Tilkynning

12. febrúar 2021

Mann­rétt­inda­grunn­skólar ársins þriðja árið í röð!

Háteigs­skóli og Alþjóða­skólinn á Íslandi eru Mann­rétt­inda­grunn­skólar ársins 2020 og hlutu nú í febrúar viður­kenn­ingu og verð­launa­grip fyrir frammi­stöðu sína í grunn­skóla­keppni Íslands­deildar Amnesty Internati­onal og titilinn Mann­rétt­inda­grunn­skóli ársins. Þetta er þriðja árið í röð sem skól­arnir sigra keppnina hvor í sínum flokk­inum. Þá hlutu Kvenna­skólinn í Reykjavík og Fram­halds­skólinn á Húsavík viður­kenn­ingu og verð­launa­grip fyrir frammi­stöðu sína í fram­halds­skóla­keppni samtak­anna.

Þitt nafn bjargar lífi 2020, stærsta árlega herferð Amnesty Internati­onal, gekk vonum framar en samtals söfn­uðust 70.405 undir­skriftir til stjórn­valda. Bregða þurfti út af vananum við skipu­lagn­ingu herferð­innar í ár vegna kórónu­veirufar­ald­ursins og því voru engar skóla­heim­sóknir á dagskránni né viðburðir haldnir líkt og venja er. Í grunn­skólum landsins söfn­uðust í heildina 2502 undir­skriftir og 5407 undir­skriftir í fram­halds­skól­unum. Alls söfn­uðust 322 stuðn­ingskveðjur en næstum helm­ing­urinn kom frá nemendum Alþjóða­skólans á Íslandi sem skrifuðu hvorki meira né minna en 145 stuðn­ingskveðjur.

Herferðin Þitt nafn bjargar lífi

Þitt nafn bjargar lífi er stærsti árlegi viðburður Amnesty Internati­onal en þá skrifar fjöldi fólks nafn sitt á bréf og kort til stjórn­valda sem brjóta mann­rétt­indi og krefst rétt­lætis í þágu þolenda brot­anna. Samtímis skrifa hundruð þúsunda einstak­linga víða um heim slík bréf en árið 2019 söfn­uðust í heildina rúmlega 6,6 millj­ónir undir­skrifta um heim allan.

Bréfin bera árangur. Þau bjarga lífi, því þó stjórn­völd eigi auðvelt með að hunsa eitt bréf er erfitt að líta undan þegar millj­ónir slíkra bréfa berast alls staðar að úr heim­inum. Á hverju ári verðum við líka vitni að raun­veru­legum breyt­ingum í lífi þeirra sem beittir eru grófum órétti og við berj­umst fyrir. Við höfum átt þátt í því að fjöldi samviskufanga hafa verið leystir úr haldi, pynd­arar hafa verið látnir svara til saka, fangar á dauða­deild verið náðaðir og ómann­úð­legri löggjöf breytt.

Lestu einnig