Góðar fréttir

23. júlí 2025

Sigrar fyrstu mánuði ársins 2025

Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa fyrir­sagnir mótast af sögum um ótta, sundrung og hatur. Þrátt fyrir það hafa aðgerða­sinnar um heim allan lagt sitt af mörkum til að halda voninni lifandi. Hér má lesa um mann­rétt­inda­sigra frá janúar til júní á þessu ári.  

Janúar

Afgan­istan 

Amnesty Internati­onal gaf út skýrslu árið 2023 um árásir talibana á konur. Í  janúar á þessu ári sóttist saksóknari alþjóð­lega saka­mála­dóm­stólsins eftir hand­töku­heimild gegn æðsta leið­toga talibana og forseta hæsta­réttar í Afgan­istan fyrir glæpi gegn mannúð.  

Þessir tveir leið­togar eru ásak­aðir um ofsóknir gegn konum og hinsegin fólki frá valda­töku talibana í ágúst 2021. Hand­töku­heim­ildin var síðan samþykkt af dómara dómstólsins í júlí 2025. Þetta eru  fyrstu opin­beru hand­töku­heim­ild­irnar tengdar Afgan­istan sem alþjóða­saka­mála­dóm­stóllinn hefur samþykkt frá því að landið varð aðild­ar­ríki að dómstólnum árið 2003.

Sádi-Arabía 

Í janúar og febrúar náðist árangur í kjölfar herferðar Amnesty Internati­onal í þágu mann­rétt­inda­frömuða í Sádi-Arabíu.  

Mann­rétt­inda­fröm­uð­urinn og samviskufanginn Mohammad al-Qahtani var leystur úr haldi gegn skil­yrðum þann 7. janúar eftir 12 ár í fang­elsi fyrir mann­rétt­inda­störf sín.  

Kenn­arinn Asaad bin Nasser al-Ghamdi, 47 ára, var leystur úr haldi. Hann var hand­tekinn árið 2022 og dæmdur í 20 ára fang­elsi fyrir færslu á samfé­lags­miðlum þar sem hann gagn­rýndi stjórn­völd.  

Loks var Salma al-Shehab, doktorsnemi frá Leeds-háskóla og tveggja barna móðir, leyst úr haldi eftir að hafa lokið afplánun á fjög­urra ára dómi. Upphaf­lega var hún dæmd í 27 ára fang­elsi en í sept­ember 2024 var dómur hennar mild­aður. Salma var dæmd eftir að hafa fengið veru­lega órétt­láta máls­með­ferð fyrir dómi hjá sérstökum saka­mála­dóm­stóli landsins sem sakfelldi hana fyrir hryðju­verka­tengd brot vegna þess að hún hafði stutt rétt­indi kvenna á samfé­lags­miðl­inum Twitter (nú X).  

Kamerún 

Dorg­elesse Nguessan, hárgreiðslu­kona og einstæð móðir, var leyst úr haldi 16. janúar eftir að áfrýj­un­ar­dóm­stóll mildaði dóm hennar. Hún eyddi rúmlega fjórum árum í fang­elsi fyrir þátt­töku í mótmælum. Hún hafði aldrei áður tekið þátt í póli­tísku starfi en tók þátt í mótmæl­unum vegna þess að hún hafði auknar áhyggjur af hækk­andi verð­lagi. Dorgo­lesse var ákærð fyrir uppreisn og var mál hennar tekið fyrir í herrétti þar sem hún var dæmd í fimm ára fang­elsi í desember 2021.  

Mál hennar var hluti af alþjóð­legri og árlegri herferð Amnesty Internati­onal, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2022. Amnesty veitti Dorgo­lesse og fjöl­skyldu hennar einnig tíma­bundinn fjár­hags­legan stuðning til að styðja  þau í gegnum erfið­leikana sem fylgdu varð­haldi hennar.  

„Ég þakka öllum þeim sem starfa beint eða óbeint í þágu samtak­anna og áttu þátt í því að ég var leyst úr haldi.“ 

Síle 

Í byrjun janúar voru tveir lögreglu­menn dæmdir í fang­elsi fyrir að skjóta á aðgerða­sinnann Renzo Inostroza og blinda hann á öðru auga. Dómstóllinn komst að þeirri niður­stöðu að þeir hefðu brotið gegn reglu­verki í Síle og alþjóð­legum skuld­bind­ingum.  

Þessi dómur getur haft fordæm­is­gildi í rétt­ar­kerfi Síle og tryggt að lögreglan verði dregin til ábyrgðar fyrir ólög­mætar aðgerðir. Þessi dómur kemur í kjölfar skýrslu Amnesty Internati­onal þar sem greining var gerð á lögreglu­of­beldi í Síle í kjölfar ólgu í landinu vegna mótmæla í október 2019. Greint var frá máli Renzo í skýrsl­unni. 

Banda­ríkin 

Banda­ríkin beittu nokkur fyrir­tæki viðskipta­þving­unum fyrir að tengjast vopna­flutn­ingum til Súdan og Darfúr. Þessar viðskipta­þving­anir fylgdu í kjölfar saman­tektar Amnesty Internati­onal sem gefin var út í júlí 2024. Þar voru lögð fram gögn um vopna­við­skipti og greining mynd­banda sem sýndu fram á hvernig stöð­ugur innflutn­ingur erlendra vopna til Súdan hefur ýtt undir gífur­legar þján­ingar óbreyttra borgara.  

Banda­ríkin 

Leondard Peltier, aðgerðasinni og frum­byggi, var í fang­elsi í næstum 50 ár í Banda­ríkj­unum fyrir glæp sem hann hefur stöðugt haldið því fram að hann hafi ekki framið. Mikill vafi var á því hvort hann hefði fengið rétt­láta máls­með­ferð fyrir dómi og hversu sann­gjörn sakfelling hans var.  

Fjöl­margir aðilar hafa kallað eftir lausn hans, þar á meðal fyrrum starfs­menn Alrík­is­lög­regl­unnar og fyrrum alrík­is­sak­sókn­arinn James Reynolds en skrif­stofa hans sótti málið. Amnesty Internati­onal hefur lengi barist fyrir lausn hans og nú nýverið var kallað á Biden þáver­andi forseta að náða hann.  

Á síðustu dögum í forseta­embætti mildaði Biden þáver­andi forseti dóm Peltier úr lífs­tíð­ar­fang­elsi í stofufang­elsi. Amnesty Internati­onal veitti honum tíma­bundinn stuðning til að að hann gæti byggt upp líf sitt eftir að hann var leystur úr haldi.  

Febrúar

Alsír 

Amnesty Internati­onal í Alsír í samvinnu við kven­rétt­inda­samtök þar í landi hafa barist gegn ofbeldi á konum. Forseti Alsír, Abdelma­djid Tebboune, tilkynnti aðgerða­áætluntil að vinna gegn ofbeldi á konum.  

Ráðherra hefur sett á lagg­irnar ókeypis hjálp­ar­línu sem opin er allan sólar­hringinn í landinu sem gerir þolendum kleift að tilkynna ofbeldi, fá tilvísun á stuðn­ings­þjón­ustu og fá neyð­ar­að­stoð þegar líf er í hættu. Þessi þjón­usta hefur nú þegar skilað árangri.  

Leið­ar­vísir fyrir konur sem búa við ofbeldi hefur verið gefinn út á arab­ísku og ensku til að dreifa um allt landið. Einnig voru tilkynntar nýjar laga­legar ráðstaf­anir eins og tafar­laust nálg­un­ar­bann gegn gerendum ofbeldis.  

Benín 

Þúsundir fjöl­skyldna sem búa á strand­svæðum í Benín hafa þurft að þola enda­lausar martraðir þar sem þær hafa sætt þving­uðum brott­flutn­ingum í nafni uppbygg­ingar ferða­mannastaða án þess að fá viðeig­andi bætur. Í febrúar tilkynntu yfir­völd að fólk sem biði eftir bótum gæti gefið sig fram svo hægt væri að fylgja eftir máli þeirra. Stofnun í Benín sem sér um land og fast­eignir hafði einnig samband við Amnesty Internati­onal til að fá nöfn þeirra sem höfðu ekki fengið viðeig­andi bætur.  

Þessar aðgerðir fylgdu í kjölfar skýrslu Amnesty Internati­onal um þvingaða brott­flutn­inga í Benín sem gefin var út í desember 2023 og herferðar samtak­anna um að tryggja þolendum bætur. 

 

Kína 

Idris Hasan, Úígúri sem var í haldi í Marokkó í þrjú og hálft ár og átti á hættu að verða sendur til Kína, fékk loks frelsi í febrúar. Amnesty Internati­onal hefur barist fyrir frelsi hans frá því að hann var hand­tekinn í júlí 2021. Zaynur Hasan, eigin­kona hans, þakkaði samtök­unum fyrir allan stuðn­inginn: 

„Inni­legar þakkir til ykkar allra. Án hjálpar ykkar hefðum við ekki getað bjargað eigin­manni mínum.“ 

Serbía 

Nýleg rann­sókn Amnesty Internati­onal greindi frá því að serbneska lögreglan og leyni­þjón­ustan hafi notað háþró­aðan njósna­hug­búnað í síma til að herja á fjöl­miðla­fólk, umhverfis­að­gerða­sinna og aðra einstak­linga í leyni­legu eftir­liti. 

Mikil­vægur sigur náðist þegar Cell­ebrite, fyrir­tæki sem sérhæfir sig í staf­rænni grein­ingu, tilkynnti að það myndi hætta leyfa ákveðnum viðskipta­vinum að nota tæknina sem það býður upp á. Þessi tilkynning komí kjölfar þess að fyrir­tækið hafði lesið skýrsluna þar sem kemur fram að serbneska lögreglan og leyni­þjón­ustan misbeittu þessari tækni. Út frá niður­stöðum rann­sóknar Amnesty Internati­onal hafa þrír aðilar, saksóknari í tækniglæpum, umboðs­maður þings og gagna­vernd­ar­stjóri, hafið sínar eigin aðskildar rann­sóknir á þessari misbeit­ingu yfir­valda.  

Senegal 

Jákvætt skref var tekið þegar stjórn­völd í Senegal buðu Amnesty Internati­onal að veita stuðning og aðstoð fyrir fólk sem var hand­tekið fyrir þátt­töku í mótmælum.  

Frá 2021 hefur Amnesty Internati­onal fordæmt beit­ingu ólög­mæts valds örygg­is­sveita á mótmælum, geðþótta­varð­hald hundraða mótmæl­enda og safnað saman lista yfir þá sem voru drepnir. Samkvæmt tölum Amnesty Internati­onal og annarra samtaka voru að minnsta kosti 65 drepnir, flestir þeirra skotnir með skot­vopni, og hið minnsta þúsund sem særðust. Auk þess voru um 2000 einstak­lingar hand­teknir. 

Amnesty Internati­onal heldur áfram að kalla eftir því að lög um sakar­upp­gjöf verði felld úr gildi þar sem þau koma í veg fyrir að rétt­læti nái fram að ganga fyrir aðstand­endur hinna látnu sem voru drepnir á mótmæl­unum þar sem ekki er hægt að draga gerendur til saka.  

Tyrk­land 

Taner Kılıç, lögfræð­ingur í rétt­indum flótta­fólks og fyrrum formaður Amnesty Internati­onal í Tyrklandi, var loks sýkn­aður eftir nærri átta ára máls­með­ferð á máli hans fyrir dómi. 

Hann var hand­tekinn í júní 2017 og fang­els­aður í rúma 14 mánuði. Hann var síðan rang­lega sakfelldur árið 2020 fyrir að vera „meðlimur í hryðju­verka­sam­tökum“ þrátt fyrir skort á áreið­an­legum sönn­un­ar­gögnum. Hann átti þá yfir höfði sér sex ára fang­elsis­vist. Amnesty Internati­onal veitti honum  og fjöl­skyldu hans stuðning á þessum erfiðu tímum. 

Taner hafði þetta um málið að segja: 

„Þessari martröð sem stóð yfir í næstum átta ár er loks lokið. Það eina sem ég var viss um í öllu þessu ferli var að ég hefði rétt fyrir mér og að ég væri saklaus og stuðn­ing­urinn um heim allan gaf mér styrk. Ég þakka öllum þeim sem stóðu með mér.“ 

 

MARS

Filipps­eyjar 

Fyrrum forseti Filipps­eyja, Rodrigo Duterte, var hand­tekinn af lögreglu á grund­velli hand­töku­heim­ildar sem alþjóða­saka­mála­dóm­stóllinn gaf út á hendur honum fyrir glæpi gegn mannúð.

Þúsundir einstak­linga, flestir frá fátækum jaðar­sam­fé­lögum, voru drepnir ólög­lega af lögreglu eða vopn­uðum einstak­lingum sem grun­aðir eru um að tengjast lögregl­unni í svokölluðu stríði gegn fíkni­efnum sem Duterte leiddi.  

Amnesty Internati­onal hefur lengi kallað eftir hand­töku hans og kallaði þennan lang­þráða áfanga gríð­ar­stórt skref í átt að rétt­læti. Hann bíður nú rétt­ar­halda hjá alþjóð­lega saka­mála­dóm­stólnum. 

Tyrk­land 

Frá því í maí 1995 hafa mæður reglu­lega haldið frið­samleg mótmæli á Galatas­aray-torginu á hverjum laug­ar­degi þar sem þær krefjast rétt­lætis fyrir ættingja þeirra sem hurfu á áttunda og níunda áratugnum. Lögreglan beitti tára­gasi og öflugum vatnssprautum á 700. mótmæl­unum sem voru haldin þann 24. ágúst 2018 og voru bönnuð á þeim fölsku forsendum að ekki hefði verið búið að láta vita af mótmæl­unum tveimur sólar­hringum áður.  

Í heildina voru 46 einstak­lingar hand­teknir en síðar leystir úr haldi en árið 2020 voru þeir sóttir til saka fyrir að „sækja ólögleg fund­ar­höld“. Amnesty Internati­onal veitti stuðning í dóms­máli þeirra. Í mars 2025 voru allir sýkn­aðir.   

Síerra Leóne 

Hawa Hunt, raun­veru­leika­stjarna, fékk frelsi á ný þann 4. mars og allar ákærur á hendur henni voru felldar niður. Hún var hand­tekin í beinni útsend­ingu í desember 2024 og var ákærð fyrir að móðga forsetann og forsetafrúna í mynd­bandi á samfé­lags­miðlum. Amnesty Internati­onal kallaði eftir lausn hennar og að rétt­indi hennar væru tryggð. 

Dóttir hennar Alicia sagði:

„Í einum af fáum símtölum sem ég fékk að eiga við móður mína á meðan hún var í fang­elsi sagði ég henni að Amnesty Internati­onal hefði talað máli hennar. Hún og öll fjöl­skyldan voru djúpt snortin af stuðn­ingnum. Við trúum því að það hafi átt veru­legan þátt í að hún var leyst úr haldi.“ 

Hawa Hunt

apríl

Banda­ríkin 

Innflytj­enda­yf­ir­völd Banda­ríkj­anna hand­tóku Alberto, fjöl­skyldu­föður frá Venesúela, þann 17. mars og aðskildu hann frá eigin­konu hans og tveimur börnum eftir rúm tvö ár í landinu. Hann var ákærður fyrir að koma „ólög­lega“ inn í Banda­ríkin þrátt fyrir að fjöl­skyldan hefði verið í ferli með umsókn um alþjóð­lega vernd. Mál hans var dæmi um hvernig ríkis­stjórn Trumps hefur beitt innflytj­enda­lögum til að herja á einstak­linga og fjöl­skyldur sem hafa verið í Banda­ríkj­unum í langan tíma fremur en þau sem hafa nýlega komið yfir landa­mærin frá Mexíkó til Banda­ríkj­anna. Í kjölfar ákalls Amnesty Internati­onal og rétt rúmum mánuði eftir hand­töku hans var hann leystur úr haldi gegn trygg­ingu og samein­aðist fjöl­skyldu sinni á ný. 

Maí

Síle 

Amnesty Internati­onal í Síle vann hörðum höndum að mál Romario Veloz sem var skotinn til bana af lögreglu­manni þegar mótmæli áttu sér stað í La Serena í Síle árið 2019.  Lögreglu­mað­urinn sem skaut Romario var fang­els­aður í maí 2025 sem hefur fordæm­is­gildi í mann­rétt­inda­brotum sem þessum. Mál Romario var hluti af skýrslu Amnesty Internati­onal sem kom út árið 2020. Amnesty Internati­onal veitti einnig nánustu fjöl­skyldu hans stuðning, meðal annars með því að greiða fyrir lögsókn í leit að rétt­læti.  

Grikk­land 

Tveimur árum liðnum eftir skip­brot Pylos-skipsins sem leiddi til dauða rúmlega 600 einstak­linga  hafa 17 strand­verðir verið ákærðir, meðal annars fyrir að valda skip­broti, setja fólk í hættu og bregðast skyldu sinni til að veita aðstoð. Þessi framför getur leitt til þess að rétt­læti nái fram að ganga í einu versta skip­broti sem átt hefur sér stað í Miðjarð­ar­hafi undan­farin ár.  Amnesty Internati­onal hefur barist fyrir rétt­læti í þessu máli.  

Fíla­beins­ströndin 

Í kjölfar þrýst­ings Amnesty Internati­onal um heim allan var Ghislain Duggary Assy, upplýs­inga­full­trúi stétt­ar­fé­lags kennara, leystur úr haldi þann 7. maí á meðan hann bíður rétt­ar­halda. Mánuði áður hafði hann verið dæmdur í tveggja ára fang­elsi fyrir það eitt að kalla eftir verk­falls­að­gerðum í skólum.  

Amnesty Internati­onal fordæmdi þetta brot á vinnu­rétti, þá sérstak­lega rétt til verk­falls og félaga­frelsis, og mun halda áfram að berjast í máli hans þar til ákærur á hendur honum hafa verið felldar niður.  

Tyrk­land 

Tabriz Saifi, afganskur umsækj­andi um alþjóð­lega vernd, er blindur vegna sykur­sýki og þarfnast skil­un­ar­með­ferðar þrisvar í viku. Þrátt fyrir það var umsókn hans um alþjóð­lega vernd hafnað af tyrk­neskum yfir­völdum 28. febrúar sem þýddi að hann hafði ekki lengur aðgang að lífs­nauð­syn­legri heil­brigð­is­þjón­ustu. Amnesty Internati­onal kallaði eftir því að ákvörð­un­inni yrði snúið við. Fjöl­skyldu hans var tilkynnt 2. maí að umsókn hans um alþjóð­lega vernd hefði verið endur­nýjuð ásamt því að hann fengi aðgang að gjald­frjálsri heil­brigð­is­þjón­ustu.  

Júní

Argentína 

Trygg­ing­ar­fyr­ir­tæki í Argentínu var sektað um 4000 Banda­ríkja­dollara fyrir að neita konu í áhættu­hópi á meðgöngu um löglegt þung­un­arrof þar sem um var að ræða skýrt brot á lands­lögum.  

Amnesty Internati­onal Argentína veitti laga­lega ráðgjöf og vakti athygli á að úrskurður sem þessi sýnir fram á að nauðsyn þess að tryggja að rétt­urinn til löglegs og öruggs þung­un­ar­rofs sé ekki geðþótta­ákvörðun einstak­linga eða stofnana.   

Evrópu­ráðið 

Í kjölfar langvar­andi þrýst­ings Amnesty Internati­onal og Omega Rese­arch Foundation gaf stýr­i­n­efnd Evrópu­ráðsins um mann­rétt­indi út skýrslu um ráðstaf­anir  sem hindra viðskipti á vörum  sem eru notaðar við beit­ingu dauðarefs­ing­ar­innar, pynd­inga og annarrar illrar meðferðar eða refs­ingar.  

Georgía 

Eftir margra mánaða þrýsting, mótmæli og lögsóknir tilkynnti dóms­mála­ráðu­neytið að bundinn yrði endi á þá niður­lægj­andi aðferð að láta fanga vera nakta við líkams­leit.  

Amnesty Internati­onal birti skýrslu í febrúar þar sem þessi aðferð var fordæmd. Lista­konan Kristina Botko­veli sem sætti líkams­leitar án klæðn­aðar kom einnig fram í mynd­bandi sem var gefið út á sama tíma.  

Úkraína 

Volodymyr Zelen­skyy forseti Úkraínu og Alain Berset fram­kvæmda­stjóri Evrópu­ráðsins skrifuðu undir samkomulag í Strass­borg um að stofna sérstakan dómstól fyrir glæpi gegn friði vegna innrásar í Úkraínu. Amnesty Internati­onal var í hópi samtaka sem kölluðu eftir því að allra leiða yrði leitað til að rann­saka og draga gerendur til ábyrgðar fyrir glæpi gegn friði. Með stofnun þessa dómstóls er von um að það hjálpi til að það verði að veru­leika.  

Finn­land 

Samar sem eru frum­byggjar í norð­ur­hluta Noregs, Svíþjóðar, Finn­lands og á Kola-skag­anum í Rússlandi hafa í áraraðir sætt mann­rétt­inda­brotum. Finnska þingið samþykkti endur­bætta löggjöf um þing Sama í kjölfar þrýst­ings frá Amnesty Internati­onal og annarra samtaka.  

Löggjöfin styrkir rétt Sama til sjálfs­ákvörð­unar og eflir starf­semi þings Sama. 

Ungverja­land 

Gleði­gangan í Búdapest fór fram 28. júní þrátt fyrir ströng lög sem beindust gegn gleði­göng­unni. Í gönguna mættu  um 200 þúsund einstak­lingar, þar á meðal 280 aðgerða­sinnar og starfs­fólk Amnesty frá Ungverjalandi og 22 öðrum löndum. Þar var krafist jafn­réttis og funda­frelsis. Þetta var stærsta gleði­ganga Búdapest á síðustu þrjátíu árum sem sýnir öflugan stuðning almenn­ings gegn mismunun og seiglu hinsegin samfé­lagsins í Ungverjalandi. Amnesty Internati­onal hóf herferð til stuðn­ings gleði­göng­unni. Rúmlega 120 þúsund sýndu gleði­göng­unni stuðning í verki og á Íslandi söfn­uðust 1923 undir­skriftir.  

Nígería/Bret­land  

Eftir áratuga­langa baráttu fyrir rétt­læti úrskurðaði réttur í Bretlandi að hægt væri að draga fyrir­tækið Shell til ábyrgðar fyrir olíuleka sem það hefur ekki hreinsað upp í Níger-óseyr­unum í Nígeríu, óháð hversu langt er síðan það gerðist.  

Þetta er mikil­vægt skref í átt að rétt­læti fyrir samfé­lögin við Níger-óseyrana og opnar á mögu­leika til að fá Shell til að borga fyrir gríð­ar­lega mengun á svæðinu.  

Í Nígeríu náðaði ríkis­stjórnin Ogoni Nine-hópinn sem er einnig tengdur sama máli. Hópurinn saman­stóð af aðgerða­sinnum sem voru teknir af lífi fyrir 30 árum af ríkis­stjórn sem vildi fela glæpi Shell og annarra olíu­fyr­ir­tækja sem voru að eyði­leggja lífs­við­ur­væri þúsunda einstak­linga við Níger-óseyr­arnar.  

Amnesty Internati­onal hefur lengi stutt og kallað eftir rétt­læti fyrir Ogoni Nine-hópinn og hefur greint frá eyði­legg­ingu Shell í nokkrum skýrslum. Þrátt fyrir jákvæðan úrskurð er enn langt í land til að tryggja rétt­læti fyrir samfélög við Níger-óseyr­arnar, þar á meðal að draga Shell og önnur olíu­fyr­ir­tæki til ábyrgðar fyrir þann skaða sem þau hafa valdið. Amnesty Internati­onal mun áfram fylgjast grannt með stöðu mála.  

Banda­ríkin  

Dómari í Banda­ríkj­unum fyrir­skipaði að leysa Mahmoud Khalil úr haldi gegn trygg­ingu en hann var þrjá mánuði í ólög­mætu haldi. Hann er palestínskur aðgerðasinni með ótíma­bundið dval­ar­leyfi í Banda­ríkj­unum og lauk nýlega námi við Columbia-háskólann. 

Mahmoud Khalil var hand­tekinn af innflytj­enda­yf­ir­völdum 9. mars fyrir að nýta rétt sinn til tján­ingar á mótmælum í háskól­anum til stuðn­ings rétt­indum Palestínubúa og gegn hópmorði á Gaza.  Honum var einnig tjáð að ótíma­bundið dval­ar­leyfi hans hefði verið aftur­kallað.  

Hann var 104 daga í Lousiana-ríki í varð­haldsmið­stöð fyrir innflytj­endur en var leystur úr haldi 21. júní 2025. Hann á enn á hættu að verða vísað úr landi af banda­rískum yfir­völdum.  

Mynd af Mahmoud Khalil – fengin frá fjöl­skyldu hans.

Lestu einnig