Fréttir

11. september 2020

Tyrk­land: Dómur yfir fjórum mann­rétt­inda­fröm­uðum

Þúsundir einstak­linga hafa sætt fang­elsis­vist í Tyrklandi fyrir að gagn­rýna stjórn­völd. Í kjölfar misheppn­aðrar vald­aránstilraunar í Tyrklandi árið 2016 hafa stjórn­völd herjað á gagn­rýn­endur og mann­rétt­inda­frömuði. Á meðal þeirra eru fram­kvæmda­stjóri Tyrk­lands­deildar Amnesty Internati­onal og formaður deild­ar­innar. Rétt­ar­höldin yfir þeim hafa verið táknræn fyrir þá kúgun sem hefur átt sér stað í Tyrklandi á síðustu fjórum árum.

Idil Eser, fram­kvæmda­stjóri Tyrk­lands­deildar Amnesty Internati­onal, var hand­tekin ásamt níu öðrum mann­rétt­inda­fröm­uðum árið 2017. Hópurinn var kall­aður Istanbúl 10. Taner Kiliç, formaður Tyrk­lands­deild­ar­innar, var einnig hand­tekinn mánuði áður. Árið 2017 var mál þeirra hluti af árlegri herferð Amnesty Internati­onal, Þitt nafn bjargar lífi.

Réttarhöld

Það voru miklar gleðifréttir þegar öll úr Istanbúl-hópnum voru laus úr haldi eftir næstum fjóra mánuði á bak við lás og slá og einnig þegar Taner Kiliç var leystur úr haldi gegn trygg­ingu árið 2018 eftir 14 mánaða fang­elsis­vist.

Í rúm þrjú ár hafa þessir 11 mann­rétt­inda­fröm­uðir, Istanbúl 10 og Taner Kiliç, staðið frammi fyrir röngum sakargiftum um hryðju­verk. Í byrjun júlí 2020 voru fjögur af þeim dæmd þrátt fyrir að enginn fótur væri fyrir ásök­unum.

„Ákvörðun dómstólsins er sláandi. Í tólf fyrir­tökum í dóms­málinu hefur verið sýnt að allar ásak­anir eru með öllu tilhæfu­lausar. Úrskurður dómstólsins eru órök­réttur og sýnir að rétt­ar­höldin á síðustu þremur árum hafa frá fyrsta degi verið póli­tísk tilraun til að þagga niður í gagn­rýn­is­röddum.“

Andrew Garnder, rann­sak­andi Amnesty Internati­onal í Tyrk­land.

Taner Kiliç var dæmdur til 6 ára og þriggja mánaða fang­elsis­vistar fyrir að vera meðlimur í hryðju­verka­sam­tökum og Idil Eser ásamt tveimur öðrum mann­rétt­inda­fröm­uðum úr hópnum var dæmd í 25 mánaða fang­elsi fyrir að aðstoða hryðju­verka­samtök. Ekki hefur verið gefin út hand­töku­til­skipun og þau sæta ekki fang­elsis­vist á meðan málið er í áfrýj­un­ar­ferli sem gæti tekið mörg ár.

„Málið hefur verið próf­steinn á tyrk­neska dóms­kerfið. Það er sorg­legt að dóms­kerfið sé þátt­tak­andi í að glæpa­væða störf í þágu mann­rétt­inda. Við höldum áfram að styðja við bakið á vinum okkar og samstarfs­fólki á meðan þau áfrýja þessum svívirði­lega dóms­úrskurði.“

Andrew Garnder, rann­sak­andi Amnesty Internati­onal í Tyrk­land.

Lestu einnig