Góðar fréttir
23. júlí 2025Á fyrstu sex mánuðum ársins hafa fyrirsagnir mótast af sögum um ótta, sundrung og hatur. Þrátt fyrir það hafa aðgerðasinnar um heim allan lagt sitt af mörkum til að halda voninni lifandi. Hér má lesa um mannréttindasigra frá janúar til júní á þessu ári.
Janúar
Afganistan
Amnesty International gaf út skýrslu árið 2023 um árásir talibana á konur. Í janúar á þessu ári sóttist saksóknari alþjóðlega sakamáladómstólsins eftir handtökuheimild gegn æðsta leiðtoga talibana og forseta hæstaréttar í Afganistan fyrir glæpi gegn mannúð.
Þessir tveir leiðtogar eru ásakaðir um ofsóknir gegn konum og hinsegin fólki frá valdatöku talibana í ágúst 2021. Handtökuheimildin var síðan samþykkt af dómara dómstólsins í júlí 2025. Þetta eru fyrstu opinberu handtökuheimildirnar tengdar Afganistan sem alþjóðasakamáladómstóllinn hefur samþykkt frá því að landið varð aðildarríki að dómstólnum árið 2003.
Sádi-Arabía
Í janúar og febrúar náðist árangur í kjölfar herferðar Amnesty International í þágu mannréttindafrömuða í Sádi-Arabíu.
Mannréttindafrömuðurinn og samviskufanginn Mohammad al-Qahtani var leystur úr haldi gegn skilyrðum þann 7. janúar eftir 12 ár í fangelsi fyrir mannréttindastörf sín.
Kennarinn Asaad bin Nasser al-Ghamdi, 47 ára, var leystur úr haldi. Hann var handtekinn árið 2022 og dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir færslu á samfélagsmiðlum þar sem hann gagnrýndi stjórnvöld.
Loks var Salma al-Shehab, doktorsnemi frá Leeds-háskóla og tveggja barna móðir, leyst úr haldi eftir að hafa lokið afplánun á fjögurra ára dómi. Upphaflega var hún dæmd í 27 ára fangelsi en í september 2024 var dómur hennar mildaður. Salma var dæmd eftir að hafa fengið verulega óréttláta málsmeðferð fyrir dómi hjá sérstökum sakamáladómstóli landsins sem sakfelldi hana fyrir hryðjuverkatengd brot vegna þess að hún hafði stutt réttindi kvenna á samfélagsmiðlinum Twitter (nú X).
Kamerún
Dorgelesse Nguessan, hárgreiðslukona og einstæð móðir, var leyst úr haldi 16. janúar eftir að áfrýjunardómstóll mildaði dóm hennar. Hún eyddi rúmlega fjórum árum í fangelsi fyrir þátttöku í mótmælum. Hún hafði aldrei áður tekið þátt í pólitísku starfi en tók þátt í mótmælunum vegna þess að hún hafði auknar áhyggjur af hækkandi verðlagi. Dorgolesse var ákærð fyrir uppreisn og var mál hennar tekið fyrir í herrétti þar sem hún var dæmd í fimm ára fangelsi í desember 2021.
Mál hennar var hluti af alþjóðlegri og árlegri herferð Amnesty International, Þitt nafn bjargar lífi, árið 2022. Amnesty veitti Dorgolesse og fjölskyldu hennar einnig tímabundinn fjárhagslegan stuðning til að styðja þau í gegnum erfiðleikana sem fylgdu varðhaldi hennar.
„Ég þakka öllum þeim sem starfa beint eða óbeint í þágu samtakanna og áttu þátt í því að ég var leyst úr haldi.“
Síle
Í byrjun janúar voru tveir lögreglumenn dæmdir í fangelsi fyrir að skjóta á aðgerðasinnann Renzo Inostroza og blinda hann á öðru auga. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu brotið gegn regluverki í Síle og alþjóðlegum skuldbindingum.
Þessi dómur getur haft fordæmisgildi í réttarkerfi Síle og tryggt að lögreglan verði dregin til ábyrgðar fyrir ólögmætar aðgerðir. Þessi dómur kemur í kjölfar skýrslu Amnesty International þar sem greining var gerð á lögregluofbeldi í Síle í kjölfar ólgu í landinu vegna mótmæla í október 2019. Greint var frá máli Renzo í skýrslunni.
Bandaríkin
Bandaríkin beittu nokkur fyrirtæki viðskiptaþvingunum fyrir að tengjast vopnaflutningum til Súdan og Darfúr. Þessar viðskiptaþvinganir fylgdu í kjölfar samantektar Amnesty International sem gefin var út í júlí 2024. Þar voru lögð fram gögn um vopnaviðskipti og greining myndbanda sem sýndu fram á hvernig stöðugur innflutningur erlendra vopna til Súdan hefur ýtt undir gífurlegar þjáningar óbreyttra borgara.
Bandaríkin
Leondard Peltier, aðgerðasinni og frumbyggi, var í fangelsi í næstum 50 ár í Bandaríkjunum fyrir glæp sem hann hefur stöðugt haldið því fram að hann hafi ekki framið. Mikill vafi var á því hvort hann hefði fengið réttláta málsmeðferð fyrir dómi og hversu sanngjörn sakfelling hans var.
Fjölmargir aðilar hafa kallað eftir lausn hans, þar á meðal fyrrum starfsmenn Alríkislögreglunnar og fyrrum alríkissaksóknarinn James Reynolds en skrifstofa hans sótti málið. Amnesty International hefur lengi barist fyrir lausn hans og nú nýverið var kallað á Biden þáverandi forseta að náða hann.
Á síðustu dögum í forsetaembætti mildaði Biden þáverandi forseti dóm Peltier úr lífstíðarfangelsi í stofufangelsi. Amnesty International veitti honum tímabundinn stuðning til að að hann gæti byggt upp líf sitt eftir að hann var leystur úr haldi.
Febrúar
Alsír
Amnesty International í Alsír í samvinnu við kvenréttindasamtök þar í landi hafa barist gegn ofbeldi á konum. Forseti Alsír, Abdelmadjid Tebboune, tilkynnti aðgerðaáætluntil að vinna gegn ofbeldi á konum.
Ráðherra hefur sett á laggirnar ókeypis hjálparlínu sem opin er allan sólarhringinn í landinu sem gerir þolendum kleift að tilkynna ofbeldi, fá tilvísun á stuðningsþjónustu og fá neyðaraðstoð þegar líf er í hættu. Þessi þjónusta hefur nú þegar skilað árangri.
Leiðarvísir fyrir konur sem búa við ofbeldi hefur verið gefinn út á arabísku og ensku til að dreifa um allt landið. Einnig voru tilkynntar nýjar lagalegar ráðstafanir eins og tafarlaust nálgunarbann gegn gerendum ofbeldis.
Benín
Þúsundir fjölskyldna sem búa á strandsvæðum í Benín hafa þurft að þola endalausar martraðir þar sem þær hafa sætt þvinguðum brottflutningum í nafni uppbyggingar ferðamannastaða án þess að fá viðeigandi bætur. Í febrúar tilkynntu yfirvöld að fólk sem biði eftir bótum gæti gefið sig fram svo hægt væri að fylgja eftir máli þeirra. Stofnun í Benín sem sér um land og fasteignir hafði einnig samband við Amnesty International til að fá nöfn þeirra sem höfðu ekki fengið viðeigandi bætur.
Þessar aðgerðir fylgdu í kjölfar skýrslu Amnesty International um þvingaða brottflutninga í Benín sem gefin var út í desember 2023 og herferðar samtakanna um að tryggja þolendum bætur.
Kína
Idris Hasan, Úígúri sem var í haldi í Marokkó í þrjú og hálft ár og átti á hættu að verða sendur til Kína, fékk loks frelsi í febrúar. Amnesty International hefur barist fyrir frelsi hans frá því að hann var handtekinn í júlí 2021. Zaynur Hasan, eiginkona hans, þakkaði samtökunum fyrir allan stuðninginn:
„Innilegar þakkir til ykkar allra. Án hjálpar ykkar hefðum við ekki getað bjargað eiginmanni mínum.“
Serbía
Nýleg rannsókn Amnesty International greindi frá því að serbneska lögreglan og leyniþjónustan hafi notað háþróaðan njósnahugbúnað í síma til að herja á fjölmiðlafólk, umhverfisaðgerðasinna og aðra einstaklinga í leynilegu eftirliti.
Mikilvægur sigur náðist þegar Cellebrite, fyrirtæki sem sérhæfir sig í stafrænni greiningu, tilkynnti að það myndi hætta að leyfa ákveðnum viðskiptavinum að nota tæknina sem það býður upp á. Þessi tilkynning komí kjölfar þess að fyrirtækið hafði lesið skýrsluna þar sem kemur fram að serbneska lögreglan og leyniþjónustan misbeittu þessari tækni. Út frá niðurstöðum rannsóknar Amnesty International hafa þrír aðilar, saksóknari í tækniglæpum, umboðsmaður þings og gagnaverndarstjóri, hafið sínar eigin aðskildar rannsóknir á þessari misbeitingu yfirvalda.
Senegal
Jákvætt skref var tekið þegar stjórnvöld í Senegal buðu Amnesty International að veita stuðning og aðstoð fyrir fólk sem var handtekið fyrir þátttöku í mótmælum.
Frá 2021 hefur Amnesty International fordæmt beitingu ólögmæts valds öryggissveita á mótmælum, geðþóttavarðhald hundraða mótmælenda og safnað saman lista yfir þá sem voru drepnir. Samkvæmt tölum Amnesty International og annarra samtaka voru að minnsta kosti 65 drepnir, flestir þeirra skotnir með skotvopni, og hið minnsta þúsund sem særðust. Auk þess voru um 2000 einstaklingar handteknir.
Amnesty International heldur áfram að kalla eftir því að lög um sakaruppgjöf verði felld úr gildi þar sem þau koma í veg fyrir að réttlæti nái fram að ganga fyrir aðstandendur hinna látnu sem voru drepnir á mótmælunum þar sem ekki er hægt að draga gerendur til saka.
Tyrkland
Taner Kılıç, lögfræðingur í réttindum flóttafólks og fyrrum formaður Amnesty International í Tyrklandi, var loks sýknaður eftir nærri átta ára málsmeðferð á máli hans fyrir dómi.
Hann var handtekinn í júní 2017 og fangelsaður í rúma 14 mánuði. Hann var síðan ranglega sakfelldur árið 2020 fyrir að vera „meðlimur í hryðjuverkasamtökum“ þrátt fyrir skort á áreiðanlegum sönnunargögnum. Hann átti þá yfir höfði sér sex ára fangelsisvist. Amnesty International veitti honum og fjölskyldu hans stuðning á þessum erfiðu tímum.
Taner hafði þetta um málið að segja:
„Þessari martröð sem stóð yfir í næstum átta ár er loks lokið. Það eina sem ég var viss um í öllu þessu ferli var að ég hefði rétt fyrir mér og að ég væri saklaus og stuðningurinn um heim allan gaf mér styrk. Ég þakka öllum þeim sem stóðu með mér.“
MARS
Filippseyjar
Fyrrum forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, var handtekinn af lögreglu á grundvelli handtökuheimildar sem alþjóðasakamáladómstóllinn gaf út á hendur honum fyrir glæpi gegn mannúð.
Þúsundir einstaklinga, flestir frá fátækum jaðarsamfélögum, voru drepnir ólöglega af lögreglu eða vopnuðum einstaklingum sem grunaðir eru um að tengjast lögreglunni í svokölluðu stríði gegn fíkniefnum sem Duterte leiddi.
Amnesty International hefur lengi kallað eftir handtöku hans og kallaði þennan langþráða áfanga gríðarstórt skref í átt að réttlæti. Hann bíður nú réttarhalda hjá alþjóðlega sakamáladómstólnum.
Tyrkland
Frá því í maí 1995 hafa mæður reglulega haldið friðsamleg mótmæli á Galatasaray-torginu á hverjum laugardegi þar sem þær krefjast réttlætis fyrir ættingja þeirra sem hurfu á áttunda og níunda áratugnum. Lögreglan beitti táragasi og öflugum vatnssprautum á 700. mótmælunum sem voru haldin þann 24. ágúst 2018 og voru bönnuð á þeim fölsku forsendum að ekki hefði verið búið að láta vita af mótmælunum tveimur sólarhringum áður.
Í heildina voru 46 einstaklingar handteknir en síðar leystir úr haldi en árið 2020 voru þeir sóttir til saka fyrir að „sækja ólögleg fundarhöld“. Amnesty International veitti stuðning í dómsmáli þeirra. Í mars 2025 voru allir sýknaðir.
Síerra Leóne
Hawa Hunt, raunveruleikastjarna, fékk frelsi á ný þann 4. mars og allar ákærur á hendur henni voru felldar niður. Hún var handtekin í beinni útsendingu í desember 2024 og var ákærð fyrir að móðga forsetann og forsetafrúna í myndbandi á samfélagsmiðlum. Amnesty International kallaði eftir lausn hennar og að réttindi hennar væru tryggð.
Dóttir hennar Alicia sagði:
„Í einum af fáum símtölum sem ég fékk að eiga við móður mína á meðan hún var í fangelsi sagði ég henni að Amnesty International hefði talað máli hennar. Hún og öll fjölskyldan voru djúpt snortin af stuðningnum. Við trúum því að það hafi átt verulegan þátt í að hún var leyst úr haldi.“
Hawa Hunt
apríl
Bandaríkin
Innflytjendayfirvöld Bandaríkjanna handtóku Alberto, fjölskylduföður frá Venesúela, þann 17. mars og aðskildu hann frá eiginkonu hans og tveimur börnum eftir rúm tvö ár í landinu. Hann var ákærður fyrir að koma „ólöglega“ inn í Bandaríkin þrátt fyrir að fjölskyldan hefði verið í ferli með umsókn um alþjóðlega vernd. Mál hans var dæmi um hvernig ríkisstjórn Trumps hefur beitt innflytjendalögum til að herja á einstaklinga og fjölskyldur sem hafa verið í Bandaríkjunum í langan tíma fremur en þau sem hafa nýlega komið yfir landamærin frá Mexíkó til Bandaríkjanna. Í kjölfar ákalls Amnesty International og rétt rúmum mánuði eftir handtöku hans var hann leystur úr haldi gegn tryggingu og sameinaðist fjölskyldu sinni á ný.
Maí
Síle
Amnesty International í Síle vann hörðum höndum að mál Romario Veloz sem var skotinn til bana af lögreglumanni þegar mótmæli áttu sér stað í La Serena í Síle árið 2019. Lögreglumaðurinn sem skaut Romario var fangelsaður í maí 2025 sem hefur fordæmisgildi í mannréttindabrotum sem þessum. Mál Romario var hluti af skýrslu Amnesty International sem kom út árið 2020. Amnesty International veitti einnig nánustu fjölskyldu hans stuðning, meðal annars með því að greiða fyrir lögsókn í leit að réttlæti.
Grikkland
Tveimur árum liðnum eftir skipbrot Pylos-skipsins sem leiddi til dauða rúmlega 600 einstaklinga hafa 17 strandverðir verið ákærðir, meðal annars fyrir að valda skipbroti, setja fólk í hættu og bregðast skyldu sinni til að veita aðstoð. Þessi framför getur leitt til þess að réttlæti nái fram að ganga í einu versta skipbroti sem átt hefur sér stað í Miðjarðarhafi undanfarin ár. Amnesty International hefur barist fyrir réttlæti í þessu máli.
Fílabeinsströndin
Í kjölfar þrýstings Amnesty International um heim allan var Ghislain Duggary Assy, upplýsingafulltrúi stéttarfélags kennara, leystur úr haldi þann 7. maí á meðan hann bíður réttarhalda. Mánuði áður hafði hann verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir það eitt að kalla eftir verkfallsaðgerðum í skólum.
Amnesty International fordæmdi þetta brot á vinnurétti, þá sérstaklega rétt til verkfalls og félagafrelsis, og mun halda áfram að berjast í máli hans þar til ákærur á hendur honum hafa verið felldar niður.
Tyrkland
Tabriz Saifi, afganskur umsækjandi um alþjóðlega vernd, er blindur vegna sykursýki og þarfnast skilunarmeðferðar þrisvar í viku. Þrátt fyrir það var umsókn hans um alþjóðlega vernd hafnað af tyrkneskum yfirvöldum 28. febrúar sem þýddi að hann hafði ekki lengur aðgang að lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Amnesty International kallaði eftir því að ákvörðuninni yrði snúið við. Fjölskyldu hans var tilkynnt 2. maí að umsókn hans um alþjóðlega vernd hefði verið endurnýjuð ásamt því að hann fengi aðgang að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu.
Júní
Argentína
Tryggingarfyrirtæki í Argentínu var sektað um 4000 Bandaríkjadollara fyrir að neita konu í áhættuhópi á meðgöngu um löglegt þungunarrof þar sem um var að ræða skýrt brot á landslögum.
Amnesty International Argentína veitti lagalega ráðgjöf og vakti athygli á að úrskurður sem þessi sýnir fram á að nauðsyn þess að tryggja að rétturinn til löglegs og öruggs þungunarrofs sé ekki geðþóttaákvörðun einstaklinga eða stofnana.
Evrópuráðið
Í kjölfar langvarandi þrýstings Amnesty International og Omega Research Foundation gaf stýrinefnd Evrópuráðsins um mannréttindi út skýrslu um ráðstafanir sem hindra viðskipti á vörum sem eru notaðar við beitingu dauðarefsingarinnar, pyndinga og annarrar illrar meðferðar eða refsingar.
Georgía
Eftir margra mánaða þrýsting, mótmæli og lögsóknir tilkynnti dómsmálaráðuneytið að bundinn yrði endi á þá niðurlægjandi aðferð að láta fanga vera nakta við líkamsleit.
Amnesty International birti skýrslu í febrúar þar sem þessi aðferð var fordæmd. Listakonan Kristina Botkoveli sem sætti líkamsleitar án klæðnaðar kom einnig fram í myndbandi sem var gefið út á sama tíma.
Úkraína
Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu og Alain Berset framkvæmdastjóri Evrópuráðsins skrifuðu undir samkomulag í Strassborg um að stofna sérstakan dómstól fyrir glæpi gegn friði vegna innrásar í Úkraínu. Amnesty International var í hópi samtaka sem kölluðu eftir því að allra leiða yrði leitað til að rannsaka og draga gerendur til ábyrgðar fyrir glæpi gegn friði. Með stofnun þessa dómstóls er von um að það hjálpi til að það verði að veruleika.
Finnland
Samar sem eru frumbyggjar í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og á Kola-skaganum í Rússlandi hafa í áraraðir sætt mannréttindabrotum. Finnska þingið samþykkti endurbætta löggjöf um þing Sama í kjölfar þrýstings frá Amnesty International og annarra samtaka.
Löggjöfin styrkir rétt Sama til sjálfsákvörðunar og eflir starfsemi þings Sama.
Ungverjaland
Gleðigangan í Búdapest fór fram 28. júní þrátt fyrir ströng lög sem beindust gegn gleðigöngunni. Í gönguna mættu um 200 þúsund einstaklingar, þar á meðal 280 aðgerðasinnar og starfsfólk Amnesty frá Ungverjalandi og 22 öðrum löndum. Þar var krafist jafnréttis og fundafrelsis. Þetta var stærsta gleðiganga Búdapest á síðustu þrjátíu árum sem sýnir öflugan stuðning almennings gegn mismunun og seiglu hinsegin samfélagsins í Ungverjalandi. Amnesty International hóf herferð til stuðnings gleðigöngunni. Rúmlega 120 þúsund sýndu gleðigöngunni stuðning í verki og á Íslandi söfnuðust 1923 undirskriftir.
Nígería/Bretland
Eftir áratugalanga baráttu fyrir réttlæti úrskurðaði réttur í Bretlandi að hægt væri að draga fyrirtækið Shell til ábyrgðar fyrir olíuleka sem það hefur ekki hreinsað upp í Níger-óseyrunum í Nígeríu, óháð hversu langt er síðan það gerðist.
Þetta er mikilvægt skref í átt að réttlæti fyrir samfélögin við Níger-óseyrana og opnar á möguleika til að fá Shell til að borga fyrir gríðarlega mengun á svæðinu.
Í Nígeríu náðaði ríkisstjórnin Ogoni Nine-hópinn sem er einnig tengdur sama máli. Hópurinn samanstóð af aðgerðasinnum sem voru teknir af lífi fyrir 30 árum af ríkisstjórn sem vildi fela glæpi Shell og annarra olíufyrirtækja sem voru að eyðileggja lífsviðurværi þúsunda einstaklinga við Níger-óseyrarnar.
Amnesty International hefur lengi stutt og kallað eftir réttlæti fyrir Ogoni Nine-hópinn og hefur greint frá eyðileggingu Shell í nokkrum skýrslum. Þrátt fyrir jákvæðan úrskurð er enn langt í land til að tryggja réttlæti fyrir samfélög við Níger-óseyrarnar, þar á meðal að draga Shell og önnur olíufyrirtæki til ábyrgðar fyrir þann skaða sem þau hafa valdið. Amnesty International mun áfram fylgjast grannt með stöðu mála.
Bandaríkin
Dómari í Bandaríkjunum fyrirskipaði að leysa Mahmoud Khalil úr haldi gegn tryggingu en hann var þrjá mánuði í ólögmætu haldi. Hann er palestínskur aðgerðasinni með ótímabundið dvalarleyfi í Bandaríkjunum og lauk nýlega námi við Columbia-háskólann.
Mahmoud Khalil var handtekinn af innflytjendayfirvöldum 9. mars fyrir að nýta rétt sinn til tjáningar á mótmælum í háskólanum til stuðnings réttindum Palestínubúa og gegn hópmorði á Gaza. Honum var einnig tjáð að ótímabundið dvalarleyfi hans hefði verið afturkallað.
Hann var 104 daga í Lousiana-ríki í varðhaldsmiðstöð fyrir innflytjendur en var leystur úr haldi 21. júní 2025. Hann á enn á hættu að verða vísað úr landi af bandarískum yfirvöldum.
Mynd af Mahmoud Khalil – fengin frá fjölskyldu hans.
Lestu einnig
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Með því að skrifa undir málin samþykkir þú skilmála Íslandsdeildar Amnesty International um undirskriftir og persónuverndarstefnu