Skýrslur
17. desember 2025
Í kjölfar nýafstaðins aðildarríkjaþings Alþjóðlega sakamáladómstólsins (ICC) kallar Amnesty International eftir því að ríki heims skuldbindi sig að tryggja alþjóðlegt réttlæti fyrir alla þolendur, bæði á hernumda svæðinu í Palestínu og í Ísrael, vegna stríðsglæpa, glæpa gegn mannúð og hópmorðs.
„Alþjóðlega réttarkerfið liggur undir árás og tilvist þess er ógnað. Mesta prófraun þess er í Ísrael og á hernumda svæðinu í Palestínu. Ríki verða að sýna skuldbindingu sína við alþjóðlegt réttlæti með því að styðja stofnanir á borð við Alþjóðlega sakamáladómstólinn og vernda getu þeirra til að tryggja að gerendur sæti ábyrgð.“
Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International.
Hópmorð Ísraels
Tveimur mánuðum eftir að vopnahlé var tilkynnt og öllum ísraelskum gíslum, sem enn voru á lífi, var sleppt hafa ísraelsk yfirvöld haldið áfram að fremja hópmorð á Palestínubúum á Gaza í algjöru refsileysi og þeim er enn þröngvað til að búa við lífsskilyrði sem miða að líkamlegri eyðingu hópsins. Ísraelsk yfirvöld hafa ekki sýnt nein merki um að ásetningur þeirra hafi breyst. Lesa má nánar frétt um lagalega greiningu Amnesty International hér.
„Aðgerðaleysi af ásettu ráði af hálfu alþjóðasamfélagsins við að draga Ísrael til ábyrgðar fyrir brot á alþjóðalögum og skortur á þrýstingi á Ísrael að fylgja tilmælum stofnana Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra mannréttindasamtaka hefur fest ólöglegt hernám Ísraels og aðskilnaðarstefnu í sessi og beinlínis gert Ísrael kleift að fremja hópmorð á Palestínubúum á Gaza.“
Agnès Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International.
Brot Hamas og annarra vopnaðra hópa
Það er einnig mikilvægt að tryggja að palestínskir vopnaðir hópar verði dregnir til ábyrgðar fyrir glæpi sína.
Amnesty International birti nýverið skýrslu sem greinir frá því hvernig vopnaður hópur Hamas, Al-Qassam-sveitin og aðrir palestínskir vopnaðir hópar frömdu stríðsglæpi og glæpi gegn mannúð í árásinni þann 7. október 2023 og gegn gíslunum sem var haldið föngnum á Gaza í kjölfar árásarinnar.
Út frá greiningu á árásinni, sönnunargögnum og ákveðnum samskiptagögnum á milli vígamannanna á meðan á árásinni stóð, auk yfirlýsinga Hamas og leiðtoga annarra vopnaðra hópa, komst Amnesty International að þeirri niðurstöðu að þessir glæpir væru hluti af víðtækri og kerfisbundinni árás á óbreytta borgara. Í skýrslunni kemur fram að vígamönnum hafi verið fyrirskipað að beina árásum sínum á óbreytta borgara.
Hamas hefur sagt að sveitir þeirra hafi ekki tekið þátt í morðum, mannráni og illri meðferð á óbreyttum borgurum í árásinni þann 7. október 2023 og að margir óbreyttir borgarar hafi verið drepnir af hermönnum Ísraels.
Samkvæmt rannsókn Amnesty International byggt á myndböndum, vitnisburðum og öðrum umfangsmiklum sönnunargögnum, var meirihluti óbreyttra borgara drepinn af ásettu ráði af Hamas og öðrum palestínskum vígamönnum, langt frá hernaðarlegum skotmörkum þrátt fyrir að sumir þeirra hafi verið drepnir af ísraelskum hersveitum þegar þær reyndu að stöðva árásina. Vígamennirnir báru einnig ábyrgð á mannráni óbreyttra borgara sem voru beittir líkamlegu, kynferðislegu og sálrænu ofbeldi.
Að auki voru 251 einstaklingur fluttur nauðugur til Gaza og haldið í gíslingu. Þetta voru að mestu leyti óbreyttir borgarar, þar á meðal eldra fólk og börn. Flestir þeirra voru á lífi þegar þeim var rænt og haldið í gíslingu en að sögn voru 36 þeirra þegar látnir. Þeim var haldið vikum og mánuðum saman og í einhverjum tilfellum í tvö ár.
Amnesty International tók viðtöl við 70 einstaklinga, þar á meðal 17 sem lifðu af árásina 7. október 2023, fjölskyldur þolenda, réttarmeinafræðinga, lækna, lögfræðinga og aðra rannsakendur. Rannsakendur heimsóttu suma árásarstaði og skoðuðu rúmlega 350 myndbönd og myndir frá árásinni og af fólkinu sem var haldið föngnu á Gaza.
Glæpir gegn mannúð
Rannsókn Amnesty International leiddi í ljós að Hamas framdi eftirfarandi glæpi gegn mannúð: morð, útrýmingu, fangelsun eða aðra alvarlega frelsissviptingu sem stríðir gegn grundvallarreglum þjóðaréttar, mannshvörf af manna völdum, pyndingar og nauðgun eða annað álíka alvarlegt kynferðisofbeldi og aðra ómannúðlega verknaði af svipuðum toga.
Hryllileg brot Ísraels gegn Palestínubúum, þar á meðal áratugalangt ólögmætt hernám, aðskilnaðarstefna gegn Palestínubúum og yfirstandandi hópmorð á Palestínubúum á Gaza, getur á engan hátt afsakað þessa glæpi. Það undanskilur heldur ekki palestínska vopnaða hópa að framfylgja alþjóðalögum.
Viðurkenna þarf að palestínskir vopnaðir hópar brutu gegn alþjóðalögum í tengslum við árásina þann 7. október 2023 og fordæma brotin sem grimmdarverk. Hamas verður að afhenda líkamsleifar einstaklinga sem voru drepnir á Gaza í árásinni um leið og þær finnast.
Palestínsk yfirvöld verða einnig að viðurkenna að vopnaðir palestínskir hópar hafi framið alvarleg brot á alþjóðalögum og fordæma þau. Þeim ber að framkvæma óháða, hlutlausa og skilvirka rannsókn til að bera kennsl á-gerendur þessara brota og sýna fullan samstarfsvilja við alþjóðlega rannsóknaraðila, meðal annars með því að deila þeim sönnunargögnum sem þau hafa.
Alþjóðlegt réttlæti fyrir allar þolendur er nauðsynlegt
Til að tryggja ósvikið, skilvirkt og raunverulegt réttlæti og hindra að endurtekin brot eigi sér ekki stað leggur Amnesty International til að vegvísir fyrir réttlæti byggist á samvinnu stofnana og kerfis sem er ætlað að stuðla að réttlæti. Má þar nefna rannsókn Alþjóðlega sakamáladómstólsins á glæpum Ísraela og Palestínubúa sem verður að fá að fara fram án hindrana og með aðkomu rannsakenda og annarra aðila innan réttarkerfisins.
Vegvísirinn fyrir réttlæti verður að skuldbinda ríki til að styðja rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðlega sakamáladómstólinn að fullu. Ríkin verða að framfylgja handtökuskipunum dómstólsins, aflétta refsiaðgerðum og tálmunum gegn palestínskum mannréttindasamtökum og grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að þvingunaraðgerðum og takmörkunum sem palestínsk mannréttindasamtök sæta verði aflétt.
Mikilvægt er að gripið sé til aðgerða til að háttsettir ísraelskir embættismenn sæti ábyrgð fyrir brot sín á alþjóðalögum. Það er nauðsynlegt skref í átt að því að binda enda á hópmorð Ísraels á palestínubúum á Gaza, endurvekja traust á alþjóðalögum og tryggja að allir þolendur stríðsglæpa og glæpa gegn mannúð, fái aðgang að réttlæti, sannleika og skaðabótum.
„Ábyrgð er ekki samningsatriði. Gerendur sem hafa brotið alþjóðalög verða að sæta ábyrgð og þær stofnanir sem þeir eru í forsvari fyrir verða að breyta um stefnu í átt að mannréttindum og alþjóðalögum, þar á meðal með því að samþykkja lög sem koma í veg fyrir að slík brot verði endurtekin.“
Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu