Viðburðir

23. september 2025

Marg­verð­launuð sýrlensk kvik­mynda­gerð­ar­kona á RIFF

Marg­verð­launuð sýrlensk heim­ild­ar­mynda­gerð­ar­kona, aðgerðasinni og rann­sak­andi, Lina, verður gestur Íslands­deildar Amnesty Internati­onal dagana 27. sept­ember til 1. október á RIFF alþjóð­legu kvik­mynda­há­tíð­inni í Reykjavík. Hin rómaða heim­ild­ar­mynd hennar 5 Seasons of Revolution verður sýnd á hátíð­inni þriðju­daginn 30. sept­ember kl. 19:10 í Háskólabíó, sal 2. Að henni lokinni verða pall­borð­sum­ræður og spurn­ingum svarað úr sal.

Pallborðsumræður

Katrín Jakobs­dóttir fyrrum forsæt­is­ráð­herra stýrir umræð­unum en ásamt Linu munu Þórir Jónsson Hraundal, aðstoðar­pró­fessor við Háskóla Íslands sem kennt hefur sögu Mið-Aust­ur­landa, og Magnea Marinós­dóttir, alþjóða­stjórn­mála­fræð­ingur og sérfræð­ingur í jafn­rétt­is­málum, taka þátt í pall­borð­sum­ræðum. Í umræð­unum verður kafað ofan í þau samfé­lagsmál sem tengjast mynd­inni.

Umræð­urnar tilheyra því sem kallast Samræður til áhrifa á hátíð­inni sem er röð ítar­legra og óform­legra samtala í kjölfar sýninga á kvik­myndum í flokknum Önnur framtíð. Kvik­mynda­gerð­ar­fólk, sérfræð­ingar úr íslensku samfé­lagi og áhorf­endur ræða þau umhverfis- og samfé­lagsmál sem kvik­mynd­irnar varpa ljósi á til að dýpka umræðuna og velta fyrir sér hlut­verki kvik­mynda sem verk­færi fyrir samfé­lags­legar breyt­ingar.

5 Seasons of Revolution

Myndin 5 Seasons of Revolution er bæði djörf frásögn um umbrota­tíma í Sýrlandi og áleitin saga af ungri konu sem nauð­beygð verður sögu­maður um eigin örlög.

Heim­ild­ar­myndin er áhrifa­mikil frásögn um andstöðu, erfiða lífs­bar­áttu og vináttu á tímum sýrlensku bylt­ing­ar­innar sem hófst árið 2011. Hún spannar heilan áratug og er sögð frá sjón­ar­horni ungrar konu á þrítugs­aldri sem fór huldu höfði til að kvik­mynda sögu­lega atburði í heimalandi sínu og notaði m.a. nokkur dulnefni til að fela slóð sína og forðast ofsóknir stjórn­valda.

Við upphaf bylt­ing­ar­innar þegar frið­samleg mótmæli gegn stjórn­völdum brutust út í höfuð­borg­inni Damaskus hóf Lina að skrá­setja þau en þegar bylt­ingin þróaðist yfir í blóðug átök fór Lina í felur.

Myndin sameinar persónu­legar frásagnir og mynd­efni sem Linu tókst hetju­lega að smygla frá Sýrlandi þegar hún neyddist til að flýja. Rakin eru örlög Linu sjálfrar og vina hennar þegar þau dragast inn í bylt­inguna og baráttuna fyrir frelsi. Það reyndi mjög á vináttu­tengsl þeirra vegna aðskiln­aðar og varð­haldsvist­unar sem þau sættu öll.

Þróun myndarinnar

Lina var sjálf hand­tekin og haldið fang­inni í Aleppo þaðan sem hún slapp naum­lega eftir að hún varð vitni að ólýs­an­legri þján­ingu og pynd­ingum. Lina er því á sama tíma kvik­mynda­gerð­ar­kona og viðfang mynd­ar­innar, þar sem hún reynir að lifa af og leita að skýr­leika mitt í óreið­unni. Útkoman er ekki aðeins póli­tísk frásögn heldur einnig djúp, mannleg saga um vináttu, seiglu og innri baráttu um að vera trúr sjálfum sér á erfiðum átaka­tímum.

Lina lítur til baka á þennan tíma og segir:

Þegar ég byrjaði að kvik­mynda var markmið mitt að vinna hlut­læga fjöl­miðl­a­rann­sókn á þróun bylt­ing­ar­innar í Sýrlandi en með tímanum varð þetta mjög persónu­legt verk­efni sem snerist æ meira um mitt eigið líf og vina minna.“

Hlut­verk kvenna í bylt­ing­unni er einnig mjög miðlægt í mynd­inni.

Lina útskýrir: Upphaf­lega vildi ég skrá­setja þátt­töku kvenna í bylt­ing­unni til að koma í veg fyrir að sá þáttur hyrfi úr sögunni. Mótmælin stóðu yfir í vikur en urðu síðan að mánuðum og árum. Smám saman áttaði ég mig á því að ég var bæði orðin kvik­mynda­gerð­ar­kona og viðfang eigin myndar.

Eftir því sem mynd­inni fleygir fram verður hún ekki einungis vitn­is­burður um ósagða sögu Sýrlands heldur einnig um styrk venju­legs fólks sem býr við óvenju­legar aðstæður.

Í dag get ég boðið upp á sanna sögu sem hefur aldrei verið sögð áður, sögu okkar, hinna menntuðu ungu kvenna í Damaskus, sem neituðu að vera hljóðar undir járnhæl stjórn­valda,“ segir Lina.

Nánari upplýsingar

Lina fæddist í Damaskus árið 1983 en er nú búsett á Spáni þar sem hún stundar doktorsnám og starfar hjá alþjóð­lega marg­miðl­un­ar­fyr­ir­tækinu SyriaUntold. Hún hefur skapað sér farsælan feril við heim­ilda­mynda­gerð og sem fjöl­miðla­kona þar sem hún á að baki 20 ára reynslu af hljóð- og mynd­miðlun. Kvik­myndir hennar hafa verða sýndar á virtum alþjóð­legum kvik­mynda­há­tíðum á borð við Sund­ance, Visions du Réel og DMZ Docs og verk hennar hafa einnig verið tekin til sýningar hjá alþjóð­legum fjöl­miðlum eins og BBC, Channel 4 og MBC.

Lina hefur hlotið alþjóð­lega viður­kenn­ingu og verð­laun fyrir myndina 5 Seasons of Revolution. Hún þótti sýna einstaka hæfi­leika til að miðla aðkallandi og mann­legum sögum mitt í hörmu­legum aðstæðum.

Heim­ild­ar­myndin 5 Seasons of Revolution tilheyrir flokknum Önnur framtíð á RIFF kvik­mynda­há­tíð­inni.

Önnur framtíð er vett­vangur fyrir kvik­myndir sem ögra samtím­anum og ímynda sér betri framtíð. Í þessum flokki koma saman öflugar myndir sem takast á við umhverfis- og mann­úð­armál, sögur sem ekki aðeins vekja spurn­ingar heldur ýta okkur í átt að lausnum. Því stundum getur ein kvik­mynd breytt sýn áhorf­andans og mótað veröld morg­undagsins.

5 Seasons of Revolution er fram­leidd af No Nation Films. Óskar­s­verð­launa­hafinn Laura Poitras er aðal­fram­leið­andi mynd­ar­innar.

Lestu einnig