Fréttir
19. apríl 2023Leyniþjónusta og öryggissveitir í Íran hafa beitt barnunga mótmælendur, allt niður í 12 ára, hrottafengnum pyndingum til að hindra þátttöku þeirra í mótmælum, meðal annars barsmíðum, svipuhöggum, rafstuði, nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi.
Rannsókn Amnesty International greinir frá ofbeldi gegn börnum í Íran sem voru handtekin á mótmælum eða í kjölfar þeirra en rúmlega sex mánuðir eru liðnir frá því að fordæmalaus mótmælaalda hófst í landinu í kjölfar dauða Möhsu (Zhina) Amini í varðhaldi. Rannsóknin dregur fram helstu pyndingaraðferðir ýmissa öryggissveita og leyniþjónustu í Íran sem beitt er gegn stúlkum og drengjum í varðhaldi til að refsa þeim og þvinga þau til „játningar“.
Óvægin herferð
Amnesty International hefur skrásett mál sjö barna af mikilli nákvæmni frá upphafi rannsóknar á óvæginni herferð íranskra stjórnvalda gegn mótmælendum. Rannsóknin er byggð á viðtölum við þolendur og fjölskyldur þeirra, auk vitnisburðar frá 19 sjónarvottum um víðtæka beitingu pyndinga gegn fjölda annarra barna. Á meðal sjónarvotta voru tveir lögfræðingar og 17 fullorðnir einstaklingar sem var haldið föngum ásamt börnum. Viðmælendur voru frá ýmsum héruðum, vítt og breitt um Íran, þeirra á meðal Austur-Azerbaíjan, Golestan, Kermanshah, Khorasan-e Razavi, Khuzestan, Lorestan, Mazandaran, Sistan og Baluchestan, Teheran og Zanjan.
„Fulltrúar ríkisins hafa rifið börn burt frá fjölskyldum sínum og beitt þau hrikalegri hörku. Það er óhugnanlegt að opinberir fulltrúar skuli beita valdi sínu gegn berskjölduðum og óttaslegnum börnum á glæpsamlegan hátt, sem veldur alvarlegum líkamlegum og andlegum meinum og fjölskyldum þeirra nístandi sársauka og angist. Þetta ofbeldi gegn börnum sýnir þaulhugsaða stefnu yfirvalda til að bæla niður kraftinn í æsku landsins og koma í veg fyrir að þau krefjist frelsis og mannréttinda.“
Diana Eltahawy, aðstoðarframkvæmdastjóri Amnesty International í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
„Yfirvöld verða tafarlaust að sleppa öllum börnum lausum sem eru í haldi fyrir það eitt að mótmæla friðsamlega. Engar horfur eru á að óhlutdræg rannsókn á pyndingum gegn börnum muni fara fram í Íran. Því skorum við á ríki heims að beita alþjóðlegri lögsögu til að draga fulltrúa ríkisins til ábyrgðar að meðtöldum þeim sem hafa skipunarvald og þá sem grunaðir eru um að bera ábyrgð á glæpum samkvæmt alþjóðalögum, eins og pyndingum gegn barnungum mótmælendum.“
Diana Eltahawy, aðstoðarframkvæmdastjóri Amnesty International í Miðausturlöndum og Norður-Afríku.
Amnesty International gefur ekki upp neinar upplýsingar sem geta auðkennt börnin eins og aldur þeirra og nöfn á þeim héruðum sem þau voru í haldi til að vernda þau og fjölskyldur þeirra gegn hefndaraðgerðum.
Fjöldi barna í haldi
Írönsk stjórnvöld hafa viðurkennt að heildarfjöldi einstaklinga sem hafa verið settir í varðhald í tengslum við mótmælin séu rúmlega 22 þúsund. Stjórnvöld hafa ekki gefið upp hversu mörg börn tilheyra þessum hópi en ríkisreknir fjölmiðlar hafa greint frá því að börn skipa stóran hóp á meðal mótmælenda. Amnesty International áætlar að þúsundir barna séu meðal þeirra sem stjórnvöld hafa handtekið, byggt á vitnisburði frá tugum einstaklinga í varðhaldi vítt og breitt um Íran ásamt þeirri staðreynd að ungt fólk og börn hafa leitt mótmælin.
Niðurstöður rannsóknar Amnesty International benda til þess að börn, eins og fullorðnir, hafi fyrst verið færð á varðhaldsstöðvar sem reknar eru af leyniþjónustu og öryggissveitum. Oftast er fólkið fært í varðhald með bundið fyrir augu. Í kjölfar nokkurra daga eða vikna varðhaldsvistar án samskipta við umheiminn og jafnvel án vitneskju aðstandenda voru þau loks færð í viðurkennt fangelsi. Óeinkennisklæddir fulltrúar ríkisins námu önnur börn á brott á götum úti á meðan á mótmælum stóð eða í kjölfar þeirra og fóru með þau í vöruhús þar sem þau voru pynduð áður en þau voru skilin eftir á afskekktum stöðum í þeim tilgangi að refsa, ógna og hindra þátttöku þeirra í mótmælum.
Mörg börn hafa verið í haldi með fullorðnum, sem stríðir gegn alþjóðlegum viðmiðum. Þau hafa einnig sætt pyndingum og illri meðferð. Fyrrum fangi á fullorðinsaldri tjáði Amnesty International að í einu héraði hafi fulltrúar Basij-hersins neytt nokkra drengi í röð með fullorðnum föngum til að standa gleiðir og þeim gefið rafstuð í kynfærin.
Flest börn sem hafa verið handtekin síðustu sex mánuði hefur verið sleppt úr haldi, stundum gegn tryggingu á meðan rannsókn stendur yfir eða málinu vísað til dómstóla. Mörgum var aðeins sleppt eftir að þau höfðu skrifað „iðrunarbréf“ og lofað að halda sig frá „pólitískum aðgerðum“ en látin taka þátt í kröfugöngum til stuðnings stjórnvöldum.
Áður en börnunum var sleppt úr haldi hótuðu erindrekar ríkisins oft að sækja þau til saka á grundvelli ákæra sem fela í sér dauðadóm eða að handtaka ættingja ef þau myndu leggja fram kvörtun.
Í a.m.k. tveimur tilfellum sem Amnesty International greindi frá lögðu fjölskyldur barna fram opinbera kvörtun til dómsmálayfirvalda, þrátt fyrir hótanir um hefndaraðgerðir, en hvorugt málanna var rannsakað.
Nauðgun og annað kynferðisofbeldi
Rannsókn Amnesty International sýndi einnig fram á að fulltrúar á vegum ríkisins beittu nauðgunum og öðru kynferðisofbeldi gegn börnum sem vopni til að refsa, niðurlægja og ná fram „játningu“. Má þar nefna rafstuð á kynfæri, káf á kynfærum og hótanir um nauðgun. Fjölmargir fullorðnir fangar, bæði konur og karlmenn, hafa greint frá þessum aðferðum.
Fulltrúar á vegum ríkisins hreyttu einnig kynferðislega vanvirðandi orðum til stúlkna í haldi og sökuðu þær um að vilja bera sig. Þær höfðu ekkert til saka unnið annað en að nýta sjálfsagðan rétt sinn til að mótmæla í þágu kvenna og stúlkna og andmæla þeirri lagalegu skyldu að ganga með höfuðslæður.
Móðir tjáði Amnesty International að fulltrúar ríkisins hafi nauðgað syni sínum með vatnsslöngu þegar hann sætti þvinguðu mannshvarfi (leynilegu varðhaldi á vegum yfirvalda). Hún sagði;
„Sonur minn tjáði mér þetta: ég var látinn hanga uppi þar til mér leið eins og handleggirnir mínir væru að rifna af. Ég var neyddur til að segja það sem þeir vildu þar sem að mér var nauðgað með vatnsslöngu. Gripið var í höndina mína og ég neyddur til að setja fingraför mín á pappír.“
Barsmíðar, svipuhögg, rafstuð og önnur ill meðferð
Öryggissveitir börðu börn iðulega við handtöku, í bifreiðum á milli staða og á varðhaldsmiðstöðvum. Svipuhögg, rafstuð með rafbyssum, þvinguð lyfjagjöf á óþekktum lyfjum og vatnspyndingar voru á meðal annarra pyndingaraðferða sem voru nefndar.
Í einu tilfelli voru nokkrir skóladrengir numdir á brott í kjölfar þess að hafa ritað slagorðið: „Konur, líf, frelsi“ á vegg. Ættingi sagði Amnesty International að óeinkennisklæddir menn hafi numið drengina á brott, farið með þá á óþekktan stað, pyndað þá og hótað að nauðga þeim og nokkrum klukkutímum síðar kastað þeim, hálf meðvitundarlausum, á afskekktan stað. Einn af þolendunum sagði eftirfarandi við umræddan ættingja:
„Okkur var gefið rafstuð, ég var barinn í andlitið með byssuskafti, mér gefið rafstuð í bakið og ég barinn í fæturna, bakið og hendurnar með kylfu. Okkur var hótað að ef við segðum frá þá yrðum [við settir aftur í varðhald], farið enn verr með okkur og fjölskyldum okkar afhent líkin okkar.“
Sálfræðilegar pyndingar
Þolendur og fjölskyldur þeirra greindu einnig frá því hvernig fulltrúar yfirvalda tóku börnin hálstaki, létu þau hanga á höndum eða á trefli sem var bundinn um háls þeirra og þvinguðu þau til að framkvæma niðurlægjandi gjörðir.
Einn drengur sagði eftirfarandi:
„Okkur var sagt að gefa frá okkur hænsnahljóð í hálftíma, svona lengi til að við myndum „verpa eggjum“. Við vorum þvinguð til að gera armbeygjur í klukkutíma. Ég var eina barnið þarna. Á annarri varðhaldsmiðstöð voru 30 einstaklingar saman í klefa sem rúmaði aðeins fimm einstaklinga.“
Fulltrúar ríkisins beittu einnig sálfræðilegum pyndingum eins og dauðahótunum til að refsa eða ógna börnunum eða til að þvinga þau til „játningar“. Ríkisfjölmiðlar hafa sýnt þvingaðar játningar a.m.k. tveggja drengja sem voru handteknir á mótmælum.
Móðir stúlku sem var handtekin af byltingarvörðum ríkisins sagði Amnesty International eftirfarandi:
„Hún var ásökuð um að brenna höfuðslæðu, móðga æðsta leiðtoga Íran og að vilja steypa af stóli [Íslamska lýðveldinu Íran], og var sagt að hún yrði dæmd til dauða. Henni var hótað svo hún segði ekki frá…Hún var þvinguð til skrifa undir og setja fingraför sín á skjöl. Hún er með martraðir og fer hvergi. Hún getur ekki einu sinni lesið námsbækur.“
Börnum var einnig haldið við grimmilegar og ómannúðlegar aðstæður. Þeim var meðal annars haldið án nægilegs matar eða drykkjarhæfs vatns, í miklum þrengslum, með lélegt aðgengi að salernis- og þvottaaðstöðu, í miklum kulda og langvarandi einangrunarvist. Stúlkum var haldið föngum af karlkyns öryggisvörðum án þess að tillit væri tekið til sérstakra þarfa þeirra á grundvelli kyns. Börnum var einnig meinað aðgengi að tilhlýðilegri læknisþjónustu m.a. vegna áverka sem þau hlutu í kjölfar pyndinga.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu