Fréttir

29. október 2025

Alþjóð­legt: Z-kynslóðin mótmælir þrátt fyrir ógnir

Um heim allan streyma ungmenni, svokölluð Z-kynslóðin, út á götur til að berjast fyrir rétt­indum sínum. Í Madaga­skar mótmæla þau ítrek­uðum vatns­skorti og rafmagns­leysi. Í Perú er rétt­inum til þung­un­ar­rofs ógnað. Í Indó­nesíu hafa ungmenni látið í sér heyra gegn aukinni vald­boðs­stefnu stjórn­valda.

Í stað þess að greiða leið fyrir mótmæli og vernda réttinn til að mótmæla hafa örygg­is­sveitir brugðist við af hörku með ólög­mætri vald­beit­ingu sem stofnar lífi mótmæl­enda í hættu. Ungt fólk ætti ekki að þurfa að hætta lífi sínu fyrir það eitt að mótmæla.

Fjórir aðgerða­sinnar af Z-kynslóð­inni deila sinni sögu. Robert, Paola, Derry og Rova segja frá því hvers vegna þau eru stað­ráðin í því að mótmæla þrátt fyrir ógnir.

©Alain Pitton/NurP­hoto

Robert*, 20 ára frá Madagaskar

Við viljum að raddir okkar fái að heyrast. Alltof lengi hefur verið litið fram hjá ungu fólki jafnvel þó við séum framtíð þess­arar þjóðar. Mótmæli eru ekki aðeins andspyrna. Við erum að nýta grunn­rétt­indi okkar til að láta í okkur heyra og tjá óánægju okkar.

Með því að fara út á götu og taka þátt í mótmælum sýnum við að við sættum okkur ekki lengur við þögn og við þrýstum á vald­hafa til að hlusta loks á fólkið sem það ber skyldu til að sinna. Við mótmælum í þágu betri fram­tíðar og höfnum kerfi sem hefur vanrækt menntun og hefur látið heila kynslóð mæta afgangi.

Við hættum lífi okkar með því að mótmæla. Lögreglan beitir oft ólög­mætu valdi gegn mótmæl­endum sem hefur leitt til dauðs­falla og alvar­legra meiðsla. Við eigum stöðugt á hættu að vera hand­tekin fyrir að tjá okkur eða deila upplýs­ingum. Við þurfum á alþjóð­legum fjöl­miðlum að halda til að beina athygl­inni að því hvað er að gerast hér. Þögn verndar kúgarana en sýni­leiki verndar fólkið.

*Dulnefni

 

Fyrir utan eigið öryggi er stærsta ógnin sú að þetta land er stöðugt að sökkva dýpra niður í fátækt á meðan nokkrir spilltir stjórn­mála­menn og viðskipta­menn verða enn ríkari. Ef ekkert breytist festast kynslóðir íbúa Madaga­skar í eymd. Þetta er raun­veruleg ógn sem við berj­umst gegn.

Þetta snýst ekki aðeins um reiðina í dag heldur að vekja von fyrir morg­undaginn. Hver rödd, hvert skref sem við tökum er þrýst­ingur á þessa ríkis­stjórn og forsetann að láta af völdum. Fyrir mörgum snýst þessi hreyfing um upphaf raun­veru­legra breyt­inga, breyt­inga sem fólkið leiðir fyrir fólkið. Þetta snýst ekki aðeins um pólitík heldur um mennskuna.

Mann­úðin verður að sigra því það er fólkið sem byggir þjóðir en hvorki vald­hafar né yfir­stéttin.

Ef við glötum mann­úð­inni missir landið sál sína. En ef mann­úðin sigrar getur Madaga­skar loks risið upp sterkari og sann­gjarnari fyrir alla íbúana.

Paola, 26 ára, aðgerðasinni og ungliði frá Perú

Að mótmæla sem ung mann­eskja í landinu mínu felur í sér að rísa upp gegn öllum mann­rétt­inda­brotum. Ég mótmæli í þágu sann­gjarns heims þar sem það að láta í sér heyra jafn­gildir ekki dauða. Ég mótmæli vegna þess að ég vil að hver mann­eskja finnist hún frjáls og stolt af því sem hún er og geti elskað þann sem hún vill. Ég mótmæli og safna fólki til liðs við mig vegna þess að ég vil vist­kerfi sem er sýnd virðing og ást.

Mér líður vel þegar ég læt í mér heyra því þá legg ég mitt af mörkum til heims þar sem við getum vonandi öll notið mann­rétt­inda okkar einn daginn.

Ég er aðgerðasinni fyrir mann­rétt­indi hjá Amnesty Internati­onal í Perú og samtökin okkar tákna andspyrnu, vináttu og mannúð. Mér finnst ég ekki vera ein því ég hef aðra félaga um allt land í barátt­unni með mér.

 

 

Enn er mörgum stúlkum meinað að fara í þung­un­arrof eftir nauðgun. Þeim er ekki aðeins neitað um réttinn til öruggs þung­un­ar­rofs heldur mega þær þola grimmi­lega meðferð og Þetta heldur áfram að gerast þrátt fyrir sláandi tölur um kynferð­isof­beldi en árið 2024 greindu 12.183 konur og stúlkur frá kynferð­isof­beldi.

Í landinu mínu er skortur á rétt­mæti og trausti á stofn­unum og yfir­völdum sem er ástæðan fyrir því að við mótmælum í hverri viku og erum fyrir vikið kúguð af lögreglu. Þegar við mótmælum á götum úti ógnum við póli­tískum og efna­hags­legum hags­munum margra aðila sem vilja ekki sjá okkur þarna saman­komin. Skilaboð mín til allra er að mann­úðin verður að sigra og að hún mun gera það vegna þess að ég sé hana sigra á hverjum degi.

 

 

 

 

Derry, 25 ára, nemandi í Indónesíu

Þátt­taka í kröfu­göngum er ekki aðeins mótmæla­að­gerð heldur einnig yfir­lýsing um samvisku. Þannig stöndum við með rétt­læti og sýnum samstöðu með fólki. Með því að fara út á götu drögum við skýra línu á milli þeirra sem berjast fyrir sann­girni og þeirra sem þegja andspænis kúgun. Fyrir okkur er þögn það sama og að vera samsek. Það að láta í sér heyra er að velja rétt­læti fram yfir ótta.

Við hækkum róminn gegn uppgangi vald­boðs­stefnu. Ríkis­stjórnir færast í átt að kúgun­ar­stefnu og fela arðráns­stefnur sínar á bak við almenn slagorð.

Þessar stefnur skaða bæði umhverfið og jaðar­sett samfélög, sérstak­lega frum­byggja, og svíkja grund­vall­ar­reglur um mann­rétt­indi og góða stjórn­ar­hætti. Krafan er skýr: algjörar breyt­ingar á skipu­lagi og stofn­unum í átt að mann­úð­legu og rétt­inda­miðuðu stjórn­ar­fari.

Samt er okkur mætt með grimmi­legri kúgun fyrir að mótmæla. Þegar ég var sjálf­boða­liði í sjúkra­flutn­ingum á mótmæl­unum í lok ágúst sá ég lögregluna skjóta af vopnum sínum af gáleysi út í myrkrið eftir að hafa slökkt á rafmagni og götu­ljósum.

 

 

Þessi hreyfing er mikilvæg því hún er táknræn sönnun þess að okkar kynslóð, Z-kynslóðin, er tilbúin til að láta í sér heyra og berjast fyrir rétt­læti í landinu okkar. Z-kynslóðin hefur sannað að okkur er ekki sama. Okkur stendur ekki á sama, við grípum til aðgerða og berj­umst fyrir rétt­læti.

Ég trúi á að mitt framlag, hversu lítið sem það kann að vera, geti orðið kveikjan að breyt­ingum sem við höfum ávallt barist fyrir. Mann­úðin verður að sigra því fyrir mér táknar hún mikil­væg­ustu hugsjón allrar baráttu, jafnt póli­tískrar, menn­ing­ar­legrar sem efna­hags­legrar.

Allar bylt­ingar leitast í grunninn við að skapa heim þar sem við getum lifað saman í reisn og gagn­kvæmri virð­ingu. Þess vegna verður mannúð að vísa leiðina fyrir allar borg­ara­legar hreyf­ingar þar sem hún er fram­tíð­ar­sýnin sem við stefnum öll að: mannkyn sem er raun­veru­lega siðmenntað.

Skilaboð mín til yfir­valda eru þessi: Við munum alltaf vera til og okkur mun fjölga. Því meira sem þið reynið að þagga niður í okkur því háværari verðum við. Við erum ekki hrædd því kúgun afhjúpar aðeins ykkar eigin ótta og sýnir að þið, en ekki við, eruð dauð­hrædd við sann­leikann og óttist fólkið.

Rova, 23 ára, nemandi frá Madagaskar sem býr í Malasíu

Fyrir okkur af Z-kynslóð­inni eru mótmæli ekki val heldur siðferð­isleg nauðsyn. Við ólumst upp í heimi þar sem órétt­læti er orðið daglegt brauð, þar sem spilling kæfir vonina og þar sem þögnin er stundum hættu­legri en að láta í sér heyra.

Í Madaga­skar býr ungt fólk við harðan veru­leika: fátækt, ójöfnuð, rafmagns­leysi, valdníðslu og ótta við að tjá skoð­anir sínar. Þrátt fyrir þessar hindr­anir veljum við að láta í okkur heyra, fara í mótmæla­göngu og fordæma.

Ég berst fyrir félags­legu rétt­læti, gagnsæi og mann­legri virð­ingu. Ég berst fyrir félags­legu og umhverf­is­legu rétt­læti, raun­veru­legu lýðræði þar sem allar raddir skipta máli, þar sem ekki lengur er litið á ungt fólk sem áhorf­endur. Ég berst fyrir Madaga­skar, stór­kost­legu landi í sárum, þar sem tæki­færin eru kæfð niður vegna valdníðslu og fátæktar. Ég berst einnig fyrir ungu fólki, hvar sem það er statt, til að það hafi trú á því að það gegni hlut­verki fyrir sögu lands síns.

Mín barátta er frið­samleg en áköf. Ég trúi því að samfélög geti ekki þróast með sjálf­bærum hætti án sann­leika og jöfn­uðar. Henni fylgir samt áhætta, jafnvel úr fjar­lægð. Opinber tjáning um póli­tískt ástand á Madaga­skar getur verið misskilin, vöktuð eða misnotuð. Mesta hættan er þögnin. Ég vil frekar láta í mér heyrast í smástund heldur en að vera samsekur í þögn minni.

Til yfir­valda sem standa í vegi okkar vil ég segja að þögn sem hefur verið þvinguð fram hefur aldrei stuðlað að friði. Sannur friður byggir ekki á ótta heldur samtali og virð­ingu. Þið getið þaggað niður í röddum en þið stöðvið ekki hugs­anir. Þið getið læst fólk inni en aldrei hugmyndir. Það eru ekki óeirða­seggir sem þið sjáið á götunum í dag heldur ungt fólk sem vekur samviskuna til meðvit­undar og neitar að láta framtíð sína fara til spillis í sinnu­leysi.

Ungt fólk er ekki óvin­urinn. Við erum ekki að berjast gegn yfir­völdum heldur gegn kerfinu sem eyði­leggur framtíð okkar. Við erum ekki að leitast eftir átökum heldur uppbygg­ingu. Að þagga niður í okkur seinkar aðeins óumflýj­an­legri breyt­ingu.

Hreyfing okkar er miklu meira en póli­tísk uppreisn. Hún er endur­reisn borg­ara­legs samfé­lags. Ef mann­úðin sigrar þýðir það að sann­leikur, samstaða og frelsi hefur unnið sigur á ótta, blekk­ingum og sinnu­leysi. Því mannúð er ekki aðeins hugmynd heldur er hún hluti af okkur, hún er eigin­leiki okkar til að finna til með öðrum eins og við værum í þeirra sporum. Ef órétt­lætið sigrar á Madaga­skar glatar allt mann­kynið hluta af sál sinni.

Ég trúi því inni­lega að barátta á einum stað endurómi um heim allan. Þegar fólkið endur­heimtir rödd sína andar allur heim­urinn aðeins léttar.

 

 

 

 

 

Lestu einnig