Íran

Íran: Dauðadómur í kjölfar ósanngjarnra réttarhalda

Barzan Nasrolla­hzadeh var hand­tekinn þann 29. maí 2010, aðeins 17 ára gamall. Hann er súnní-múslími og Kúrdi sem er minni­hluta­hópur í Íran. Hann var í haldi í marga mánuði án þess að hafa aðgang að fjöl­skyldu sinni og var yfir­heyrður án þess að lögfræð­ingur væri viðstaddur. Hann segist hafa verið pynd­aður, meðal annars barinn, látinn hanga á hvolfi og honum gefið rafstuð. Hann var síðan neyddur til að skrifa undir yfir­lýs­ingu sem bendlaði hann við saknæmt athæfi.

Rétt­ar­höld yfir Barzan Nasrolla­hzadeh voru mjög ósann­gjörn. Mynd­band af honum með þving­aðri„játn­ingu“ var notað sem sönn­un­ar­gagn í rétt­ar­höld­unum. Það var ekki fyrr en við rétt­ar­höldin í ágúst 2013, þremur árum eftir hand­töku, sem hann fékk fyrst aðgang að lögmanni sem var dómkvaddur. Hann fékk þar með engan tíma eða aðstöðu til að undirbúa málsvörn sína.

Barzan var að lokum dæmdur til dauða fyrir „óvild gegn Guði“, „tengsl við salafi-hópa“ og fyrir þátt­töku í samsæri um morð, þar á meðal morð á súnní-klerk sem hafði tengsl við stjórn­völd. Hæstiréttur stað­festi dauða­dóminn í ágúst 2015.

Amnesty Internati­onal skilst að hæstiréttur hafi ekki minnst á að Barza Nasrolla­hzadeh hafi verið undir 18 ára aldri þegar glæp­urinn hafi átt sér stað. Hæstiréttur hefur hafnað frekari endur­skoðun á máli hans. Áhyggjur eru uppi um að aftaka gæti verið á dagskrá á næst­unni.

Skrifaðu undir og krefstu þess að dauða­dómur yfir Barzan Nasrolla­hzadeh verði felldur úr gildi!

Beiting dauðarefs­ing­ar­innar í Íran

Íran er aðili að barna­sátt­mál­anum og alþjóða­samn­ingi um borg­araleg og stjórn­málaleg rétt­indi. Íran hefur þar með skyldu að gegna um að beita ekki dauðarefs­ing­unni gegn einstak­lingum sem voru börn þegar glæp­urinn átti sér stað.

Árið 2019 voru 4 fangar teknir af lífi í Íran sem voru undir 18 ára aldri þegar glæp­urinn átti sér stað. „Óvild gegn Guði“ er ekki viður­kenndur glæpur samkvæmt alþjóð­legum stöðlum en er oft beitt í dauðarefs­ing­ar­málum í Íran. Árið 2019 átti sér stað 251 aftaka í Íran.

Lestu nánar um skýrslu Amnesty Internati­onal um dauðarefs­inguna fyrir árið 2019

 

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Kína

Kína: Leyfið fjölskyldusameiningu Úígúra

Aðför Kína gegn minnihlutahóp Úígúra í Xinjiang-héraði hefur leitt til þess að foreldrar hafa orðið viðskila við börn sín. Með þinni undirskrift getum við komið í veg fyrir aðskilnað barna frá foreldrum sínum. Saga þessarar fjölskyldu er ekki einstök. Foreldrar sem eru í minnihlutahóp Úígúra og búsettir erlendis þurftu mörg hver að skilja eitt eða fleiri börn eftir í umsjá ættingja í Xinjiang. Sumir þessara foreldra hafa svo komist að því að börnin hafa verið flutt nauðug á ríkisrekin munaðarleysingjahæli eða heimavistarskóla í kjölfarið af handtöku ættingjanna. Krefstu þess að kínversk stjórnvöld leyfi Úígúrum búsettum erlendis að fá börnin til sín.

Bangladess

Bangladess: Gefum Róhingjum rödd

Kórónuveirufaraldurinn hefur gert aðstæður Róhingja í flóttamannabúðum Cox Bazar í Bangladess enn þungbærari. Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er skert vegna tungumálaörðugleika, illrar meðferðar frá heilbrigðisstarfsfólki og ófullnægjandi aðgengi upplýsinga um þá heilbrigðisþjónustu sem stendur til boða. Þrýstu á stjórnvöld í Bangladess og alþjóðasamfélagið að tryggja þátttöku Róhingja flóttafólks í ákvarðanatöku sem snýr að þeirra eigin lífi til að tryggt sé að mannréttindi þeirra séu vernduð.

Íran

Íran: Bresk-íranskur baráttumaður fyrir réttindum verkafólks í haldi

Mehran Raoof, bresk-íranskur baráttumaður fyrir réttindum verkafólks, var handtekinn í Íran þann 16. október 2020. Hann hefur verið í einangrun síðan þá. Einangrunarvist sem stendur yfir í 22 tíma eða lengur á sólarhring og umfram 15 daga er brot á banni gegn pyndingum og annarri illri meðferð. Mehran Raoof var eingungis handtekinn vegna baráttu sinnar fyrir réttindum verkafólks og stuðnings við verkalýðsfélög.

Hondúras

Hondúras: Réttlætis krafist í morðmáli Bertu Cáceres

Berta Cáceres var myrt að nóttu til þann 2. mars 2016 á heimili sínu í Intibucá í Hondúras. Berta Cáceres var hugrökk baráttukona fyrir mannréttindum sem hætti lífi sínu til að verja rétt Lenca-fólksins, heimahaga sinna og náttúruauðlindanna sem þar finnast. Fyrir fjölskyldu Bertu verður réttlætinu ekki fullnægt fyrr en allir sem viðriðnir voru morðið hafa verið sóttir til saka og sannleikurinn leiddur í ljós.

Spánn

Spánn: Rappari dæmdur fyrir tíst

Pablo Hasél, spænskur rappari, var nýlega dæmdur í níu mánaða fangelsi og sektaður um 30 þúsund evrur fyrir vegsömun hryðjuverka sem og fyrir róg og níð gegn krúnunni og stjórnkerfi landsins. Dómurinn var byggður á 64 tístum og einu rapplagi. Hann er dæmdur fyrir það eitt að nýta tjáningarfrelsið sitt.

Filippseyjar

Filippseyjar: Herjað á ritstjóra og starfsfólk netfréttamiðils

Maria Ressa, mannréttindafrömuður og aðalritstjóri netfréttamiðilisins Rappler, og Rey Santos Jr. fyrrum rannsóknarblaðamaður hjá Rappler eru fyrsta fjölmiðlafólkið á Filippseyjum sakfellt fyrir meiðyrði á netinu. Þau standa frammi fyrir allt að sex ára fangelsi. Mál þeirra byggir á grein sem Rey skrifaði árið 2012 en það var áður en lögin um netglæpi tóku gildi sem ákæran byggði á.