Yfirlýsing

18. desember 2023

Yfir­lýsing vegna fyrir­hug­aðra brott­vísana til Grikk­lands

Í kjölfar umræðu í samfé­laginu um brott­vís­anir barna til Grikk­lands vill Íslands­deild Amnesty Internati­onal koma eftir­far­andi yfir­lýs­ingu á fram­færi. Nú eru 75 ár síðan Mann­rétt­inda­yf­ir­lýsing Sameinuðu þjóð­anna var samþykkt. Í fjór­tándu grein hennar segir: „Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.“ Réttur flótta­manna er tryggður í alþjóða­samn­ingum og er þeirra mikil­væg­astur flótta­manna­samn­ingur Sameinuðu þjóð­anna frá árinu 1951. Þá ber að nefna að íslensk stjórn­völd full­giltu Barna­sátt­málann árið 1992 og lögfestu árið 2013.

Áhyggjuefni

Það er mikið áhyggju­efni að íslensk yfir­völd taka ítrekað umsóknir um alþjóð­lega vernd ekki til efnis­legrar meðferðar og senda þess í stað umsækj­endur til Grikk­lands. Aðbún­aður flótta­fólks í Grikklandi hefur m.a. verið gagn­rýndur af Flótta­manna­stofnun Sameinuðu þjóð­anna, Amnesty Internati­onal og Mann­rétt­inda­vakt­inni (e. Human Rigths Watch).

Fjöl­margar heim­ildir, svo sem skýrslur Evrópu­ráðsins, og mann­rétt­inda- og frjálsra félaga­sam­taka gefa til kynna að raun­veru­legri stöðu flótta­fólks í Grikklandi sé veru­lega ábóta­vant. Í úrskurði kæru­nefndar útlend­inga­mála nr. 513/2021 kemur bein­línis fram að það sé mat hennar að það sé ljóst af fyrir­liggj­andi gögnum að þeir einstak­lingar sem hlotið hafi alþjóð­lega vernd í Grikklandi lifi oft á jaðri samfé­lagsins og búi í sumum tilvikum við félags­lega einangrun.

Þá er brýnt að benda á að mikil­vægt er að taka sérstak­lega tillit til stöðu og þarfa barna við mat á umsóknum um alþjóð­lega vernd. Það er stað­reynd að staða barna í neyð og á flótta er sérstak­lega viðkvæm. Í 3. gr. Barna­sátt­mála Sameinuðu þjóð­anna segir enn fremur að þegar félags­mála­stofn­anir á vegum hins opin­bera eða einka­aðila, dómstólar, stjórn­völd eða löggjaf­ar­stofn­anir gera ráðstaf­anir sem varða börn skal það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa forgang.

Stjórn­völd eiga að tryggja að hags­munir barna séu ávallt hafðir að leið­ar­ljósi og staðir sem ætlaðir eru börnum uppfylli einnig þær skyldur. Mikil­vægt er að hagmuna­matið byggist á því hvað börnum er raun­veru­lega fyrir bestu. Þrátt fyrir að barn hafi hlotið vernd í öðru landi er ekki þar með sagt að sú vernd sé betri eða jafn góð þeirri sem því væri veitt hér á landi.

 

 

Hvatning Íslandsdeildar

Jafn­framt ber yfir­völdum að taka umsókn um alþjóð­lega vernd til efnis­með­ferðar ef viðkom­andi hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Með sérstökum ástæðum er átt við einstak­lings­bundnar ástæður er varða umsækj­anda sjálfan.

Skal líta til þess hvort umsækj­andi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtöku­ríki vegna alvar­legrar mismun­unar, svo sem ef ríkið útilokar viðkom­andi frá menntun, nauð­syn­legri heil­brigð­is­þjón­ustu, nauð­syn­legri þjón­ustu vegna fötl­unar, eða atvinnu­þátt­töku á grund­velli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækj­andi getur vænst þess að staða hans, í ljósi fram­an­greindra ástæðna, verði veru­lega síðri en staða almenn­ings í viðtöku­ríki.

Ekki má flytja barn sem sótt hefur um alþjóð­lega vernd til viðtöku­ríkis ef veiga­mikil rök standa til þess að raun­veruleg hætta sé á að það sæti þar eða við flutn­inginn ómann­úð­legri eða vanvirð­andi meðferð.

 

Sú er staðan ef sinnu­leysi stjórn­valda viðtöku­ríkis hefur þær afleið­ingar að einstak­lingur sem að öllu leyti er háður stuðn­ingi ríkisins, t.d. vegna sérstak­lega viðkvæmrar stöðu sökum aldurs, verður í slíkri stöðu sára­fá­tæktar að hann geti ekki mætt grund­vall­ar­þörfum sínum, og sem grefur undan líkam­legri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósam­rýmanleg mann­legri reisn.

Með vísan til fram­an­greindra viðmiða, umfjöll­unar um aðstæður einstak­linga sem njóta alþjóð­legrar verndar í viðtöku­ríki og einstak­lings­bund­inna aðstæðna hvetur Íslands­deild Amnesty Internati­onal íslensk yfir­völd til að endur­skoða stranga stefnu sína um að taka ekki til efnis­legrar meðferðar mál einstak­linga í sérstak­lega viðkvæmri stöðu, og þá sérstak­lega barna, sem sótt hafa um alþjóð­lega vernd á Íslandi ef þeim hefur verið veitt hún í Grikklandi.

Lestu einnig