Fréttir

26. júlí 2019

Ungir aðgerða­sinnar deila hugsjón um betri heim

Dagana 13. – 17. júlí sóttu þær Þórkatla Haralds­dóttir og Arndís Ósk Magnús­dóttir ráðstefnuna  European Youth Meeting (EYM) fyrir hönd Íslands­deildar Amnesty Internati­onal.

Ráðstefnan var haldin í hjarta Evrópu: Brussel og eru þær báðar reynslu­miklir aðgerða­sinnar úr ungl­iða­hreyf­ingu Íslands­deild­ar­innar. Á ráðstefn­unni  voru saman­komin meira en 40 ungmenni, sem full­trúar sinna deilda, með hugsjón um betri heim þar sem allir geta notið mann­rétt­inda. Ráðstefnan, sem haldin er árlega, er bæði skipu­lögð og leidd af ungu fólki og var dagskráin þétt skipuð.

Hér að neðan segja þær Arndís og Þórkatla stutt­lega frá því sem fór fram.

 

Strax á fyrsta degi héldum við út á götur Brussel og fram­kvæmdum sjón­ræna aðgerð sem var tengd þema ráðstefn­unnar í ár, „Minnk­andi rými í Evrópu” (e. shrinking space for civic society). Þá héldum við skiltum á lofti, þar sem gríp­andi lýsingar á mann­rétt­inda­brotum um alla Evrópu fönguðu athygli gang­andi vegfar­enda. Mismun­andi málefni voru tekin fyrir frá hverju landi fyrir sig og úr varð ein heild aðgerða­sinna sem stóð saman gegn mann­rétt­inda­brotum.

 

Seinni aðgerðin sem fór fram á ráðstefn­unni var beint að ástandi hernámsins í Súdan. Allir ungl­ið­arnir klæddust bláu, sem hefur orðið að einkenn­islit barátt­unnar fyrir frelsi og valdi til fólksins í Súdan, og stóðu saman í hóp á meðan þau voru tekin upp á mynd­band þar sem allir kölluðu saman táknræn arabísk orð áður en teknar voru myndir fyrir samfé­lags­miðla.

Á síðasta deginum fengum við að njóta okkar í sérhæfðum aðgerða­hópum að eigin vali, ýmist um þung­un­arrof, rétt­indi hinsegin fólks, tján­ing­ar­frelsi í Evrópu eða lofts­lagsmál. Afurð­irnar voru staf­rænar, bæði í mynd- og mynd­bands­formi og hugmyndir kviknuðu sem áætlað er að nota enn frekar í fram­tíð­ar­að­gerðum. Sáu ungl­ið­arnir alveg um skipu­lagn­ingu, undir­búning og fram­kvæmd þessara aðgerða innan síns hóps og kynntu að lokum fyrir öðrum. Það sem einkenndi þessa æfingu mest var að hver hópur fékk einungis klukku­tíma til fram­kvæmda, undir­bún­ings og skipu­lagn­ingu og þurftu allir einstak­lingar að vinna vel saman.

 

Á meðan ráðstefn­unni stóð fengum við bæði mikla fræðslu og ítar­lega og fræð­andi fyrir­lestra. Þar má nefna fyrir­lesara frá Póllandi sem fjallaði um átök innan stjórn­kerf­isins hvað varðar vald dómstóla og hvar það liggur. Við unnum í vinnu­smiðjum þar sem við hlutum dýpri þekk­ingu á fjöl­þætt­ingu (e. inter­secti­ona­lity), stjórn­ar­háttum, sjálfs­rækt og næstu alþjóð­legu stefnu samtak­anna. Til okkar komu einnig tveir ungir umhverf­issinnar sem þjálfuðu okkur í að takast á við áskor­anir í tengslum við umhverf­ismál. Eins fengum við svæðistengda leið­sögn með samtök­unum Refugee Work Flanders, þar sem við gengum um Brussel og skyggnd­umst inn í móttöku­ferli flótta­fólks og umsækj­enda um alþjóð­lega vernd í Belgíu.

Síðast en ekki síst var það tæki­færið til þess að læra af hvert öðru sem var stór liður í dagskrá ráðstefn­unnar. Þátt­tak­endur höfðu mögu­leika á því að kynna afrek sín fyrir hvert öðru og taka þátt í vinnu­smiðjum þar sem áhersla var lögð á að deila áfram færni sinni, kunn­áttu og reynslu.

Það er ánægju­legt að finna fyrir því hvernig Amnesty Internati­onal vald­eflir ungu kynslóðina. Ráðstefnur líkt og European Youth Meeting gefa manni ómet­an­legt tæki­færi til að vaxa sem aðgerða­sinnar, mynda sterk sambönd og öflugt tengslanet innan hreyf­ing­ar­innar. Eftir viku fulla af hvatn­ingu, snerum við til baka reynsl­unni ríkari, með nýja vini til fram­búðar og reiðu­búnar til þess að dreifa þekk­ing­unni sem EYM gaf okkur áleiðis.

Arndís og Þórkatla

Lestu einnig