Fréttir

25. september 2014

El Salvador: Blátt bann við fóst­ur­eyð­ingum jafn­gildir pynd­ingum

Amnesty Internati­onal gaf nýverið út skýrslu sem ber heitið On the Brink of Death: Violence Against Women and the Abortion Ban in El Salvador. Meginnið­ur­staða skýrsl­unnar er sú að á hverju ári er brotið á mann­rétt­indum hundraða kvenna og stúlkna í El Salvador fyrir tilstuðlan fortakslauss banns við fóst­ur­eyð­ingum sem bundið var í landslög árið 1998.

Blátt bann við fóst­ur­eyð­ingum þýðir að konur og stúlkur eru saknæmar í öllum tilvikum leiti þær slíkrar aðgerðar, jafnvel þótt lífi eða heilsu þeirra er ógnað, þungun er afleiðing nauðg­unar eða sifja­spells eða fóstrið ekki lífvæn­legt.

Kona sem er í lífs­hættu á meðgöngu stendur því frammi fyrir tveimur óhugs­andi valmögu­leikum: fang­elsi til lengri tíma leiti hún sér fóst­ur­eyð­ingar eða dauða aðhafist hún ekkert. Samkvæmt fóst­ur­eyð­ing­ar­banninu geta konur og stúlkur sem fundnar eru sekar um að binda enda á meðgönguna, hlotið tveggja til átta ára fang­els­isdóm og allt að fimmtíu ára dóm ef þær eru ákærðar fyrir mann­dráp. Sakfell­ingin er oft byggð á ófull­nægj­andi eða ótraustum sönn­un­ar­gögnum sem lögð eru fram í mein­göll­uðum rétt­ar­höldum. Heil­brigð­is­starfs­fólk sem aðstoðar við eða fram­kvæmdir fóst­ur­eyð­ingu er einnig sakhæft. Jafnvel konur sem verða fyrir fóst­ur­missi kunna að vera ákærðar fyrir morð, hand­teknar og fang­els­aðar í áratugi, þar sem grunur leikur á að þær hafi leitað sér ólög­legrar fóst­ur­eyð­ingar.

Samkvæmt skýrslu Amnesty Internati­onal voru 129 konur hand­teknar í El Salvador, frá janúar 2000 til apríl 2011, í kjölfar fóst­ursmissis eða ólög­legrar fóst­ur­eyð­ingar, flestar á aldr­inum 18 til 25 ára. Konur og stúlkur í El Salvador sem eru sakfelldar vegna fóst­ur­missis eða ólög­legrar fóst­ur­eyð­ingar eru yfir­leitt hinar efnam­inni sem treysta á opin­bera heil­brigð­is­geirann og laga­lega þjón­ustu. Fóst­ur­missir er ekki glæpur samkvæmt lögum í El Salvador en engu að síður eru konur síend­ur­tekið fang­els­aðar á grund­velli ólög­legrar fóst­ur­eyð­ingar eða mann­dráps, jafnvel þótt öll sönn­un­ar­gögn bendi til fóst­ur­missis.

Þetta var tilfellið í máli Maríu Teresu Rivera sem afplánar 40 ára fang­els­isdóm fyrir fóst­ur­missi. María Teresa sem átti fyrir fimm ára barn vissi ekki að hún bæri annað barn undir belti fyrr enn hún veiktist í fata­verk­smiðju þar sem hún starfaði. Tengda­móðir hennar kom að henni á baðher­bergi í verk­smiðj­unni þar sem hún lá á gólfinu í blóði sínu og kom henni undir lækn­is­hendur með hraði. Þegar á spít­alann var komið tilkynnti heil­brigð­is­starfs­maður hana til lögreglu. Skömmu síðar mætti lögreglu­maður á spít­alann og tók að yfir­heyra Maríu Teresu, hálf meðvit­und­ar­lausa, án þess að lögfræð­ingur væri viðstaddur. Í júlí árið 2012 kom hún fyrir rétt og var fundin sek um mann­dráp að yfir­lögðu ráði, þrátt fyrir alvar­lega misbresti á sönn­un­ar­gögnum gegn henni. Sonur hennar verður 45 ára gamall þegar María Teresa verður leyst úr haldi.

Tíu ára fórn­ar­lamb nauðg­unar neydd til að fæða barn!

Fortakslaust bann við fóst­ur­eyð­ingum í El Salvador er eitt form ríkis­of­beldis gegn konum og stúlkum og jafn­gildir pynd­ingum og annarri illri meðferð, samkvæmt ályktun sérstaks eftir­lits­full­trúa Sameinuðu þjóð­anna um pynd­ingar.

Bannið undan­skilur ekki einu sinni barn­ungar stúlkur sem verða þung­aðar í kjölfar nauðg­unar. Lögin neyða allar konur og stúlkur, óháð aldri, til að ganga fulla meðgöngu jafnvel þótt slíkt hafi gjör­eyð­andi áhrif á andlega og líkam­lega velferð þeirra. Læknir sem meðhöndlaði tíu ára gamla þungaða stúlku sem sætt hafði nauðgun sagði Amnesty Internati­onal eftir­far­andi:

„Við þurftum að meðhöndla níu ára gamla stúlku sem var þunguð og ól barn aðeins tíu ára. Hún hafði sætt kynferð­is­legri misnoktun frá því hún var korna­barn. Hún varð ólétt. Þetta var hrika­lega erfitt mál… það endaði með keis­ara­skurði á 32 viku meðgöngu. Þetta tilfelli setti mark sitt á okkur öll kannski vegna þess að hún skildi ekki hvað var að koma fyrir hana. hún bað okkur um liti, Crayon liti og hóf að teikna mynd af okkur öllum og hengdi upp á spít­ala­vegginn. Hjarta okkar sökk af sorg. Hún er bara lítið barn, lítið barn! Hún skildi ekki að hún ætti sjálf von á barni.“

Stúlkan var neydd til ganga fulla meðgöngu.

Með því að neita konum og stúlkum aðgang að öruggum og löglegum fóst­ur­eyð­ingum, brýtur ríkið gróf­lega á mann­rétt­indum þeirra og stefnir lífi þeirra í hættu.

Hið ómann­úð­lega, fortakslausa bann við fóst­ur­eyð­ingum í El Salvador leiðir til dauða hundraða kvenna og stúlkna í El Salvador á ári hverju og leggur líf enn fleiri í rúst. Samkvæmt Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­un­inni lætur 11% stúlkna og kvenna lífið í kjölfar ólög­legra fóst­ur­eyð­inga í El Salvador og 57% allra dauðs­falla hjá þung­uðum unglings­stúlkum á aldr­inum 16-19 ára orsakast af sjálfs­vígi.

Rann­sóknir Amnesty Internati­onal benda til þess að stjórn­völd í El Salvador bera ábyrgð á brotum á grund­vallar mann­rétt­indum: rétt­inum til lífs, rétt­inum til að lifa frjáls frá pynd­ingum og annarri illri meðferð, rétt­inum til einka­lífs, rétt­inum til heil­brigðis, rétt­inum til að ákveða hvort og hvenær þú eignast barn og fjölda barna og rétt­inum til að lifa án mismun­unar.

Þessi misk­un­ar­lausa löggjöf gegn fóst­ur­eyð­ingum endur­speglar rótgróin viðhorf í samfé­laginu um „viðeig­andi“ hlut­verk kvenna sem einskorðast við hlut­verk eigin­konu og móður. Aftur­halds­samar stað­alí­myndir um konur og mismunun í þeirra garð gegn­sýrir allt samfé­lagið og rænir þær rétt­inum til ákvarðana um eigið líf og líkama. Ríkis­valdið ýtir síðan undir ójöfnuð og styrkir mismunun í garð kvenna, bæði með aðgerðum sínum og aðgerða­leysi.

Engin heild­stæð kynfræðsla er til að mynda veitt í El Salvador eða fræðsla um náin sambönd og erfitt er að nálgast getn­að­ar­varnir. Þetta hefur leitt til þess að í El Salvador er hlut­fall þung­aðra unglings­stúlkna einna hæst meðal allra landa í Suður-Ameríku. Þá er horft framhjá kynbundnu ofbeldi og morðum á konum sem er land­lægt vandamál, þrátt fyrir að ný löggjöf gegn ofbeldi á konum hafi tekið gildi árið 2012. Þar sem lögin virka ekki í reynd eru konur og stúlkur enn mjög berskjald­aðar fyrir ofbeldi af ýmsu tagi.

Alba er 25 ára gömul kona sem býr á strjál­býlum stað í El Salvador. Saga hennar er skýrt dæmi um það hvernig mismunun í garð kvenna innan dóms­kerf­isins hindrar konur í að fá rétt­vís­inni fram­gengt. Hún tjáði Amnesty Internati­onal í sept­ember 2013 að hún hafi sætt líkam­legu og andlegu ofbeldi af hálfu maka síns í mörg ár en með þeim tóku kynni þegar hún var aðeins 14 ára. Þegar henni var loks fært að leggja fram kæru um heim­il­sof­beldi tjáði dómari í málinu henni að þar sem hún sýndi engin merki um líkam­lega áverka samanber marbletti og kærði ekki ofbeldið samstundis gæti hann ekki tekið málið upp. Að sögn sendi dómarinn þess í stað Ölbu og mann hennar í ráðgjöf fyrir foreldra!

Heim­urinn getur ekki setið auðum höndum og horft á konur og stúlkur í El Salvador þjást og láta lífið í hundraða­tali.

Amnesty Internati­onal krefur stjórn­völd í El Salvador um að:

1.   Afglæpa­væða fóst­ur­eyð­ingar með því að nema úr gildi öll refsi­á­kvæði gegn konum og stúlkum sem leita fóst­ur­eyð­ingar og jafn­framt þau refsi­á­kvæði sem beinast gegn heil­brigð­is­starfs­fólki og öðrum sem fram­kvæma fóst­ur­eyð­ingar eða aðstoða konur og stúlkur við að verða sér úti um slíka þjón­ustu að gefnu samþykki.

2.   Leysa allar konur og stúlkur sem hafa leitað fóst­ur­eyð­ingar eða misst fóstur, tafar­laust og skil­yrð­is­laust úr haldi, þeirra á meðal konur og stúlkur sem hafa hlotið dóm fyrir morð af yfir­lögðu ráði og mann­dráp.

3.   Tryggja aðgengi að öruggum og löglegum fóst­ur­eyð­ingum fyrir allar konur og stúlkur að minnsta kosti í þeim tilvikum þegar þungun stofnar lífi eða heilsu konu eða stúlku í hættu, þegar ljóst er að utan­legs fóstur getur ekki lifað af og þegar þungun er afleiðing nauðg­unar eða sifja­spells.

4.   Tryggja aðgengi að upplýs­ingum um getn­að­ar­varnir og þjón­ustu og veita heild­stæða kynfræðslu.

5.   Innleiða að fullu löggjöf frá 2012 sem ætlað er að vernda konur gegn ofbeldi (2012 Special Integral Law for the Life Free from Violence for Women).

Hér má lesa skýrslu Amnesty Internati­onal.

 

Lestu einnig