Eþíópía

Eþíópía: Réttlæti krafist fyrir þolendur kynferðisbrota í Tigray

Ýmsar hersveitir sem styðja eþíópísk stjórn­völd hafa með skipu­lögðum hætti nauðgað konum og stúlkum frá Tigray-héraði og valdið þeim og aðstand­endum þeirra varan­legum líkam­legum og sálrænum skaða.

Viðvörun: Hér fyrir neðan birtast grófar lýsingar á kynferð­is­legu ofbeldi.

Este­genet er sextán ára stúlka. Í borg­inni Adebai héldu eþíópískir hermenn henni fang­inni eftir að hafa numið hana á brott þegar hún var á flótta með móður sinni og systkinum. Hún var færð í hús þar sem yfir­maður í eþíópísku varn­ar­sveit­inni nauðgaði henni á meðan þrír menn biðu fyrir utan. Þegar yfir­mað­urinn hafði lokið sér af hleypti hann hinum þremur inn til hennar sem einnig nauðguðu henni. Este­genetvar haldið í húsinu í þrjá daga og nauðgað ítrekað. Að þriðja degi loknum var henni sleppt í skjóli nætur.

Letay, sem er tvítug, varð fyrir árás á heimili sínu. Vopn­aðir menn, sem töluðu amharísku og klæddust ýmist einkenn­is­bún­ingum eða borg­ara­legum klæðnaði, þóttust ætla að leita að vopnum í húsinu og ráku foreldra hennar og systkini út á meðan Letay svaf í herbergi sínu.

Þrír mann­anna komu inn í herbergi til hennar. Hún vaknaði við lætin en hrópaði ekki. Þeir gáfu henni merki um að ef hún gæfi frá sér hljóð yrði hún drepin. Svo nauðguðu þeir henni hver á eftir öðrum.

„ Ég var komin fjóra mánuði á leið. Ég veit ekki hvort þeir áttuðu sig á því að ég væri ólétt. Ég veit ekki hvort þeir áttuðu sig á því að ég væri mann­eskja.“

Letay

Eyeru­salem er þrjátíu og níu ára gömul móðir tveggja barna. Erít­reskir hermenn námu hana og börn hennar á brott ásamt tveimur öðrum konum. Þau voru á flótta vegna átaka í heimabæ sínum. Hermenn­irnir héldu henni fang­inni í sólar­hring og brenndu hana með heitu járni. Þeir komu einnig málm­hlutum fyrir í legi Eyeru­salem og fimm þeirra nauðguðu henni að börnum hennar ásjá­andi. Forstjóri sjúkra­hússins þar sem Eyeru­salem var meðhöndluð sagði að þurft hafi að fjar­lægja fjóra nagla úr líkama hennar með skurð­að­gerð tveimur mánuðum eftir árásina þar sem þeir skertu hreyfigetu hennar. Auk þess mátti finna brunasár á efra læri hennar.

Frásagnir um kynferð­isof­beldi gegn konum og stúlkum í Tigray eru mjög svip­aðar og eru til vitnis um að kynferð­isof­beldi sé beitt vísvit­andi til að valda þolendum langvar­andi sálrænum og líkam­legum skaða. Hermenn og uppreisn­ar­her­menn hafa nauðgað og hópnauðgað konum og stúlkum frá Tigray, hneppt þær í kynlífs­þrældóm, misþyrmt kynfærum þeirra og pyndað. Þessu ofbeldi fylgja oft dauða­hót­anir og níð vegna uppruna kvenn­anna og stúlkn­anna.

Lestu meira um skýrsluna hér.

Það er tími til kominn að kynferð­isof­beldi sé stöðvað í átök­unum í Tigray! Krefstu rétt­lætis fyrir konur og stúlkur sem hafa orðið fyrir kynferð­isof­beldi af hálfu hersveita sem tengjast eþíópískum stjórn­völdum og kallaðu eftir:

  • Að sjálf­stæð, óháð og skil­virk rann­sókn verði gerð á öllum ásök­unum um kynferð­is­legt ofbeldi.
  • Að gerendur verði dregnir fyrir dómstóla í samræmi við alþjóðalög.
  • Að þolendum verði tryggðar skaða­bætur.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Maldíveyjar

Aðgerðasinni dæmdur í fangelsi fyrir guðlast

Mohamed Rusthum Mujuthaba, 39 ára aðgerða- og friðarsinni, á yfir höfði sér fimm mánaða fangelsi fyrir guðlast. Hann var í haldi í meira en sex mánuði áður en hann fór fyrir dóm. Stjórnvöld verða að fella niður ákærur gegn honum. Skrifaðu undir ákall um að ákærur gegn Mohamed verði felldar niður strax.

Katar

Krefjumst þess að FIFA gefi Katar rauða spjaldið fyrir misbeitingu farandverkafólks

Fyrir tilstuðlan farandverkafólks getur draumur Katar um að halda heimsmeistaramótið í fótbolta orðið að veruleika. FIFA ber skylda til að bregðast við og nota áhrif sín til að hvetja Katar til að vernda farandverkafólk. Þrátt fyrir að einhver árangur hefur náðst er enn langt í land. Krefjumst þess að FIFA gefi Katar rauða spjaldið fyrir misbeitingu farandsverkafólks!

Rússland

Listakona á yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm vegna hernaðarandstöðu

Listakonan Aleksandra Skochilenko var handtekin í Rússlandi og er sökuð um að hafa skipt út verðmiðum fyrir upplýsingar gegn stríðinu og slagorðum í stórmarkaði í Sankti Pétursborg. Hún var ákærð fyrir að „dreifa vísvitandi röngum upplýsingum um framgöngu rússneska hersins“ og á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi verði hún fundin sek. Aleksandra Skochilenko er með alvarlegan heilsufarsvanda og gæsluvarðhald þar sem hún fær ekki viðeigandi mataræði eða læknishjálp stofnar heilsu hennar í hættu. Gríptu til aðgerða eins fljótt og auðið er, eða til 1. júní 2022.

Sádi-Arabía

Stöðvið yfirvofandi aftökur á tveimur mönnum frá Barein

Jaafar Mohammad Sultan og Sadeq Majeed Thamer eiga yfir höfði sér aftökur. Sérstaki sakamáladómstóllinn dæmdi þá til dauða í október 2021 eftir afar ósanngjörn réttarhöld vegna hryðjuverkatengdra ákæra, sem fela í sér smygl á sprengiefni til Sádí-Arabíu og þátttöku í mótmælum gegn stjórnvöldum í Barein. Í apríl 2022 staðfesti hæstiréttur dóminn og aftaka þeirra varð yfirvofandi um leið og konungur fullgildi hann. Amnesty International skorar á yfirvöld í Sádi-Arabíu að fullgilda ekki dauðadóminn, ógilda sakfellingu þeirra og veita þeim sanngjörn réttarhöld í samræmi við alþjóðleg lög.

Gambía

Mannréttindavernd í hættu í Gambíu

Gríptu til aðgerða og skrifaðu undir ákall um að öryggi mannréttindafrömuðarins Madi Jobarteh verði tryggt og að hann geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar sem er staðfestur í stjórnarskrá Gambíu.

Pólland

Refsað fyrir að verja rétt til þungunarrofs

Kvenréttindafrömuðurinn Justyna Wydrzyńska á yfir höfði sér þriggja ára fangelsisvist af þeirri ástæðu einni að hún styður rétt til öruggs þungunarrofs. Pólskum yfirvöldum ber að afglæpavæða þungunarrof og styðja frekar en refsa manneskjum sem leggja sig fram við að tryggja heilsu einstaklinga sem leita eftir þungunarrofi. Aðgangur að þungunarrofi er hluti af kyn- og frjósemisréttindum og aðilar sem veita konum, stúlkum og fólki slíka aðstoð eiga ekki að þurfa að lifa í ótta við ákærur. Skrifaðu undir ákallið og krefstu þess að pólsk yfirvöld dragi til baka ákærur á hendur kvenréttindafrömuðinum Justynu Wydrzyńska og afglæpavæði þungunarrof.

Hvíta-Rússland

Skrásetning mannréttindabrota er ekki glæpur

Marfa Rabkova er baráttukona fyrir mannréttindum í Hvíta-Rússlandi og hefur unnið fyrir Viasna, hreyfingu sjálfboðaliða, sem er einn öflugasti mannréttindahópurinn í Hvíta-Rússlandi. Viasna fylgist með og skráir mannréttindabrot í landinu. Marfa var fyrst í þeirra hópi til að vera handtekin. Hún er ákærð fyrir að kynda undir hatri gagnvart lögreglu fyrir þátt sinn í að afhjúpa varðhald að geðþótta, pyndingar og aðra illa meðferð af hálfu yfirvalda gegn friðsömum mótmælendum. Það er ekki glæpur að skrásetja mannréttindabrot. Krefjumst þess að Marfa Rabkova verði leyst úr haldi strax.

Tæland

Krefjumst réttlætis fyrir friðsama mótmælendur í Tælandi

Stjórnvöld í Tælandi nýta kórónuveirufaraldurinn til að þagga enn frekar niður í ungum friðsömum mótmælendum. Fleiri en 600 ungmenni eiga yfir höfði sér langa fangelsisdóma fyrir það eitt að mótmæla friðsamlega þrátt fyrir að lögreglan hafi beitt óhóflegu valdi við að leysa upp mótmælin.

Bandaríkin

Bandaríkin felli niður ákærur á hendur Julian Assange

Bandarísk yfirvöld verða að fella niður allar ákærur á hendur Julian Assange sem tengjast njósnum og birtingu gagna vegna starfa hans hjá Wikileaks. Miskunnarlausar tilraunir bandarískra stjórnvalda til að hafa hendur í hári Julian Assange vegna opinberunar gagna sem innihéldu meðal annars upplýsingar um mögulega stríðsglæpi bandaríska hersins eru alvarlegar árásir gegn réttinum til tjáningarfrelsis.