Fréttir

23. febrúar 2024

Áskorun til íslenskra stjórn­valda vegna fryst­ingar fjár­stuðn­ings til UNRWA

Íslands­deild Amnesty Internati­onal lýsir yfir alvar­legum áhyggjum vegna ákvörð­unar ríkis­stjórnar Íslands um að frysta fjár­mögnun til Palestínuflótta­manna­að­stoðar Sameinuðu þjóð­anna (UNRWA) og hvetur ríki­s­tjórn Katrínar Jakobs­dóttur til að snúa þeirri ákvörðun við án tafar og styðja við störf UNRWA. Ákvörðun ríkis­stjórnar Katrínar Jakobs­dóttur um stöðvun fjár­stuðn­ings til UNRWA var tilkynnt 30. janúar síðastliðinn.

Í opin­beru bréfi frá utanrík­is­ráðu­neytinu segir orðrétt um ástæður þess­arar ákvörð­unar:

„Utan­rík­is­ráð­herra ákvað á föstudag að fresta greiðslu kjarna­fram­lags til Palestínuflótta­manna­að­stoðar Sameinuðu þjóð­anna (UNRWA), í kjölfar ásakana um að tólf starfs­menn stofn­un­ar­innar hafi átt aðild að hryðju­verka­árás Hamas 7. október síðast­liðinn, þar til samráð hefur verið haft við samstarfs­ríki og frekari skýr­inga leitað hjá stofn­un­inni. 

Engar sannanir fyrir ásökunum

Amnesty Internati­onal viður­kennir alvar­leika ásakana sem ísra­elska ríkis­stjórnin setti fram á hendur 12 af 30.000 starfs­mönnum UNRWA um þátt­töku þeirra í brotum á alþjóða­lögum, þar á meðal stríðs­glæpum, gegn ísra­elskum borg­urum þann 7. október.

Engu að síður hafa samtökin rann­sakað sex blað­síðna skjal sem inni­heldur þær ásak­anir sem Ísrael hefur lagt fram um málið og komust samtökin að þeirri niður­stöðu að þar eru engin sönn­un­ar­gögn sem benda til þess að UNRWA beri ábyrgð á þeim meintu sökum sem bornar hafa verið á hendur umræddum starfs­mönnum. 

 

Amnesty Internati­onal bendir á að UNRWA tilkynnti uppsögn hlut­að­eig­andi tíu starfs­manna en tveir úr hópi þeirra tólf sem sættu meintum sökum hafa verið drepnir. Innri eftir­lits­skrif­stofa Sameinuðu þjóð­anna hefur auk þess hafið rann­sókn á ásök­unum samhliða því að fram­kvæmda­stjóri Sameinuðu þjóð­anna hóf sjálf­stæða rann­sókn á UNRWA. Hinir grunuðu verða að sæta skil­virkri, óháðri og gagn­særri rann­sókn.

Komi í ljós að þeir beri ábyrgð á brotum á alþjóða­lögum skulu þeir dregnir til ábyrgðar í sann­gjörnum rétt­ar­höldum í samræmi við alþjóðalög. Amnesty Internati­onal bendir á að hingað til hefur engum trúverð­ugum rann­sóknum á þessum ásök­unum verið lokið.  

Ófrægingarherferð ísraelskra stjórnvalda

Amnesty Internati­onal hefur veitt því eftir­tekt að Ísra­els­ríki og hópar sem tengjast land­töku (vinna að nauð­ung­ar­flutn­ingum palestínsks fólks og að stækka land­töku­svæði) hafa um árabil haft í frammi ófræg­ing­ar­her­ferð gegn UNRWA, með það fyrir augum að auðvelda nauð­ung­ar­flutn­inga palestínskra íbúa á hernumdu svæð­unum í Palestínu og grafa undan rétti milljóna palestínskra flótta­manna til að snúa aftur til síns heima.  

UNRWA gegnir lykil­hlut­verki í að vernda rétt Palestínubúa til að snúa aftur á heima­slóðir sínar í samræmi við 194. ályktun alls­herj­ar­þings Sameinuðu þjóð­anna frá árinu 1948. Samkvæmt álykt­un­inni skal flótta­fólk, sem snúa vill aftur til síns heima og búa í friði við nágranna sína, fá heimild til þess eins fljótt og auðið er. 

Ísra­elsk stjórn­völd og vilhallir hópar gagn­rýndu UNRWA áður en ásak­an­irnar gegn starfs­mönnum UNRWA komu fram og sú gagn­rýni heldur áfram að aukast. Þessir aðilar og hluti ísra­elskra stjórn­valda hafa einnig dreift haturs­fullri orðræðu gegn Palestínu­búum með því að halda því fram að UNRWA innræti börn þannig að þau hneigist til „hryðju­verka”.  

Í þessu tilliti bendir Amnesty Internati­onal á yfir­lýs­ingu Netanyahu, forsæt­is­ráð­herra Ísraels, þar sem hann vísar í: „baráttu á milli barna ljóssins og barna myrk­ursins“. Umrædd yfir­lýsing var hluti af gögnum sem lögð voru fram fyrir Alþjóða­dóm­stólinn í Haag af hálfu Suður-Afríku sem dæmi um stefnu­yf­ir­lýs­ingu um hópmorð.  

Árið 2017 talaði þáver­andi utan­rík­is­ráð­herra Ísraels, Avigdor Lieberman, fyrir því að  UNRWA yrði leyst upp með því að vísa í hlut­verk þess að standa vörð um réttinn til að snúa aftur á heima­slóðir.

Árið 2018 tók Netanyahu forsæt­is­ráð­herra undir orð hans:

„Þetta eru samtök sem viðhalda vanda sem fylgir palestínsku flótta­fólki. Þau viðhalda líka sögunni um réttinn til að snúa aftur til síns heima , …því ætti að fjar­lægja UNRWA úr heim­inum.” 

Frysting hefur hörmuleg áhrif á líf milljóna

Þá undir­strikar Amnesty Internati­onal að ásak­anir á hendur fáeinum einstak­lingum um verknað sem tengist ekki þeirra starfs­sviði rétt­lætir aldrei jafn róttæka ákvörðun og ríkis­stjórn Íslands hefur tekið, vegna þeirra hörmulegu áhrifa sem hún hefur á líf og afdrif milljóna einstak­linga. Í þeirri mann­úð­ar­neyð sem nú er á Gaza er það hlut­verk UNRWA að veita aðstoð, mat og skjól gríð­ar­lega mikil­vægt og lífs­nauð­syn­legt, sérstak­lega í ljósi þess að enginn annar aðili í mann­úð­ar­starfi er til staðar sem getur fyllt skarðið.

Þá eru yfir 1,7 millj­ónir íbúa á Gaza vega­lausar og nærri milljón þeirra hefur leitað skjóls í yfir­fullum skólum og athvörfum sem UNRWA rekur. UNRWA er jafn­framt ein af fáum stofn­unum sem skráir kerf­is­bundið og ítar­lega afleið­ingar hern­aðar Ísraels gegn óbreyttum borg­urum á Gaza ásamt því að gefa út skýrslur um stöðu mála. 

Frysting fjár­magns eykur einungis á þján­ingar yfir tveggja milljóna palestínskra flótta­manna, sem skráðir eru flótta­menn hjá UNRWA. Yfir 70% íbúa Gaza eru flótta­fólk og afkom­endur þess sem flúði heimili sín árið 1948 en nú vofir yfir öllum íbúum svæð­isins yfir­gnæf­andi hætta á hópmorði.

Nýleg bráða­birgðanið­ur­staða Alþjóða­dóm­stólsins (ICJ) er sú að það eru trúverð­ugar vísbend­ingar um að Ísrael hafi nú þegar framið að minnsta kosti hluta þeirra verknaða sem falla undir sátt­mála um ráðstaf­anir gegn og refs­ingar fyrir hópmorð. Dómstóllinn fyrirskipaði meðal annars að Ísrael „skuli gera tafar­lausar og skil­virkar ráðstaf­anir til að hægt sé að veita brýna nauð­syn­lega grunn­þjón­ustu og mann­úð­ar­að­stoð til að bregðast við slæmum lífs­skil­yrðum sem Palestínubúar standa frammi fyrir á Gaza.“ 

Ákall Amnesty International

Amnesty Internati­onal kallar eftir því að ríkis­stjórn Íslands:

  • tryggi UNRWA fjár­hags­stuðning án tafar í ljósi hættu á hópmorði Palestínubúa á Gaza og
  • fordæmi opin­ber­lega áform ísra­elskra stjórn­valda um nauð­ung­ar­flutn­inga palestínskra íbúa á Gaza 
  • stað­festi rétt Palestínubúa til að snúa aftur til síns heima, sbr 194. ályktun alls­herj­ar­þings Sameinuðu þjóð­anna frá desember 1948.  

Lestu einnig