Fréttir

13. júní 2017

Malaví: Mátt­vana rétt­ar­kerfi ýtir undir árásir á fólk með albín­isma

Alvar­legir brestir í rétt­ar­kerfi Malaví hafa síðustu sex mánuði ýtt undir nýja bylgju morða á og árása gegn fólki með albín­isma, viðkvæmum hópi sem nú er varn­ar­laus gagn­vart glæpa­gengjum, segir Amnesty Internati­onal en í dag er alþjóða­dagur vitundar um málefni albínóa.

Að minnsta kosti tveir einstak­lingar með albín­isma hafa verið myrtir síðan í janúar á þessu ári og þá hafa sjö einstak­lingar til viðbótar tilkynnt um tilraunir til mann­dráps og mann­ráns. Þetta er gríð­arleg breyting frá síðustu sex mánuðum ársins 2016 þegar engin slík tilvik voru tilkynnt til lögreglu.

„Þrátt fyrir hertari laga­setn­ingu, eins og umbætur í hegn­ing­ar­lög­gjöf Malaví, til að taka á árásum gegn fólki með albín­isma höfum við séð ógnvæn­lega aukn­ingu mann­drápa og árása gegn þessum viðkvæma hópi á árinu 2017,“ segir Deprose Muchena, svæð­is­stjóri Amnesty Internati­onal í Suður-Afríku.

„Þegar fram­gangur rétt­vís­innar er svona óbæri­lega hægvirkur, eins og sjá má í Malaví, og sagan sýnir að árásir á fólk með albín­isma eru enn óupp­lýstar skapar það andrúms­loft refsi­leysis og hvetur ódæð­is­menn þessara skelfi­legu glæpa áfram.“

Í skýrslu Amnesty Internati­onal frá júní 2016 sviptu samtökin hulunni af meðferð fólks með albín­isma, hvernig það var elt uppi og drepið eins og dýr fyrir líkams­hluta þess. Talið er að bein fólks með albín­isma séu seld galdra­læknum til notk­unar í lækn­ingum byggðum á rótgrónum hefðum í Malaví og Mósambík sem vernd­ar­gripir og í töfraseyði.

Morð á árinu 2017

Eins og áður segir hefur ný bylgja morða og árása gegn fólki með albín­isma riðið yfir Malaví það sem af er þessu ári, eftir sex rólegri mánuði síðari hluta síðasta árs.

Þann 28. febrúar síðast­liðinn fannst Mercy Zainabu Banda, 31 árs gömul kona með albín­isma, myrt í höfuð­borg­inni Lilongwe. Búið var að fjar­lægja annan hand­legg hennar, hægra brjóst og hár.
Þann 10. janúar síðast­liðinn var hinn 19 ára gamli Madalitso Pensulo myrtur eftir að honum var boðið í eftir­mið­dagskaffi til vinar síns í þorpinu Mlonda í Thyolo-héraði. Vegfar­andi heyrði öskur Pensulo en hann dó áður en lögregla kom á staðinn.

Aðrar árásir

Nýjasta mann­ránstil­fellið átti sér stað þann 28. maí síðast­liðinn þegar níu ára gömlum dreng, Mayeso Isaac, var rænt af hópi manna. Ránið átti sér stað í nágranna­landinu Mósambík þangað sem hann hafði ferðast til að heim­sækja ættingja. Yfir­völdum í bæði Malaví og Mósambík ber skylda til að tryggja það að rann­sókn á hvarfi Mayeso Isaac gangi hratt og örugg­lega fyrir sig.

Þann 9. mars síðast­liðinn slapp Gilbert Daire undan fjórum mönnum sem gerðu tilraun til að bora í gegnum útvegg á heimili hans í Lilongwe á meðan hann svaf. Menn­irnir flúðu vett­vang þegar nágrannar slógust í leikinn. Einn hinna grunuðu var hand­tekinn eftir að almennir borg­arar sögðu til hans en hann var síðar sýkn­aður fyrir dómi.

Í apríl slapp hinn tveggja ára gamli Misheck Samson frá mann­ránstilraun sem átti sér stað þegar hann svaf við hlið móður sinnar í þorpinu Cholwe í Ntchisi-héraði. Þrír menn voru hand­teknir fyrir áform um rán á drengnum. Þeir játuðu fyrir lögreglu að hafa viljað ræna Misheck Samson því þeir voru fjár­þurfi.
Þann 17. febrúar slapp hin 36 ára gamla Emily Kuliunde frá mann­ránstilraun í borg­inni Dowa þegar samborg­arar hennar hand­tóku meinta mann­ræn­ingja og fóru með til lögreglu. Hinir grunuðu sitja enn í varð­haldi.

Rétt­ar­kerfið bregst fólki með albín­isma

Lögreglan í Malaví hefur vald til að sækja til saka grunaða og sakfella glæpa­menn fyrir glæpi, hún líður hins vegar fjár­skort og mann­eklu og fær takmarkaða þjálfun. Fyrir vikið eru flest mál illa rann­sökuð og leiða sjaldan til sakfell­ingar. Meiri­hluti þeirra mála sem tengjast glæpum gegn fólki með albín­isma, þá sérstak­lega morðum, eru ekki tekin fyrir af dómstólum vegna fjár­skorts og vönt­unar á lögfræði­að­stoð fyrir hina grunuðu.

Í þeim málum sem eru tekin fyrir af dómstólum hafa glæpa­menn­irnir oft verið leystir úr haldi vegna galla á rann­sókn og skorts á lögmætum sönn­un­ar­gögnum.

„Eina leiðin til að stoppa þessi morð er að tryggja að farið sé eftir núgild­andi lögum landsins, að ákæru­valdið sé skil­virkt og að yfir­völd séu samstillt,“ segir Deprose Muchena.

„Fjölgun svívirði­legra árása gegn fólki með albín­isma sýnir að glæpa­gengi eru orðin ansi kokhraust og viss um að þau verði ekki hand­sömuð. Þau notfæra sér bresti rétt­ar­kerf­isins í Malaví. Yfir­völd verða að grípa til afdrátt­ar­lausra aðgerða til að binda enda á þessar árásir fyrir fullt og allt.“

Forsaga málsins

Að minnsta kosti 20 einstak­lingar með albín­isma hafa verið myrtir í Malaví síðan í nóvember 2014. Þar af hafa tveir einstak­lingar verið myrtir það sem af er þessu ári.

Samkvæmt mala­vísku lögregl­unni hafa að minnsta kosti 117 mál er tengjast glæpum gegn fólki með albín­isma verið tilkynnt síðan í nóvember 2014. Fólkið er skot­mark glæpa­gengja vegna líkams­parta þess en sumir trúa því að líkami fólks með albín­isma búi yfir töfrakrafti sem færir fólki heppni.

Á bilinu 7.000-10.000 einstak­lingar með albín­isma búa í Malaví.

Lestu einnig