Fréttir

19. mars 2024

Rúss­land verður að afnema ritskoð­un­arlög sem kæfa andóf

Um langa hríð hefur verið lítið svigrúm fyrir frið­samleg mótmæli og tján­ing­ar­frelsi í Rússlandi en í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu hefur það í raun horfið með öllu. Viku eftir innrásina, í febrúar 2022, innleiddu rúss­nesk stjórn­völd ritskoð­un­arlög í þeim tilgangi að brjóta á bak aftur mótmæli gegn innrás­inni og stríðinu. Tveimur árum síðar afplánar fjöldi fólks áralanga fang­els­is­dóma fyrir frið­sam­legt andóf gegn stríðinu.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal tekur nú þátt í alþjóð­legri herferð samtak­anna til að vekja athygli á umræddum ritskoð­un­ar­lögum og þeim mann­rétt­inda­brotum sem af þeim hlýst í Rússlandi.

Hvert er vandamálið?

Það er refsi­vert „að dreifa fals­fréttum“ og „að koma óorði á rúss­neskan herafla“ (greinar 207.3 og 280.3 í hegn­ing­ar­lögum) í tengslum við stríðs­rekstur Rúss­lands í Úkraínu, samkvæmt rúss­nesku ritskoð­un­ar­lög­unum. Viðurlög geta varðað allt að 15 ára fang­elsi.

Lögin miða að því að þagga niður í öllum andófs­röddum gegn stríðinu. Áhrifin eru raun­veruleg og skelfileg. Lista­fólk, fjöl­miðla­fólk og fólk úr ýmsum öðrum starfs­stéttum hafa hlotið margra ára fang­elsi­dóma fyrir það eitt að sýna hugrekki og tala frið­sam­lega gegn  stríðinu, hvort sem það er á samfé­lags­miðlum eða með öðrum hætti. Sögur þessa fólks eru hrópleg áminning um hversu brýnt er að grípa til aðgerða.

Lista­konan Aleks­andra Skochi­lenko hlaut sjö ára fang­els­isdóm fyrir að skipta út verð­miðum fyrir skilaboð gegn stríðinu í stór­markaði í Sankti-Péturs­borg . Lögregla handtók Alek­söndru snemma morguns hinn 11. apríl 2022 og var hún síðar ákærð fyrir „að dreifa  fals­fréttum“ um beit­ingu herafla Rúss­lands. Aleks­andra situr nú á bak við lás og slá á fanga­ný­lendu í Rússlandi við skelfi­legar aðstæður og heilsu hennar hrakar ört.

Dmitry Skurikhin er versl­un­ar­eig­andi og aðgerð­arsinni frá Leningradskaya í norð­vest­ur­hluta Rúss­lands. Í ágúst árið 2022 útbjó Dmitry skilti með áletr­un­inni: „Rúss­land, vaknið! Stöðvið þessa vitfirrtu, fölsku, fyrir­lit­legu, skamm­ar­legu hern­að­ar­að­gerð!“ og hengdi upp fyrir framan verslun sína. Síðar birti hann mynd af skiltinu á samskiptamiðl­in­um­Tel­egram. Dmitry hélt einnig á vegg­spjaldi með áletr­un­inni: „Fyrir­gefið Úkraína“, sem dóttir hans Ulyana tók mynd af og sendi á fjöl­miðla í tilefni þess að ár var liðið frá innrás Rúss­lands í Úkraínu þann 24. febrúar 2023. Hann hlaut 18 mánaða dóm á fanga­ný­lendu í Rússlandi fyrir „að koma óorði á herafla Rúss­lands“.

Fjöl­miðla­konan og móðir tveggja barna, Maria Ponom­ar­enko, afplánar sex ára fang­els­isdóm fyrir að deila skila­boðum á samskiptamiðl­inum Telegram um sprengju­árás Rússa á leikhús í Mariupol í Úkraínu. Hún hefur sætt illri meðferð í fang­elsi og henni er refsað með einangr­un­ar­vist fyrir engar sakir. Geðheilsu hennar fer sífellt hrak­andi og ekki er langt síðan hún reyndi að fremja sjálfsvíg innan veggja fang­els­isins.

Krefjumst réttlætis og frelsis

Birt­ing­ar­mynd ritskoð­un­ar­laga um hernað í Rússlandi er grimmileg. Fjöldi annarra einstak­linga, vítt og breitt um Rúss­land, hafa verið fang­els­aðir fyrir frið­samleg mótmæli gegn stríðinu. Samkvæmt Amnesty Internati­onal hafa rúmlega 20.000 einstak­lingar verið sóttir til saka fyrir andóf sitt frá upphafi stríðsins.

Þrátt fyrir harðar refs­ingar heldur fólk áfram að mótmæla stríðinu í Úkraínu. Stjórn­völd í Rússlandi eru aftur á móti ákveðin í að berja allt andóf niður að fullu. Árið 2023 jókst bæði fjöldi og tíma­lengd fang­els­is­dóma fyrir samfé­lags­miðla­færslur gegn stríðinu en meðal­lengd fang­els­is­dóma fyrir slíkar færslur er 64 mánuðir.  Árið 2024 samþykkti rúss­neska þingið jafn­framt að leyfa upptöku á eignum þeirra sem sæta ákæru á grund­velli ritskoð­un­ar­lag­anna.

Rúss­nesku ritskoð­un­ar­lögin brjóta gegn mann­rétt­indum. Rúss­land verður að afnema þessi ósann­gjörnu og grimmi­legu lög án tafar og leysa öll þau úr haldi sem eru fang­elsuð fyrir að tjá skoð­anir sínar frið­sam­lega gegn stríðinu.

Sýnum fólki í Rússlandi samstöðu sem hefur þor til að mótmæla stríðinu gegn Úkraínu og nýta rétt sinn til tján­ingar. Taktu þátt í herferð Íslands­deildar Amnesty Internati­onal og skrifaðu undir ákall um að afnema ritskoð­un­ar­lögin í Rússlandi og frelsa fólk sem er í haldi á grund­velli þeirra. Minnum þannig  vald­hafa í Rússlandi á að ekki megi skerða tján­ing­ar­frelsið og réttinn til frið­sam­legra funda­halda.

Undir­skrift þín sendir sterk skilaboð: heim­urinn fylgist með og við stöndum með öllum sem þora að láta rödd sína heyrast. Samtaka­máttur hefur áhrif.

Hægt er að skrifa undir ákallið hér.

Lestu einnig