Fréttir
19. mars 2020Kína beitir kerfisbundnum ofsóknum gegn Úígúrum og öðrum múslimskum minnihlutahópum ekki bara innanlands heldur einnig í öðrum löndum samkvæmt vitnisburðum í rannsókn Amnesty International. Rannsóknin var birt í febrúar 2020 og er byggð á vitnisburðum þessara minnihlutahópa.
Amnesty International safnaði upplýsingum frá 400 Úígúrum, Kasökum, Úsbekum og öðrum múslimskum minnihlutahópum sem búa í 22 löndum í fimm heimsálfum frá tímabilinu september 2018 til september 2019. Í frásögnum þeirra kemur berlega í ljós ótti og ofsóknir sem þessi samfélög upplifa daglega. Kína hefur ofsótt þessa hópa um heim allan með því að beita þrýstingi frá sendiráðum sínum, í gegnum samskiptaforrit og með hótunum símleiðis.
„Jafnvel þó að Úígúrar og aðrir minnihlutahópar hafi náð að flýja ofsóknir í Xinjiang þá eru þeir ekki öruggir. Kínversk stjórnvöld reyna að finna leiðir til að hafa upp á þessum hópum, ógna þeim og á endanum er markmiðið að neyða einstaklinga til að snúa aftur heim þar sem þeirra bíða grimm örlög. Það er meðal annars gert með því að þrýsta á önnur stjórnvöld að vísa þeim úr landi.“
Patrik Poon, rannsakandi um Kína hjá Amnesty International.
Fjöldi Úígúra sem rætt var við sagði að yfirvöld i Xinjiang hafi herjað á fjölskyldumeðlimi til að þagga niður í þeim sem búa erlendis. Aðrir sögðu að kínversk yfirvöld hefðu notað samskiptaforrit til að hafa uppi á þeim og ógna. Vitnisburðir Úígúra sýna einnig hvernig sendiráð hafa verið notuð til að safna upplýsingum um þessa hópa í öðrum löndum.
Ofsóknir Kína gegn Úígúrum, Kasökum og öðrum minnihlutahópum í Xianjiang, sem hófust árið 2017 með fjöldahandtökum, eiga sér ekki fordæmi. Áætlað er að ein milljón einstaklinga hafi verið í haldi í svokölluðum endurmenntunarbúðum þar sem brotið var á mannréttindum þeirra.
Í síðasta mánuði var gögnum lekið til fjölmiðla frá kínverskum stjórnvöldum sem sýna að stjórnvöld söfnuðu persónulegum upplýsingum um fólk frá Xinjiang, eins og trúarlegum venjum þess og persónulegum samböndum, til að ákvarða hverja ætti að senda í endurmenntunarbúðir. Þessi gögn styðja við gögn Amnesty International.
Mikilvægt er að stjórnvöld annarra ríkja verndi fólk frá Xianjang sem býr í þeirra landi gegn ógnunum frá kínverskum sendiráðum og útsendurum og komi í veg fyrir að einstaklingar séu þvingaðir aftur til Kína.
Vitnisburðir um ofsóknir
Yunus Tohti
Yunus Tohti var nemandi í Egyptalandi þegar kínversk stjórnvöld höfðu samband við hann í gegnum WeChat. Hann var spurður hvenær hann myndi snúa aftur til Xinjiang og var skipað að gefa upp persónulegar upplýsingar eins og afrit af vegabréfi sínu. Yunus taldi sig ekki lengur vera öruggan og flúði frá Egyptalandi til Tyrklands og endaði svo í Hollandi. Nokkrum mánuðum síðar hringdi lögreglan í Xinjiang í eldri bróður hans sem var í Tyrklandi. Bróður hans var sagt að lögreglan væri hjá foreldrum hans og að hann ætti að snúa aftur til Xianjiang. Hann áleit þetta vera óbeina hótun gegn öryggi foreldra hans. Yunus Tohti hefur í kjölfarið misst samband við fjölskyldumeðlimi sína í Xinjiang og óttast að þeir hafi verið handteknir eða eitthvað þaðan af verra hafi komið fyrir.
Dilnur Enwer
Dilnur Enwer segist hafa fengið fjölmörg símtöl frá kínverska sendiráðinu og óþekktum einstaklingum síðan hún kom til Kanada í janúar 2019 þar sem hún sótti um alþjóðlega vernd. Dilnur óttast að fara í kínverska sendiráðið eins og hún var beðin um til að sækja skjöl sem voru sögð mikilvæg. Áður en hún missti allt samband við ættingja sína varaði einn ættingi hennar, sem gæti hafa heyrt upplýsingar frá lögreglunni í Xinjiang, við því að sendiráðið myndi reyna að góma hana í þeim tilgangi að senda aftur til Xinjiang ef hún færi ekki sjálfviljug til baka. Hún hefur ekki þorað að tala um varðhald foreldra sinna í apríl 2017 þar sem hún óttast um öryggi sitt eða ættingja sinna í Xinjiang.
Erkin (dulnefni)
Ekrin er Úígúri búsettur í Bandaríkjunum. Hann sagði Amnesty International að öryggisveitarmenn í Kína hefðu haft samband við hann í gegnum samskiptaforritið WhatsApp. Erkin fékk sent myndband af föður sínum sem bað hann um að vera samvinnuþýðan við öryggissveitarmennina til að foreldrar hans gætu fengið vegabréf og flust til Bandaríkjanna þar sem hann býr.
Sömu menn reyndu að mynda tengsl við hann með því að segjast vera vinir föður hans. Þeir sögðust geta skipulagt reglulegt spjall við ættingja hans í mynd ef hann væri samvinnuþýður. Erkin spurði hvað mennirnir vildu en þeir útskýrðu það ekki frekar. Hann hætti að svara þeim og eftir tvo daga var ekki lengur haft samband við hann.
Erkin hafði ekki fengið neinar upplýsingar um fjölskyldu sína þegar hann ræddi við Amnesty International í lok ágúst 2019.
Rushan Abbas
Rushan Abbas sagði Amnesty International að líf hennar hefði kollvarpast eftir að systir hennar Gulshan var numin á brott í Xinjiang í september 2018. Rushan er Úígúri og aðgerðasinni í Bandaríkjunum. Hún er framkvæmdastjóri þrýstihóps í Bandaríkjunum, Campaign for Uyghurs.
„Það líður ekki sá dagur sem ég hef ekki talað um þessi grimmdarverk.“
Rushan telur að systir hennar sem er læknir á eftirlaunum hafi verið handtekin nokkrum dögum eftir að Rushan hélt ræðu um fjöldahandtökur Úígúra í Xinjiang. Kínversk stjórnvöld hafa sakað hana um að vera aðskilnaðarsinni og dreifa óhróðri um varðhald Úígúra í Xinjiang.
„Þetta eru skipulagðar aðgerðir af hálfu yfirvalda í Peking til að þagga niður í mér og stöðva löglegar aðgerðir mínar í Bandaríkjunum.“
Ismayil Osman
Ismayil Osman greinir frá því hvernig var reynt að fá hann til að njósna um aðra Úígúra í Hollandi þar sem hann býr.
„Kínverskir lögreglumenn báðu bróður minn í Xinjiang um símanúmerið mitt. Í nóvember 2014 fór lögreglan til bróður míns og neyddi hann til að hringja í mig. Þeir tóku síðan við símanum og sögðu mér að ég þyrfti að njósna og veita upplýsingar um aðra Úígúra í Hollandi. Annars yrði bróðir minn numinn á brott.“
Vitnisburður Úígúra í rannsókn Amnesty International:
Um 1-1,6 milljónir Úígúra búa utan Kína. Flestir eru í Kasakstan, Kirgistan og Úsbekistan. Einnig má finna smærri samfélög Úígúra í öðrum löndum eins og Afganistan, Ástralíu, Belgíu, Kanada, Þýskalandi, Noregi, Rússlandi, Sádi-Arabíu, Hollandi, Tyrklandi og Bandaríkjunum.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu