Fréttir
19. mars 2021Í næstum fjögur ár hefur líf foreldra sem eru Úígúrar og starfa eða stunda nám erlendis verið martröð. Mörg þeirra hafa skilið eftir eitt eða fleiri börn í umsjá fjölskyldu sinnar á heimaslóðum í norðvesturhluta Kína í Xinjiang, sjálfstæðu svæði Úígúra.Í áratugi hafa Úígúrar orðið fyrir kerfisbundinni mismunun vegna uppruna og trúar.
Árið 2014 var eftirlit aukið og lögreglumönnum fjölgað á svæðinu. Þetta var hluti af opinberri herferð Kína: „stríð fólksins gegn hryðjuverkum“ til að berjast gegn „ofstækistrú“. Árið 2016 jukust eftirlit og samfélagslegar takmarkanir enn frekar.
Versnandi ástand
Árið 2017 varð ástandið á svæðinu hræðilegt fyrir Úígúra, Kasaka og aðra múslímska minnihlutahópa. Síðan þá er talið að lágmark milljón einstaklinga hefur verið handtekin og færð í svokallaðar „endurmenntunar- og þjálfunarbúðir“ í Xianjiang þar sem fólk er pyndað og sætir illri meðferð. Það sætir meðal annars pólitískri innrætingu og þvingaðri menningarlegri aðlögun.
Margir foreldrar héldu í fyrstu að þessi aðför yrði aðeins tímabundin og að þeir gætu fljótt snúið aftur heim til barna sinna. Vinir og ættingjar vöruðu foreldra við því að það væri nánast öruggt að þeir myndu vera færðir í fangabúðir við komuna aftur til Kína til og að hver sem er sem tilheyrir múslímskum minnihlutahópi geti verið handtekinn að geðþótta. Í fyrstu gátu foreldrar verið í sambandi við börnin sín en það hætti um leið og ættingjar sem voru með börnin í sinni umsjá voru handteknir eða sendir í fangabúðir.
Það er mjög erfitt að áætla tölur yfir fjölda barna sem hafa verið aðskilin frá foreldrum sínum vegna ástandsins. Það er gífurlega erfitt að skrá umfang mannréttindabrota í Xinjiang vegna skorts á opinberum gögnum og ferðatakmarkana til svæðisins.
Amnesty International ræddi ítarlega við sex foreldra sem bjuggu í Ástralíu, Kanada, Ítalíu, Hollandi og Tyrklandi og eru aðskilin frá börnum sínum. Úígúrar búsettir erlendis eru oft hikandi að ræða opinberlega um mannréttindabrot gegn þeim og ættingjum þeirra vegna þess að þeir óttast að það gæti bitnað á ættingjum þeirra í Kína. Þrátt fyrir þessar hættur ákváðu þessir foreldrar að deila sögu sinni opinberlega í von um að það geti orðið til þess að þeir fái að sameinast börnum sínum á ný.
Skrifaðu undir ákall um að foreldrar fái að sameinast börnum sínum á ný hér.
Saga 1: Aðskilin 1.595 daga frá dætrum sínum og þeim fer fjölgandi
Omer Faruh á bókabúð í Istanbúl. Hann var í Sádi-Arabíu í nóvember 2016 þegar eiginkona hans, Meryem Faruh, hringdi í hann og sagði að lögreglan hefði skipað henni að afhenda öll vegabréf fjölskyldunnar. Omer varð áhyggjufullur og bað hana um láta ekki af hendi vegabréfin til lögreglu og keypti strax flugmiða fyrir eiginkonu sína og tvær elstu dætur þeirra sem áttu vegabréf.
Tvær yngstu dætur þeirra, fimm og sex ára, voru þó enn ekki komnar með vegabréf. Þau ákváðu því að þau hefðu ekki annað val en að skilja þær eftir á heimili foreldra Meryem.
Stuttu síðar missti Omer samband við sína foreldra. Í október 2017 komst hann að því í gegnum vin sinn að tengdaforeldrar hans höfðu verið sendir í fangabúðir.
Klökkur sagði Omer Amnesty International: „Ég er einn af þúsundum Úígúra sem hefur upplifað fjölskyldusundrungu . Við höfum ekki heyrt raddir dætra okkar í 1594 daga. Við eiginkona mín grátum aðeins á nóttunni til að fela sorg okkar frá börnunum sem eru hjá okkur. Ég er tilbúinn að fórna öllu fyrir dætur mínar. Ég er tilbúinn að fórna lífi mínu ef ég vissi að það myndi frelsa dætur mínar.“
Omer og fjölskylda hans, þar á meðal öll börnin, fengu tyrkneskan ríkisborgararétt í júní 2020. Hann hefur síðan þá reynt að fá aðstoð tyrkneskra yfirvalda við að fá yngstu dæturnar til sín frá Kína. Tyrkneska sendiráðið í Peking upplýsti Omer að þau hefðu komið ferlinu af stað í ágúst 2020 og sent boð til kínverskra stjórnvalda í október 2020 en dæturnar eru enn í Kína.
„Ég bið ykkur að setja ykkur í spor okkar, ímynda ykkur hvernig það sé að ganga í gegnum það sama og við og tala máli okkar.“
Saga 2: Að snúa til baka eða ekki?
Dilnur, sem er upprunalega frá Kashgar í Xianjiang, býr með ellefu ára dóttur sinni og stundar enskunám í Kanada. Hún fór frá Kína til Tyrklands með dóttur sinni árið 2016 eftir að hún hafði verið margoft áreitt af lögreglu sem gerði ítrekað húsleit og skipaði henni að taka af sér höfuðslæðuna.
Það tók um ár fyrir yfirvöld að gefa út vegabréf fyrir tvær dætur hennar (önnur ellefu ára og hin níu ára) en sjö ára syni hennar var neitað um vegabréf. Hún fékk þau svör frá lögreglunni að talið væri að hún myndi ekki snúa aftur til Kína ef hann fengi líka vegabréf. Dilnur varð einnig að skilja yngri dóttur sína eftir í Kína vegna þess að hún gat ekki ferðast erlendis vegna ofnæmis. Dilnur skildi yngri dóttur sína og son eftir í umsjá foreldra sinna. Nokkrum mánuðum eftir að Dilnur yfirgaf Kína frétti hún frá fjölskyldu sinni að búið væri að taka vegabréfið af dóttur sinni.
Í byrjun 2017 stóð Dilnur frammi fyrir erfiðustu ákvörðun líf síns: „Þú verður að koma aftur,“ sagði systir hennar við hana í síma. Faðir þeirra, sem hafði hugsað um börnin hennar tvö, þurfti að sæta löngum yfirheyrslum í hverri viku. Þegar Dilnur spurði hvers vegna fékk hún þessi svör frá systur sinni: „Vegna þess að stjórnvöld vilja að þú komir aftur til baka. Öryggi fjölskyldu okkar veltur á þér. Ef þú kemur ekki strax þá mun okkur, allri fjölskyldunni og jafnvel fjarskyldum ættingum, verða refsað og send í búðir.“
Heimur Dilnur hrundi við að heyra þessi orð. Henni fannst eins og öryggi ástvina sinna lægi eingöngu á herðum hennar og því hvort hún myndi snúa aftur til Kína eða ekki. Henni fannst hún algjörlega hjálparlaus þar sem hún vissi að hún yrði aðskilin frá börnum sínum og send í fangabúðir ef hún snéri aftur til Kína.
Dilnur gat ekki sofið í viku og átti erfitt með að gera upp hug sinn. Hún fékk þá skilaboð frá föður sínum í gegnum ættingja sem sagði henni að hún ætti að klára nám sitt. Stuttu síðar fékk hún önnur skilaboð frá föður sínum: „Dilnur má aldrei snúa aftur til baka.“
Dilnur heldur að faðir sinn hafi vitað hvað myndi gerast ef hún færi aftur til Kína og hafi því ákveðið að vernda hana gegn mögulegum hættum. Hún heldur einnig að fjölskylda og ættingjar hennar hafi verið áreitt fyrir að vera Úígúrar og að stjórnvöld myndu ekki hlífa þeim jafnvel þó hún snéri til baka.
Dilnur hefur ekki náð sambandi við neinn fjölskyldumeðlim síðan í apríl 2017. Hún hefur enga hugmynd um örlög barnanna tveggja sem voru eftir í Xinjiang. Hún hefur reynt allar leiðir án árangurs. „Ég hef reynt svo mikið að bjarga börnum mínum en mér hefur mistekist. Eitt sinn fékk ég martröð í heila viku þar sem þau grátbáðu um mig. Kennarinn þeirra sagði þeim að móðir þeirra hefði yfirgefið þau.“ Þessar hugsanir ásóttu Dilnur það mikið að hún varð hrædd við svefn.
Dilnur hefur ákveðið að biðja kanadísk stjórnvöld um hjálp við að fá börnin til sín þegar hún hefur fengið varanlegt landvistarleyfi. Á meðan hún var í Tyrklandi skrifaði hún ótalmörg bréf til utanríkisráðherra, innanríkisráðherra og forseta Tyrklands til að biðja um hjálp. Hún fékk aldrei nein svör.
Í samtali við Amnesty International biðlaði Dilnur til heimsbyggðarinnar „Ég hef enga hugmynd um hvað kom fyrir börnin mín og fjölskyldu. Hvernig gat þetta gerst. Ég bið ykkur að gera ykkar besta til að hjálpa okkur að lifa þetta af. Ég bið ykkur öll um að viðhalda manngæsku ykkar og tala máli okkar, standa með okkur og hindra að þetta komi fyrir börnin okkar.“
Saga 3: Ein hræðilega fréttin á fætur annarrar
Meripet Metniyaz og eiginmaður hennar Turghun Memet ferðuðust frá Xinjiang til Tyrklands í mars 2017 til að annast veikan föður Meripet í Istanbúl. Meripet vann sem læknir í suðvesturhluta Xianjiang í borginni Hotan og Turghun vann við fjárfestingar í fasteignum og dýrmætum steinum. Þau fengu vegabréfsáritun fyrir einn mánuð þar sem þau héldu að þau myndu fara fljótt aftur til Kína. Börnin þeirra fjögur, sem voru þá sex, átta, níu og ellefu ára, voru í umsjá móður Turghun í Urumqi á meðan þau voru í burtu.
Á sama tíma og þau voru í Istanbúl fóru þau að fá skilaboð sem ollu þeim áhyggjum. Fjölskyldur þeirra sögðu þeim að verið væri að handtaka Úígúra sem hefðu ferðast til Tyrklands og senda þá í fangabúðir. Þau ákváðu því að fresta heimkomu sinni.
Meripet útskýrði: „Við héldum að við þyrftum að vera þolinmóð og að innan nokkurra mánaða þegar aðstæður yrðu betri í Urumqi gætum við snúið aftur heim. Við biðum en ástandið versnaði bara. Það var ekki aðeins fólk sem hafði ferðast erlendis sem var handtekið heldur einnig það fólk sem bað bænir og var með skegg. Við heyrðum svo margar sögur um fangelsisvist í heimalandi okkar að við vorum dauðhrædd um að snúa aftur til baka.“
Í lok árs 2017 komst Turghun að því að móðir hans og börn höfðu verið þvinguð til að flytja frá Urumqi til Hotan sem er í 1500 km fjarlægð þar sem hún var skráð með lögheimili. Harmleikurinn hélt áfram þar sem Turghun frétti frá systur sinni að móðir þeirra hefði verið færð í búðir stuttu eftir að hún kom til Hotan. Fimm dögum eftir komuna til Hotan voru börnin þeirra færð á munaðarleysingjahæli.
Meripet fékk áfall við fréttirnar. „Eftir að ég missti samband við börnin mín þá hrakaði andlegri heilsu minni.“ Hún vaknaði oft á nóttunni grátandi vegna martraða.
„Það er til gamalt orðatiltæki: Börnin eru hjartað, börnin eru lífið. Mér líður eins og ég hafi misst hjartað mitt og líf.“ Hún brast í grát og hélt áfram: „Tilgangur minn í lífinu voru börnin mín. Ég hugsa alltaf um líðan þeirra og heilsu og hvernig komið er fram við þau.“
Næstu mánuði fékk Turghun brot af upplýsingum um börnin frá systur sinni, Aminu, á dulmáli. Í fyrstu gat Amina heimsótt börnin einu sinni í viku en að nokkrum vikum liðnum fékk hún ekki lengur að hitta þau. Í júní 2018 náði Turghun ekki lengur sambandi við Aminu.
Nokkrum mánuðum síðar frétti hann frá mágkonu sinni að Amina hefði látið lífið við yfirheyrslu hjá lögreglu í varðhaldi. Turghun og Meripet voru niðurbrotin. Stuttu síðar komust þau að því að mágkonan hafði einnig verið færð í fangabúðir í lok ársins 2018. Þau þekktu því engan sem gat gefið þeim upplýsingar um börnin þeirra.
Meripet og Turghun skrifuðu mörg bréf til tyrkneska utanríkisráðherrans, ráðgjafa forsetans og kínverska sendiráðsins í Istanbúl. Þau hafa ekki fengið nein svör.
„Mín eina ósk er að saklaust fólk sem hefur misst tengsl við börnin sín, foreldra, ættingja og ástvini geti búið með þeim á ný,“ segir Meripet að lokum.
Saga 4: Ítalía: Hársbreidd frá sameiningu: Fjögur ungmenni í hættulegri ferð
Mihriban Kader og eiginmaður hennar Ablikim Memtinin, upphaflega frá Kashgar í Xinjiang, voru rekin í útlegð til Ítalíu árið 2016 eftir áreitni og þrýsting lögreglu um að láta vegabréf sín af hendi.
Börn þeirra voru skilin eftir í umsjá ömmu sinnar og afa sem átti aðeins að vera tímabundið, en stuttu síðar var amman handtekin og færð í fangabúðir og afinn yfirheyrður af lögreglu. Yfirheyrslan stóð í marga daga og afinn þurfti að vera mánuði á sjúkrahúsi í kjölfarið.
Börnin voru því án umönnunaraðila. „Ættingjar okkar þorðu ekki að sjá um börnin eftir það sem kom fyrir foreldra mína,” segir Mihriban. “Þau voru hrædd um að verða sjálf send í fangabúðir.“
Von kviknaði um fjölskyldusameiningu í nóvember 2019 þegar Mihriban og Ablikim fengu leyfi til fjölskyldusameiningar frá ítölskum yfirvöldum. Til að sækja um ítalskt landvistarleyfi þurftu börnin fjögur, sem eru á aldrinum tólf til sextán ára, að ferðast án fylgdar fullorðinna frá Kashgar,sem er við landamæri Pakistan,um 5000 km vegalengd til ítalska sendiráðsins í Sjanghæ, við austurströnd Kína.
Þau mættu hættum og erfiðleikum á leiðinni. Í Kína er börnum bannað að kaupa miða í flug og rútur nema í fylgd með fullorðnum. Þá er mismunun algeng gegn Úígúrum. Til dæmis neita hótel Úígúrum oft um gistingu og segja þeim ranglega að öll herbergi séu bókuð. Þrátt fyrir allt mótlæti komust börnin alla leið til Sjanghæ.
Þegar börnin komust loks í ítalska sendiráðið, með gild vegabréf í hendi, leið þeim næstum eins og þau væru komin aftur í faðm foreldra sinna.
Vonir þeirra urðu þó að engu þegar þeim var meinaður aðgangur inn í sendiráðið. Seinna var þeim sagt að leyfi fyrir fjölskyldusameiningu væri í ítalska sendiráðinu í Peking. En á þessum tíma, í júní 2020, voru ströng farbönn til og frá Peking.
Þau mættu hættum og erfiðleikum á leiðinni. Í Kína er börnum bannað að kaupa miða í flug og rútur nema í fylgd með fullorðnum. Þá er mismunun algeng gegn Úígúrum. Til dæmis neita hótel Úígúrum oft um gistingu og segja þeim ranglega að öll herbergi séu bókuð. Þrátt fyrir allt mótlæti komust börnin alla leið til Sjanghæ.
Þegar börnin komust loks í ítalska sendiráðið, með gild vegabréf í hendi, leið þeim næstum eins og þau væru komin aftur í faðm foreldra sinna.
Vonir þeirra urðu þó að engu þegar þeim var meinaður aðgangur inn í sendiráðið. Seinna var þeim sagt að leyfi fyrir fjölskyldusameiningu væri í ítalska sendiráðinu í Peking. En á þessum tíma, í júní 2020, voru ströng farbönn til og frá Peking.
Með brotin hjörtu biðu börnin fyrir utan sendiráðið í von um að einhver kæmi þeim til bjargar. Í staðinn kom til þeirra kínverskur vörður og hótaði þeim að hringja í lögregluna ef þau hypjuðu sig ekki burt.
Í stað þess að láta deigan síga leituðu börnin til ferðaskrifstofu í von um að geta sótt um ítalskt landvistarleyfi.
Samkvæmt foreldrum barnanna voru þau tekin á hóteli í Sjanghæ þann 24. júní og færð á munaðarleysingjahæli og heimavistarskóla í Kashgar.
Ef þeim hefði verið hleypt inn í sendiráðið væri fjölskyldan sameinuð á í dag og gæti deilt hetjulegum sögum um ferðina miklu frá Kashgar til Peking. Í staðinn eru börnin föst í kínverska munaðarleysingjakerfinu og Mihriban og Ablikim óttast að þau hafi glatað tækifærinu til að sjá börn sín nokkurn tímann aftur.
Saga 5: Segðu mér að sonur minn sé á lífi og heill á húfi
Rizwangul vann sem sölufulltrúi í Dúbaí árið 2014 þegar þriggja ára sonur hennar, sem var í fylgd með Muhammed frænda þeirra, heimsótti hana í hálft ár. Rizwangul hafði stefnt að því að fá son sinn varanlega til sín, en foreldrar hennar lögðu til að hann dveldi í Kína þangað til hann væri kominn á skólaaldur svo Rizwnagul gæti einbeitt sér að starfinu. Hún samþykkti það og gerði ráð fyrir að þá væri hún búin að koma sér vel fyrir í Dúbaí og gæti undirbúið skólavist sonarins vel.
„Í hvert sinn sem ég fékk frí og heimsótti heimabæ minn í Xinjiang gat ég varið mánuði með syni mínum, sem gladdi mig ósegjanlega mikið.” útskýrði Rizwangul “Það var ánægjulegasti tími lífs míns þegar hann heimsótti mig svo í Dúbaí.”
Frændi Rizwangul, Muhammed, fékk vinnu í Dúbaí á meðan hann dvaldi þar. Þegar hann svo snéri heim til Xinjiang í mars 2017 var móðir hans orðin veik. Tveimur mánuðum síðar, þegar Rizwangul ætlaði heim í árlega sumarfríið, vöruðu vinir hennar og systur við því að ekki væri öruggt að koma til Kína.
Hana grunaði ekki hversu slæmt ástandið átti eftir að verða.
Rizwangul bað systur sína um að ná sambandi við Muhammed en þá kom í ljós að hann hafði farið í „nám” viku eftir að hann kom til Xinjiang. Rizwangul skildi að þetta þýddi að Muhammed hafði verið sendur í fangabúðir til „endurmenntunar”.
Í september sama ár versnaði ástandið enn frekar þegar systir Rizwangul, sem hafði tekið son hennar inn á sitt heimili, bað hana um að hringja ekki aftur vegna öryggisástæðna. Síðan þá hefur Rizwangul ekki getað náð sambandi við son sinn, systur sína eða vini í Xinjiang.
„Það er ómögulegt fyrir aðra að skilja hvernig mér líður,” segir hún á meðan tárin streyma niður andlitið. „Það eina sem heldur mér gangandi er viljinn til að vita hvort hann sé á lífi og þá heill á húfi.”
„Ef ég gæti talað við hann núna myndi ég segja: Fyrirgefðu mér, ég kom þér í heiminn, en ég gat ekki passað upp á þig, ég gat ekki verið þér móðir.“
„Ímyndið ykkur ef þið gætuð ekki náð til fjölskyldu ykkar, ef þið væruð árum saman óviss um hvort ykkar eigin börn, foreldrar og skyldmenni væru á lífi eða ekki,. Ímyndið ykkur ef þið væruð svo ekki ein í þessari stöðu. Það eru milljónir Úígúra sem eru aðskildir frá fjölskyldum sínum. Við gátum ekki ímyndað okkur að þetta gæti gerst, en þetta hefur gerst. Við þurfum á ykkar hjálp að halda.”
Saga 6: Það eru eftirlitsmenn heima hjá okkur
Mamutjan er fæddur og uppalinn í Kashgar í Xinjiang en býr um þessar mundir í Ástralíu. Þegar hann var í doktorsnámi í félagsvísindum í Malasíu tók það eiginkonu hans, Muherrem, tvö ár að fá útgefið vegabréf og tókst þeim og barnungri dóttur þeirra að sameinast á ný árið 2012.
Mamutjan hugsar enn hlýlega til stundanna þegar þau voru saman: „Það var svo spennandi þegar Muherrem og dóttir okkar komu fyrst til Kuala Lumpur. Þau áttu góðar stundir saman í nær þrjú ár, en þeim lauk þegar kínverska sendiráðið í Kuala Lumpur neitaði að endurnýja vegabréf Muherrem í lok árs 2015, þar sem það hafði týnst.
Hún var tilneydd til að ferðast aftur til Kína og endurnýja vegabréf sitt og ferðaðist með þá fimm ára dóttur þeirra og sex mánaða gamlan son. Á þeim tíma hugsuðu þau að endurnýjun vegabréfsins færi í reglubundið ferli. Þau höfðu ekki hugmynd um þá aðför gegn Úígúrum sem var í vændum í Kína og að framundan væri margra ára taugastrekkjandi og sársaukafullur aðskilnaður.
Muherrem og börnin festust í Kashgar. Mamutjan var í reglulegu sambandi við þau þangað til Muherrem var send í fangabúðir í apríl 2017. Börnin voru skilin eftir í umsjá foreldra Mamutjans. Amman og afinn báðu svo Mamutjan um að hætta að hafa samband. Margir vinir hans og ættingjar lokuðu á tengsl við hann í samskiptaforritum.
Á næstu tveimur árum vissi Mamutjan sáralítið um stöðu og líðan konu sinnar og náði ekki sambandi foreldra sína eða tengdaforeldra. Í maí 2019 sá Mamutjan myndband af syni sínum á samfélagsmiðlasíðu frænda síns. Í myndbandinu hrópaði sonurinn: „Mamma er útskrifuð!”
Þetta veitti Mamutjan hugarró, þar sem hann ályktaði að þetta þýddi að hún væri laus úr fangabúðum. Mamutjan ákvað að taka áhættuna og hringja í foreldra sína í ágúst 2019. Hann hélt að myndbandið væri merki um að ástand fjölskyldunnar hefði skánað örlítið.
Hann var svo spenntur þegar mamma hans svaraði í símann. „Ég vildi segja Eid Mubarak, það er svo langt síðan ég heyrði í þér,” sagði Mamutjan í símann. Móðir hans varaði hann við með titrandi röddu áður en hún skellti á: „Það eru eftirlitsmenn á vegum stjórnvalda heima hjá okkur.”
Mamutjan reyndi að hringja aftur en náði ekki í gegn. Hann telur að foreldrar hans hafi viljandi rofið símtæki sitt svo ekki væri hægt að hringja aftur til að koma í veg fyrir að upp kæmist að þau væru í samskiptum við fólk utan Kína, sem gæti leitt til vistar í fangabúðum eða annarrar refsingar.
Síðastliðið ár hefur Mamutjan fengið vísi að upplýsingum með kóðuðum orðum frá vinum sínum þess efnis að Muherrem sé enn í fangabúðum. Vinur hans sagði honum að eiginkona hans væri „orðin fimm ára”, sem Mamutjan telur vera vísi í hversu lengi hún hefur verið í varðhaldi. Annar vinur sagði að Muherrem hefði verið send á „sjúkrahús”, sem gæti þýtt fangabúðir eða fangelsi miðað við þau skrauthvörf sem Úígúrar nota sín á milli.
Þrátt fyrir að hafa ekki náð sambandi við fjölskyldu sína eða ættingja telur Mamutjan að sonur hans búi hjá móðurömmu sinni og dóttir hans hjá foreldrum hans. Hann getur einungis ályktað þetta út frá tveimur myndböndum sem nánir vinir hans sendu þegar þeir heimsóttu heimabæ hans í þeim tilgangi að koma áleiðis upplýsingum um fjölskyldu hans. „Við eigum þessar ofboðslegu þjáningar ekki skilið. Þetta er eins og að missa fjögur eða fimm ár af ævi sinni fyrir það eitt að vera Úígúri eða að vera öðruvísi en meirihluti Kínverja.“
Mamutjan kallaði eftir því við kínversk yfirvöld að láta af kúgunarstefnu sinni í Xinjiang: „Ef það finnst vottur af mannúð hjá þeim ættu kínversk yfirvöld að hætta að koma fram við fólk með þessum hætti og leyfa fjölskyldum að sameinast. Við höfum enga glæpi framið. Ég vil að þeir skilji til fulls stærðargráðu eigin mannvonsku. Þetta er sársaukafullt og taugatrekkjandi óréttlæti, það eru engin önnur orð sem lýsa þessu nægilega.“
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu