Skýrslur

30. apríl 2020

Afríka: Átök og kúgun leiða til mann­rétt­inda­brota

Fram kemur í ársskýrslu Amnesty Internati­onal fyrir árið 2019 að mótmæl­endur í Afríku sunnan Sahara hafi barist fyrir rétt­indum sínum gegn átökum og kúgun þrátt fyrir hættu á skotárásum eða barsmíðum. Í skýrsl­unni er greint frá mótmælum og harka­legum viðbrögðum stjórn­valda, mann­rétt­inda­brotum og átökum víðs­vegar á svæðinu. Herjað var á aðgerða­sinna og fjöl­miðla­fólk og þúsundir óbreyttra borgara þjáðust vegna átaka.

Árið 2019 kom samtaka­máttur fólksins berlega í ljós í mótmælum víðs­vegar í Afríku sunnan Sahara. Í löndum eins og Súdan, Simbabve, Lýðstjórn­ar­lýð­veldinu Kongó og Gíneu reis fólk upp gegn harka­legum aðgerðum til að berjast fyrir rétt­indum sínum. Í sumum tilfellum hafa mótmælin leitt til stórra breyt­inga. Í kjölfar þess að forseti Súdan, Omar al Bashir, hrökkl­aðist frá völdum hafa ný yfir­völd lofað umbótum í þágu mann­rétt­inda. Í kjölfar mótmæla í Eþíópíu tilkynntu stjórn­völd einnig um umbætur í þágu mann­rétt­inda.

Átök

Átök og ofbeldi bitnuðu verst á óbreyttum borg­urum á svæðinu:

Í Darfúr í Súdan voru mögu­lega framdir stríðs­glæpir af hálfu hersveita stjórn­valda ásamt öðrum alvar­legum mann­rétt­inda­brotum, þar á meðal morð, kynferð­isof­beldi, kerf­is­bundnar grip­deildir og nauð­ung­ar­flutn­ingar.

Í Lýðstjórn­ar­lýð­veldinu Kongó frömdu örygg­is­sveitir og tugir vopn­aðra hópa, innlendir sem erlendir, enn og aftur mann­rétt­inda­brot. Tvö þúsund óbreyttir borg­arar féllu og að minnsta kosti ein milljón íbúa sætti nauð­ung­ar­flutn­ingum.

Í Sómalíu urðu óbreyttir borg­arar fyrir áfram­hald­andi árásum af hálfu vopnaða hópsins Al-Shabaab. Stjórn­völd í landinu og alþjóð­legir banda­menn þeirra náðu ekki að grípa til aðgerða til að vernda fólk gegn árásum Al-Shabab.

Vopn­aðir hópar beindu árásum að óbreyttum borg­urum í Kamerún, Mið-Afríku­lýð­veldinu og Búrkína Fasó og brugðust stjórn­völd þar í landi skyldu sinni að vernda almenning.

Miðhluti Malí varð óöruggara svæði þar sem vopn­aður hópur, sem telur sig vera sjálfs­varn­arhóp, myrti fjölda óbreytta borgara. Örygg­is­sveitir brugðust við með því að fremja fjöl­mörg mann­rétt­inda­brot, þar á meðal aftökur án dóms og laga og pynd­ingar.

Í Mósambík réðust vopn­aðir hópar á íbúa í Cabo Delgado. Talið er að örygg­is­sveitir hafi framið mann­rétt­inda­brot til að bregðast við ofbeldinu.

Í Eþíópíu brutust út átök milli þjóð­ar­brota og brugðust örygg­is­sveitir við af mikilli hörku.

Í ensku­mæl­andi hluta Kamerún, héldu vopn­aðir aðskiln­að­ar­sinnar áfram að fremja mann­rétt­inda­brot, meðal annars morð, limlest­ingar og mannrán. Að auki eyði­lögðu þeir heilsu­gæslu­stöðvar. Hersveitir brugðust við með aftökum án dóms og laga og íkveikjum í húsum.

„Aðgengi að heil­brigð­is­þjón­ustu er enn eitt stærsta áhyggju­efni fólks á svæðinu. Undir­fjármögnun í heil­brigðis­kerfinu hefur leitt til skorts á sjúkra­rúmum og lyfjum á sjúkra­húsum. Stjórn­völd í löndum eins og Angóla, Simbabve, Búrúndí og Kamerún hafa bruðgist skyldu sinni að vernda réttinn til heilsu og átök á svæðinu gera ástandið enn verra. Á tímum kórónu­veirufar­ald­ursins má enginn tími fara til spillis í aðgerðum gegn ójöfnuði og mann­rétt­inda­brotum sem valda því að heil­brigð­is­þjón­usta er óaðgengileg fyrir marga.“

Samira Daoud, fram­kvæmda­stjóri Vestur- og Mið-Afríku­deildar Amnesty Internati­onal.

Kúgun ríkis

Baráttu­fólk fyrir mann­rétt­indum ofsótt og áreitt fyrir að standa gegn stjórn­völdum og gagn­rýna þau. Herjað var á aðgerð­astarf í Búrúndí, Malaví, Mósambík, Esvatíní, Sambíu og Miðbaugs-Gíneu árið 2019. Til dæmis:

  • Í Malaví fóru fram mótmæli vegna kosn­inga­svika í kjölfar kosn­inga í maí. Aðgerða­sinn­arnir sem skipu­lögðu og leiddu mótmælin urðu fyrir árásum og ógnunum frá ungl­iðum stjórn­ar­flokks og voru sóttir til saka af yfir­völdum. Kosn­ing­arnar voru síðar gerðar ógildar af dómstólum og undir­bún­ingur fyrir aðrar kosn­ingar árið 2020 eru hafnar.
  • Í Simbabve voru að minnsta kosti 22 mann­rétt­inda­fröm­uðir, aðgerða­sinnar og leið­togar borg­ar­ar­lega samtaka og stjórn­ar­and­stæð­inga ákærðir vegna gruns um skipu­lagn­ingu mótmæla gegn olíu­verð­hækk­unum í janúar 2019. Örygg­is­sveitir beittu harka­legum aðgerðum til að brjóta á bak aftur mótmæli sem urðu til þess að 15 einstak­lingar létu lífið og tugir særðust.
  • Í Gíneu bönnuðu stjórn­völd yfir 20 mótmæli á óljósum og of víðtækum grund­velli. Örygg­is­sveitir ýttu undir ofbeldi í mótmælum þar sem að minnsta kosti 17 einstak­lingar létu lífið á síðasta ári.

Í 17 löndum víðs­vegar í Afríku sunnan Sahara, var fjöl­miðla­fólk hand­tekið af geðþótta og sett í varð­hald. Til dæmis:

Í Nígeríu voru skráð 19 tilvik þar sem fjöl­miðla­fólk sætti árásum, geðþótta­hand­tökum og varð­haldi. Margt þeirra stendur frammi fyrir röngum sakargiftum.

Í Búrúndí herjuðu stjórn­völd á mann­rétt­inda­frömuði og borg­araleg samtök meðal annars með málsóknum og löngum fang­els­is­dómum.

Umrót

Þúsundir neyddust til að flýja heimili sín í leit að vernd vegna mann­rétt­inda­brota. Í Mið-Afríku­lýð­veldinu voru 600 þúsund einstak­lingar vega­lausir innan eigin lands, yfir 222 þúsund í Tjad og hálf milljón í Búrkína Fasó.

Í Suður-Afríku átti sér stað kerf­is­bundið ofbeldi gegn farand- og flótta­fólki og umsækj­endum um alþjóð­lega vernd. Ofbeldið  var að hluta  tilkomið vegna refsi­leysis og bresta í dóms­kerfinu. Í ágúst og sept­ember létust 12 einstak­lingar, bæði Suður-Afríku­búar og útlend­ingar, þegar ofbeldi braust út.

Sigrar fyrir mannréttindi

Þrátt fyrir dökka mynd unnust samt sem áður nokkrir sigrar á árinu 2019.

  • Fjölda­mót­mæli í Súdan enduðu stjórn­artíð Omar al-Bashir í apríl. Ný stjórn­völd lofuðu umbótum á stöðu mann­rétt­inda þar í landi.
  • Eþíópísk stjórn­völd felldu úr gildi löggjöf sem takmarkaði funda- og tján­ing­ar­frelsi í landinu og lögðu fram ný lög fyrir þingið í stað harð­neskju­legra laga gegn hryðju­verkum.
  • Í Lýðstjórn­ar­lýð­veldinu Kongó tilkynntu stjórn­völd um lausn 700 fanga, þeirra á meðal nokk­urra samviskufanga.

  • Í Márit­aníu var blogg­arinn og samviskufanginn Mohamed Mkhaïtir leystur úr haldi en hann hafði verið dæmdur til dauða og honum haldið í fang­elsi að geðþótta í rúm fimm ár.
  • Vonar­neisti fyrir fjöl­skyldur fórn­ar­lamba loft­árása Banda­ríkj­anna í Sómalíu kviknaði þegar AFRICOM, herstjórn á vegum banda­ríska hersins, viður­kenndi í apríl að hafa valdið dauða tveggja óbreyttra borgara í loft­árásum 2018. Enginn á vegum banda­ríska sendi­ráðsins eða AFRICOM hefur þó boðið aðstand­endum skaða­bætur.
  • Í Mið-Afríku­lýð­veldinu hafa orðið fram­farir í rann­sókn á ofbeldi vopn­aðra hópa. Sérstakur glæpa­dóm­stóll fékk 27 tilkynn­ingar um slíkt ofbeldi og hóf rann­sókn á síðasta ári.

Lestu einnig