Skýrslur

27. mars 2023

Ársskýrsla: Tvískinn­ungur í viðbrögðum Vest­ur­veld­anna við mann­rétt­inda­brotum

Allherj­ar­innrás Rúss­lands í Úkraínu árið 2022 leiddi af sér fjölda stríðs­glæpa, orsakaði orku- og matvælakrísu á heimsvísu og gróf enn frekar undan veik­byggðu fjöl­þjóða­kerfi. Innrásin afhjúpaði jafn­framt hræsni vest­rænna ríkja sem brugðust hart við árás Rúss­lands en létu óátalin eða voru samsek um gróf mann­rétt­inda­brot annars staðar. Þetta kemur meðal annars fram í ársskýrslu Amnesty Internati­onal um stöðu mann­rétt­inda­mála í heim­inum.

  • Ársskýrsla Amnesty Internati­onal 2022 varpar ljósi á tvískinnung um heim allan þegar kemur að mann­rétt­indum.
  • Sterk viðbrögð Vest­ur­veld­anna við árás Rúss­lands á Úkraínu er í algerri andstöðu við átak­an­legt aðgerða­leysi gagn­vart grófum mann­rétt­inda­brotum sumra banda­manna þeirra, eins og Ísrael, Sádi-Arabíu og Egyptalandi.
  • Rétt­indum og frelsi kvenna til að mótmæla er ógnað þar sem ríki láta hjá líða að vernda og virða mann­rétt­indi heima fyrir.
  • Í skýrsl­unni kemur m.a. fram að Ísland beitir einangr­un­ar­vist í gæslu­varð­haldi óhóf­lega og brýtur þannig m.a. gegn samn­ingi Sameinuðu þjóð­anna gegn pynd­ingum og annarri grimmi­legri, ómann­legri eða vanvirð­andi meðferð eða refs­ingu.

Ársskýrsla Amnesty International 2022/2023

Skýrsla Amnesty Internati­onal 2022/23: Staða mann­rétt­inda­mála í heim­inum lýsir hvernig tvískinn­ungur og slæleg viðbrögð við mann­rétt­inda­brotum sem framin voru víðs vegar um heiminn ýtti undir refsi­leysi og óstöð­ug­leika. Á meðal þeirra var ærandi þögn um mann­rétt­inda­ástandið í Sádi-Arabíu, aðgerða­leysi gagn­vart Egyptalandi og afneitun á aðskiln­að­ar­stefnu Ísraels gagn­vart palestínsku fólki.

„Innrás Rúss­lands í Úkraínu er ógnvekj­andi dæmi um hvað getur gerst þegar ríki telja sig geta virt alþjóðalög að vettugi og brotið mann­rétt­indi án afleið­inga.

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Skýrslan varpar enn fremur ljósi á harkaleg viðbrögð kínverskra yfir­valda til að hindra aðgerðir alþjóða­sam­fé­lagsins vegna glæpa gegn mannúð sem stjórn­völd þar í landi hafa gerst sek um. Þá er greint frá því hvernig alþjóða- og svæð­is­stofn­anir hafa, vegna eigin­hags­muna­stefnu aðild­ar­ríkja, látið undir höfuð leggjast að bregðast við átökum þar sem þúsundir hafa látið lífið, til dæmis í Eþíópíu, Mjanmar og Jemen.

Mann­rétt­inda­yf­ir­lýsing Sameinuðu þjóð­anna varð til úr öskustó seinni heimstyrj­ald­ar­innar fyrir 75 árum. Kjarni yfir­lýs­ing­ar­innar byggir á þeirri algildu viður­kenn­ingu að allir einstak­lingar eigi jafnan rétt til mann­rétt­inda og frelsis. Þegar alþjóð­legur vald­astrúktúr er í óreiðu þá mega mann­rétt­indi ekki gleymast vegna ágrein­ings. Þau verða að vera leið­ar­vísir nú þegar ástand mála á heimsvísu verður sífellt óstöð­ugra og aðstæður hættu­legri. Við getum ekki beðið eftir því að heim­urinn verði að bruna­rústum að nýju.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Skammarlegur tvískinnungur ýtir undir frekari brot

Alls­herj­ar­innrás Rúss­lands í Úkraínu leiddi af sér verstu mann­rétt­inda- og mann­úð­ar­neyð síðari tíma. Átökin hafa ekki aðeins leitt til gífur­legra fólks­flutn­inga, til stríðs­glæpa og orku- og fæðuóör­yggis á heimsvísu, heldur einnig endur­vakið ógnina um kjarn­orku­stríð.

Vest­ur­veldin brugðust skjótt við með því að beita Moskvu, höfuð­borg Rúss­lands, efna­hags­þving­unum og senda hern­að­ar­lega aðstoð til Kænu­garðs í Úkraínu. Alþjóð­legi saka­mála­dóm­stóllinn opnaði fyrir rann­sókn á stríðs­glæpum í Úkraínu og alls­herj­ar­þing Sameinuðu þjóð­anna samþykkti ályktun þar sem innrás Rúss­lands var fordæmd sem glæpur gegn friði.

Þessi kröftugu viðbrögð eru fagn­að­ar­efni en eru í algjörri andstöðu við það aðgerða­leysi sem hafa einkennt viðbrögð alþjóða­sam­fé­lagsins gagn­vart grófum mann­rétt­inda­brotum sem áður hafa verið framin af Rússlandi Að auki hafa viðbrögð við núver­andi átökum, eins og þeim sem geisa í Eþíópíu og Mjanmar, verið aumk­un­ar­verð.

„Ef kerfið hefði virkað sem skyldi til að draga Rúss­land til ábyrgðar fyrir skjalfest mann­rétt­inda­brot í Tsjet­sjeníu og Sýrlandi hefði mátt bjarga þúsundum lífa í Úkraínu og annars staðar. Í staðinn hefur verið aukið á þján­ingar og eyði­legg­ingu. Ef stríðs­sókn Rúss­lands sýnir fram á eitt­hvað fyrir framtíð heimsins þá er það mikil­vægi þess að tryggja að ríki fylgi alþjóða­lögum og viðmiðum um mann­rétt­indi í hvívetna.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Árið 2022 var eitt mann­skæð­asta árið á Vest­ur­bakk­anum í Palestínu frá því að Sameinuðu þjóð­irnar hófu að skrá­setja mann­fall þar árið 2006. Hersveitir Ísraels myrtu 152 einstak­linga, þeirra á meðal rúmlega tvo tugi barna. Ísra­elsk stjórn­völd héldu áfram að þvinga palestínskt fólk af heim­ilum sínum og eru með áform um að stækka land­töku­svæði sín á Vest­ur­bakk­anum á hernumdu svæði Palestínu. Í stað þess að krefjast þess að bundið sé enda á aðskiln­að­ar­stefnu Ísraels velja margar vest­rænar ríkis­stjórnir að ráðast gegn þeim aðilum sem fordæma aðskiln­að­ar­stefnuna.

Flóttafólk

Banda­ríkin hafa verið hávær í gagn­rýni sinni á mann­rétt­inda­brot Rúss­lands í Úkraínu og tekið á móti þúsundum einstak­linga frá Úkraínu sem flúið hafa stríðið en 25.000 Haít­í­búum var vísað af landi brott, frá sept­ember 2021 til maí 2022, á grund­velli stefnu sem á rætur að rekja til kynþátta­for­dóma.

Evrópu­sam­bands­ríki hafa opnað landa­mæri sín fyrir fólki frá Úkraínu sem flýja árásir Rúss­lands.  Þau sýna að þau eru vel í stakk búin til að taka á móti stórum hópi fólks sem leitar skjóls og öryggis og veita þeim aðgang að heil­brigð­is­þjón­ustu, menntun og húsa­skjóli. Engu að síður lokuðu margar Evrópu­þjóðir dyrunum á fólk sem flúði stríð og kúgun í Sýrlandi, Afgan­istan og Líbíu.

„Viðbrögðin við innrás Rússa sýnir hvað er unnt að gera ef póli­tískur vilji er fyrir hendi. Við urðum vitni að alþjóð­legri fordæm­ingu, rann­sóknum á brotum og landa­mæri voru opnuð fyrir flótta­fólk. Þessi viðbrögð eiga að vera forskrift af því hvernig við tökumst á við öll stór­felld mann­rétt­inda­brot.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Tvöfalt siðgæði

Tvöl­falt siðgæði Vest­ur­veld­anna var hvatning fyrir lönd eins og Kína og gerði Egyptalandi og Sádi-Arabíu kleift að sneiða hjá og hunsa gagn­rýni á stöðu mann­rétt­inda­mála í eigin landi. Þrátt fyrir stór­felld mann­rétt­inda­brot gegn Úígúrum og öðrum múslimskum minni­hluta­hópum í Xianjiang Kína, sem jafn­gilda glæpi gegn mannúð, komst Peking undan alþjóð­legri fordæm­ingu alls­herj­ar­þings Sameinuðu þjóð­anna, örygg­is­ráðsins og mann­rétt­inda­ráðsins.

„Ríki beittu mann­rétt­inda­lög­gjöf­inni í hverju tilviki fyrir sig af blygð­un­ar­lausri hræsni og með tvöfalt siðgæði að leið­ar­ljósi. Ríki geta ekki gagn­rýnt mann­rétt­inda­brot eina stundina og þá næstu látið hjá líða að gagn­rýna sams­konar brot í öðru landi eingöngu af því að þau hafa hags­muna að gæta. Það er ófor­svar­an­legt og grefur undir stoðum mann­rétt­inda sem eru algild.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

 

Mann­rétt­indaráð Sameinuðu þjóð­anna skipaði sérstakan skýrslu­gjafa um stöðu mann­rétt­inda­mála í Rússlandi og kom á rann­sókn­ar­nefnd í kjölfar blóð­ugra mótmæla í Íran. En ráðið ályktaði að ekki skyldi rann­saka frekar eða ræða niður­stöður rann­sóknar sem Sameinuðu þjóð­irnar sjálfar ýttu úr vör um mögu­lega glæpi gegn mannúð í Xinjiang í Kína og létu ályktun um Filipps­eyjar niður falla.

Þörf er á að ríki sem hafa ekki enn viljað rugga bátnum taki afstöðu gegn mann­rétt­inda­brotum hvar sem þau eiga sér stað. Þörf er á minna af hræsni, minna af tortryggni og meira af metn­að­ar­fullum aðgerðum ríkja þar sem öll mann­rétt­indi eru vernduð og tryggð í hvívetna.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Miskunarlaus bæling á mótmælum um heim allan

Árið 2022 voru rúss­neskir mótmæl­endur sóttir til saka og fjöl­miðlum var lokað fyrir það eitt að minnast á stríðið í Úkraínu. Fjöl­miðla­fólk var hand­tekið í Afgan­istan, Eþíópíu, Mjanmar, Rússlandi, Belarús og fjölda annarra landa víða um heim þar sem átök geisa.

Í Ástr­alíu, Indó­nesíu, Bretlandi og á Indlandi innleiddu stjórn­völd nýja löggjöf sem setur mótmælum skorður og á Srí Lanka var neyð­ar­lögum beitt til að takmarka fjölda­mót­mæli gegn efna­hagskrísu landsins. Löggjöfin í Bretlandi veitir lögreglu víðtæk völd meðal annars mögu­leikann á að banna „hávær mótmæli“ sem grefur undan tján­ingar- og funda­frelsinu.

Víða var tækn­inni beitt til að þagga niður í og koma í veg fyrir mótmæli eða til að stuðla að upplýs­inga­óreiðu.

Í desember beittu örygg­is­sveitir í Perú ólög­mætu valdi, sérstak­lega gegn frum­byggjum og smábændum, til að brjóta á bak aftur mótmæli í kjölfar þess að Castillo, þáver­andi forseti landsins, var hrakinn frá völdum.

Fjöl­miðla­fólk, mann­rétt­inda­fröm­uðir og stjórn­and­stæð­ingar sættu einnig kúgun í öðrum löndum, má þar nefna í Simbabve og Mósambík.

Sem viðbrögð við þeirri vaxandi ógn sem steðjar að rétt­inum til mótmæla ýtti Amnesty Internati­onal úr vör alþjóð­legri herferð árið 2022 til að sporna gegn tilraunum ríkja til að brjóta á bak aftur réttinn til frið­sam­legra mótmæla. Hluti herferð­ar­innar felst í ákalli um að gerður verði alþjóð­legur samn­ingur sem bannar öll viðskipti með pynd­ing­artól og vopn við löggæslu sem eru í eðli sínu skaðleg og setja reglur um vopn og búnað sem hægt er að misbeita til að beita pynd­ingum og annarri illri meðferð.

Konur finna mest fyrir því þegar mannréttindi eru ekki virt

„Löngun ríkja til að stjórna líkömum kvenna og stúlkna, stjórna lífi þeirra og þeim sem kynverum skilur eftir sig hrika­lega afleið­ingar ofbeldis, kúgunar og brost­inna vona.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

 

Bæling á andstöðu hefur mikil áhrif á rétt­indi kvenna. Hæstiréttur Banda­ríkj­anna snéri við dómi sem tryggði réttinn til þung­un­ar­rofs. Þessi ákvörðun ógnar þar með öðrum mann­rétt­indum, þeirra á meðal rétt­indum til lífs, heilsu, einka­lífs, öryggis og banni gegn mismunun í lífi milljóna kvenna, stúlkna og fólks sem getur orðið þungað. Í lok árs 2022 höfðu þó nokkur ríki Banda­ríkj­anna samþykkt lög sem banna eða takmarka aðgengi að þung­un­ar­rofi. Á sama tíma voru aðgerða­sinnar í Póllandi sóttir til saka fyrir að aðstoða konur í að fá  þung­un­ar­rof­spillur.

Í Afgan­istan varð mikil afturför á stöðu kvenna og stúlkna þar sem Talíbanar skertu rétt­indi þeirra með tilskip­unum en þar má nefna réttinn til sjálfs­ákvörð­unar, mennt­unar, vinnu og aðgengis að opin­berum vett­vangi.

Í Íran var Masha (Zhina) Amini hand­tekin með ofbeld­is­fullum hætti af „siðgæð­is­lög­regl­unni“ fyrir að fela ekki hárlokka undir höfuðslæðu sinni nægi­lega vel. Nokkrum dögum síðar lét hún lífið í varð­haldi lögreglu og benda trúverðug gögn til þess að hún hafi látist vegna pynd­inga. Málið ýtti af stað fjölda­mót­mælum þar sem margar konur og stúlkur særðust, voru myrtar eða settar í varð­hald.

Alþjóðlegar aðgerðir gegn loftslagsvánni eru með öllu ófullnægjandi

Árið 2022 hélt heim­urinn áfram að líða fyrir áföll í kjölfar kórónu­veirufar­ald­ursins. Lofts­lags­breyt­ingar, átök og efna­hags­áföll sem að hluta til orsök­uðust af innrás­inni í Úkraínu grófu enn frekar undan mann­rétt­indum.

Efna­hagskrísan olli því að 97% íbúa Afgan­istan bjuggu við fátækt. Á Haíti átti sér stað stjórn­mála- og mann­úð­ar­krísa til viðbótar við útbreitt gengja­of­beldi með þeim afleið­ingum að 40% íbúa stóðu frammi fyrir alvar­legu fæðuóör­yggi.

Öfgar í veður­fari vegna hlýn­unar jarðar leiddi til hungurs og faraldra í nokkrum ríkjum Suður-Asíu og Afríku sunnan Sahara, þeirra á meðal í Pakistan og Nígeríu. Flóð áttu sér stað sem höfðu hörmuleg áhrif á líf fólks og lífs­við­ur­væri auk faraldurs vegna sjúk­dóma frá menguðu vatni.

Ríki hafa látið undir höfuð leggjast að gæta og ekki dregið úr notkun jarð­efna­eldsneytis en þessi mikla notkun er ein stærsta ógn alls lífs á okkar tímum. Þetta sameig­in­lega aðgerða­leysi ríkja er enn eitt dæmið um veik­leika núver­andi fjöl­þjóða­kerfis.

 

Þörf á umbótum á alþjóðlegum stofnunum sem eru óstarfhæfar

Það er afar brýnt að alþjóð­legar stofn­anir og alþjóða­kerfi, sem ætlað er að vernda mann­rétt­indi okkar, séu styrkt en ekki grafið undan þeim.

Fyrsta skrefið er að sjá til þess að eftir­lits­að­ilar alþjóð­legra mann­rétt­inda­samn­inga  Sameinuðu þjóð­anna séu full­fjár­magn­aðir svo unnt sé að tryggja rann­sóknir og ábyrgð­ar­skyldu ríkja og að rétt­lætið nái fram að ganga.

Amnesty Internati­onal kallar einnig eftir umbætum á örygg­is­ráði Sameinuðu þjóð­anna til að veita ríkjum, sérstak­lega frá hinu hnatt­ræna Suðri, rödd innan ráðsins.

„Þörf er á raun­veru­legum umbótum á alþjóða­kerfinu sem endur­speglar veru­leika dagsins í dag. Við getum ekki látið það viðgangast að fasta­full­trúar örygg­is­ráðs Sameinuðu þjóð­anna haldi áfram að beita neit­un­ar­valdi sínu og misnoti sérrétt­indi sín óhindrað. Skortur á gagnsæi og skil­virkni í ákvarð­ana­töku örygg­is­ráðsins býður upp á  baktjald­armakk, misbeit­ingu og vanhæfni.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Mannréttindabaráttan vekur von

Þrátt fyrir að eigin­hags­munapólitík ríkis­stjórna komi í veg fyrir að mann­rétt­indi séu sett á oddinn, veitir mann­rétt­inda­bar­áttan engu að síður innblástur og vekur von.

„Það er auðvelt að fyllast vonleysi andspænis voða­verkum og mann­rétt­inda­brotum en fólk sýndi á síðasta ári að við erum ekki hjálp­ar­laus. Við höfum orðið vitni að stór­kost­legri andstöðu, þar á meðal andspyrnu afganskra kvenna gegn ofríki Talíbana og íranskra kvenna sem gengu á opin­berum vett­vangi án höfuðslæðu og klipptu á sér hárið í mótmæla­skyni við löggjöf sem skyldar konur að ganga með höfuðslæður.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Í Kólumbíu var afglæpa­væðing þung­un­ar­rofs fram að 24. viku meðgöngu niður­staða stjórn­laga­dóm­stóls. Barátta kven­rétt­inda­hreyf­inga og lögsókn áttu þátt í þessari niður­stöðu.

 

Í Suður-Súdan var Magai Matiop Ngong leystur úr haldi, eftir að hafa verið dæmdur til dauða 15 ára gamall árið 2017. Frelsun hans úr fang­elsi kom í kjölfar þess að þúsundir einstak­linga um heim allan sendu yfir­völdum ákall um frelsun hans.

Umhverf­is­vernd­arsinninn, Bern­ardo Caal Xol, sem barðist fyrir rétt­indum Maya-frum­byggja í Gvatemala var sleppt úr haldi eftir að hafa setið í fang­elsi í fjögur ár byggt á upplognum ákærum.

Eftir margra ára herferð kvenna­hreyf­inga á Spáni samþykkti spænska þingið lög þar sem samþykki er í forgrunni þegar kemur að laga­legri skil­grein­ingu á nauðgun. Kasakstan og Papúa Nýja-Gínea afnámu dauðarefs­inguna.

Fólk sem hefur kerf­is­bundið verið kúgað vegna kynja­kerfis og kynþátta­for­dóma fór á götur úti í millj­óna­tali til að krefjast betri fram­tíðar, bæði árið 2021 og aftur árið 2022. Þetta ætti að minna vald­hafa á að við stöndum aldrei hjá þegar ráðist er gegn reisn okkar, jafn­rétti og frelsi.“

Agnès Callamard aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal.

Tölfræði

Ólögmæt vald­beiting gegn frið­sömum mótmæl­endum í 54% landa (85 lönd af 156)

Skaða­minni vopnum beitt gegn frið­sömum mótmæl­endum í 43% landa (67 lönd af 156)

Banvænum vopnum beitt gegn mótmæl­endum í 22% landa (35 lönd af 156)

Búnaður sem ekki ætti að nota við löggæslu á mótmæl­um­not­aður gegn mótmæl­endum í 16% landa (25 lönd af 156)

Herafla var beitt  við löggæslu á mótmælum í 20% landa ( 31 land af 156)

Reglur um leyf­is­veit­ingar fyrir mótmæli í 40% landa (62 lönd af 156) 

Ný löggjöf sem takmarkar réttinn til að mótmæla í 19% landa (29 lönd af 156) 

Neyð­ar­lög­gjöf beitt til að takmarka mótmæli í 18% landa (28 lönd af 156) 

Takmark­aður aðgangur að netinu og samfé­lags­miðlum til að stöðva mótmæli í 17% landa (26 lönd af 156) 

Mótmæl­endur hand­teknir að geðþótta í 51% landa (79 lönd af 156)

Notkun andlitsskanna eða eftir­lits með lífkenni var beitt gegn mótmæl­endum í 9% landa (14 lönd af 156) 

Mann­rétt­inda­frömuði hand­teknir í 49% landa ( 77 lönd af 156) 

Pynd­ingar og ill meðferð áttu sér stað í 60% landa ( 94 lönd af 156) 

Þvinguð manns­hvörf (leyni­legt varð­hald yfir­valda) í 22% landa (34 lönd af 156) 

Hand­tökur á grund­velli kynhneigðar eða kynvit­undar í 14 landa ( 22 lönd af 156) 

Stríðs­glæpir eða glæpir gegn mannúð átti sér stað í 13% landa (20 lönd af 156) 

*Samkvæmt ársskýrslu Amnesty Internati­onal 2022/23

 

 

Lestu einnig