Viðburðir

15. ágúst 2019

Amnesty Internati­onal tekur þátt í Reykjavík Pride 2019

Íslands­deild Amnesty Internati­onal tekur þátt í Gleði­göng­unni Reykjavík Pride laug­ar­daginn 17. ágúst, fyrir fólk sem hefur ekki frelsi til að elska eða vera það sjálft án þess að líf þess sé í hættu.

Líkt og áður mun ungl­iða­hreyfing okkar bæði taka þátt í göng­unni sjálfri og standa fyrir undir­skrifta­söfnun í Hljóm­skála­garð­inum.

Í ár söfnum við undir­skriftum fyrir mál Zak Kostopoulos, grísks samkyn­hneigðs aðgerða- og mann­rétt­inda­sinna, sem lést 21. sept­ember 2018 í kjölfar fólsku­legrar líkams­árásar. Hægt er að lesa meira um málið og skrifa undir hér til að krefjast rétt­lætis.

Amnesty Internati­onal krefst þess að dóms­mála­ráð­herra Grikk­lands tryggi að þeir sem bera ábyrgð á dauða Zaks verði dregnir fyrir dóm. Einnig er krafist þess að yfir­völd rann­saki hvort ástæða árás­anna hafi verið vegna haturs, mismun­unar eða annarra fordóma.

Okkur er það mikil ánægja að fá til liðs við okkur aðal­fram­kvæmda­stjóra Amnesty Internati­onal, Kumi Naidoo, sem tekur þátt í göng­unni með ungl­iða­hreyf­ingu Íslands­deild­ar­innar á laug­ar­daginn. Kumi Naidoo er reynslu­mikill aðgerðasinni og hefur lengi starfað í þágu mann­rétt­inda í sínu heimalandi Suður-Afríku auk þess sem hann hefur gegnt starfi aðal­fram­kvæmda­stjóra Green­peace Internati­onal. Við erum afar þakklát fyrir að njóta liðs­auka hans í Gleði­göng­unni.

Að þessu sinni leggur Gleði­gangan af stað frá Hall­gríms­kirkju á Skóla­vörðu­holti, stund­vís­lega kl. 14:00.

Gengið verður eftir Skóla­vörðu­stíg, Banka­stræti, Lækj­ar­götu, Fríkirkju­vegi og endað á Sóleyj­ar­götu við Hljóm­skála­garðinn þar sem fram fara útitón­leikar að göngu lokinni. Ungl­iða­hreyf­ingin verður á staðnum og stendur fyrir undir­skrifta­söfnun fyrir máli Zaks.

Lestu einnig