Fréttir
12. ágúst 2024Samkvæmt nýrri skýrslu Amnesty International um gasbruna er ein af mikilvægustu leiðunum til að takast á við loftslagsvána að binda enda á notkun gasbruna sem hafa sögulega bitnað verst á jaðarsett samfélögum á svokölluðum fórnarsvæðum. Lönd sem eru háð olíuvinnslu verða að sjá til þess að gasbrunar í tengslum við olíuvinnslu verði stöðvaðir og setja í forgang að draga úr jarðefnaeldsneyti til að tryggja hröð og réttlát orkuskipti.
Gasbrunar eru notaðir í olíuvinnslu til að brenna jarðgas sem er aukaafurð vinnslunnar. Til er tækni sem hægt er að nota í staðinn við olíuvinnslu sem hefur síður neikvæð áhrif á umhverfið og mannréttindi. Olíufyrirtæki hafa þó ekki sýnt áhuga á að nýta þessa tækni, meðal annars vegna aukins kostnaðar.
Ógn við mannréttindi
Skýrslan greinir frá því hvernig Ekvador hefur brugðist skyldu sinni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að leyfa gasbruna í Amazon-skógi. Ekvador leyfir olíuiðnaðinum að halda áfram að nota gasbruna við olíuvinnslu þrátt fyrir að dómstóll hafi árið 2021 úrskurðað í hag níu ungra baráttustúlkna og ungra kvenna um að stöðva gasbruna. Þær eru frá samfélögum í Sucumbíos og Orellana og höfðuðu mál í samstarfi við samtökin UDAPT.
Gasbrunar hafa bein áhrif á hlýnun jarðar og losa út mikið magn af mengunarvöldum eins og gróðurhúsalofttegundinni metan. Gasbrunar eru því ógn við mannréttindi, bæði núna og í framtíðinni.
Niðurstaða Amnesty International er sú að Ekvador hafi ekki fylgt öllum fyrirmælum úrskurðar dómstóls Sucumbíos þann 29. júlí 2021 um gasbruna. Í úrskurðinum eru fyrirmæli um að stöðva smám saman alla gasbruna á vegum ríkis- og einkafyrirtækja og setja þarf í forgang gasbruna sem eru nálægt byggð.
Samkvæmt vitnisburðum, greiningu gagna og upplýsingum sem voru staðfestar á vettvangi fyrir skýrslu Amnesty International hafa Ekvador og opinberar stofnanir þess í orkumálum aðeins gripið til aðgerða sem leggja ofurkapp við að halda olíuframleiðslu gangandi en forðast að taka áþreifanleg og metnaðarfull skref til að binda enda á notkun gasbruna og tryggja hröð og réttlát orkuskipti.
Víða gasbrunar
„Ekvadorskum yfirvöldum ber skylda til að fylgja tafarlaust og af festu fyrirmælum úrskurðarins í málinu sem níu stúlkur og ungar konur höfðuðu í samstarfi við UDAPT vegna gasbruna. Að framfylgja úrskurðinum skiptir máli fyrir loftslags-, umhverfis– og kynþáttaréttlæti. Ekvador verður að binda enda á gasbruna sem setur Amazon–skóginn, heiminn og framtíð barna sem erfa jörðina í hættu.“
Ana Piquer, framkvæmdastjóri Ameríkudeildar Amnesty International.
Almennt er viðurkennt á alþjóðavettvangi og í vísindasamfélaginu að gasbrunar hafi neikvæð áhrif á mannréttindi og umhverfið ásamt því að ýta undir loftlagsbreytingar. Á alþjóðavísu er því verið að draga úr gasbrunum og sum lönd hafa bannað gasbruna eða sett regluverk.
Aftur á móti í Norður-og Suður-Ameríku, í löndum eins og Ekvador, Bandaríkjunum, Mexíkó, Argentínu, Brasilíu og Venesúela eru gasbrunar enn mikið notaðir við olíuvinnslu. Almennt eru það bæði ríkis– og einkafyrirtæki sem nota gasbruna til að draga úr kostnaði. Gasbrunarnir eru staðsettir á svokölluðum „fórnarsvæðum“, svæðum sem standa höllum fæti félagslega og umhverfislega. Sá umhverfisskaði sem olíuvinnsla hefur í för með sér eykur aðeins á jaðarsetningu og fátækt á þessum svæðum.
Ekvador bregst skyldum sínum
„Ekvador getur verið í forystu fyrir loftslags– og umhverfisréttlæti í þágu jarðarinnar núna og í framtíðinni með því að binda enda á gasbruna og skuldbinda sig til að falla frá hagkerfi sem reiðir sig á jarðefnaeldsneyti. Olíuauður hefur aldrei náð til Amazon-skógarins í Ekvador og er svæðið stórt fórnasvæði olíu þar sem börn, þar á meðal stúlkurnar og ungu konurnar í gasbrunamálinu, eru einn viðkvæmasti hópurinn.“
Ana Piquer, framkvæmdastjóri Ameríkudeildar Amnesty International.
Samkvæmt Alþjóðabankanum er Ekvador eitt af þeim þrjátíu löndum þar sem mest er um gasbruna í heiminum. Gasbruni ógnar lífi, heilsu og öðrum réttindum íbúa á fátækasta svæðinu í landinu. Amnesty International hefur staðfest 52 gasbruna sem eru á svæði sem eru innan við fimm kílómetra frá íbúabyggð, fjarlægð sem veldur mögulegum skaða fyrir samfélögin og umhverfið.
Ekvador er ekki aðeins að bregðast því að framfylgja dómsúrskurðinum heldur einnig að bregðast alþjóðlegum skyldum sínum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að halda áfram að leyfa gasbruna í stað þess að sjá til þess aðrar aðferðir sem hægt er að nota í staðinn séu innleiddar.
Stöðva gasbruna
Sögulega hefur hagkerfi Ekvador byggst á olíuvinnslu. Það er því mikilvægt fyrir landið að að sinna skyldum sínum og nýta tækifærið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í orkugeiranum. Þannig er hægt að greiða leiðina fyrir hröðum og réttlátum orkuskiptum til að draga úr þeim skaða sem þau valda á veðurfarskerfið á heimsvísu.
Veðurfarsbreytingar af mannavöldum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda fer vaxandi. Ekvador hefur brugðist skyldum sínum til að draga úr skaða og vernda mannréttindi í tengslum við loftslagsbreytingar þar sem ríkið hefur ekki gripið til aðgerða til að stöðva ónauðsynlega og skaðlega gasbruna. Aðgerðaleysi þeirra setur fólk og framtíð mannkynsins í hættu.
„Þær hugrökku stúlkur og ungar konur sem eru stefnendur í gasbrunamálinu, þekktar sem baráttustúlkur Amazon–skógar, sýna að börn og ungmenni um heim allan krefjast loftslags-, kynþátta– og kynjaréttlætis og róttækra breytinga í þágu mannréttinda og náttúru.“
Ana Piquer, framkvæmdastjóri Ameríkudeildar Amnesty International.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu