Skýrslur
9. júlí 2024Víða í Evrópu á rétturinn til friðsamlegra samkoma undir högg að sækja þar sem ríki eru í auknum mæli að fordæma, glæpavæða og herja á friðsama mótmælendur með því að setja á óréttmætar takmarkanir með refsingum og beita kúgandi aðferðum til að kæfa niður andóf, segir í nýrri skýrslu Amnesty International „ Under-protected and over-restricted: The state of the right to protest in 21 countries in Europe”.
Skýrslan greinir frá réttinum til að mótmæla í 21 landi í Evrópu og þar kemur fram að víða um heimsálfuna er beitt kúgandi löggjöf, ónauðsynlegri eða óhóflegri valdbeitingu, geðþóttahandtökum og lögsóknum, óréttmætum takmörkunum sem mismuna ásamt auknu eftirliti sem skerðir réttinn til að mótmæla.
„Rannsókn Amnesty gefur óhugnanlega mynd um alla Evrópu af árásum sem beinast gegn réttinum til að mótmæla. Um alla heimsálfuna eru yfirvöld að ófrægja, hamla, fæla frá og refsa friðsömum mótmælendum.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International
Valdbeiting og eftirlit
„Friðsamleg mótmæli hafa í gegnum söguna gegnt mikilvægu hlutverki til að tryggja margvísleg réttindi og frelsi sem við tökum nú sem sjálfsögðum. Samt sem áður má finna víða um Evrópu kúgandi lög og stefnur ásamt beitingu óréttmætra aðferða og grimmilegrar eftirlitstækni sem skapa eitrað umhverfi sem ógnar friðsamlegum mótmælum og mótmælendum. Slík þróun ein og sér og í einu landi fyrir sig væri áhyggjuefni út af fyrir sig en þessi mikli fjöldi dæma um alla heimsálfuna er hreint út sagt ógnvænlegur.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International
Skýrslan greinir frá að algengt er að lögregla beiti friðsama mótmælendur óhóflegu og ónauðsynlegu valdi, meðal annars með beitingu skaðaminni vopna. Skráð hafa verið tilfelli um alvarlega og jafnvel varanlega áverka vegna valdbeitingar. Má þar nefna beinbrot og tannbrot (í Frakklandi, Þýskalandi, Grikklandi og Ítalíu), handamissir (í Frakklandi) og augnskaði og alvarlegir höfuðáverkar (á Spáni).
Í sumum löndum telst valdbeitingin til pyndinga og annarrar illrar meðferðar. Í Belgíu, Finnlandi, Frakklandi, Póllandi, Slóveníu, Serbíu, Sviss og á Ítalíu beitti lögregla óhóflegu valdi gegn börnum.
Ríki nota þróaða eftirlitstækni í auknum mæli til að herja á mótmælendur með fjöldaeftirliti og safna saman, greina og geyma upplýsingar. Mörg ríki hafa aukið heimildir á eftirliti með löggjöf án viðeigandi varnagla sem eykur líkur á umfangsmikilli misnotkun.
Aukin notkun andlitsgreiningar á sér stað í Evrópu. Hún er notuð í löggæslu í 11 löndum af þeim sem voru rannsökuð og sex lönd eru með áform um slíkt. Andlitsgreiningartækni til að bera kennsl á mótmælendur er handahófskennt fjöldaeftirlit og engir varnaglar hafa verið settir á notkun hennar til að koma í veg fyrir þann skaða sem hún getur valdið.
Amnesty International kallar eftir algjöru banni á slíkri tækni.
Skrímslavæðing
Skýrslan greinir frá þeirri óhugnanlegu stefnu yfirvalda að úthrópa mótmælendur í þeim tilgangi að gera lítið úr þeim og mótmælunum. Skaðleg orðræða yfirvalda í þessu 21 landi var algeng og var mótmælendum ýmist lýst sem „hryðjuverkafólki“, „glæpafólki“, „erlendum útsendurum“, „anarkistum“ og „öfgafólki“. Þessi neikvæða orðræða er notuð sem réttlæting fyrir takmarkandi lögum.
Orðræða háttsetts stjórnmálafólks þar sem mótmælendur eru skrímslavæddir hefur verið algeng í tengslum við mótmæli í samstöðu með palestínsku fólki. Í Bretlandi voru slík mótmæli kölluð „hatursgöngur“ af innanríkisráðherra og forsætisráðherra kallaði þátttakendur „glæpalýð“.
Í Slóveníu sagði þáverandi forsætisráðherra við mótmælendur árið 2021 „að fara aftur heim til sín þaðan sem þeir komu“ og árið 2023 hvöttu yfirvöld fylgjendur sína á Twitter (X) að taka myndir af mótmælendum þar sem þeir gætu verið „hryðjuverkafólk“.
Í Þýskalandi, Ítalíu, Spáni og Tyrklandi hafa loftslagsaðgerðasinnar verið kallaðir „hryðjuverkafólk“ eða „glæpafólk“ og herjað hefur verið á þá með því að beita ákvæðum gegn hryðjuverkum og lögum sem beinast gegn skipulögðum glæpum og vernda þjóðaröryggi.
Löggjöf gegn mótmælum
Víðs vegar um Evrópu virða ríki að vettugi alþjóðlegar skyldur sínar til að virða, vernda og greiða leið fyrir friðsamlegum samkomum, að fjarlægja allar hindranir fyrir mótmæli og að forðast óþarfa afskipti þegar kemur að því að nýta rétt sinn til friðsamlegrar samkomu.
Þrátt fyrir að öll löndin sem greint er frá í skýrslunni hafi fullgilt helstu mannréttindagerninga sem vernda réttinn til friðsamlegrar samkomu hafa mörg þeirra ekki enn innleitt ákvæðin í landslög. Einnig hafa verið sett á ný kúgandi lög, víðfeðmar takmarkanir og íþyngjandi skilyrði sem hafa leitt til sífellt fjandsamlegra umhverfis fyrir mótmæli.
Falskar ástæður á borð við „allsherjarreglu“ og „almannaöryggi“ sem notaðar eru til að banna eða takmarka verulega samstöðufundi með palestínsku fólki um heimsálfuna á síðustu mánuðum hlíta ekki helstu meginreglum um lögmæti, nauðsyn og hófsemi og ýta einnig undir kynþáttafordóma og staðalímyndir. Í nokkrum löndum hefur verið herjað á samstöðufundi með palestínsku fólki með því að banna ákveðin slagorð eða tákn. Slíku banni hefur oft verið framfylgt með valdbeitingu lögreglu.
Í mörgum löndum þurfa skipuleggjendur að láta yfirvöld vita af fyrirhuguðum mótmælum og eiga yfir höfði sér sektir eða refsiviðurlög. Reglur um tilkynningarskyldu eru hindrun á réttindum fólks og ríki beita þessum reglum oft án tilefnis og í trássi við alþjóðalög. Í fjórum löndum, Belgíu, Lúxemborg, Svíþjóð og Sviss ber skipuleggjendum mótmæla að sækja um leyfi til að mótmæla.
Misbrestur á að tilkynna um mótmæli eða sækja um leyfi hefur verið notaður sem ástæða til að kalla slík mótmæli ólögleg og ástæða þess að mótmæli séu leyst upp, að mótmælendur séu handteknir og að skipuleggjendur og mótmælendur sæti refsingum.
Í sumum löndum ber skipuleggjendum skylda til að tryggja öryggi og skipulag á mótmælunum, borga fyrir almannaþjónustu á borð við götuhreinsanir og öryggisþjónustu og þurfa jafnvel að bera ábyrgð á kostnaði sem þátttakendur í mótmælunum valda.
Í átta löndum eru mótmæli aldrei leyfð á ákveðnum svæðum eins og í nágrenni við byggingar ríkisstofnana, þinghús og annarra opinberra bygginga. Fjögur lönd banna mótmæli á ákveðnum tímum. Nokkur lönd hafa sett á takmarkanir sem tengjast ákveðnum viðfangsefnum mótmæla þar sem þeir sem brjóta reglurnar geta sætt sektum eða refsingum.
Herjað á borgaralega óhlýðni
Borgaraleg óhlýðni í tengslum við mótmæli nýtur einnig verndar, sé hún viðhöfð með friðsömum hætti. Hún felur í sér aðgerðir sem ætlaðar eru til að ná fram samfélagslegum breytingum, oft með þeim hætti að lög eru brotin af ásettu ráði.
Ríki eru í auknum mæli að kalla borgaralega óhlýðni „ógn“ við allsherjarreglu og þjóðaröryggi og bregðast við með harkalegum aðferðum.
Má þar nefna ónauðsynlega tvístrun mótmæla af hálfu lögreglu, óhóflega beitingu valds, handtökur á grundvelli óljósra laga, harðar ákærur og refsingar sem fela meðal annars í sér fangelsisvist.
Í Þýskalandi, Bretlandi og á Ítalíu eru ákvæði sem heimila að banna fólk inn á ákveðin svæði eða banna því þátttöku í ákveðnum aðgerðum, í sumum tilfellum jafnvel með handtöku, til að fyrirbyggja þátttöku þess í borgaralegri óhlýðni.
Hrollvekjandi áhrif og mismunun
Handahófskennt fjöldaeftirlit, harkaleg löggæsla, íþyngjandi kröfur og hættan á refsingu vekur ótta og dregur úr þátttöku á mótmælum.
„Fólk sem fer út á götur mætir í auknum mæli margvíslegum kúgandi takmörkunum, refsiviðurlögum, ríkisofbeldi, mismunun og útbreiddu eftirliti. Þrátt fyrir þessar árásir er fólk enn að mótmæla til að verja réttindi sem hafa náðst með harðri baráttu ásamt því að tryggja ný réttindi.“
Catrinel Motoc, herferðarstjóri hjá Evrópudeild Amnesty International.
Þessi hrollvekjandi áhrif hafa hlutfallslega meiri áhrif á hópa fólks úr jaðarsettum hópum og minnihlutahópum sem nú þegar eru í aukinni hættu á að sæta ofbeldi, misrétti, kynþáttamismunun og annars konar mismunun af hálfu yfirvalda. Þessir hópar mæta fleiri hindrunum í þátttöku og þar af leiðandi eru þeir líklegri að líða fyrir takmarkanir á mótmælum og bælingu þeirra.
Í mörgum löndum hafa hugmyndir sem yfirvöld hafa um skipuleggjendur, mótmælendur og málstað haft áhrif á hvaða takmarkanir eru settar á.
Takmarkanir voru meðal annars settar á samstöðufundi með hópum af ýmsum kynþáttum, hinsegin fólki, alþjóðlegum umsækjendum um vernd, farand- og flóttafólki. Þessar takmarkanir byggjast á staðalmyndum og sýna kerfisbundna fordóma.
Í Berlín, Þýskalandi, árin 2022 og 2023, voru stuðningsamkomur fyrir palestínska minningardaginn Nakba bannaðar í forvarnarskyni og byggði bannið á skaðlegum staðalmyndum um væntanlega þátttakendur sem lögreglan lýsti sem fólki með „tilhneigingu til ofbeldis“. Í Póllandi og Tyrklandi hefur hinsegin fólk fundið fyrir auknum takmörkunum sem byggjast á mismunun ásamt áralangri áreitni yfirvalda.
„Í stað þess að takmarka mótmæli og refsa fólki sem heldur út á götur þurfa ríki um alla Evrópu að endurhugsa nálgun sína. Greiða þarf leið fyrir mótmæli frekar en að þagga þau niður. Endurbæta þarf kúgandi lög sem hafa verið samþykkt til að samræma þau alþjóðlegum mannréttindaskyldum.“
Catrinel Motoc, herferðarstjóri hjá Evrópudeild Amnesty International.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu