Fréttir

18. janúar 2021

Þitt nafn bjargar lífi 2020 gekk vonum framar

Þitt nafn bjargar lífi 2020 gekk vonum framar en samtals söfn­uðust 70.405 undir­skriftir til stjórn­valda á vefsíðu Íslands­deildar Amnesty Internati­onal sem er rúmlega það markmið sem deildin stefndi að og er met í fjölda rafrænna undir­skrifta á vefsíð­unni fyrir þessa árlegu herferð.

Bregða þurfti út af vananum við skipu­lagn­ingu herferð­ar­innar í ljósi kórónu­veirufar­ald­ursins og voru því engir viðburðir haldnir eins og venja er heldur fór herferðin að öllu leyti fram rafrænt. Þrátt fyrir annmarka í samfé­laginu náðist þessi einstak­lega góði árangur sem ber vott um síaukinn stuðning almenn­ings við herferðina.

Markmið og árangur herferðarinnar

Markmið herferð­ar­innar í ár var að safna undir­skriftum fyrir tíu áríð­andi mál einstak­linga sem sæta mann­rétt­inda­brotum og þrýsta á viðkom­andi stjórn­völd að virða mann­rétt­indi. Þá var einnig hvatt til þess að almenn­ingur skrifaði stuðn­ingskveðjur til þolenda brot­anna og fjöl­skyldur þeirra. Alls söfn­uðust 322 stuðn­ingskveðjur en næstum helm­ing­urinn kom frá nemendum í Alþjóða­skól­anum sem skrifuðu hvorki meira né minna 145 stuðn­ingskveðjur.

Mál Nassimu al-Sada, sem situr í fang­elsi fyrir að berjast fyrir rétt­indum kvenna í heimalandi sínu Sádi-Arabíu, fékk flestar undir­skriftir eða samtals 6509. Því næst var mál Melike Balkan og Özgür Gür sem hafa verið ákærð fyrir baráttu sína fyrir rétt­indum hinsegin fólks í Tyrklandi en alls söfn­uðust 6351 undir­skriftir þeim til stuðn­ings. Kven­rétt­indi og mál hinsegin fólks var því ofar­lega í huga fólks í þetta skiptið.

Keppni um Mann­rétt­inda­skóla ársins 2020 fór fram í skólum landsins. Keppt var um að safna sem flestum undir­skriftum fyrir málin tíu. Í grunn­skólum landsins söfn­uðust í heildina 2502 undir­skriftir og 5407 undir­skriftir í fram­halds­skólum.  Tilkynnt verður um sigur­vegara á báðum skóla­stigum á næstu vikum.

Raun­veru­legar breyt­ingar á lífi þolenda mann­rétt­inda­brota eiga sér stað á hverju ári vegna þrýst­ings frá fólki eins og þér. Árið 2019 var mál Magai frá Suður-Súdan eitt málanna í herferð­inni Þitt nafn bjargar lífi. Hann var 15 ára þegar hann var dæmdur til dauða. Í kjölfar fjölda undir­skrifta var dauða­dóm­urinn yfir honum felldur úr gildi sumarið 2020.

Íslands­deild Amnesty Internati­onal þakkar þátt­tak­endum í Þitt nafn bjargar lífi 2020 heils­hugar fyrir stuðn­inginn!

Lestu einnig