Bandaríkin

Bandaríkin: Fordæmið aðgerðir Ísraels

Banda­ríkin verða að þrýsta á Ísrael að takast á við rót vandans og binda enda á mann­rétt­inda­brot og órétt­læti. Það er tími til kominn að þrýst sé á Ísrael að takast á við rót vandans á svæðinu, nú þegar heim­urinn horfir á stig­vax­andi átök milli Ísraels og hernumdu svæða Palestínu.

Þessi stig­vax­andi átök minna á fyrri árásir árið 2008, 2012 og 2014. Árás­irnar bitna verst á óbreyttum borg­urum, þar sem fjöldi fólks hefur látið lífið og gífur­legar eyði­legg­ingar hafa orðið á Gaza-svæðinu. Ísrael hefur lengi brotið á mann­rétt­indum þar sem óbreyttir borg­arar hafa verið myrtir, þúsundir særðir og tugi þúsunda hafa sætt nauð­ung­ar­flutn­ingum auk eyði­legg­ingar á innviðum, heim­ilum og atvinnu­rekstri. Þessi brot teljast til stríðs­glæpa og glæpa gegn mann­kyni. Palestínskir vopn­aðir hópar hafa einnig brotið gegn alþjóða­lögum og þar á meðal framið stríðs­glæpi.

Rót vandans á þessum mann­rétt­inda­brotum sem eiga sér stað núna er kerf­is­bundin mismunun, eign­ar­svipting og nauð­ung­ar­flutn­ingar sem Palestínu­búar hafa þurft að þola af hálfu Ísraels.

Ísra­elsk stjórn­völd hafa haldið tveimur millj­ónum Palestínubúa á Gaza-svæðinu í ólög­legri herkví síðast­liðin 14 ár, þar sem flæði fólks og varn­ings til og frá svæðinu er veru­lega hamlað. Fólkið þar býr í raun eins og í risa­stóru fang­elsi. Ísra­elsk stjórn­völd hafa­völdin og laga­lega skyldu til að afnema herkvína og leyfa íbúum Gaza að njóta rétt­inda sinna. Ísrael þarf að vernda óbreytta borgara og binda enda á þvingaða brott­flutn­inga, eyði­legg­ingu heimila og ólög­lega land­töku.

Á þessari stundu eru Palestínu­búar, þar á meðal í Sheikh Jarrah- hverfinu í Austur-Jerúsalem, að biðla til heims­byggð­ar­innar um að þrýsta á Ísrael að stöðva þvingaða brott­flutn­inga í hverfinu sínu og nauð­ung­ar­flutn­inga Palestínubúa.

Banda­ríkj­unum, helsta banda­lags­aðila Ísraels, ber skylda til að þrýsta á Ísrael að takast á við kerf­is­bundin mann­rétt­inda­brot gegn Palestínu­búum.

Krefstu þess að Banda­ríkin fordæmi opin­ber­lega stríðs­glæpi og önnur gróf mann­rétt­inda­brot á svæðinu, eins og stækkun land­töku­svæða Ísraels á hernumdu svæðum Palestínu, herkví á Gaza-svæðinu og þvingaða brott­flutn­inga Palestínubúa, eins og í Sheikh Jarrah.

Lestu nánar um ástandið hér

Tengt efni

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Nígería

Nígería: Fellið úr gildi Twitter-bann

Stjórnvöld í Nígeríu bönnuðu Twitter þann 4. júní í landinu og skipuðu netþjónustufyrirtækjum að loka fyrir Twitter. Fjölmiðlar þurftu einnig að loka Twitter-reikningum sínum. Þessar aðgerðir brjóta á tjáningarfrelsinu, fjölmiðlafrelsi og skerða aðgengi að upplýsingum. Friðsamir mótmælendur hafa mætt ofbeldisfullum aðgerðum af hálfu nígerískra yfirvalda og nú á einnig að þagga niður í röddum þeirra á netinu.

Hong Kong

Hong Kong: 64 einstaklingar ákærðir á grundvelli óljósra þjóðaröryggislaga

Þjóðaröryggislög tóku gildi þann 30. júní 2020 í Hong Kong. Skilgreiningin á „þjóðaröryggi“ er óljós í lögunum og þeim hefur verið beitt að geðþótta til að skerða tjáningar-og fundafrelsið og bæla niður alla stjórnarandstöðu. Nú þegar hafa 118 einstaklingar verið handteknir á grundvelli laganna, þar af þrír undir 18 ára aldri og 64 hafa verið ákærðir. Sumir standa frammi fyrir lífstíðarfangelsi.

Alsír

Alsír: Verjum réttinn til að mótmæla

Alsírsk stjórnvöld nýta sér kórónuveirufaraldurinn til að herja á aðgerðasinna, fangelsa stjórnarandstæðinga og þagga niður í fjölmiðlum. Það verður að leysa úr haldi alla einstaklinga sem er haldið fyrir það eitt að nýta sér rétt til tjáningar og friðsamlegra mótmæla. Það verður einnig að fella niður ákærur á hendur þeim. Skrifaðu undir ákall Amnesty International til verndar tjáningarfrelsinu í Alsír og krefstu þess að alsírsk stjórnvöld stöðvi varðhöld að geðþótta á Hirak-mómælendum og leysi friðsamlega mótmælendur tafarlaust úr haldi án skilyrða.