Fréttir
6. janúar 2026
Hernaðaraðgerðir bandarískra stjórnvalda í Venesúela undir forystu Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem leiddu til handtöku Nicolás Maduro og Cilia Flores, eru til marks um alvarlega ógn við mannréttindi íbúa landsins.
Aðgerðirnar fela að öllum líkindum í sér brot á alþjóðalögum, þar á meðal broti gegn stofnsáttmála Sameinuðu Þjóðanna, sem og yfirlýstur ásetningur Bandaríkjanna um að taka í stjórnartaumana í Venesúela og stýra olíuauðlindum landsins.
Mynd: AI @Laura Rangel
Áhyggjur og kröfur Amnesty International
Amnesty International hefur sérstakar áhyggjur af hættunni á frekari stigmögnun mannréttindabrota í landinu, hvort sem það orsakast af frekari hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna eða vegna viðbragða stjórnvalda í Venesúela við árásunum.
Samtökin hvetja stjórnvöld í Bandaríkjunum eindregið til að virða alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög, setja vernd óbreyttra borgara í forgang og tryggja mannréttindi allra sem eru frelsissvipt, meðal annars með því að standa vörð um réttláta málsmeðferð og mannúðlega meðferð.
Jafnframt skorar Amnesty International á stjórnvöld í Venesúela að láta af frekari kúgun og undirstrikar að samkvæmt alþjóðalögum ber þeim skýr skylda til að virða og vernda mannréttindi allra íbúa landsins.
Mannréttindafrömuðir og pólitískir aðgerðasinnar í Venesúela, sem hafa um árabil barist gegn mannréttindabrotum stjórnvalda í tíð Maduro forseta, eru í mestri hættu.
Amnesty International lýsir samstöðu sinni með íbúum Venesúela: Þúsundum þolenda og eftirlifenda, sem og þeim milljónum sem hafa neyðst til að flýja landið eftir að hafa sætt mannréttindabrotum og glæpum gegn mannkyni í árafjölda.
Amnesty International ítrekar ennfremur langvarandi kröfu sína um að ríkisstjórn Nicolás Maduro verði rannsökuð og þar sem sönnunargögn gefi tilefni til verði einstaklingar sóttir til saka fyrir óháðum dómstóli, til að tryggja réttlæti og skaðabætur fyrir þolendur mannréttindabrota í Venesúela.
Samtökin lýsa yfir þungum áhyggjum af því að árás á Venesúela og handtaka Nicolás Maduro og Cilia Flores, af hálfu eins af fimm fastaríkjum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, grafi enn frekar undan alþjóðalögum og regluverki alþjóðasamfélagsins. Þessar aðgerðir senda skýr skilaboð um alþjóðakerfi sem byggir á hervaldi, hótunum og ógnunum, og auka hættuna á að fleiri ríki fylgi fordæminu.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu