Skýrslur
16. apríl 2020Samkvæmt ársskýrslu Amnesty International um mannréttindi í Evrópu og Mið-Asíu fyrir árið 2019 fólust helstu mannréttindabrotin í tilraunum til að draga úr sjálfstæði dómskerfisins til að forðast ábyrgðarskyldu og að brjóta á bak aftur mótmæli.
„Einstaklingar sættu ógnunum, hótunum, málsóknum, óhóflegu valdi lögreglu og mismunun. Grasrótarhreyfingar hugrakks fólks sem þorði að rísa upp og draga stjórnvöld til ábyrgðar veita von um framtíðina.“
Marie Struthers, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty International.
Sjálfstæði dómstóla ógnað
Sjálfstæði dómstóla er grundvallaratriði til að tryggja sanngjörn réttarhöld og vernda mannréttindi. Stjórnarflokkar tóku ósvífin skref til að hafa stjórn á dómurum og dómstólum sem ógnuðu sjálfstæði dómskerfis Póllands.
Dómarar og saksóknarar sem komu dómskerfinu í landinu til varnar sættu mannréttindabrotum. Margir þeirra sættu refsiaðgerðum vegna agabrota og aðrir urðu fyrir rógsherferð á ríkisfjölmiðlum og samfélagsmiðlum.
Þá jukust áhyggjur vegna sjálfstæðis dómstóla Ungverjalands, Rúmeníu og Tyrklands. Dómarar í Ungverjalandi hafa sætt árásum úr mörgum áttum í tilraunum stjórnvalda til að draga úr sjálfstæði dómstóla.
Í maí síðastliðnum varaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins Rúmeníu við því að landið gæti misst ákveðin réttindi sem aðildarríki fyrir að brjóta á grundvallargildum Evrópusambandsins ef ekki yrðu ákveðnar úrbætur, meðal annars til að hindra íhlutun framkvæmdavaldsins á sjálfstæði dómstóla.
Umbætur á dómskerfinu í Tyrklandi voru samþykktar á þinginu. Engar úrbætur voru þó lagðar fram til að koma í veg fyrir þann gífurlega pólitíska þrýsting sem dómstólar eru undir eða binda enda á ósanngjörn réttarhöld, málsóknir og sakfellingar af pólitískum toga.
Fundafrelsi
Mikilvægi sjálfstæðis dómkerfisins til verndar einstaklingsfrelsi kom berlega í ljós árið 2019 þegar ríki settu frekari takmarkanir á mótmæli í Frakklandi, Póllandi og Tyrklandi og drógu mótmælendur til saka.
Ríki brugðust skyldu sinni þegar öryggissveitir voru ekki dregnar til ábyrgðar fyrir ofbeldi gegn mótmælendum.
Dómarar í málum mótmælenda voru sumir hverjir áreittir eða lækkaðir í tign af pólskum stjórnvöldum.
„Í Moskvu og öðrum rússneskum borgum fóru stærstu mótmæli síðustu ára fram vegna ákvörðunar stjórnvalda um að banna stjórnarandstæðingum þátttöku í borgarstjórnarkosningum. Aðgerðir gegn mótmælum leiddu til þess að 24 mótmælendur voru sakfelldir fyrir að nýta rétt sinn til að mótmæla. Refsiaðgerðir gegn mótmælendum í Moskvu komu af stað fordæmalausri samstöðuherferð sem er frekari merki um vitundarvakningu um mannréttindi og samtakamátt fólksins í Rússlandi.“
Marie Struthers, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty International.
Fólksflutningar
Með útvistun landamæragæslu til landa þar sem staða mannréttinda er bág eru ríki í Evrópu enn að forðast að taka ábyrgð á mannréttindabrotum í málefnum farand- og flóttafólks.
Áhersla þessara Evrópuríkja var enn sú sama árið 2019 þar sem verndun landamæra umfram mannslífa var í forgangi. Ríkin héldu áfram samstarfi við Líbíu um að halda farand- og flóttafólki þar í landi þrátt fyrir versnandi öryggisástand í landinu.
Ítölsk yfirvöld framlengdu samkomulag sitt við Líbíu um varðhald farand- og flóttafólks um þrjú ár í nóvember 2019 þrátt fyrir sannanir um áframhaldandi kerfisbundin mannréttindabrot í Líbíu, þar á meðal pyndingar í varðhaldsmiðstöðvum.
Skýrslur um alvarleg mannréttindabrot gegn farand- og flóttafólki dró ekki kjarkinn úr samstarfi Evrópusambandsins við Tyrkland um að hefta fólksflutninga í samræmi við samning þeirra frá árinu 2016. Í október 2019, fyrir árás Tyrklands í norðausturhluta Sýrlands, tók Amnesty International tugi viðtala við Sýrlendinga. Viðtölin gáfu til kynna að hundruð Sýrlendinga hefði verið vísað frá Tyrklandi frá maí fram í september 2019 undir því yfirskini að fólkið hefði snúið sjálfviljugt til baka.
Samningur Evrópusambandsins við Tyrkland hefur einnig leitt til yfirfullra flóttamannabúða sem á sér ekki fordæmi á Eyjahafseyjum (milli Grikklands og Tyrklands) þar sem tugir þúsunda einstaklinga búa við örbirgð.
Árásir gegn baráttufólki fyrir mannréttindum
Borgarasamfélagið, fjölmiðlafólk og aðrir aðilar sem veita stjórnvöldum aðhald fundu vel fyrir þrýstingi árið 2019. Baráttufólk fyrir mannréttindum, fjölmiðlafólk, frjáls félagasamtök og aðrir aðilar sem hafa barist fyrir réttlátara samfélagi voru helstu skotmörk í aðgerðum stjórnvalda.
„Framlag þessara aðila til að draga yfirvöld til ábyrgðar er enn mikilvægara á meðan og eftir að kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Mannúð og samstaða þessara aðila við jaðarhópa samfélagsins eru enn nauðsynlegri nú en nokkru sinni fyrr og mun halda áfram að vera það eftir að kórónuveirufaraldrinum lýkur.“
Marie Struthers, framkvæmdastjóri Evrópudeildar Amnesty International.
Ársskýrslur 2019
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu