. mansalsfórnarlömb.
Íslandsdeild Amnesty International kallar eftir því að íslensk stjórnvöld uppfylli alþjóðlegar skuldbindingar sínar, skuldbindingar sem stjórnvöld gengust sjálfviljug undir með fullgildingu framangreindra alþjóðlegra samninga, og bendir á að stjórnvöldum er skylt að taka ákvarðanir í málum einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu