Fréttir

28. febrúar 2020

Bret­land: Julian Assange fái sann­gjarna máls­með­ferð

Síðustu daga hefur full­trúi Amnesty Internati­onal verið viðstaddur rétt­ar­höldin yfir Julian Assange vegna framsals­beiðni Banda­ríkj­anna. Julia Hall var þar fyrir hönd samtak­anna sem sérfræð­ingur um mann­rétt­indi í Evrópu. Hún hafði þetta um málið að segja

„Þessi vika hefur sýnt það að réttur til tján­ing­ar­frelsis og aðgengi að upplýs­ingum á undir högg að sækja á heimsvísu, ekki hvað síst ef Julian Assange verður fram­seldur til Banda­ríkj­anna og saksóttur fyrir njósnir. Augljóst er að afleið­ing­arnar geta verið hroll­vekj­andi fyrir fjöl­miðla­fólk og aðra sem birta upplýs­ingar frá heim­ild­ar­fólki í almanna­þágu.“

„Fjöl­miðla­fólk um heim allan gerir sér grein fyrir því að það geti verið ákært fyrir njósnir eða að ógna þjóðarör­yggi á grund­velli laga gegn hryðju­verkum fyrir það eitt að fletta ofan af stríðs­glæpum og öðrum mann­rétt­inda­brotum. Það kæmi í veg fyrir að við fengjum aðgengi að nauð­syn­legum upplýs­ingum og stað­reyndum til að draga stjórn­völd til ábyrgðar fyrir slík brot.“

„Það veldur áhyggjum að heyra af því síðustu daga að Julian Assange hefur þurft að þola ítrekaða líkams­leit og verið leiddur áfram í hand­járnum. Fang­elsið verður að tryggja að slíkum aðferðum sé aðeins beitt hóflega og eingöngu þegar þörf er á. Amnesty Internati­onal mun fylgja máli hans eftir við bresk stjórn­völd til að tryggja að Julian Assange sæti ekki illri meðferð á meðan hann er í Belm­arsh-fang­elsinu.“

„Síðustu fjóra daga hefur Julian Assange ítrekað reynt að láta vita við rétt­ar­höldin að hann geti hvorki fylgst með fram­vindu mála né haft almennileg samskipti við lögfræðing sinn eða gefið honum fyrir­mæli. Hann á einnig erfitt með að halda athygli og einbeit­ingu þar sem hann situr í gler­búri (e.secure dock) vegna lyfja sem hann tekur.“

Amnesty Internati­onal lýsir áhyggjum af því að ef ekki verði gripið til viðeig­andi ráðstafana fyrir rétt­ar­höldin í maí þá sé hætta á að Julian Assange fái ekki sann­gjarna máls­með­ferð.

Fyrri frétta­til­kynning um mál Julian Assange

Lestu einnig