Góðar fréttir
20. desember 2023Þrátt fyrir grafalvarlega stöðu mannréttinda víða um heim hefur það sannarlega sýnt sig að mannréttindabaráttan leiðir til jákvæðra breytinga. Sigrarnir eru margs konar. Breytingar eru gerðar á löggjöf sem bæta stöðu mannréttinda, einstaklingar sem eru ranglega fangelsaðir fá frelsi á ný og réttlæti nær fram að ganga. Hér má lesa um fjölmarga sigra frá seinni helmingi þessa árs, hvaðanæva að úr heiminum, sem ber að fagna.
Breyting á löggjöf
Taívan
Ágúst: Stjórnvöld samþykktu breytingu á löggjöf um kynferðisofbeldi. Lögin krefjast þess að þjónustuveitandi vefsíða takmarki vefráp eða fjarlægi efni sem tengjist kynferðisbrotum. Þessi breyting kemur í kjölfar #MeToo hreyfingarinnar og þrýstings frá Amnesty International í Taívan um að stöðva kynferðisofbeldi á netinu.
Bandaríkin
September: Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti stofnun nýrrar skrifstofu Hvíta hússins um forvarnir gegn ofbeldi af völdum skotvopna. Amnesty International í Bandaríkjunum hefur frá árinu 2018 kallað eftir stofnun slíkrar skrifstofu.
Austurríki
Október: Eftir tveggja ára viðræður innan austurrísku ríkisstjórnarinnar samþykkti hún lög sem varða aðgengi að upplýsingum. Amnesty International í Austurríki hefur stutt löggjöfina frá byrjun þrátt fyrir ákveðna veikleika. Lögin eru skref í átt að auknu gagnsæi yfirvalda og ríkisfyrirtækja.
Evrópa
Desember: Evrópusambandið náði samkomulagi um tímamótalöggjöf sem skikkar fyrirtæki með starfsemi innan Evrópusambandsríkja til að huga að umhverfis- og mannréttindavernd í allri starfsemi sinni. Löggjöfin gengur ekki jafn langt og Amnesty International lagði til en þrátt fyrir það er um að ræða mikilvægt skref þar sem fyrirtæki þurfa að taka ábyrgð á starfsemi sinni. Það opnar einnig nýja leið fyrir fólk til að leita réttar síns vegna skaða sem það hefur orðið fyrir vegna starfsemi fyrirtækja.
Argentína
Október: Þingið í Argentínu samþykkti svokallaða Olimpia-löggjöf sem leitast eftir því að fyrirbyggja kynbundið ofbeldi á netinu og draga gerendur til ábyrgðar. Amnesty International í Argentínu hefur um árabil kallað eftir því að þessi lög yrðu samþykkt og meðal annars gefið út skýrslu þar sem greint er frá því að þriðja hver kona í Argentínu hafi upplifað ofbeldi á netinu. Lögin eru nefnd eftir baráttukonunni Olimpiu Coral Melo sem hefur barist fyrir rými á netinu þar sem konur og stúlkur eru lausar við ofbeldi. Hún sagði Amnesty International í Argentínu:
„Ég er þolandi kynferðisofbeldis. Ég var á barmi þess að fremja sjálfsvíg. Ég fann fyrir sektarkennd en móðir mín studdi mig,“ Olimpia Coral Melo Amnesty International í Argentínu.
Börn og ungmenni
Suður-Afríka
Amnesty International í Suður-Afríku, með stuðningi frá kanadískum sjóði, kom á laggirnar verkefni sem kallast Digital Disruptors árið 2023 í þeim tilgangi að veita 15 ungum aðgerðasinnum þekkingu og verkfæri til að þróa herferðir með ungt fólk í fararbroddi. Hópurinn kallaði eftir því að sveitastjórn í Orange Farm, rétt fyrir utan Jóhannesarborg, innleiddi stefnu um kynbundið ofbeldi til að ná fram jákvæðum breytingum. Hættulegu svæði vegna glæpa og ofbeldis var umbreytt þannig að íbúar í nágrenninu finnast þeir nú vera öruggir til að nýta þetta svæði til að læra um og leita lausna á kynbundnu ofbeldi á svæðinu.
Paragvæ
Ágúst: Nefnd um börn og ungmenni í Paragvæ samþykkti verkefni til forvarnar og stuðnings börnum og unglingum sem eru þolendur kynferðisofbeldis. Þetta voru ein helstu tilmæli í skýrslu Amnesty International um kynferðisofbeldi og barnungar mæður í Paragvæ.
Mynd tekin í tengslum við herferð um kynbundið ofbeldi í Suður-Afríku.
Frelsun einstaklinga
Tyrkland
Júní: Taner Kılıç, formaður Amnesty International í Tyrklandi, İdil Eser, framkvæmdastjóri Amnesty International í Tyrklandi, Özlem Dalkıran og Günal Kurşun, baráttufólk fyrir mannréttindum, sem voru sakfelld í júlí 2020 á grundvelli tilhæfulausra ákæra voru loks sýknuð. Þá voru liðin sex ár frá handtöku Taner Kılıç. Hann sat 14 mánuði í fangelsi en hin þrjú sátu þrjá mánuði í fangelsi en þau voru handtekin nokkrum vikum eftir handtöku Taner Kılıç.
Rúanda
Júní: Elias Bizimungu, 33 ára fjölmiðlamaður og meðlimur í ungmennahreyfingunni LUCHA, var handtekinn við eftirlitsstöð hersins og færður í varðhald. Þetta átti sér stað í upphafi mótmæla gegn stuðningi Rúanda við uppreisnarhópinn M23. Réttað var yfir Elias Bizimungu og hann dæmdur í herrétti. Amnesty International kallaði eftir lausn hans og í kjölfarið var hann loks sýknaður af borg
Jemen
Júlí: Jemensku fjölmiðlamennirnir Mohammed al-Salahi og Mohammed al-Junaid voru leystir úr varðhaldi leyniþjónustu Huthi í Hodeidah í Jemen eftir næstum fimm ár á bak við lás og slá. Þeir sættu fjölmörgum mannréttindabrotum í varðhaldi þar á meðal þvinguðu mannshvarfi (í leynilegu haldi yfirvalda), pyndingum og annarri illri meðferð og var þeim neitað um aðgengi að lögfræðingi. Amnesty International hefur kallað eftir lausn þeirra frá 2018.
Víetnam
Júlí: Chau Van Kham, 73 ára ástralskur ríkisborgari og baráttumaður fyrir lýðræði í Víetnam, fékk að snúa aftur til Sydney sem frjáls maður. Hann var handtekinn í Víetnam árið 2019 við komu til landsins og dæmdur í 12 ára fangelsi fyrir að vera í stjórnmálaflokknum Viet Tan. Amnesty International í Ástralíu taldi Chau vera samviskufanga þar sem hann var handtekinn fyrir pólitískar skoðanir sínar.
Kína
Ágúst: Morrison Lee, taívanskur ríkisborgari, fékk loks að snúa aftur heim eftir að hann var ranglega ákærður fyrir að stofna þjóðaröryggi Kína í hættu. Hann var neyddur til að játa sök í sjónvarpi en það er algeng aðferð sem kínversk stjórnvöld beita gegn aðgerðasinnum og mannréttindalögfræðingum. Amnesty International í Taívan stóð fyrir herferð um lausn hans.
Tyrkland
September: Mücella Yapıcı og Hakan Altınay, bæði samviskufangar, voru leyst úr haldi í september eftir að sakfellingu þeirra var snúið við. Mücella og Hakan þökkuðu fyrir bréfin sem þau fengu frá stuðningsfólki Amnesty International á meðan þau voru í haldi. Þau standa frammi fyrir nýjum réttarhöldum á næsta ári. Þau voru hluti af sjömenningunum Fezi 7 og eru hinir fimm enn í haldi.
Sri Lanka
September: Ramsy Razeek, frá Sri Lanka, var í haldi í fimm mánuði árið 2020 fyrir gagnrýni í athugasemd á Facebook. Amnesty International kallaði á sínum tíma eftir lausn hans. Í september var mál hans loks fellt niður í hæstarétti sem komst að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið á grunnréttindum hans. Hæstiréttur fyrirskipaði ríkinu að borga honum skaðabætur.
Íran
September/október: Kambiz Kharout og Ebrahim Narouie, tveir karlmenn úr minnhlutahópnum Baluchi, voru sakfelldir og dæmdir til dauða í tengslum við uppreisn fyrir kvenréttindum árið 2022 í Íran. Þeir voru leystir úr haldi gegn tryggingu í kjölfar þess að sakfellingu þeirra var snúið við og dauðadómur felldur úr gildi af hæstarétti. Kambiz Kharout var leystur úr haldi í september og Ebrahim Narouie fékk frelsi í október. Amnesty International kallaði eftir því að dauðadómur þeirra og annarra einstaklinga yrði felldur úr gildi í byrjun árs 2023.
Afganistan
Október: Matiullah Wesa var leystur úr haldi þann 26. október eftir næstum sjö mánuði í fangelsi fyrir að berjast fyrir rétti stúlkna til menntunar og að gagnrýna stefnu talíbana um bann við framhaldsskólamenntun stúlkna. Amnesty International kallaði eftir lausn hans þar til hann var leystur úr haldi. Bróðir hans, Attaullah Wesa, samstofnandi og framkvæmdastjóri PenPath, samtaka sem vilja efla menntun stúlkna í Afganistan sagði eftirfarandi:
„Við erum þakklát fyrir Amnesty International og 10 milljónir stuðningsaðila sem stóðu með okkur. Samstaðan, stuðningurinn og þrýstingur frá Amnesty International og stuðningsfólki veitti okkur innblástur til að berjast fyrir lausn Wesa og við erum svo þakklát fyrir stuðninginn. Þó svo að dómsúrskurður talíbanska dómstólsins og sjö mánaða frelsissvipting Matiullah misbjóði okkar höldum við áfram að kalla eftir rétti stúlkna til menntunar í Afganistan.“
Sómalía
Október: Degi eftir að Amnesty International setti af stað skyndiaðgerð þar sem kallað var eftir lausn hans var sómalski fjölmiðlamaðurinn, Mohamed Ibrahim Osman Bulbul, leystur úr haldi gegn tryggingu í Mogadishu. Hann var handtekinn í ágúst fyrir fjölmiðlastörf sín. Stuttu síðar felldi dómstóll niður allar ákærur á hendur honum. Mohamed sagði í skilaboðum til Amnesty International:
„Ég vil þakka ykkur innilega fyrir stuðning ykkar og þrotlausa baráttu ykkar fyrir frelsi mínu. Skyndiaðgerð ykkar átti stóran þátt í að tryggja frelsi mitt. Ég er djúpt snortinn af samstöðu ykkar.ׅ“
Íran
Október: Fariba Adelkhah, frönsk-írönsk fræðikona, var handtekin í júní 2019 í Íran. Hún var leyst úr haldi og henni leyft að snúa aftur til Frakklands í október í kjölfar ákalls Amnesty International. Hún var dæmd í fimm ára fangelsi fyrir að „ógna þjóðaröryggi“ en hún hefur ávallt neitað sök. Þegar Fariba var leyst úr haldi þakkaði hún Amnesty International með þessum orðum:
„Núna er þessu lokið. Það sem situr eftir er sýnd vinátta og stuðningur við málstaðinn.”
Afganistan
Október: Mortaza Behboudi, 29 ára fransk-afganskur fjölmiðlamaður, var leystur úr haldi í október eftir að Amnesty International í Frakklandi tók málið hans upp. Eftir rúma níu mánuði í fangelsi sameinaðist hann fjölskyldu sinni á ný. Hann var sakaður um njósnir af talíbönum en mannréttindi hafa átt verulega undir högg að sækja frá því að þeir komust til valda þar í landi.
Indland
Nóvember: Varðhald án dómsúrskurðar yfir Sajad Gul, fjölmiðlamanni frá Kasmír, var gert ógilt eftir 22 mánuði í haldi. Honum var haldið af indverskum stjórnvöldum á grundvelli grimmilegrar löggjafar um almannaöryggi í Jammu og Kasmír.
Eþíópía
Nóvember: Háskólafyrirlesarinn Firew Bekele var leystur úr haldi eftir þriggja mánaða varðhald vegna meints gruns um að hafa tekið þátt í að skrifa og gefa út bókina Byltingin sem var yfirtekin ( e. The Highjacked Revolution). Hann var samviskufangi sem hefði aldrei átt að vera í haldi. Amnesty International setti af stað skyndiaðgerð vegna máls Firew Bekele og í kjölfarið heimsótti Eþíópíska mannréttindanefndin hann í fangelsi og kallaði eftir tafarlausri lausn hans.
Filippseyjar
Nóvember: Þingkonan Leila de Lima var leyst úr haldi gegn tryggingu þann 13. nóvember í kjölfar úrskurðar dómstóls. Henni var haldið að geðþótta í nærri sjö ár. Hún var ákærð fyrir brot sem tengdust vímuefnum en Amnesty International og önnur alþjóðleg og innlend samtök hafa ítrekað haldið því fram að þessar ákærur væru ekki á rökum reistar og um tilbúning væri að ræða.
Amnesty International hefur unnið að málinu frá handtöku hennar árið 2017 og fagnar þessari jákvæðu þróun. Samtökin kalla eftir því að málinu verði vísað frá og þeir aðilar sem standa að baki geðþóttavarðhaldi hennar og annarra brota gegn henni verði dregnir til ábyrgðar í sanngjörnum réttarhöldum.
Réttlæti
Sýrland
Júní: Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna setti á laggirnar sjálfstæða og alþjóðlega stofnun til að fá staðsetningu og skýringu á hvarfi tugþúsunda einstaklinga af hálfu stjórnvalda í Sýrlandi. Fjölskyldur og aðstandendur eiga þá auðveldara með að skrá mál er varða ástvini þeirra til að fá langþráð svör um hvað kom fyrir þá. Amnesty International studdi fjölskyldur og þolendur sem hafa verið leiðandi í baráttu fyrir slíkri stofnun með því að greiða fyrir fundum við aðildarríki til að kalla eftir stuðningi.
Suður-Afríka
Júlí: Fyrr á þessu ári var samþykkt að Amnesty International í Suður-Afríku yrði sérfróður aðili í dómsmáli um handtökuskipan á hendur Vladimir Putin, forseta Rússland, ef hann skyldi mæta á leiðtogafund BRICS (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka) í Suður Afríku. Áður en málið fór fyrir rétt kom tilkynning um að Putin forseti myndi ekki mæta á fundinn. Í kjölfarið samþykkti dómstóllinn handtökuskipan á hendur honum skyldi hann mæta. Þetta var stór sigur fyrir réttlæti og ábyrgð og málaferlin sýndu mátt Amnesty International.
Frakkland
Ágúst: Mannréttindadómstóll Evrópu komst að niðurstöðu í máli 261 einstaklings í vændi gegn Frakklandi. Vændisfólkið, bæði konur og karlmenn frá 20 löndum sem búa í Frakklandi, töldu að brotið væri á rétti þeirra samkvæmt 2., 3. og 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu þar sem vændi væri ólöglegt í Frakklandi. Dómstóllinn taldi málið eiga rétt á sér og viðurkenndi að kærendur ættu möguleika sem brotaþolar. Þetta er jákvætt fyrsta skref. Í niðurstöðum dómstólsins var vísað í sex vitnisburði frá vændisfólki og er það mikilvægt til að sljá þessum hópi rödd. Amnesty International kom að dómsmálinu sem sérfróður aðili.
Ítalía
Ágúst: Séra Franco Reverberi var framseldur til Argentínu eftir áralangan þrýsting frá Amnesty International á Ítalíu. Hann verður loks færður fyrir dóm fyrir glæpi gegn mannúð sem áttu sér stað í einræðistíð argentíska hersins á árunum 1976 til 1983. Reverberi dvaldi á Ítalíu til að forðast argentíska dómstóla og var það honum til hagsbóta að ítalska réttarkerfið neitaði að framselja hann. Amnesty International spilaði einnig stórt hlutverk í því að tryggja að pyndingar yrðu hluti hegningarlaga Ítalíu.
Nígería
Október: Amnesty International gaf út skýrslu um reynslu eldra fólks af átökum í norðausturhluta Nígeríu í desember 2020. Þar er greint frá því hversu hátt hlutfall eldra fólks verður fyrir áhrifum átakanna og að það sé ítrekað litið fram hjá því þegar kemur að mannúðaraðstoð.
Amnesty International kallaði einnig eftir því að Nígería fullgilti bókun til verndar réttindum eldra fólks. Stjórnvöld í Nígeríu hlustuðu á Amnesty International og fullgiltu bókunina. Það er stór sigur fyrir eldra fólk í landinu og mikilvægt skref til verndar mannréttinda þess.
Eldri maður selur mat á markaði í norðausturhluta Nígeríu.
Súdan
Október: Amnesty International, í samstarfi við önnur samtök, þrýsti á mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna að grípa til aðgerða gegn refsileysi í Súdan. Mannréttindaráðið samþykkti ályktun um að setja á laggirnar sendinefnd til að safna gögnum um Súdan. Markmiðið er að rannsaka og safna sönnunargögnum um kringumstæður og rót vandans á meintum mannréttindabrotum og brotum á alþjóðlegum mannúðarlögum, þar með talið brotum gegn flóttafólki og glæpum í tengslum við vopnuð átök. Þetta er lítill sigur í átt að réttlæti í Súdan.
Alþjóðlegt
Nóvember: Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti ályktun um að þróa alþjóðlegan samning um skattamál. Þetta er sögulegt skref í átt að alþjóðlegu skattkerfi sem eykur sanngirni fyrir alla einstaklinga. Þessi samningur veitir ríkjum tækifæri til þátttöku í alþjóðlegri stefnu um skattamál á sama tíma og það hjálpar til við að vernda þeirra eigin rétt til að skattleggja. Amnesty International hefur verið virkur aðili í borgaralegu samstarfi um að þrýsta á ríki að styðja við sanngjarnari stefnu um alþjóðlega skatta sem tekur tillit til allra einstaklinga. Amnesty International heldur áfram að taka þátt í þróun samningsins til að tryggja ríki geti sinnt mannréttindaskyldum sínum.
Kambódía
Nóvember: Skýrsla Amnesty International um þvingaða brottflutninga í Kambódíu á UNESCO-heimsminjasvæðinu Angkor Wat kom út í nóvember í kjölfar átta mánaða rannsóknarvinnu.
Daginn eftir útgáfu skýrslunnar lýsti UNESCO yfir áhyggjum sínum vegna rannsóknar Amnesty International og hefur flýtt frestinum sem kambódísk yfirvöld hafði til að gefa út skýrslu um Angkor Wat. Yfirvöld í Kambódíu neita að viðurkenna að um þvingaða brottflutninga sé að ræða en hafa boðið Amnesty International til landsins til að ræða stöðuna betur sem samtökin hafa þegið.
Lettland
Nóvember: Lettland fullgilti Istanbúl-samninginn, alþjóðlegan samning um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, í kjölfar áralangs þrýstings frá Amnesty International.
Málefni hinsegin fólks og menntun
Hong Kong
September: Dómstóll í Hong Kong úrskurðaði að stjórnvöldum bæri skylda til að koma með lagaramma um viðurkenningu á samkynhneigðum samböndum innan tveggja ára. Jimmy Sham, baráttumaður fyrir réttindum hinsegin fólks, hefur reynt frá árinu 2018 að fá viðurkenningu í Hong Kong á hjónabandi sínu sem var staðfest erlendis. Þetta var ákveðinn sigur þrátt fyrir að dómstóll hafi ekki samþykkt tvö önnur atriði í dómsmáli hans.
Nóvember og desember: Nepal viðurkenndi hjónaband samkynhneigðs fólks og fyrsta hinsegin hjónabandið var skráð af yfirvöldum í nóvember. Nepal var annar staðurinn til að viðurkenna þennan rétt í Asíu á eftir Taívan. Í desember var lagt fram frumvarp á þinginu í Tælandi um lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra og gæti því orðið þriðji staðurinn í Asíu til að viðurkenna þennan rétt.
Evrópuráðið
Nóvember: Eftir tveggja ára samtal við Amnesty International fylgdi Evrópuráðið tilmælum Amnesty International og gerði umbætur á vegvísi um mannréttindafræðslu fyrir ungt fólk 2024-2028. Tillaga Amnesty International um að gera mannréttindafræðslu staðbundna gegnir nú í lykilhlutverki. Markmiðið er að mannréttindafræðsla verði bæði aðgengilegri fyrir ungmenni og að þau tengi betur við hana.
Tækni
Alþjóðlegt
Október: Tækniteymi Amnesty International, í samstarfi við European Investigative Collaboration, gaf út tvær skýrslur um aukningu á eftirlitstækni og að Evrópusambandið og stjórnvöld hafi brugðist því að setja regluverk á iðnaðinn. Skýrslan, The Predator Files, beindi ljósum sínum meðal annars á njósnabúnaðinn Predator.
Frá útgáfu skýrslunnar hafa sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna og þingmenn Evrópusambandsins tekið undir ákall Amnesty International og kallað eftir frekari rannsóknum, strangari reglum um útflutning og alþjóðlegu banni á ágengum njósnabúnaði.
Við þökkum kærlega fyrir stuðninginn á árinu 2023!
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu