Skýrslur

20. febrúar 2020

Miðaust­ur­lönd: Nýrri bylgju mótmæla mætt með hörku

Samkvæmt ársskýrslu Amnesty Internati­onal um ástand mann­rétt­inda í Miðaust­ur­löndum (Norður-Afríka þar meðtalin) beittu stjórn­völd á svæðinu sér af hörku gegn mótmæl­endum sem kölluðu eftir rétt­læti og póli­tískum umbótum á árinu 2019.

Í skýrsl­unni er greint frá því hvernig stjórn­völd beittu sér gegn mótmæl­endum í stað þess að hlusta á kröfur þeirra. Kúgunin beindist bæði að frið­sömum gagn­rýn­endum á götum úti og á netinu.

Helstu atriði úr skýrsl­unni:

  • Staða mann­rétt­inda í 19 löndum í Miðaust­ur­löndum
  • Bylgja mótmæla í Alsír, Írak, Íran og Líbanon vekur vonir fólks
  • Ríflega 500 myrtir í Írak og rúmlega 300 í Íran í grimmi­legum aðgerðum gegn mótmælum
  • Ofsóknir gegn frið­sömum gagn­rýn­endum og baráttu­fólki gegn mann­rétt­indum
  • 136 samviskufangar í haldi í 12 löndum vegna tján­ingar á netinu

 

Mótmæli

Mótmælin í Miðaust­ur­löndum fylgdu í takt við mótmæli um heim allan þar sem fólk hélt út á götur til að krefjast rétt­inda sinna, allt frá Hong Kong til Chile:

  • Í Írak og Íran beittu stjórn­völd grimmi­legum aðgerðum gegn mótmæl­endum sem leiddu til dauða hundruð einstak­linga.
  • Í Líbanon beitti lögregla ólög­mætu og óhóf­legu valdi til að tvístra mótmæl­endum.
  • Í Alsír beittu stjórn­völd fjölda­hand­tökum og málsóknum til að berja niður mótmæli.
  • Í Súdan beittu örygg­is­sveitir sér harka­lega gegn fjölda­mót­mælum sem að lokum leiddi til póli­tískts samkomu­lags við hreyf­inguna sem leiddi mótmælin.

 

„Árið 2019 var ár mótspyrnu í Miðaust­ur­löndum. Þetta var einnig ár sem sýndi að vonin lifir enn. Þrátt fyrir blóð­ugar afleið­ingar uppreisna í Sýrlandi, Jemen og Líbíu árið 2011 og versn­andi mann­rétt­inda­ástands í Egyptalandi hefur trú fólksins  á samstöðu sem afli til breyt­inga verið endur­vakin.“

Heba Moayef, fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Miðaust­ur­löndum og Norður-Afríku

 

 

Aðför gegn mótmæl­endum á götum úti

Stjórn­völd í Miðaust­ur­löndum beittu marg­vís­legum aðferðum til að brjóta á bak aftur mótmæli almenn­ings. Þúsundir mótmæl­enda voru hand­teknir að geðþótta og sums staðar var harka­legum og jafnvel banvænum aðgerðum beitt.

  • Í Írak féllu að minnsta kosti 500 einstak­lingar á árinu 2019. Mótmæl­endur sýndu gríð­ar­lega þraut­seigju þrátt fyrir að standa frammi fyrir leyniskyttum og tára­gassprengjum.
  • Samkvæmt áreið­an­legum gögnum voru rúmlega 300 einstak­lingar myrtir í Íran af örygg­is­sveitum landsins á einungis fjórum dögum, dagana 15. til 18. nóvember, í tilraun stjórn­valda til að brjóta á bak aftur mótmæli. Þúsundir einstak­linga voru hand­teknir og margir sættu þvinguðu manns­hvarfi og pynd­ingum.
  •  Ísra­elskar hersveitir myrtu tugi Palestínubúa sem mótmæltu í Gaza og á Vest­ur­bakk­anum.
  • Fjölda­mót­mæli í Alsír urðu til þess að Abdelaziz Bouteflika forseti landsins sagði af sér embætti eftir 20 ár á valda­stólnum. Stjórn­völd reyndu að brjóta á bak aftur mótmæli með fjölda­hand­tökum og málsóknum gegn mótmæl­endum.
  • Fjölda­mót­mæli í Líbanon, sem hófust í október og leiddu til afsagnar ríkis­stjórn­ar­innar, byrjuðu að mestu frið­sam­lega. Í nokkur skipti voru mótmæl­endur beittir ofbeldi og örygg­is­sveitir brugðust skyldu sinni að vernda frið­sama mótmæl­endur sem urðu fyrir árásum frá stuðn­ings­fólki póli­tískra andstæð­inga.
  • Í Egypta­landi brutust út mótmæli í sept­ember sem komu stjórn­völdum að óvörum. Þau brugðust við með fjölda­hand­tökum á rúmlega 4000 einstak­lingum.

Kúgun gegn andófi á netinu

Stjórn­völd réðust ekki aðeins gegn mótmæl­endum á  götum úti heldur einnig fólki sem nýtti tján­ing­ar­frelsi sitt á netinu. Fjöl­miðla­fólk, blogg­arar og aðgerða­sinnar sem skrifuðu færslur eða settu mynd­bönd á samfé­lags­miðla sem voru álitin gagn­rýnin á stjórn­völd voru hand­tekin, yfir­heyrð og sættu málsóknum. Samkvæmt tölum Amnesty Internati­onal voru 136 einstak­lingar í 12 löndum hand­teknir fyrir frið­sama tján­ingu á netinu. Stjórn­völd misnotuðu einnig vald sitt til að hindra aðgang fólks l að  upplýs­ingum eða deil­ingu þeirra.

  • Í Íran lokuðu stjórn­völd nánast alveg fyrir aðgengi að netinu þegar mótmæli stóðu yfir til að stöðva dreif­ingu mynd­banda og mynda af örygg­is­sveitum sem myrtu og særðu mótmæl­endur. Áfram var lokað fyrir samfé­lags­miðla eins og Face­book, Telegram, Twitter og YouTube.
  • Í Egyptalandi trufluðu stjórn­völd notkun samskipta­for­rita í tilraun sinni til að hindra frekari mótmæli.
  • Vefsíður voru ritskoð­aðar af egypskum og palestínskum stjórn­völdum.

 

Nokkur ríki beittu einnig háþró­aðri tækni í eftir­liti á netinu gegn baráttu­fólki fyrir mann­rétt­indum. Rann­sókn Amnesty Internati­onal beindi athygli að tveimur mann­rétt­inda­sinnum frá Marokkó sem voru skot­mark njósna­hug­bún­aðar, þróaður af ísra­elska fyrir­tækinu NSO Group. Sama hugbúnaði hafði áður verið beitt gegn aðgerða­sinnum í Sádi-Arabíu og Sameinuðu arab­ísku fursta­dæmunum auk starfs­manns Amnesty Internati­onal.

Amnesty Internati­onal skráði 367 mann­rétt­inda­sinna sem voru settir í varð­hald (þar af voru 240 hand­teknir að geðþótta eingöngu í Íran) og 118 voru sóttir til saka árið 2019. Talan er þó að öllum líkindum hærri.

„Það að stjórn­völd í Miðaust­ur­löndum sýna ekkert umburð­ar­lyndi gagn­vart frið­samri tján­ingu á netinu lætur í ljós ótta þeirra við mátt hugmynda sem stangast á við þeirra. Stjórn­völd verða að leysa alla samviskufanga úr haldi án tafar og skil­yrð­is­laust og hætta að áreita frið­sama gagn­rýn­endur og mann­rétt­inda­sinna.“

 Philip Luther, yfir­maður rann­sóknar-og aðgerða­deildar Miðaust­ur­landa og Norður-Afríku hjá Amnesty Internati­onal.

Vonarglæta

Þrátt fyrir að refsi­leysi sé útbreitt í Miðaust­ur­löndum náðist sögu­legur árangur í að sækja ábyrgð­ar­aðila til saka. .

  • Alþjóða­saka­mála­dóm­stóllinn gaf út yfir­lýs­ingu um að stríðs­glæpir hefðu verið framdir á hernumdu svæðum Palestínu og fóru fram á að hafin yrði rann­sókn um leið og lögsaga dómstólsins væri stað­fest. Þetta er mikil­vægt tæki­færi til að binda endi á refsi­leysi. Dómstóllinn gaf einnig til kynna að rann­sókn yrði gerð á mann­falli í mótmælum á Gaza vegna harka­legra aðgerða Ísraela.
  • Sann­leiksnefnd í Túnis gaf útloka­skýrslu og 78 rétt­ar­höld hófust sem opnar á mögu­leikann að draga örygg­is­sveitir til ábyrgðar fyrir ofbeldi fyrri ára.

 

Rétt­indi kvenna eiga enn á brattann að sækja á svæðinu og herjað hefur verið á baráttu­konur, sérstak­lega í Íran og Sádi-Arabíu. Þó áttu einhverjar umbætur  sér stað:

  • Sádi-Arabía innleiddi löngu tíma­bærar umbætur á kerfi sem skyldar konur til að lúta forsjá karl­manna þar í landi. Það skyggði þó á að fimm baráttu­konur fyrir mann­rétt­indum voru áfram í haldi allt árið 2019 fyrir aðgerðir sínar í þágu mann­rétt­inda.

 

Nokkur Persa­flóa­ríki tilkynntu umbætur til verndar farand­verka­fólki:

  • Katar lofaði að leggja niður kafala, kerfi þar sem farand­verka­fólk er skyldugt til að hafa ábyrgð­ar­aðila sem er oftast vinnu­veit­andi.
  • Jórdanía og Sameinuðu arab­ísku fursta­dæmin boðuðu umbætur á kafala.

Farand­verka­fólk verður þó enn fyrir misbeit­ingu á svæðinu.

„Stjórn­völd í Miðaust­ur­löndum þurfa að læra að þau geta ekki bælt  niður kröfur fólks um félagsleg-, efna­hagsleg og stjórn­málaleg grunn­rétt­indi með því að kúga mótmæl­endur og fang­elsa frið­sama gagn­rýn­endur og baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum. Í stað þess að brjóta á mann­rétt­indum til að halda völdum verða stjórn­völd að tryggja póli­tísk rétt­indi fólks svo það geti tjáð kröfur sínar og veitt ríkis­stjórnum aðhald,“

Heba Moayef, fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal í Miðaust­ur­löndum og Norður-Afríku.

ÁRSSKÝRSLUNA MÁ LESA HÉR Í HEILD SINNI

Frétt um árskýrslu Amnesty Internati­onal um ástand mann­rétt­inda­mála í Asíu árið 2019

Lestu einnig