Viðburðir

28. maí 2021

Mann­rétt­inda­bar­áttan í 60 ár

Í 60 ár hefur alþjóða­hreyf­ingin Amnesty Internati­onal barist þrot­laust gegn mann­rétt­inda­brotum og hefur skilað árangri fyrir hundruð þúsunda einstak­linga um heim allan. Amnesty Internati­onal fagnar afmæli sínu, sögu og sigrum með opnun útisýn­ingar í Póst­hús­stræti í dag, föstu­daginn 28. maí, klukkan 17:00 ásamt því að veita viður­kenn­inguna Aðgerðasinni Amnesty Internati­onal til að heiðra einstak­ling sem hefur barist fyrir mann­rétt­indum með aðgerðum sínum af krafti og elju­semi.

Upphaf Amnesty Internati­onal má rekja til breska lögfræð­ingsins Peter Benenson sem fékk grein sína Gleymdu fang­arnir (e. The Forgotten Prisoners) birta í dagblaðinu Observer þann 28. maí 1961. Í kjöl­farið hóf hann alþjóð­lega herferð sem bar heitið Ákall um sakar­upp­gjöf 1961 (Appeal for Amnesty 1961). Þar kallaði hann eftir því að fólk gripi til aðgerða fyrir einstak­linga sem væru í fang­elsi fyrir skoð­anir sínar. Ákall hans snerti við fólki sem samein­aðist í barátt­unni fyrir rétt­læti og frelsi. Allar götur síðan hefur hreyf­ingin byggt starf sitt á þeirri hugmynd að saman geti almennir borg­arar breytt heim­inum til hins betra. Í dag er Amnesty Internati­onal alþjóða­hreyfing um 10 milljón einstak­linga sem berjast fyrir mann­rétt­indum, rétt­læti, jafn­rétti og frelsi fyrir alla. Um heim allan, allt frá Bretlandi til Íslands, frá Ástr­alíu til Úganda hefur fólk komið saman til að krefjast þess að mann­rétt­indi allra séu virt og vernduð.

Þrotlaus mannréttindabarátta

 

Mann­rétt­indi eru bundin í alþjóða­samn­inga og sátt­mála sem ríki hafa skuld­bundið sig til að virða og Mann­rétt­inda­yf­ir­lýsing Sameinuðu þjóð­anna er vegvísir Amnesty Internati­onal í baráttu samtak­anna.

Styrkur Amnesty Internati­onal byggir meðal annars á því að samtökin eru óháð öllum ríkis­stjórnum, stjórn­mála­stefnum, efna­hags­legum hags­munum og trúar­brögðum. Því geta samtökin óhikað sinnt starfi sínu í þágu mann­rétt­inda og barist fyrir jákvæðum breyt­ingum með því að beita þrýst­ingi á vald­hafa án áhrifa frá stjórn­völdum og stór­fyr­ir­tækjum. Þau eru fjár­hags­lega sjálf­stæð, þökk sé öflugum stuðn­ingi félaga og stuðn­ings­aðila og ákvarð­anir eru teknar á lýðræð­is­legan hátt.

Á fyrstu árum Amnesty Internati­onal voru markmið og starfs­svið þrengri en þá var aðaláherslan á að fá samviskufanga leysta úr haldi, að öllum væru tryggð réttlát rétt­ar­höld og að borin væri virðing fyrir mann­legri reisn fanga . Með auknum fjölda félaga og stofnun fleiri deilda um allan heim varð krafan um að Amnesty Internati­onal beitti sér gegn fleiri mann­rétt­inda­brotum háværari og á næstu árum og áratugum tóku samtökin að vinna gegn dauðarefs­ing­unni, pynd­ingum, þving­uðum manns­hvörfum ásamt því að berjast fyrir rétt­indum kvenna, flótta­fólks og hinsegin fólks.

 

Amnesty Internati­onal þrýsti á gerð alþjóð­legs vopna­við­skipta­samn­ings með það að mark­miði að koma í veg fyrir frjálst flæði vopna og torvelda að vopn lendi í höndum ólög­mætra herja, hryðju­verka­manna og glæpa­sam­taka og að alþjóð­legur saka­mála­dóm­stóll yrði stofn­aður til að draga aðila til ábyrgðar fyrir alvar­leg­ustu mann­rétt­inda­brotin eins og þjóð­armorð og stríðs­glæpi.

Breyt­ingar á stöðu mann­rétt­inda í heim­inum gerast ekki á einni nóttu, það krefst seiglu og þolin­mæði að berjast fyrir bættum heimi.

En hvernig er árang­urinn af starfi Amnesty mældur? Árang­urinn er mældur í því hvar jákvæðar breyt­ingar hafa orðið á lífi fólks, hann er mældur í fjölda samviskufanga sem hafa verið leystir úr haldi, í fjölda hótana, pynd­inga og dauðarefs­inga sem hefur verið afstýrt og í fjölda laga sem hefur verið breytt svo þau verndi og virði mann­rétt­indi allra. Hann er mældur í fjölda skóla­barna sem læra um rétt­indi sín og fjölda einstak­linga í jaðar­settum hópum sem óttast ekki lengur að krefjast þess að fá að njóta rétt­inda sinna.

Mannréttindasigrar

 

Drif­kraftur og hvatning til áfram­hald­andi starfs fæst þegar góðar fréttir berast ár hvert um að vald­hafar hafi brugðist við þrýst­ingi félaga Amnesty Internati­onal og rétt­læti tryggt fyrir þolendur mann­rétt­inda­brota.

Árið 2016 var Banda­ríkja­mað­urinn Albert Woodfox loksins látinn laus úr fang­elsi eftir að hafa dvalið í einangrun í ríkis­fang­elsi í Louisiana í Banda­ríkj­unum í 43 ár og 10 mánuði. Woodfox hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu. Engar áþreif­an­legar sann­anir tengja hann við glæpinn og sakfelling hans byggðist einkum á vitn­is­burði samfanga hans sem hlaut náðun fyrir vikið. Amnesty Internati­onal hafði lengi barist fyrir lausn hans úr fang­elsi.

 

Í febrúar 2018 var Teodora del Carmen Vásquez leyst úr haldi eftir áralanga baráttu Amnesty-félaga. Teodora fæddi andvana barn árið 2007 í El Salvador. Þar er þung­un­arrof bannað undir öllum kring­um­stæðum og konur sem verða fyrir fóst­ur­missi eiga jafnvel hættu á að verða ákærðar fyrir morð. Lögreglan handtók hana þar sem hún lá í blóði sínu á vinnu­stað sínum. Teodora var dæmd í 30 ára fang­elsi fyrir morð að yfir­lögðu ráði þar sem ályktað var að hún væri sek um þung­un­arrof. Þetta er langt frá því að vera eina dæmið um slíkt órétt­læti þar í landi og halda Amnesty-félagar áfram að berjast fyrir því að þessi grimmu og miskunn­ar­lausu lög verði afnumin.

Þó að staðan á mann­rétt­indum víða um heim sé bágborin og ljóst að starfi Amnesty Internati­onal sé hvergi nærri lokið halda félagar og aðgerða­sinnar áfram barátt­unni allt þar til síðasta pynd­inga­klef­anum verður lokað, dauðarefs­ingin heyrir sögunni til og mann­rétt­indi allra eru virt. Stuðn­ingur þinn skiptir máli.

 

Grein: Anna Lúðvíks­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Íslands­deildar Amnesty Internati­onal

Lestu einnig