Fréttir

28. maí 2021

Afmælisvið­burður Amnesty Internati­onal

Í tilefni af 60 ára afmæli Amnesty Internati­onal, í dag föstu­daginn 28. maí, fagnaði Íslands­deildin stóra deginum í Póst­hús­stræti við Aust­ur­völl. Anna Lúðvíks­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar samtak­anna, hélt stutta ræðu og opnaði útisýn­ingu um sögu og mann­rétt­inda­sigra samtak­anna síðustu 60 ára í máli og myndum. Þá veitti Claudia Ashanie Wilson viður­kenn­inguna „Aðgerðasinni Amnesty Internati­onal“ fyrir hönd stjórnar Íslands­deildar Amnesty Internati­onal.

Upphaf Amnesty Internati­onal er sönnun þess að oft þarf bara einn einstak­ling til að hefja alheims­hreyf­ingu í þágu mann­rétt­inda. Peter Benenson, breskur lögfræð­ingur, fékk birta grein eftir sig þann 28. maí 1961 í dagblaðinu Observer þar sem hann kallaði eftir því að fólk gripi til aðgerða fyrir einstak­linga sem væru í fang­elsi fyrir skoð­anir sínar. Þessi dagur markar upphaf Amnesty Internati­onal þar sem ákall hans snerti við fólki sem samein­aðist í barátt­unni fyrir rétt­læti og frelsi og úr varð alþjóða­hreyfing.

Aðgerðasinni Amnesty International

 

Íslands­deildin vildi nota tæki­færið og fagna þessum stóra áfanga með því að heiðra einstak­ling sem hefur barist fyrir mann­rétt­indum af krafti og elju­semi með aðgerðum sínum. Leitað var til almenn­ings um tilnefn­ingar fyrir „Aðgerða­sinna Amnesty Internati­onal “ við góðar undir­tektir þar sem fjöl­margar tilnefn­ingar bárust. Greini­legt er að margt baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum má finna hér á landi.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal telur mikil­vægt að gefa kraft­miklu og fram­bæri­legu fólki meðbyr og hvatn­ingu í aðgerðum sínum í þágu mann­rétt­inda. Með þessari viður­kenn­ingu vill Íslands­deildin fagna baráttu­fólki og hvetja þá aðgerða­sinna til dáða sem berjast fyrir rétt­látari heimi.

Stjórn Íslands­deildar Amnesty Internati­onal veitti Sveini Rúnari Hauks­syni þennan heið­ur­stitil en hann hefur frá unga aldri verið öflugur málsvari mann­rétt­inda. Sveinn Rúnar hefur verið framar­lega í barátt­unni fyrir mann­rétt­inda­mið­aðri nálgun í geðheil­brigð­is­málum. Hann sat rúman áratug í stjórn Geðhjálpar og hefur kallað eftir mann­úð­legri aðferðum í geðheil­brigð­is­þjón­ustu í stað nauð­ung­ar­vist­unar og sjálfræð­is­svipt­ingar. Sveinn Rúnar var að auki formaður Félagsins Ísland-Palestína til fjölda ára. Sem formaður var hann öflugur í að ná athygli almenn­ings á stöðu mála í Palestínu með greina­skrifum og frið­sam­legum aðgerðum ásamt því að fræða og þrýsta á íslensk stjórn­völd að standa vaktina þegar kemur að mann­rétt­indum þar í landi. Sveinn Rúnar er hvergi nærri hættur og berst enn þrot­laust fyrir mann­rétt­indum þeirra sem þurfa á málsvara að halda.

Útisýning

 

Á útisýn­ing­unni er litið yfir sögu og sigra Amnesty Internati­onal, stærstu mann­rétt­inda­sam­taka í heimi í máli og myndum og stendur hún  fram eftir sumri. Á meðal sigra er mál Moses Akatugba. Hann var aðeins 16 ára þegar hann var hand­tekinn í Nígeríu fyrir stuld á farsímum. Hann var pynd­aður, hlaut órétt­láta máls­með­ferð og var að lokum dæmdur til dauða. Í kjölfar þess að 800.000 einstak­lingar um heim allan skrifuðu undir bréf til stjórn­valda í Nígeríu og þrýstu á um lausn hans var Moses loks náðaður árið 2015 eftir tíu ár í fang­elsi.

 

Lestu einnig