Góðar fréttir
18. desember 2025
Þrátt fyrir miklar áskoranir í heiminum í dag verðum við enn og aftur vitni að mikilvægi mannréttindabaráttunnar. Víða um heim krafðist fólk ábyrgðar frá stjórnvöldum, réttlætis fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og frelsis fyrir mannréttindafrömuði. Hér koma góðar fréttir á síðustu sex mánuðum ársins sem veita von og sýna mikilvægi mannúðar og samtakamáttar.
Júlí
Alþjóðlegt: Tvö ráðgefandi álit alþjóðadómstóla mörkuðu tímamót á þessu ári. Álitin áttu þátt í að skýra betur mannréttindaskyldur ríkja á tímum loftslagsváar og styrktu baráttuna fyrir loftslagsréttlæti og ábyrgð. Alþjóðadómstóllinn í Haag gaf út ráðgefandi álit í júlí þar sem kemur skýrt fram að vernda þurfi loftslagið og aðra þætti í umhverfinu til að hægt sé að njóta mannréttinda til fulls.
Þessi æðsti dómstóll heimsins lagði áherslu á að ríkjum bæri skylda að grípa til aðgerða strax, meðal annars með því að setja reglur um starfsemi aðila í einkageiranum og vinna saman að því að vernda núverandi og komandi kynslóðir og vistkerfi vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum.
Mannréttindadómstóll Ameríkuríkja gaf einnig út í sama mánuði ráðgefandi álit þar sem settir voru fram alþjóðlegir staðlar sem gætu haft áhrif á dómaframkvæmd um heim allan.
Tógó: Fimm mótmælendur fundust í ám í höfuðborginni Lomé 6.júlí. Í kjölfar þrýstings Amnesty International og annarra samtaka hófst rannsókn á dauða þeirra . Yfirvöld höfðu í fyrstu neitað að veita upplýsingar um dauðsföll þessara fimm einstaklinga sem höfðu tekið þátt í mótmælum þar sem öryggissveitir höfðu beitt hörku og sögðu að þeir hefðu drukknað
Argentína: Árásarmaður sem drap þrjár samkynhneigðar konur árið 2024 í íkveikjuárás með heimagerðri sprengju var loks ákærður fyrir morð af ásettu áði vegna fordóma. Amnesty International í Argentínu hefur stutt Sofiu, sem var sú eina sem lifði árásina af, í leit hennar að réttlæti.
Senegal: Í kjölfar þrýstings frá Amnesty International bað dómsmálaráðherra ríkissaksóknara um að hefja rannsókn á „pólitísku ofbeldi“ sem átti sér stað á árunum 20021-2024. Amnesty International rannsakaði þetta tímabil og fordæmdi morð á að minnsta kosti 65 mótmælendum og geðþóttahandtökur hundruð einstaklinga í aðdraganda forsetakosninga árið 2024.
Slóvenía: Slóvenía bannaði þann 31. júlí öll vopnaviðskipti við Ísrael, meðal annars innflutning, útflutning og millilendingu, og varð fyrsta aðildarríki Evrópusambandsins til að gera slíkt. Viku síðar var sett bann á innflutning allra vara frá Ísrael sem kæmu frá hernumda svæðinu í Palestínu. Amnesty International í Slóveníu hafði ásamt öðrum samtökum lengi þrýst á stjórnvöld að grípa til þessara aðgerða.
Ágúst
Hernumda svæðið í Palestínu: Ísraelskur dómstóll aflétti þann 24. júlí farbanni á Ahmad Khalefa, palestínskan ríkisborgara Ísraels, sem gerði honum kleift að þiggja boð Amnesty International að ferðast til Ítalíu með fjölskyldu sinni. Farbannið var eitt af skilyrðum fyrir lausn hans í febrúar 2024 eftir að hann hafði verið í haldi í fjóra mánuði fyrir að hrópa slagorð í mótmælum gegn stríði Ísraels á Gaza.
Ahmad sendi Amnesty International eftirfarandi þakkarorð eftir ferð sína til Ítalíu:
„Þessi ferð var þýðingarmikil fyrir mig og fjölskyldu mína. Við erum innilega þakklát. Það var afar þýðingarmikið að skynja umhyggjuna og vinnuna sem lögð var í skipulagninu ferðarinnar og hún gaf okkur tækifæri til að anda léttar og njóta gæðastunda saman.“
Sýrland: Ahmad Aabo, sýrlenskur umsækjandi um alþjóðlega vernd, missti tímabundna vernd sína á meðan hann bjó í Tyrklandi vegna greiningar á HIV. Í kjölfar þrýstings Amnesty International fékk hann vernd sína endurnýjaða þann 26. ágúst og þar með aðgang að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.
„Ég vil senda mínar innilegustu þakkir til allra. Fyrir það eitt að vera með HIV mátti ég þola ofsóknir. Ég var handtekinn. Ég óttaðist að vera handtekinn í hvert sinn sem ég sá lögreglumann. Nú er ég aftur kominn með skilríki mitt og hef endurheimt réttindi mín. Þakkir til ykkar er ekki nóg. Ég óska engum að þurfa að ganga í gegnum það sem ég hef mátt þola. Fólk með HIV ætti að fá stuðning. Ekki að þurfa að þola pyndingar.“
Tyrkland: Amnesty International kallaði eftir lausn Hivda Selen, Sinem Çelebi, and Doğan Nur sem voru handtekin að geðþótta 29. júní á degi gleðigöngunnar í Istanbúl og voru í gæsluvarðhaldi á grundvelli tilhæfulausra ákæra.
Doğan Nur var leystur úr haldi 30. júlí og Sinem Çelebi og Hivda Selen voru leystar úr haldi 8. ágúst.
„Í kjölfar aðgerðar Amnesty International fyrir okkar hönd hefur margt fólk heyrt um málið og gengið til liðs við baráttuna fyrir réttlæti til að tryggja að bundinn verði endi á ólögmætt varðhald/handtökur. Ég vil þakka Amnesty International og stuðningsfólki fyrir framlag sitt í þessu ferli. Samstaðan heldur okkur gangandi!“
Á Íslandi söfnuðust 1923 undirskriftir í máli þeirra.

September
Egyptaland: Alaa Abdel Fattah er egypskur-breskur aðgerðasinni, rithöfundur og hugbúnaðarsmiður sem var áberandi í byltingunni í Egyptalandi árið 2011. Egypsk yfirvöld hafa ítrekað herjað á hann fyrir friðsamlega baráttu hans og gagnrýni á stjórnvöld. Síðast var hann handtekinn 29. september þegar mótmæli voru víða brotin á bak aftur. Í desember 2021 var hann dæmdur í fimm ára fangelsi á grundvelli falskra ákæra um að „breiða út falsfréttir“ í samfélagsmiðlafærslu.
Hann átti að ljúka afplánun árið 2027 þar sem egypsk yfirvöld ákváðu að gæsluvarðhald yrði ekki til frádráttar frá dómi hans.
Amnesty International, ekki síst Amnesty International í Bretlandi, hefur lengi barist fyrir lausn hans. Hann fékk að lokum náðun forseta og var leystur úr haldi í september 2025. Frelsi hans hefði aldrei orðið að veruleika án óþreytandi baráttu og þrýstings frá móður hans, Lailu Souif, og systrum hans, Monu og Sanaa Saif.
Búrkína Fasó: Bráðabirgðaþing Búrkína Fasó samþykkti lög þann 1. september þar sem lágmarksaldur fyrir hjónaband er 18 ára fyrir bæði drengi og stúlkur og samþykki beggja aðila þarf til að geta gengið í hjónaband. Amnesty International hefur lengi kallað eftir þessum lágmarksaldri og þrýst á þarlend stjórnvöld.
Tyrkland: Tugþúsundir aðgerðasinna Amnesty International hjálpuðu til við að tryggja lausn mannréttindafrömuðarins og hinsegin aðgerðasinnans Enes Hocaoğulları úr gæsluvarðhaldi. Hann var fangelsaður eftir að hafa haldið ræðu á Evrópuráðsþinginu í mars 2025 þar sem hann gagnrýndi harkalegar aðgerðir gegn fjöldamótmælum í kjölfar handtöku og fangelsunar borgarstjóra Istanbúl, Ekrem İmamoğlu.
Hann var handtekinn 5. ágúst við komu sína til Tyrklands og var úrskurðaður í gæsluvarðhald sama dag. Mánuði síðar var hann leystur úr haldi í kjölfar þrýstings aðgerðasinna Amnesty International. Á Íslandi söfnuðust 834 undirskriftir í máli hans.
„Takk fyrir árangursríka herferð. Ég var leystur úr gæsluvarðhaldi eftir fyrirtöku í dómsálinu. En samt er baráttunni ekki lokið í máli mínu og ekki heldur fyrir tjáningarfrelsinu. En það segir sig sjálft að ég væri á allt öðrum stað ef ekki væri fyrir velgengni þessarar herferðar, sérstaklega þeirri sem Amnesty International stóð fyrir og skipulagði.Ég er einn af þeim heppnu mannréttindafrömuðum. Svo margir þeirra hafa orðið fyrir og munu halda áfram að verða fyrir hefndaraðgerðum fyrir baráttu sína og fá lítinn sem engan stuðning. Til að minna ykkur á mikilvægi þess að vernda mannréttindafrömuði og árangur slíkra herferða læt ég eftir þessi orð rómversks skálds: „Hver gætir varðanna?“ Ég spyr ykkur: „Hver ver réttindi baráttufólks fyrir mannréttindum?“
Október
Afganistan: Eftir margra mánaða þrýsting frá Amnesty International og Sports & Rights Alliance tilkynnti alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA að stofnað yrði og fjármagnað lið flóttakvenna frá Afganistan.
Fótboltalið Afganistan sem var fyrst myndað árið 2007 sundraðist eftir að talibanar tóku yfir árið 2021 og leikmenn þurftu að flýja landið af ótta við refsiaðgerðir. Frá því að þær flúðu Afganistan hafa þær barist fyrir rétti sínum til að spila fyrir land sitt. Í október skipulagði FIFA mót í Marokkó þar sem liðið fékk að spila sinn fyrsta leik á alþjóðlegu móti gegn Tjad, Túnis og Líbíu.
Stofnandi og fyrrum fyrirliði liðsins, Khalida Popal sagði:
„Við höfum barist svo lengi að það var orðið íþyngjandi, þetta var of mikið. Að sjá síðan leikmennina snúa aftur á völlinn, þá fær maður þessa tilfinningu að þetta hafi allt verið þess virði. Það var þess virði að sjá þessa ungu kynslóð kvenna spila fyrir landið okkar. Þetta var ansi tilfinningaþrungið fyrir mig.“

Nóvember
Grikkland: Í kjölfar herferðar Amnesty International voru þrír stjórnendur og yfirmaður grísku strandgæslunnar ákærðir fyrir aðild sína í Pylos-skipbrotinu þar sem 600 einstaklingar létu lífið. Í maí á þessu ári voru 17 strandverði ákærðir í málinu, meðal annars fyrir að valda skipbroti, setja fólk í hættu og bregðast skyldu sinni til að veita aðstoð.
Argentína: Árangur náðist í baráttunni fyrir réttlæti í máli Sofíu Fernández, 39 ára trans konu sem lést í haldi lögreglu í apríl 2023 í Pilar í Buenos Aires-héraði, tveimur dögum eftir að hún var handtekin af lögreglu. Í júlí voru mál níu af þeim tíu lögregluþjónum sem ákærðir voru felld niður en áfrýjunardómstóll fyrirskipaði í nóvember að þeir skyldu allir sæta réttarhöldum.
Þrír þeirra verða ákærðir fyrir morð af ásettu ráði vegna fordóma gegn trans fólki. Amnesty International í Argentínu hefur stutt fjölskyldu Sofíu í rúm tvö ár og veitt fjárhagsaðstoð í tengslum við sérfræðinga og lögfræðiaðstoð.
Líbía: Í kjölfar rannsóknar Amnesty International á fjölmörgum morðum, geðþóttahandtökum og mannshvörfum Tebu-fólks sem áttu sér stað í suðausturhluta Líbíu skoraði Amnesty International á ríkissaksóknara Líbíu að hefja hlutlausa, gagnsæja og ítarlega rannsókn á þessum brotum. Tveimur vikum síðar tilkynnti saksóknari í tveimur færslum á Facebook annars vegar um að hefja rannsókn á málinu og hins vegar réttarhöld yfir sakborningum í tengslum við morð á Tebu-mönnum. Á sama tíma leystu yfirvöld 12 þessara manna úr haldi sem höfðu verið handteknir að geðþótta.
Malasía: Í sögulegu dómsmáli vann eiginkona malasísks prests mál gegn lögreglunni og stjórnvöldum. Eiginmaður hennar Raymond Koh var tekinn með valdi í úthverfi höfuðborgarinnar Kuala Lumpur árið 2017. Enn er ekki vitað hvar hann er, en fjölskylda hans hefur lengi haldið því fram að hann hafi verið tekinn af lögreglu. Amnesty International hefur lengi kallað eftir réttlæti í máli hans.
Í nóvember úrskurðaði hæstiréttur að um hefði verið að ræða þvingað mannshvarf og dómari sagði að stjórnvöld og lögreglan bæru ábyrgð á hvarfi hans. Þetta er fyrsti dómsúrskurðurinn í Malasíu í slíku máli.
Gínea: Verkamenn á plantekrum sem eru tengd ríkisreknu fyrirtæki (Société Guinéenne de Palmiers à huile et d’Hévéas – Soguipah) sem framleiðir olíupálma og gúmmí úr gúmmítrjám fengu fasta og skipulagða áætlun um greiðslur í nóvember þökk sé þrýstingi frá Amnesty International.
Amnesty International gaf út skýrslu í október þar sem greint var frá því hvernig brotið væri á réttindum verkafólks á plantekrum sem tengdust fyrirtækinu þar sem greiðslur kæmu oft seint og voru undir markaðsverði.
Ameríka: Á loftslagsráðstefnunni COP30 sem haldin var í Brasilíu var fyrirkomulag um réttlát orkuskipti samþykkt þar sem haft skal í huga hagræðing og samræming á réttindum verkafólks og annarra einstaklinga og samfélaga sem finna fyrir áhrifum þess að dregið verði úr jarðefnaeldsneytisnotkun. Þessi sigur kom til vegna þrýstings frá borgaralega samfélaginu og samtökum á borð við Amnesty International.
Túnis: Sonia Dahmani, lögræðingur og fréttaskýrandi, var leyst úr haldi 27. nóvember með skilyrðum eftir 18 mánuði ranglega í haldi. Amnesty International hefur kallað eftir lausn hennar frá handtöku hennar og eftir að hún var dæmd á grundvelli falskra ákæra um að „dreifa fölskum fréttum“ árið 2024. Mál hennar er hluti af okkar árlegu og alþjóðlegu herferð Þitt nafn bjargar lífi ár. Þessi árangur sýnir að stöðugur þrýstingur og samstaða getur skipt sköpum.
Við höldum áfram að styðja mál hennar í herferðinni Þitt nafn bjargar lífi þar til hún hefur fengið frelsi að fullu. Við krefjumst þess að túnísk yfirvöld ógildi óréttlátan dóm yfir henni og felli niður allar ákærur á hendur henni.
Desember
Færeyjar: Færeyska þingið samþykkti þann 3. desember að gera umbætur á lögum sem heimila aðgang að þungunarrofi fram að 12. viku á meðgöngu án skilyrða. Nýju lögin taka við af lögum um þungunarrof frá árinu 1956 sem veita aðeins heimild fyrir þungunarrof vegna nauðgunar eða sifjaspells, fósturgalla, ef líf og heilsa móður er í hættu eða af félagslegum ástæðum.
Þetta jákvæða skref er árangur af áralangri, óþreytandi baráttu aðgerðasinna sem hafa barist fyrir því að aflétta takmörkunum á aðgangi að þungunarrofi. Þessar takmarkanir voru með þeim ströngustu í Evrópu og hafa haft hrikalegar afleiðingar fyrir kynslóðir kvenna og þeirra sem þurfa á þungunarrofi að halda. Lífi þeirra var stofnaðí hættu, heilsu þeirra ógnað og mörg þeirra neyddust til að fara í kostnaðarsamar ferðir til útlanda, aðallega til Danmerkur.
Íslandsdeild Amnesty International safnaði undirskriftum til félagsmálaráðherra Færeyja árið 2022 til að krefjast þess að gerðar yrðu umbætur á lögum og söfnuðust 2154 undirskriftir.
Belarús: Yfirvöld í Belarús leystu 123 fanga úr haldi þann 13. desember. Á meðal þeirra var nóbelsverðlaunahafinn og mannréttindafrömuðurinn Ales Bialitaski og Maryia Kalesnikava, samviskufangi og stjórnarandstæðingur, en mál hennar var hluti af alþjóðlegu og árlegu herferðinni Þitt nafn bjargar lífi 2024. Var þetta tilkomið vegna samkomulags við Bandaríkin um að aflétta viðskiptaþvingunum gegn Belarús. Varðhald þeirra beggja var af pólitískum rótum runnið og var frelsi þeirra löngu tímabært.

Maryia Kalesnikava
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu