Skýrslur

21. apríl 2020

Dauðarefs­ingin: Árleg skýrsla Amnesty Internati­onal 2019

Sádi-Arabía fram­kvæmdi fleiri aftökur árið 2019 en þau höfðu gert í tvo áratugi þar á undan en heild­ar­fjöldi aftaka í heim­inum hefur þó farið lækk­andi á sama tíma samkvæmt árlegri skýrslu Amnesty Internati­onal um dauðarefs­inguna. Aftökur í Sádi-Arabíu voru 184 í fyrra en það er mesti fjöldi aftaka á einu ári sem Amnesty Internati­onal hefur skráð þar í landi í tvo áratugi.

 

Á sama tíma tvöfald­aðist fjöldi aftaka í Írak. Íran var áfram í öðru sæti yfir mesta fjölda aftaka á eftir Kína sem gefur ekki upp opin­berar tölur því þær teljast vera ríkis­leynd­armál. Hins vegar dregur úr fjölda aftaka á heimsvísu fjórða árið í röð. Árið 2019 fóru fram að minnsta kosti 657 aftökur en til saman­burðar voru þær að minnsta kosti 690 talsins árið áður. Talan hefur ekki verið lægri í áratug.

 

Tölur frá Kína eru ekki inn í heild­ar­tölu Amnesty Internati­onal þar sem fjöldi aftaka er ríkis­leynd­armál en teljast að öllum líkindum í þúsundum. Íran, Norður-Kórea og Víetnam, ríki sem fram­kvæma aftökur einna mest, gefa heldur ekki upp nákvæmar upplýs­ingar um beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar.

Ómannúðleg refsing

„Dauðarefs­ingin er grimmileg og ómann­úðleg refsing. Það hefur ekki verið hægt að sýna fram á að hún komi frekar í veg fyrir glæpi heldur en fang­els­is­dómur. Flest ríki átta sig á því og það er hvetj­andi að sjá að aftökum fækkar enn á heimsvísu. Hins vegar eru örfá lönd sem virða að vettugi þessa alþjóð­legu þróun í beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar og fjölga aftökum. Fjölgun aftaka í Sádi-Arabíu, þar sem henni er m.a. beitt sem vopni gegn póli­tísku andófi, er ógnvekj­andi þróun. Nærri tvöföldun á fjölda aftaka í Írak á einu ári er einnig sláandi.“

Clare Algar, yfir­maður rann­sókna, málsvarnar og stefnu­mót­unar hjá Amnesty Internati­onal.

 

Lönd sem fjölguðu aftökum

Aðeins er vitað um tuttugu lönd í heim­inum sem fram­kvæma aftökur. Sádi-Arabía, Írak, Suður-Súdan og Jemen voru meðal þeirra sem fjölguðu aftökum frá 2018 til 2019.

Sádi-Arabía tók 184 einstak­linga af lífi árið 2019, þar af voru sex konur og og rúmlega helm­ingur allra var erlendis frá. Til saman­burðar var fjöldi aftaka 148 árið 2018. Meiri­hluti aftaka var vegna refs­ingar við vímu­efna­brotum og morðum. Amnesty Internati­onal skráði einnig aukna beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar gegn andófi sjíta-múslima sem er minni­hluta­hópur í landinu.

Fjölda­af­tökur voru fram­kvæmdar í landinu þann 23. apríl 2019 þegar 37 einstak­lingar voru teknir af lífi. Á meðal þeirra voru sjíta-múslimar sem voru sakfelldir fyrir hryðju­verk út frá játn­ingum sem fengust með pynd­ingum.

Hussein al-Mossalem var einn þeirra sem var tekinn af lífi þennan dag. Á meðan varð­haldsvist í einangrun stóð var hann barinn með rafkylfu og sætti pynd­ingum. Hann m.a nefbrotnaði, viðbeins­brotnaði og fótbrotnaði.

Mossalem fór fyrir sérstakan dómstól í Sádi-Arabíu sem var stofn­settur árið 2008 og er ætlaður fyrir einstak­linga sem sakaðir eru um hryðju­verk. Í auknum mæli hefur dómstóllinn verið notaður til að bæla niður andóf.

Fjölda aftaka í Írak tvöfald­aðist árið 2019 miðað við árið áður, úr 52 aftökum árið 2018 í 100 aftökur árið 2019. Helsta ástæðan fyrir aukn­ing­unni er beiting dauðarefs­ing­ar­innar gegn einstak­lingum sem eru sakaðir um að tilheyra vopn­uðum hópi sem kallar sig Íslamska ríkið.

Suður-Súdan tók að minnsta kosti ellefu einstak­linga af lífi árið 2019 sem er mesti fjöldi aftaka í landinu frá sjálf­stæði þess árið 2011. Jemen tók að minnsta kosti sjö einstak­linga af lífi árið 2019 í saman­burði við fjóra árið áður. Barein fram­kvæmdi aftökur á ný eftir árs hlé og tók þrjá einstak­linga af lífi árið 2019.

Skortu á gagnsæi

Skortur er á gagnsæi í beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar þar sem mörg lönd gefa ekki upp þær upplýs­ingar.

Íran fram­kvæmdi flestar aftökur á eftir Kína. Erfitt er að stað­festa fjölda aftaka þar í landi vegna skorts á gagnsæi en vitað er að 251 einstak­lingur var tekinn af lífi árið 2019, þar af voru fjórir undir 18 ára aldri þegar brotin voru framin, en fjöldi aftaka gæti jafnvel verið meiri. Til saman­burðar voru 253 teknir af lífi árið 2018.

Írönsk yfir­völd fram­kvæmdu einnig tvær leyni­legar aftökur á tveimur unglings­piltum, Mehdi Sohra­bifar og Amin Sedaghat, þann 25. apríl 2019. Strák­arnir voru 15 ára þegar þeir voru hand­teknir og sakfelldir fyrir fjöl­margar nauðg­un­ar­ákærur í kjölfar ósann­gjarnra rétt­ar­halda. Þeir vissu ekki einu sinni að þeir hefðu verið dæmdir til dauða fyrr en við aftöku og ekki nóg með það voru svipuför á líkama þeirra sem bentu til þess að þeir hefðu verið hýddir fyrir aftöku.

„Jafnvel lönd sem eru helstu fylgj­endur dauðarefs­ing­ar­innar eiga í vand­ræðum með að rétt­læta beit­ingu hennar og kjósa frekar launung. Mörg þeirra kapp­kosta við að fela hvernig dauðarefs­ing­unni er beitt, vitandi það að hún stenst ekki alþjóð­lega athugun.“

Clare Algar, yfir­maður rann­sókna, málsvarnar og stefnu­mót­unar hjá Amnesty Internati­onal.

Aftökur eru fram­kvæmdar á laun um heim allan. Í löndum eins og Hvíta-Rússlandi, Botsvana, Íran og Japan eru aftökur fram­kvæmdar án þess að aðstand­endur, lögfræð­ingar eða jafnvel einstak­ling­arnir sjálfir fái að vita af því með fyrir­vara.

Afnám á heimsvísu á næsta leiti

Í fyrsta sinn frá árinu 2011 fækkaði aftökum í löndum í Asíu og á Kyrra­hafs­svæðinu. Japan og Singapúr fækkuðu aftökum annars vegar úr 15 í 3 og úr 13 í 4 hins vegar.

Engar aftökur voru fram­kvæmdar í Afgan­istan í fyrsta sinn frá árinu 2010 og engar aftökur voru fram­kvæmdar í Taívan og Tælandi ólíkt árinu áður.

Opin­bert aftökuhlé í Kasakstan, Rússlandi, Tads­ík­istan, Malasíu og Gambíu var áfram í gildi.

Á alþjóða­vísu hafa 106 lönd afnumið dauðarefs­inguna í lögum og 142 lönd afnumið hana í lögum eða fram­kvæmd.

Fjöl­mörg lönd hafa sömu­leiðis tekið jákvæð skref í átt að afnámi dauðarefs­ing­ar­innar:

  • Forseti Miðbaugs-Gíneu tilkynnti í apríl 2019 að stjórn­völd hygðust innleiða löggjöf til að afnema dauðarefs­inguna. Það er jákvæð þróun sem gæti leitt til afnáms dauðarefs­ing­ar­innar.
  • Svipuð þróun átti sér stað í Mið-Afríku­lýð­veldinu, Kenía, Gambíu og Simbabve.
  • Barbados fjar­lægði einnig lögbundna dauðarefs­ingu úr stjórn­ar­skránni
  • Ríkis­stjóri Kali­forníu í Banda­ríkj­unum setti á opin­bert aftökuhlé en fylkið er með hæsta hlut­fall fanga á dauða­deild í landinu.
  • New Hamps­hire varð 21. fylkið í Banda­ríkj­unum til að afnema dauðarefs­inguna fyrir alla glæpi.

Bakslag varð þó gegn alþjóð­legri þróun í átt að afnámi dauðarefs­ing­ar­innar í nokkrum löndum:

  • Filipps­eyjar gerðu tilraun til að innleiða á ný dauðarefs­inguna fyrir grimmi­lega glæpi sem tengdust ólög­legum vímu­efnum og ránum.
  • Sri Lanka reyndi einnig að fram­kvæma aftökur á ný eftir 40 ára hlé.
  • Banda­rísk alrík­is­yf­ir­völd hótuðu einnig að fram­kvæma aftökur á ný eftir tuttugu ára hlé.

 

„Við verðum að halda í þann árangur sem hefur náðst í afnámi dauðarefs­ing­ar­innar. Amnesty Internati­onal kallar eftir því að öll lönd afnemi dauðarefs­inguna. Beita þarf alþjóð­legum þrýst­ingi á þau ríki sem enn fram­kvæma aftökur til að binda enda á þessa grimmi­legu aðferð til fram­búðar.“

Clare Algar, yfir­maður rann­sókna, málsvarnar og stefnu­mót­unar hjá Amnesty Internati­onal.

Lestu einnig