Góðar fréttir

18. desember 2025

Mann­rétt­inda­sigrar síðustu mánuði ársins 2025

Þrátt fyrir miklar áskor­anir í heim­inum í dag verðum við enn og aftur vitni að mikil­vægi mann­rétt­inda­bar­átt­unnar. Víða um heim krafðist fólk ábyrgðar frá stjórn­völdum, rétt­lætis fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og frelsis fyrir mann­rétt­inda­frömuði. Hér koma góðar fréttir á síðustu sex mánuðum ársins sem veita von og sýna mikil­vægi mann­úðar og samtaka­máttar.

Júlí

Alþjóð­legt: Tvö ráðgef­andi álit alþjóða­dóm­stóla mörkuðu tímamót á þessu ári. Álitin áttu þátt í að skýra betur mann­rétt­inda­skyldur ríkja á tímum lofts­lags­váar og styrktu baráttuna fyrir lofts­lags­rétt­læti og ábyrgð. Alþjóða­dóm­stóllinn í Haag gaf út ráðgef­andi álit í júlí þar sem kemur skýrt fram að vernda þurfi lofts­lagið og aðra þætti í umhverfinu til að hægt sé að njóta mann­rétt­inda til fulls.

Þessi æðsti dómstóll heimsins lagði áherslu á að ríkjum bæri skylda að grípa til aðgerða strax, meðal annars með því að setja reglur um starf­semi aðila í einka­geir­anum og vinna saman að því að vernda núver­andi og komandi kynslóðir og vist­kerfi vegna lofts­lags­breyt­inga af manna­völdum.

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Amer­íku­ríkja gaf einnig út í sama mánuði ráðgef­andi álit þar sem settir voru fram alþjóð­legir staðlar sem gætu haft áhrif á dóma­fram­kvæmd um heim allan.

Tógó: Fimm mótmæl­endur fundust í ám í höfuð­borg­inni Lomé 6.júlí. Í kjölfar þrýst­ings Amnesty Internati­onal og annarra samtaka hófst rann­sókn á dauða þeirra . Yfir­völd höfðu í fyrstu neitað að veita upplýs­ingar um dauðs­föll þessara fimm einstak­linga sem höfðu tekið þátt í mótmælum þar sem örygg­is­sveitir höfðu beitt hörku og sögðu að þeir hefðu drukknað

Argentína: Árás­ar­maður sem drap þrjár samkyn­hneigðar konur árið 2024 í íkveikju­árás með heima­gerðri sprengju var loks ákærður fyrir morð af ásettu áði vegna fordóma. Amnesty Internati­onal í Argentínu hefur stutt Sofiu, sem var sú eina sem lifði árásina af, í leit hennar að rétt­læti.

Senegal: Í kjölfar þrýst­ings frá Amnesty Internati­onal bað dóms­mála­ráð­herra ríkis­sak­sóknara um að hefja rann­sókn á „póli­tísku ofbeldi“ sem átti sér stað á árunum 20021-2024. Amnesty Internati­onal rann­sakaði þetta tímabil og fordæmdi morð á að minnsta kosti 65 mótmæl­endum og geðþótta­hand­tökur hundruð einstak­linga í aðdrag­anda forseta­kosn­inga árið 2024.

Slóvenía: Slóvenía bannaði þann 31. júlí öll vopna­við­skipti við Ísrael, meðal annars innflutning, útflutning og milli­lend­ingu, og varð fyrsta aðild­ar­ríki Evrópu­sam­bandsins til að gera slíkt. Viku síðar var sett bann á innflutning allra vara frá Ísrael sem kæmu frá hernumda svæðinu í Palestínu. Amnesty Internati­onal í Slóveníu hafði ásamt öðrum samtökum lengi þrýst á stjórn­völd að grípa til þessara aðgerða.

 

Ágúst

Hernumda svæðið í Palestínu: Ísra­elskur dómstóll aflétti þann 24. júlí farbanni á Ahmad Khalefa, palestínskan ríkis­borgara Ísraels, sem gerði honum kleift að þiggja boð Amnesty Internati­onal að ferðast til Ítalíu með fjöl­skyldu sinni. Farbannið var eitt af skil­yrðum fyrir lausn hans í febrúar 2024 eftir að hann hafði verið í haldi í fjóra mánuði fyrir að hrópa slagorð í mótmælum gegn stríði Ísraels á Gaza.

Ahmad sendi Amnesty Internati­onal eftir­far­andi þakk­arorð eftir ferð sína til Ítalíu:

„Þessi ferð var þýðing­ar­mikil fyrir mig og fjöl­skyldu mína. Við erum inni­lega þakklát. Það var afar þýðing­ar­mikið að skynja umhyggjuna og vinnuna sem lögð var í skipu­lagninu ferð­ar­innar og hún gaf okkur tæki­færi til að anda léttar og njóta gæða­stunda saman.“

Sýrland: Ahmad Aabo, sýrlenskur umsækj­andi um alþjóð­lega vernd, missti tíma­bundna vernd sína á meðan hann bjó í Tyrklandi vegna grein­ingar á HIV. Í kjölfar þrýst­ings Amnesty Internati­onal fékk hann vernd sína endur­nýjaða þann 26. ágúst og þar með aðgang að gjald­frjálsri heil­brigð­is­þjón­ustu.

„Ég vil senda mínar inni­leg­ustu þakkir til allra. Fyrir það eitt að vera með HIV mátti ég þola ofsóknir. Ég var hand­tekinn. Ég óttaðist að vera hand­tekinn í hvert sinn sem ég sá lögreglu­mann. Nú er ég aftur kominn með skil­ríki mitt og hef endur­heimt rétt­indi mín. Þakkir til ykkar er ekki nóg. Ég óska engum að þurfa að ganga í gegnum það sem ég hef mátt þola. Fólk með HIV ætti að fá stuðning. Ekki að þurfa að þola pynd­ingar.“

Tyrk­land: Amnesty Internati­onal kallaði eftir lausn Hivda Selen, Sinem Çelebi, and Doğan Nur sem voru hand­tekin að geðþótta 29. júní á degi gleði­göng­unnar í Istanbúl og voru í gæslu­varð­haldi á grund­velli tilhæfu­lausra ákæra.

Doğan Nur var leystur úr haldi 30. júlí og Sinem Çelebi og Hivda Selen voru leystar úr haldi 8. ágúst.

„Í kjölfar aðgerðar Amnesty Internati­onal fyrir okkar hönd hefur margt fólk heyrt um málið og gengið til liðs við baráttuna fyrir rétt­læti til að tryggja að bundinn verði endi á ólög­mætt varð­hald/hand­tökur. Ég vil þakka Amnesty Internati­onal og stuðn­ings­fólki fyrir framlag sitt í þessu ferli. Samstaðan heldur okkur gang­andi!“

Á Íslandi söfn­uðust 1923 undir­skriftir í máli þeirra.

September

Egypta­land: Alaa Abdel Fattah er egypskur-breskur aðgerðasinni, rithöf­undur og hugbún­að­ar­smiður sem var áber­andi í bylt­ing­unni í Egyptalandi árið 2011. Egypsk yfir­völd hafa ítrekað herjað á hann fyrir frið­sam­lega baráttu hans og gagn­rýni á stjórn­völd. Síðast var hann hand­tekinn 29. sept­ember þegar mótmæli voru víða brotin á bak aftur. Í desember 2021 var hann dæmdur í fimm ára fang­elsi á grund­velli falskra ákæra um að „breiða út fals­fréttir“ í  samfé­lags­miðla­færslu.

Hann átti að ljúka afplánun árið 2027 þar sem egypsk yfir­völd ákváðu að gæslu­varð­hald yrði ekki til frádráttar frá dómi hans.

Amnesty Internati­onal, ekki síst Amnesty Internati­onal í Bretlandi, hefur lengi barist fyrir lausn hans. Hann fékk að lokum náðun forseta og var leystur úr haldi í sept­ember 2025. Frelsi hans hefði aldrei orðið að veru­leika án óþreyt­andi baráttu og þrýst­ings frá móður hans, Lailu Souif, og systrum hans, Monu og Sanaa Saif.

Búrkína Fasó: Bráða­birgða­þing Búrkína Fasó samþykkti lög þann 1. sept­ember þar sem lágmarks­aldur fyrir hjóna­band er 18 ára fyrir bæði drengi og stúlkur og samþykki beggja aðila þarf til að geta gengið í hjóna­band. Amnesty Internati­onal hefur lengi kallað eftir þessum lágmarks­aldri og þrýst á þarlend stjórn­völd.

 

 

Tyrk­land: Tugþús­undir aðgerða­sinna Amnesty Internati­onal hjálpuðu til við að tryggja lausn mann­rétt­inda­fröm­uð­arins og hinsegin aðgerða­sinnans Enes Hoca­oğulları úr gæslu­varð­haldi. Hann var fang­els­aður eftir að hafa haldið ræðu á Evrópu­ráðs­þinginu í mars 2025 þar sem hann gagn­rýndi harka­legar aðgerðir gegn fjölda­mót­mælum í kjölfar hand­töku og fang­els­unar borg­ar­stjóra Istanbúl, Ekrem İmam­oğlu.

Hann var hand­tekinn 5. ágúst við komu sína til Tyrk­lands og var úrskurð­aður í gæslu­varð­hald sama dag. Mánuði síðar var hann leystur úr haldi í kjölfar þrýst­ings aðgerða­sinna Amnesty Internati­onal. Á Íslandi söfn­uðust 834 undir­skriftir í máli hans.

„Takk fyrir árang­urs­ríka herferð. Ég var leystur úr gæslu­varð­haldi eftir fyrir­töku í dóms­álinu. En samt er barátt­unni ekki lokið í máli mínu og ekki heldur fyrir tján­ing­ar­frelsinu. En það segir sig sjálft að ég væri á allt öðrum stað ef ekki væri fyrir velgengni þess­arar herferðar, sérstak­lega þeirri sem Amnesty Internati­onal stóð fyrir og skipu­lagði.Ég er einn af þeim heppnu mann­rétt­inda­fröm­uðum. Svo margir þeirra hafa orðið fyrir og munu halda áfram að verða fyrir hefndarað­gerðum fyrir baráttu sína og fá lítinn sem engan stuðning. Til að minna ykkur á mikil­vægi þess að vernda mann­rétt­inda­frömuði og árangur slíkra herferða læt ég eftir þessi orð rómversks skálds: „Hver gætir varð­anna?“ Ég spyr ykkur: „Hver ver rétt­indi baráttu­fólks fyrir mann­rétt­indum?“

 

Október

Afgan­istan: Eftir margra mánaða þrýsting frá Amnesty Internati­onal og Sports & Rights Alli­ance tilkynnti alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bandið FIFA að stofnað yrði og fjár­magnað lið flótta­kvenna frá Afgan­istan.

Fótboltalið Afgan­istan sem var fyrst myndað árið 2007 sundr­aðist eftir að talibanar tóku yfir árið 2021 og leik­menn þurftu að flýja landið af ótta við refsi­að­gerðir. Frá því að þær flúðu Afgan­istan hafa þær barist fyrir rétti sínum til að spila fyrir land sitt. Í október skipu­lagði FIFA mót í Marokkó þar sem liðið fékk að spila sinn fyrsta leik á alþjóð­legu móti gegn Tjad, Túnis og Líbíu.

Stofn­andi og fyrrum fyrir­liði liðsins, Khalida Popal sagði:

„Við höfum barist svo lengi að það var orðið íþyngj­andi, þetta var of mikið. Að sjá síðan leik­mennina snúa aftur á völlinn, þá fær maður þessa tilfinn­ingu að þetta hafi allt verið þess virði. Það var þess virði að sjá þessa ungu kynslóð kvenna spila fyrir landið okkar. Þetta var ansi tilfinn­inga­þrungið fyrir mig.“

 

Nóvember

Grikk­land: Í kjölfar herferðar Amnesty Internati­onal voru þrír stjórn­endur og yfir­maður grísku strand­gæsl­unnar ákærðir fyrir aðild sína í Pylos-skip­brotinu þar sem 600 einstak­lingar létu lífið. Í maí á þessu ári voru 17 strand­verði ákærðir í málinu, meðal annars fyrir að valda skip­broti, setja fólk í hættu og bregðast skyldu sinni til að veita aðstoð.

Argentína: Árangur náðist í barátt­unni fyrir rétt­læti í máli Sofíu Fernández, 39 ára trans konu sem lést í haldi lögreglu í apríl 2023 í Pilar í Buenos Aires-héraði, tveimur dögum eftir að hún var hand­tekin af lögreglu. Í júlí voru mál níu af þeim tíu lögreglu­þjónum sem ákærðir voru felld niður en áfrýj­un­ar­dóm­stóll fyrir­skipaði í nóvember að þeir skyldu allir sæta rétt­ar­höldum.

Þrír þeirra verða ákærðir fyrir morð af ásettu ráði vegna fordóma gegn trans fólki. Amnesty Internati­onal í Argentínu hefur stutt fjöl­skyldu Sofíu í rúm tvö ár og veitt fjár­hags­að­stoð í tengslum við sérfræð­inga og lögfræði­að­stoð.

 

Líbía: Í kjölfar rann­sóknar Amnesty Internati­onal á fjöl­mörgum morðum, geðþótta­hand­tökum og manns­hvörfum Tebu-fólks sem áttu sér stað í suðaust­ur­hluta Líbíu skoraði Amnesty Internati­onal á ríkis­sak­sóknara Líbíu að hefja hlut­lausa, gagn­sæja og ítar­lega rann­sókn á þessum brotum. Tveimur vikum síðar tilkynnti saksóknari í tveimur færslum á Face­book annars vegar um að hefja rann­sókn á málinu og hins vegar rétt­ar­höld yfir sakborn­ingum í tengslum við morð á Tebu-mönnum. Á sama tíma leystu yfir­völd 12 þessara manna úr haldi sem höfðu verið hand­teknir að geðþótta.

Malasía: Í sögu­legu dóms­máli vann eigin­kona malasísks prests mál gegn lögregl­unni og stjórn­völdum. Eigin­maður hennar Raymond Koh var tekinn með valdi í úthverfi höfuð­borg­ar­innar Kuala Lumpur árið 2017. Enn er ekki vitað hvar hann er, en fjöl­skylda hans hefur lengi haldið því fram að hann hafi verið tekinn af lögreglu. Amnesty Internati­onal hefur lengi kallað eftir rétt­læti í máli hans.

Í nóvember úrskurðaði hæstiréttur að um hefði verið að ræða þvingað manns­hvarf og dómari sagði að stjórn­völd og lögreglan bæru ábyrgð á hvarfi hans. Þetta er fyrsti dóms­úrskurð­urinn í Malasíu í slíku máli.

Gínea: Verka­menn á plantekrum sem eru tengd ríkis­reknu fyrir­tæki (Société Guinéenne de Palmiers à huile et d’Hévéas – Soguipah) sem fram­leiðir olíu­pálma og gúmmí úr gúmmí­trjám fengu fasta og skipu­lagða áætlun um greiðslur í nóvember þökk sé þrýst­ingi frá Amnesty Internati­onal.

Amnesty Internati­onal gaf út skýrslu í október þar sem greint var frá því hvernig brotið væri á rétt­indum verka­fólks á plantekrum sem tengdust fyrir­tækinu þar sem greiðslur kæmu oft seint og voru undir mark­aðs­verði.

Ameríka: Á lofts­lags­ráð­stefn­unni COP30 sem haldin var í Bras­ilíu var fyrir­komulag um réttlát orku­skipti samþykkt þar sem haft skal í huga hagræðing og samræming á rétt­indum verka­fólks og annarra einstak­linga og samfé­laga sem finna fyrir áhrifum þess að dregið verði úr jarð­efna­eldsneyt­is­notkun. Þessi sigur kom til vegna þrýst­ings frá borg­ara­lega samfé­laginu og samtökum á borð við Amnesty Internati­onal.

 

Túnis: Sonia Dahmani, lögræð­ingur og frétta­skýr­andi, var leyst úr haldi 27. nóvember með skil­yrðum eftir 18 mánuði rang­lega í haldi. Amnesty Internati­onal hefur kallað eftir lausn hennar frá hand­töku hennar og eftir að hún var dæmd á grund­velli falskra ákæra um að „dreifa fölskum fréttum“ árið 2024. Mál hennar er hluti af okkar árlegu og alþjóð­legu herferð Þitt nafn bjargar lífi ár. Þessi árangur sýnir að stöð­ugur þrýst­ingur og samstaða getur skipt sköpum.

Við höldum áfram að styðja mál hennar í herferð­inni Þitt nafn bjargar lífi þar til hún hefur fengið frelsi að fullu. Við krefj­umst þess að túnísk yfir­völd ógildi órétt­látan dóm yfir henni og felli niður allar ákærur á hendur henni.

Desember

Færeyjar: Færeyska þingið samþykkti þann 3. desember að gera umbætur á lögum sem heimila aðgang að þung­un­ar­rofi fram að 12. viku á meðgöngu án skil­yrða. Nýju lögin taka við af lögum um þung­un­arrof frá árinu 1956 sem veita aðeins heimild fyrir þung­un­arrof vegna nauðg­unar eða sifja­spells, fóst­urgalla, ef líf og heilsa móður er í hættu eða af félags­legum ástæðum.

Þetta jákvæða skref er árangur af áralangri, óþreyt­andi baráttu aðgerða­sinna sem hafa barist fyrir því að aflétta takmörk­unum á aðgangi að þung­un­ar­rofi. Þessar takmark­anir voru með þeim ströngustu í Evrópu og hafa haft hrika­legar afleið­ingar fyrir kynslóðir kvenna og þeirra sem þurfa á þung­un­ar­rofi að halda. Lífi þeirra var stofnaðí hættu, heilsu þeirra ógnað og mörg þeirra neyddust til að fara í kostn­að­ar­samar ferðir til útlanda, aðal­lega til Danmerkur.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal safnaði undir­skriftum til félags­mála­ráð­herra Færeyja árið 2022 til að krefjast þess að gerðar yrðu umbætur á lögum og söfn­uðust 2154 undir­skriftir.

 

Belarús: Yfir­völd í Belarús leystu 123 fanga úr haldi þann 13. desember. Á meðal þeirra var nóbels­verð­launa­hafinn og mann­rétt­inda­fröm­uð­urinn Ales Bialitaski og Maryia Kalesnikava, samviskufangi og stjórn­ar­and­stæð­ingur, en mál hennar var hluti af alþjóð­legu og árlegu herferð­inni Þitt nafn bjargar lífi 2024. Var þetta tilkomið vegna samkomu­lags við Banda­ríkin um að aflétta viðskipta­þving­unum gegn Belarús. Varð­hald þeirra beggja var af póli­tískum rótum runnið og var frelsi þeirra löngu tíma­bært.

Maryia Kalesnikava

Lestu einnig