Góðar fréttir
13. apríl 2022Það gleður okkur að geta deilt þakkarmyndbandi frá Berndardo Caal Xol, fyrrum samviskufanga í Gvatemala. Nýverið var hann leystur úr haldi eftir rúm fjögur ár í fangelsi í kjölfar árlegrar herferðar okkar, Þitt nafn bjargar lífi, fyrir árið 2021. Nú þakkar hann hverjum og einum þátttakanda fyrir framlag sitt. Um hálf milljón einstaklinga um heim allan kallaði eftir lausn hans í herferðinni Þitt nafn bjargar lífi 2021. Á Íslandi sýndu 6.597 einstaklingar stuðning sinn í verki fyrir máli hans með undirskrift sinni. Að auki skrifaði fólk til hans kveðjur og bréf honum til stuðnings.
Horfðu á myndbandið eða lestu textann hér fyrir neðan þar sem hann tjáir þakklæti sitt með eigin orðum.
Þakkarmyndband
Einnig má sjá textann úr myndbandinu hér fyrir neðan.
Þakkarorð
Tilgangur þessa myndbands er að senda góðar kveðjur, mikla hvatningu og verulegt þakklæti til allra einstaklinga sem tilheyra Amnesty International, eru staðsettir í ýmsum löndum um heim allan og vinna að mikilvægu mannúðarstarfi. Ég, Bernardo Caal Xol, frá Maya-samfélaginu Q’eqchi’ í Gvatemala er mjög þakklátur fyrir hvert og eitt ykkar.
Þið hafið gefið mér von um réttlæti, frelsi og jafnrétti sem verður að ná yfirhöndinni í öllum samfélögum og löndum heims. Gvatemala, eftir vopnuð átök sem stóðu yfir í 36 ár, er núna að ganga í gegnum verstu réttarfarskreppuna en þar á sér stað gífurleg kúgun sem beinist gegn baráttufólki fyrir mannréttindum.
Margt af því fólki er nú á landflótta til bjargar lífi sínu. Óháðir saksóknarar og dómarar hafa þurft að yfirgefa Gvatemala með fjölskyldum sínum þar sem líf þeirra er í hættu.
Með fólkinu mínu og samfélagi hækkuðum við róminn til varnar tveimur ám, Cahabón og Oxee’k, til að hindra að árfarveginum yrði breytt með rörleiðslum af fólki sem sækist eftir því að hagnast á og stunda viðskipti með árflæðið í ánum okkar.
Ég var ofsóttur, gerður að glæpamanni og fangelsaður. Í fjögur ár og tvo mánuði var ég fastur í martröð fangelsis. Fjögur ár og tveir mánuðir af sársauka, áhyggjum og óvissu. En þið í Amnesty International gáfuð mér von um frelsi og nú er ég frjáls.
Nú er ég í faðmi fjölskyldu minnar, með dætrum mínum og eiginkonu. Móðir mín grét af gleði við að sjá mig frjálsan. Þakkir til ykkar allra, hvers og eins fyrir að dreifa og deila sögu minni. Takk fyrir að skilgreina mig sem samviskufanga í Gvatemala.
Erika Guevara (hjá Amnesty International) hefur sagt mér frá öllum bréfunum sem þið hafið safnað saman um heim allan. Það verða góðar fréttir, miklar gleðifréttir, þegar ég fæ þau send til mín. Bréfin eru hluti af baráttu okkar fólks. Knús til ykkar allra!
Enn standa yfir málaferli í máli mínu í réttarkerfinu. Enn bíð ég eftir réttlæti í réttarkerfinu í Gvatemala varðandi alla þá glæpi sem lognir voru upp á mig til að hægt væri að þagga niður í mér.
Það eina sem ég bið um er að þið haldið áfram að vera með mér í liði, að við stöndum saman og hækkum róm okkar um heim allan til að hætt verði að refsa baráttufólki fyrir mannréttindum, þá sérstaklega í Rómönsku-Ameríku þar sem stjórnmál einkennast af spillingu og ráðist er að mannréttindafrömuðum.
Saman höldum við áfram fram á við!
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu