Fréttir
16. september 2024Íslandsdeild Amnesty International fagnaði um helgina að 50 ár eru liðin frá stofnun deildarinnar þann 15. september 1974. Til að fagna þessum áfanga voru haldnir þrír viðburðir helgina 13-15. september. Fyrsti viðburðurinn var í Norræna húsinu föstudaginn 13. september þar sem var haldið málþing í hádeginu. Á laugardeginum 14. september var stuðningsaðgerð og mannréttindajóga á Austurvelli fyrir baráttukonu fyrir kvenréttindum sem er í fangelsi í Sádi-Arabíu. Sjálf afmælisveislan var á sunnudeginum 15. september þar sem var fagnað með skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju sem endaði í menningarhúsinu Iðnó í veisluhöldum.
Málþing
Mikilvægi mannréttinda var yfirskrift málþingsins á föstudeginum í tilefni af því að Íslandsdeild Amnesty International hefur starfað í þágu mannréttinda í hálfa öld. Staðsetningin var engin tilviljun en Norræna húsið var valið þar sem stofnfundur deildarinnar var haldinn þar 50 árum fyrr.
Agnès Callamard aðalframkvæmdastjóri Amnesty International var sérstakur gestur málþingsins og kom hún til landsins til að halda erindi um mikilvægi mannréttindabaráttunnar á á tímum stríðsátaka á Gaza og loftslagsváar en blés einnig von í brjósti. Lesa má fjölmiðlaviðtöl við hana um efnið á mbl.is og ruv.is.
Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og aðgerðasinni hélt erindi um nauðsyn mannréttindabaráttunnar enda hefur hún víðtæka reynslu bæði í réttindabaráttu og sem lögfræðingur.
Kári Hólmar Ragnarsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands fjallaði um alþjóðakerfið og framtíð þess út frá lagalegu sjónarmiði. Það komu nokkrar spurningar í lokin og var meðal annars rætt um nauðsyn þess að hugsa nýjar leiðir í alþjóðakerfinu.
Mannréttindajóga
Í sönnum anda Amnesty International var stuðningsaðgerð og mannréttindajóga á laugardeginum til stuðnings Manahel al-Otaibi, líkamsræktarkennara og baráttukonu sem er í fangelsi fyrir að styðja kvenréttindi og birta mynd að sér í klæðaburði sem stjórnvöld þótti ekki viðeigandi. Manahel var dæmd í 11 ára fangelsi og hefur sætt pyndingum og einangrunarvist í fangelsi.
Þátttakendur söfnuðust saman á Austurvelli og var byrjað á því að taka hópmynd þar sem haldið var á andlitsmynd af Manahel til sýna henni samstöðu. Manahel hefur mikinn áhuga á alls konar líkamsrækt og því þótti tilvalið að bjóða upp á jóga til að vekja athygli á máli hennar. Að lokinni myndatöku leiddi Eva Einarsdóttir mannréttindajóga en hún er bæði formaður Íslandsdeildar Amnesty International og jógakennari. Þátttaka var góð, enda blíðskaparveður. Hægt er að skrifa undir málið hennar og krefjast lausnar hennar. Skrifaðu undir hér.
Afmælisfögnuður
Á sjálfum afmælisdeginum sunnudaginn 15. september var mikil gleði og fögnuður. Gleðin hófst með skrúðgöngu frá Hallgrímskirkju um kl. 14. Brasssveit undir stjórn Hauks Gröndal leiddi gönguna með skemmtilegri sveiflu og hélt uppi góðri stemningu. Guli liturinn okkar var alls ráðandi með gulum borða, veifum og skiltum.
Síðasti spölurinn í göngunni var Vonarstræti sem átti vel þar sem kertið í merki okkar táknar vonarljós fyrir þolendur mannréttindabrota. Gangan endaði í Iðnó þar sem slegið var upp veislu. Í boði voru léttar veitingar og skemmtidagskrá. Stemningin var góð og skemmti fólk sér vel. Á svæðinu voru mörg kunnugleg andlit sem hafa komið að starfi deildarinnar í gegnum árin.
Björk Guðmundsdóttir, leikkona og grínisti, var kynnir og skemmti gestum og kitlaði hláturtaugarnar með glensi og gríni. Ævar Kjartansson hélt ávarp þar sem hann horfði til fortíðar í starfi deildarinnar enda hefur lengi tengst starfi deildarinnar og sat um tíma í stjórn. Eva Einarsdóttir formaður Íslandsdeildarinnar sagði einnig nokkur orð um deildina í dag og horfði til framtíðar.
Anna Lúðvíksdóttir framkvæmdastjóri Íslandsdeildarinnar heiðraði forvera sinn, Jóhönnu K. Eyjólfsdóttur, sem í stýrði deildinni af festu í um tvo áratugi. Jóhanna kom deildinni á þann stall sem hún er í dag með heilindum og þekkingu í fyrirrúmi. Deildin stendur svo sannarlega í þakkarskuld við hennar framlag þar sem enn í dag tengja margir nafn Jóhönnu við mannréttindastarf deildarinnar.
Karlakórinn Bartónar var með tónlistaratriði og fengu gestir að syngja með lokalaginu, Þó líði ár og öld. Það var svo sannarlega vel tekið undir það og sungu gestir af innlifun. Hljómsveitin Los Bomboneros héldu uppi fjöri undir lokin með suður-amerískri tónlist og það var ekki annað hægt en að dilla sér smá við tónlistina.
Íslandsdeild Amnesty International þakkar kærlega fyrir sig og vill sérstaklega þakka öllu því fólki sem hefur stutt mannréttindastarf deildarinnar með einum eða öðrum hætti.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu