Góðar fréttir

22. desember 2021

Sigrar ársins 2021

Mann­rétt­inda­bar­átta Amnesty Internati­onal hefur skilað miklu árið 2021 um heim allan. Lögum hefur verið breytt til samræmis við mann­rétt­indi og samviskufangar leystir úr haldi. Hér má sjá yfirlit yfir helstu sigra ársins.

JANÚAR - FEBRÚAR

 

Alþjóð­legt

Tíma­móta­skýrsla Amnesty Internati­onal um heil­brigð­is­starfs­fólk í kórónu­veirufar­aldr­inum greindi frá því hvernig heil­brigð­is­starfs­fólk sætti þöggun og árásum á tímum farald­ursins. Skýrslan leiddi til þess að lækn­irinn Ibrahim Badawi og tann­lækn­irinn Ahmad al-Daydoumy voru leystir úr varð­haldi í Egyptalandi í janúar og mars 2021. Þeir voru á meðal fjölda heil­brigð­is­starfs­fólks sem var hand­tekið að geðþótta í Egyptalandi árið 2020 á grund­velli óljósra og víðtækra sakar­efna á borð við „dreif­ingu falskra frétta“ og „hryðju­verk“, líkt og greint var frá í rann­sókn Amnesty Internati­onal.

 

 

Sri Lanka

Í kórónu­veirufar­aldr­inum fyrir­skipuðu stjórn­völd í Sri Lanka fjölda líkbrenna í samfé­lagi múslíma þvert á óskir aðstand­enda. Amnesty Internati­onal þrýsti á stjórn­völd í landinu að virða hefðir trúarminni­hluta­hópa í landinu í tengslum við útfarir nema það bæri brýna nauðsyn til að hindra útbreiðslu kórónu­veirunnar. Stjórn­völd í Sri Lanka hættu í kjöl­farið að þvinga aðstand­endur til að brenna lík einstak­linga sem létu lífið af völdum veirunnar.

MARS

 

Barein

Amnesty Internati­onal átti þátt í lausn nokk­urra fanga í Barein á árinu. Þeirra á meðal voru fjórir einstak­lingar sem voru á barns­aldri þegar réttað var yfir þeim eins og full­orðnum einstak­lingum. Þeir voru leystir úr haldi í mars. Aðeins viku eftir að Amnesty Internati­onal sendi út ákall felldi dómstóll í Barein úr gildi sex mánaða dóm yfir fjór­menn­ing­unum og sendi þá í betr­unar­úr­ræði í staðinn.

Japan

Dómstóll í Japan úrskurðaði að það væri brot gegn stjórn­ar­skránni að stjórn­völd viður­kenndu ekki hjóna­band samkyn­hneigðs fólks. Þetta er fyrsti dóms­úrskurð­urinn í landinu um jafn­ræði til hjóna­bands. Því var þetta tíma­móta­skref í baráttu hinsegin fólks fyrir jafn­rétti og mikil­vægt fordæmi í dóms­kerfinu. Amnesty Internati­onal er í hópi þeirra sem hefur lengi barist fyrir rétt­indum hinsegin fólks í Japan.

Suður-Afríka

Lögregla hóf á ný að rann­saka mál Popi og Bongeka sem voru myrtar árið 2017. Aðstand­endur töldu að misbrestir væru í rann­sókn­inni en eru nú vongóð á ný. Málið var tekið fyrir í Þitt nafn bjargar lífi 2020.

 

Írak

Íraska þingið samþykkti lög um skaða­bætur fyrir einstak­linga úr hópi Yezidi sem lifðu af grimmd­ar­verk íslamska ríkisins í norð­ur­hluta Írak. Undir lögin falla einnig konur og stúlkur sem urðu fyrir kynferð­isof­beldi og börn sem var rænt frá fjöl­skyldum sínum. Samþykkt laganna var í samræmi við tilmæli til stjórn­valda sem kom fram skýrslu Amnesty Internati­onal um heilsu­farsáhrif Yezidi barna sem voru tekin af fjöl­skyldum sínum.

Madaga­skar

Stjórn­völd í Madaga­skar neituðu að viður­kenna tilvist kórónu­veirunnar. Í kjölfar herferðar Amnesty Internati­onal breyttu stjórn­völd um stefnu. Áður höfðu þau neitað að panta bólu­efni gegn veirunni en vegna þrýst­ings létu stjórn­völd undan og fólkið í landinu hafði því aðgang að bólu­efnum sem geta bjargað manns­lífum.

APRÍL - MAÍ

 

Barein

Samviskufanginn Mohammad Hassan Jawad var leystur úr haldi í apríl. Hann hafði verið dæmdur í 15 ára fang­elsi í tengslum við frið­sam­lega þátt­töku í mótmælum árið 2011. Amnesty Internati­onal hefur barist fyrir lausn hans í heilan áratug.

Alþjóð­legt

Amnesty Internati­onal vann hin virtu Webby verð­laun fyrir vefsíðu um misbeit­ingu tára­gass af hálfu lögreglu­sveita um heim allan. Vefsíðan fór í loftið um mitt ár 2020 og er reglu­lega uppfærð með nýjum gögnum um misbeit­ingu. Þetta efni hefur meðal annars verið notað í umræðum á banda­ríska þinginu um reglur og bann við beit­ingu tára­gass við störf lögreglu.

 

Mohammad Hassan Jawad

JÚNÍ

 

Sádi-Arabía

Nassima al-Sada, baráttu­kona fyrir frelsi kvenna, var hand­tekin og fang­elsuð árið 2018 fyrir frið­sama mann­rétt­inda­bar­áttu. Nassima varð frjáls á ný í júní 2021 þökk sé stuðn­ingi frá 777.611 einstak­lingum víðs vegar að úr heim­inum.

Hvíta-Rúss­land

Raman og kærasta hans Sofia voru hand­tekin af hvítrúss­neskum stjórn­völdum í maí eftir að flugvél sem þau voru farþegar í var þvinguð til að lenda í Minsk, höfuð­borg Hvíta-Rúss­lands. Sofia og Raman voru færð í stofufang­elsi þann 25. júní sem þýðir að þau eiga ekki lengur á hættu að verða fyrir pynd­ingum og annarri illri meðferð. (ástr­alía)

Búrúndí

Í apríl 2018 var Germain Rukuki, starfs­maður frjálsra félaga­sam­taka og baráttu­maður fyrir mann­rétt­indum, dæmdur í 32 ára fang­elsi á grund­velli upplog­inna sakargifta. Germain fékk loks frelsi þann 30. júní 2021 þökk sé ríflega 400.000 einstak­lingum sem gripu til aðgerða og kölluðu eftir lausn hans.

 

Pakistan

Barátta Amnesty Internati­onal skilaði árangri í máli hjón­anna Shafqat Emmanuel og Shagufta Kausar sem voru leyst úr haldi eftir sjö ár á dauða­deild fyrir guðlast. Þau voru dæmd á grund­velli skila­boða úr síma. Lög um guðlast í Pakistan eru óljós og brjóta gegn alþjóð­legum mann­rétt­inda­skyldum.

Banda­ríkin

Aðgerða­sinnar Amnesty Internati­onal kort­lögðu 15.000 eftir­lits­mynda­vélar sem greina andlit í New York. Rúmlega 7.000 þúsund aðgerða­sinnar í 144 löndum lögðu sitt að mörkum fyrir þetta verk­efni. Þessi árangur nýtist til þess að þrýsta á stjórn­völd í New York að banna þessa tækni sem getur ýtt undir mismunun.

Nepal

Skýrsla Amnesty Internati­onal um átak­an­legt ástand í Nepal í annarri bylgju kórónu­veirunnar ásamt þrýst­ingi og áköllum, meðal annars frá Íslandi, leiddi til þess að japönsk stjórn­völd gáfu 1,6 millj­ónir bólu­efna­skammta til Nepal. Stjórn­völd í Bútan gáfu 230.000 skammta og stjórn­völd í Bret­land gáfu 130.000 skammta.

JÚLÍ

 

Banda­ríkin

Maura Martínez, trans kona frá Níkaragva, var tvö ár í haldi í varð­haldsmið­stöð innflytj­enda í Kali­forníu þar sem hún var beitt ofbeldi og neitað um viðeig­andi lækn­is­að­stoð. Hún var loks leyst úr haldi í júlí. Hún hefur búið hálfa ævina í Banda­ríkj­unum eftir að hafa leitað skjóls þangað vegna ítrekaðs kynbundins ofbeldis í Mexíkó þar sem hún bjó áður. Henni var hótað brott­vísun frá Banda­ríkj­unum í kjölfar hand­töku. Hún er nú frjáls og bíður ákvörð­unar vegna umsóknar sinnar um alþjóð­lega vernd.

Hond­úras

Dómstóll í Hond­úras dæmdi David Castilllo, fyrrum fram­kvæmda­stjóra fyrir­tæk­isins Desarrollos Energéticos, og yfir­um­sjón­ar­mann Agua Zarca vatns­orku­fram­kvæmd­anna, fyrir þátt­töku í morði á baráttu­kon­unni Bertu Cáceres árið 2016. Hún barðist gegn Agua Zarca vatns­orku­fram­kvæmd­inni vegna áhrifa sem slík fram­kvæmd hefði á land­svæði frum­byggja. Amnesty Internati­onal hefur kallað eftir rétt­læti í máli hennar í fimm ár og mun halda áfram þar til allir aðilar, sem annað­hvort fyrir­skipuðu eða frömdu morðið, verða dregnir fyrir dómstóla.

 

Danmörk

Frum­varp danskra stjórn­valda snemma árs 2021 gaf lögreglu vald til að setja á „örygg­is­sam­komu­bann“ ef hópur fólks sýndi „hegðun sem ógnaði öryggi“. Danmerk­ur­deild Amnesty Internati­onal og samstarfs­að­ilar komu í veg fyrir að dönsk stjórn­völd samþykktu frum­varpið sem hefði sett óhóf­legar takmark­anir á réttinn til að mótmæla.

Síerra Leóne

Eftir áralanga herferð Amnesty Internati­onal og annarra samþykkti þingið að afnema dauðarefs­inguna fyrir alla glæpi. Verið er að leggja loka­hönd á lögin áður en forseti landsins getur skrifað undir og þau taka gildi.

Banda­ríkin

Ríkis­sak­sóknari Banda­ríkj­anna tilkynnti þann 1. júlí 2021 stöðvun á aftökum á vegum alrík­isins á meðan verið er að fara yfir stefnur og starfs­reglur hjá dóms­mála­ráðu­neytinu. Amnesty Internati­onal hefur lengi kallað eftir afnámi dauðarefs­ing­ar­innar og mun halda því áfram þar til þessi grimmi­lega refsing verður afnumin í Banda­ríkj­unum.

SEPTEMBER

 

Gínea

Oumar Sylla, lýðræð­is­sinni sem barðist gegn þriðja kjör­tíma­bili forseta landsins, var leystur úr haldi í kjölfar margra mánaða herferðar Amnesty Internati­onal fyrir lausn hans og annarra aðgerða­sinna. Hann var leystur úr haldi þann 6. sept­ember, degi eftir að herinn steypti Alpha Conde forseta landsins af stóli. Að auki voru tugir póli­tískra aðgerða­sinna leystir úr haldi og ákærur felldar niður.

„Ég hef verið frjáls frá 7. sept­ember 2021 og ég þakka öllum heim­inum fyrir stuðn­inginn en ég þakka Amnesty Internati­onal sérstak­lega fyrir. Hver aðgerð á vegum Amnesty Internati­onal var mér mikil huggun í fang­elsi. Enn og aftur þakka ég Amnesty Internati­onal fyrir allan stuðn­inginn og aðgerð­irnar fyrir lausn minni.“

Alþjóð­legt

Amnesty Internati­onal hefur lengi barist fyrir því að Mann­rétt­inda­ráðið viður­kenni réttinn til heil­næms umhverfis og setji á lagg­irnar stöðu fyrir sérstakan skýrslu­gjafa um mann­rétt­indi og lofts­lags­breyt­ingar. Það var loks gert í sept­ember og var það mikil­vægt skref til að tengja mann­rétt­indi við lofts­lags­vána fyrir COP26-ráðstefnuna sem fram fór í nóvember 2021.

 

Sameinuðu arab­ísku fursta­dæmin

Samviskufanginn Ahmed Mansoor var leystur úr haldi í samræmi við ákall Amnesty Internati­onal. Hann var dæmdur í tíu ára fang­elsi árið 2018 fyrir að tjá skoð­anir sínar í færslum á Face­book og Twitter.

Túnis

Rann­sókn Amnesty Internati­onal átti þátt í að binda enda á handa­hófs­kennt ferða­bann gegn mörgum Túnis­búum án dóms­úrskurðar eða tímaramma sem forseti landsins hafði sett á. Í kjölfar þess að Amnesty Internati­onal birti niður­stöður sínar tilkynnti forsetinn, þann 17. sept­ember, að lögregla á landa­mærum ætti ekki að hindra ferðir fólks án dóms­úrskurðar.

Mið-Afríku­lýð­veldið

Tveir menn sem eru grun­aðir um glæpi gegn mannúð, Mahamat Said Abdel Kani og Eugene Barret Ngai­kosset voru loks hand­teknir. Ngai­kosset var settur í varð­hald af sérstaka glæpa­dóm­stólnum í Mið-Afríku­lýð­veldinu. Þetta var í fyrsta sinn sem að dómstóllinn opin­beraði nafn hinna grunuðu en það var í kjölfar þess að Amnesty Internati­onal kallaði eftir gagnsæi dómstólsins. Amnesty Internati­onal hefur lengi kallað eftir rétt­læti vegna stríðs­glæpa og glæpa gegn mannúð í landinu.

 

 

OKTÓBER

 

Alþjóð­legt

Pegasus-rann­sóknin sem Amnesty Internati­onal vann með einum stærstu fjöl­miðla­sam­tökum heims afhjúpaði stórtæk mann­rétt­inda­brot með leyni­legu staf­rænu eftir­liti. Málið náði heims­at­hygli í kjöl­farið og leiddi til þess að njósna­bún­að­ar­fyr­ir­tækið NSO Group var sett á svartan lista í Banda­ríkj­unum. Þá hóf fjöldi landa rann­sókn og kallað var eftir auknum reglum fyrir eftir­lits­iðn­aðinn.

Moldóva

Þingið í Moldóvu full­gilti samning um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gagn­vart konum og heim­il­isof­beldi, svokall­aðan Istan­búl­samning. Stjórn­völd segjast þegar hafa samið 20 laga­gerðir í samræmi við samn­inginn. Aðeins eitt land í Evrópu og Mið-Asíu á eftir að skrifa undir samn­inginn en það er Georgía.

Tyrk­land

18 nemendur og 1 kennari voru sýknuð fyrir þátt­töku í frið­sam­legri gleði­göngu í Ankara í maí 2019 þar sem lögreglan mætti með piparúða, plast­kúlur og táragas. Málið var eitt af málum Þitt nafn bjargar lífi 2020.

 

Kósovó

KelKos, fyrir­tæki með höfuð­stöðvar í Aust­ur­ríki, dró til baka lögsókn um meið­yrði gegn umhverf­is­vernd­ar­sinn­unum Sphresa Loshaj og Adriatik Gaca­feri í kjölfar þess að Amnesty Internati­onal kom að málinu. Lögsóknin var leið fyrir­tæk­isins KelKos til að ógna og þagga niður í Sphresa Loshaj og Adriatik Gaca­feri sem höfðu tjáð sig á opin­berum vett­vangi um áhyggjur sínar af mögu­lega alvar­legum umhverf­isáhrifum vatns­orku­fram­kvæmda fyrir­tæk­isins í Kósovó.

Alþjóð­legt

Í kjölfar þrýst­ings Amnesty Internati­onal í samvinnu við önnur samtök, tilkynnti skrif­stofa aðal­fram­kvæmda­stjóra Sameinuðu þjóð­anna áætlanir um að samþætta rétt­indi barna innan alls kerfis Sameinuðu þjóð­anna. Tilkynn­ingin kom í kjölfar viðburðar hjá Sameinuðu þjóð­unum, sem Amnesty Internati­onal og samstarfs­að­ilar skipu­lögðu þar sem Agnès Callamard, aðal­fram­kvæmda­stjóri Amnesty Internati­onal, flutti erindi.

DESEMBER

 

Banda­ríkin

Móðir, 31 árs, og barn, 11 ára, voru leyst úr varð­haldi hjá innflytj­enda­mið­stöð í Banda­ríkj­unum. Þau voru búin að vera þar í haldi í tæpt ár. Banda­ríkja­deild Amnesty Internati­onal vakti athygli á máli þeirra í herferð sinni fyrir fjöl­skyldur sem eru í varð­haldi í Penn­sylvaníu og Texas. Herferð­inni er þó ekki nærri lokið og haldið verður áfram að berjast fyrir frelsi fjöl­skyldna sem eru enn í haldi.

Amnesty Internati­onal þakkar öllum þeim einstak­lingum sem hafa lagt starfinu lið með einum eða öðrum hætti á árinu. Mann­rétt­inda­bar­áttan heldur áfram á nýju ári!

Lestu einnig