Eþíópía

Eþíópía: Réttlæti krafist fyrir þolendur kynferðisbrota í Tigray

Ýmsar hersveitir sem styðja eþíópísk stjórn­völd hafa með skipu­lögðum hætti nauðgað konum og stúlkum frá Tigray-héraði og valdið þeim og aðstand­endum þeirra varan­legum líkam­legum og sálrænum skaða.

Viðvörun: Hér fyrir neðan birtast grófar lýsingar á kynferð­is­legu ofbeldi.

Este­genet er sextán ára stúlka. Í borg­inni Adebai héldu eþíópískir hermenn henni fang­inni eftir að hafa numið hana á brott þegar hún var á flótta með móður sinni og systkinum. Hún var færð í hús þar sem yfir­maður í eþíópísku varn­ar­sveit­inni nauðgaði henni á meðan þrír menn biðu fyrir utan. Þegar yfir­mað­urinn hafði lokið sér af hleypti hann hinum þremur inn til hennar sem einnig nauðguðu henni. Este­genetvar haldið í húsinu í þrjá daga og nauðgað ítrekað. Að þriðja degi loknum var henni sleppt í skjóli nætur.

Letay, sem er tvítug, varð fyrir árás á heimili sínu. Vopn­aðir menn, sem töluðu amharísku og klæddust ýmist einkenn­is­bún­ingum eða borg­ara­legum klæðnaði, þóttust ætla að leita að vopnum í húsinu og ráku foreldra hennar og systkini út á meðan Letay svaf í herbergi sínu.

Þrír mann­anna komu inn í herbergi til hennar. Hún vaknaði við lætin en hrópaði ekki. Þeir gáfu henni merki um að ef hún gæfi frá sér hljóð yrði hún drepin. Svo nauðguðu þeir henni hver á eftir öðrum.

„ Ég var komin fjóra mánuði á leið. Ég veit ekki hvort þeir áttuðu sig á því að ég væri ólétt. Ég veit ekki hvort þeir áttuðu sig á því að ég væri mann­eskja.“

Letay

Eyeru­salem er þrjátíu og níu ára gömul móðir tveggja barna. Erít­reskir hermenn námu hana og börn hennar á brott ásamt tveimur öðrum konum. Þau voru á flótta vegna átaka í heimabæ sínum. Hermenn­irnir héldu henni fang­inni í sólar­hring og brenndu hana með heitu járni. Þeir komu einnig málm­hlutum fyrir í legi Eyeru­salem og fimm þeirra nauðguðu henni að börnum hennar ásjá­andi. Forstjóri sjúkra­hússins þar sem Eyeru­salem var meðhöndluð sagði að þurft hafi að fjar­lægja fjóra nagla úr líkama hennar með skurð­að­gerð tveimur mánuðum eftir árásina þar sem þeir skertu hreyfigetu hennar. Auk þess mátti finna brunasár á efra læri hennar.

Frásagnir um kynferð­isof­beldi gegn konum og stúlkum í Tigray eru mjög svip­aðar og eru til vitnis um að kynferð­isof­beldi sé beitt vísvit­andi til að valda þolendum langvar­andi sálrænum og líkam­legum skaða. Hermenn og uppreisn­ar­her­menn hafa nauðgað og hópnauðgað konum og stúlkum frá Tigray, hneppt þær í kynlífs­þrældóm, misþyrmt kynfærum þeirra og pyndað. Þessu ofbeldi fylgja oft dauða­hót­anir og níð vegna uppruna kvenn­anna og stúlkn­anna.

Lestu meira um skýrsluna hér.

Það er tími til kominn að kynferð­isof­beldi sé stöðvað í átök­unum í Tigray! Krefstu rétt­lætis fyrir konur og stúlkur sem hafa orðið fyrir kynferð­isof­beldi af hálfu hersveita sem tengjast eþíópískum stjórn­völdum og kallaðu eftir:

  • Að sjálf­stæð, óháð og skil­virk rann­sókn verði gerð á öllum ásök­unum um kynferð­is­legt ofbeldi.
  • Að gerendur verði dregnir fyrir dómstóla í samræmi við alþjóðalög.
  • Að þolendum verði tryggðar skaða­bætur.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Paragvæ

Paragvæ: Krefstu kynfræðslu í skólum

Paragvæ er með hæsta hlutfall þungana unglingstúlkna í Suður-Ameríku. Árlega eru skrásettar um 20.000 þunganir stúlkna á aldrinum 10-19 ára þar í landi. Fjöldi þeirra er afleiðing kynferðisofbeldis og þar af eru rúmlega 80% ofbeldistilfella innan fjölskyldu. Það hefur sýnt sig að kynfræðsla getur verið forvörn gegn kynferðisofbeldi og dregið það fram í dagsljósið. Menntamálaráðherra hefur hins vegar bannað kynfræðslu í skólum og paragvæsk stjórnvöld brugðist skyldu sinni til að virða rétt kvenna til heilsu, menntunar og frelsis frá ofbeldi. Skrifaðu undir til að krefjast kynfræðslu í Paragvæ! Engin stúlka ætti að vera þvinguð inn í móðurhlutverkið.

Tæland

Krefjumst réttlætis fyrir friðsama mótmælendur í Tælandi

Stjórnvöld í Tælandi nýta kórónuveirufaraldurinn til að þagga enn frekar niður í ungum friðsömum mótmælendum. Fleiri en 600 ungmenni eiga yfir höfði sér langa fangelsisdóma fyrir það eitt að mótmæla friðsamlega þrátt fyrir að lögreglan hafi beitt óhóflegu valdi við að leysa upp mótmælin.

Bangladess

Aðför stjórnvalda að tjáningarfrelsi á netinu

Yfir þúsund einstaklingar hafa verið handteknir í Bangladess frá árinu 2018 á grundvelli laga um stafrænt öryggi (DSA, Digital Security ACT) fyrir að nýta rétt sinn til tjáningar á netinu. Bregstu við og krefstu þess að forsætisráðherra Bangladess, Sheikh Hasina, felli lögin úr gildi eða endurbæti í samræmi við alþjóðalög þau ákvæði sem eru notuð til að þagga niður í gagnrýnisröddum.

Angóla

Hirðingjasamfélög í hættu

Nú varir einn versti þurrkur síðastliðin 40 ár í suðurhluta Angóla. Afleiðingarnar eru ógnvænlegar þar sem heilsa og mataröryggi hirðingjasamfélaga á svæðinu eru í verulegri hættu. Vannæring hefur aukist til muna og aðgangur að vatni og hreinlætisaðstöðu er ótryggður.

Alþjóðlegt

Ríki hætti ólögmætri notkun á njósnabúnaði

Í löndum víðsvegar um heiminn reiða yfirvöld sig sífellt meira á stafrænt eftirlit í þeim tilgangi að áreita eða handtaka einstaklinga sem tjá sig til varnar mannréttindum eða afhjúpa viðkvæmar upplýsingar. Aukning er á stafrænum árásum gegn mannréttindasinnum, fjölmiðlafólki og almennum borgurum. Njósnum, hótunum og þöggun er beitt með því að brjótast inn í stafræn tæki einstaklinga. Þessari aðför verður að linna. Með undirskrift þinni þrýstir þú á stjórnvöldá heimsvísu að bregðast við kröfum um að vernda mannréttindasinna um heim allan.