Góðar fréttir
25. mars 2022Enn og aftur hefur þitt nafn bjargað lífi. Mál samviskufangans Bernardo Caal Xol var hluti af árlegu herferð okkar, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2021. Bernando varð frjáls á ný þann 24. mars eftir fjögur ár í fangelsi. Lögfræðingur hans sagði að dómari hefði fyrirskipað lausn hans vegna góðrar hegðunar.
Bernardo var fangelsaður í janúar 2018 vegna baráttu sinnar fyrir réttindum Maya-frumbyggjasamfélagsins Q’eqchi’ sem hann tilheyrir. Samfélagið stóð frammi fyrir því að missa lífsviðurværi sitt vegna vatnsaflsvirkjana. Bernardo krafðist þess að hætt yrði við vatnsaflsvirkjanirnar á þeim forsendum að ekki hefði verið haft samráð við frumbyggja sem búa á svæðinu, eins og krafist er í alþjóðalögum. Í nóvember 2018 var hann dæmdur í sjö ára og fjögurra mánaða fangelsi fyrir gróft rán og ólöglegar tálmanir.
„Það eru frábærar fréttir fyrir Bernardo, fjölskyldu hans og Maya-frumbyggjasamfélagið Q’eqchi’að hann sé frjáls úr fangelsi og nái að sameinast ástvinum sínum á ný eftir fjögur ár sem samviskufangi. Samt sem áður er Bernardo enn dæmdur sekur fyrir glæp sem hann framdi ekki. Yfirvöld í Gvatemala halda því áfram að refsa honum fyrir mannréttinda– og umhverfisbaráttu sína“.
Erika Guevara-Rosas, framkvæmdastjóri Amnesty International í Ameríku.
Amnesty International fór vandlega yfir mál Bernardo Caal Xol og fann engin sönnunargögn um glæpinn sem hann var sakaður um. Málaferli yfir honum svipar til annarra mála sem samtökin hafa skoðað gegn öðru baráttufólki fyrir mannréttindum í Gvatemala sem einnig hefur verið sakað um glæp að ósekju. Gvatemala er eitt hættulegasta landið fyrir fólk sem berst fyrir umhverfisvernd en árið 2020 voru þrettán einstaklingar úr þeim hópi myrtir fyrir baráttu sína.
Amnesty skilgreindi Bernardo sem samviskufanga í júlí 2020. Um hálf milljón einstaklinga um heim allan kallaði eftir lausn hans í herferðinni Þitt nafn bjargar lífi 2021. Á Íslandi sýndu 6.597 einstaklingar stuðning sinn í verki fyrir máli hans með undirskrift sinni.
Við þökkum öllum þeim sem lögðu málinu lið, í krafti fjöldans hefur hver undirskrift áhrif.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu