
Þann 26. maí 2016 birti Amnesty International stefnu sína varðandi verndun vændisfólks gegn mannréttindabrotum og misnotkun, ásamt því að birta fjórar rannsóknarskýrslur um stöðu þessara mála í Papúa Nýju-Gíneu, Hong Kong, Noregi og Argentínu.
Landaskýrsurnar má lesa hér: Papúa Nýja-Gínea, Hong Kong, Noregur og Argentína.
Vændisfólk er í aukinni hættu á að verða fyrir margvíslegum mannréttindabrotum þar á meðal nauðgunum, ofbeldi, kúgun og mismunun. Allt of oft nýtur það engrar eða mjög takmarkaðrar verndar í lögum og hefur litla möguleika á að fá úrlausn mála sinna segir Tawanda Mutasah, sem fer fyrir málefnum laga og stefnumótunar hjá Amnesty International.
Stefna okkar útlistar hvernig stjórnvöld verða að gera meira til þess að vernda fólk sem stundar vændi gegn brotum og misnotkun. Rannsóknir okkar undirstrika vitnisburð þess og þau málefni sem það tekst á við daglega.
Stefna
Stefna Amnesty International er hápunktur víðtæks samráðs á heimsvísu, vel ígrundaðrar yfirferðar á efnislegum gögnum og alþjóðlegum mannréttindastöðlum auk frumrannsókna, sem stóðu yfir í meira en tvö ár. Útgáfa og formleg innleiðing stefnunnar koma í kjölfar lýðræðislegrar ákvörðunar alþjóðahreyfingar Amnesty International í ágúst 2015, sem víða var greint frá á þeim tíma.
Stefnan hvetur stjórnvöld meðal annars til að tryggja vernd gegn skaða, misneytingu og þvingunum; þátttöku vændisfólks í þróun laga sem hafa áhrif á líf þeirra og öryggi; að bundinn sé endi á mismunun og að öllum sé tryggður aðgangur að menntunar- og atvinnutækifærum.
Stefnan mælir með afglæpavæðingu vændis sem á sér stað með samþykki beggja aðila, þar með talin þau lög sem banna tengdar athafnir – svo sem eins og bann við því að falast eftir, kaupa og skipuleggja vændi. Þessi afstaða byggir á gögnum sem benda til þess að slík lög verði oft til þess að öryggi vændisfólks skerðist, auk þess sem þau verði til þess að níðingar njóti refsileysis þar sem að vændisfólk er of óttaslegið um að verða sjálft fyrir barðinu á lögunum ef það tilkynnir glæp til lögreglunnar. Lög um vændi ættu að einblína á að vernda fólk frá misneytingu og misnotkun, frekar en að leitast við að banna allt vændi og refsa vændisfólki.
Stefnan styrkir þá afstöðu Amnesty International að nauðungarvinna, kynlífsþrælkun barna og mansal séu andstyggileg mannréttindabrot sem kalla á samhæfðar aðgerðir og skuli vera saknæm í sérhverju landi samkvæmt alþjóðalögum.
Rannsóknir
Víðtækar rannsóknir, þar á meðal fjórar landfræðilega afmarkaðar skýrslur sem birtar eru ásamt stefnu Amnesty International í dag, sýna að vændisfólk verður oft fyrir hræðilegum mannréttindabrotum. Það má að hluta til rekja til glæpavæðingar, sem stefnir vændisfólki í frekari hættu, eykur jaðarsetningu og heftir getu þess til að leita sér verndar gegn ofbeldi og til að nálgast lögfræði- og félagsþjónustu.
Vændisfólk hefur greint okkur frá því hvernig glæpavæðing gerir lögreglu kleift að áreita það og koma í veg fyrir að umkvartanir þeirra og öryggi njóti forgangs segir Tawanda Mutasah.
Í stað þess að leggja áherslu á að vernda vændisfólk gegn ofbeldi og glæpum, einblína löggæslumenn í mörgum löndum á að koma í veg fyrir vændi í gegnum eftirlit, áreitni og áhlaup. Rannsóknir Amnesty International sýna að vændisfólk fær oft enga eða mjög litla vernd gegn misnotkun eða lagalega úrlausn mála sinna, jafnvel í löndum þar sem sala vændis er í sjálfu sér lögleg.
„Við viljum að lög beinist frekar að því að gera líf vændisfólks öruggara og bæti samband þeirra við lögregluna um leið og þau takist á við það verulega vandamál sem misneyting er. Við viljum að stjórnvöld gangi úr skugga um að enginn sé þvingaður til þess að stunda vændi, eða sé ófær um að láta af því ef þeir kjósa svo.“
Tawanda Mutasah
Papúa Nýja-Gínea
Í Papúa Nýju-Gíneu er ólöglegt að hafa viðurværi sitt af vændi eða að skipuleggja kynlíf í gróðaskyni. Samkynhneigð er einnig refsiverð og er megin grundvöllur lögsókna á hendur karlkyns vændisfólki.
Rannsókn Amnesty International leiddi í ljós að slík hegningarlög gerðu lögreglunni kleift að hóta, kúga og láta vændisfólk sæta gæsluvarðhaldi af geðþóttaástæðum. Vændisfólk í Papúa Nýju-Gíneu þarf að þola öfgakennda útskúfun, mismunun og ofbeldi, eins og nauðganir og morð.
Könnun sem framkvæmd var af rannsakendum úr fræðasamfélaginu árið 2010 leiddi í ljós að á sex mánaða tímabili hafði 50% vændisfólks í höfuðborg Papúa Nýju-Gíneu, Port Moresby, verið nauðgað af viðskiptavinum eða lögreglu. Amnesty International hlýddi á átakanlega vitnisburði frá þeim sem höfðu mátt þola nauðgun og kynferðislega misnotkun af hálfu lögreglu, viðskiptavina og annarra en voru of óttaslegin til að tilkynna þessa glæpi þar sem þau sjálf voru álitin „ólögleg“.
,,Lögreglan byrjaði að berja vin minn [viðskiptavin] og mig … sex lögreglumenn komu vilja sínum fram við mig, einn af öðrum. Þeir voru vopnaðir byssum svo ég varð að láta undan. Ég hef engan stuðning til þess að leita til dómstóla og kæra þá. Þetta olli mér svo miklum sársauka en svo sleppti ég takinu. Ef ég leita til réttvísinnar geta þeir ekki hjálpað mér þar sem að vændi er ólöglegt í Papúa Nýju-Gíneu.“
Mona, heimilislaus manneskja í vændi.
Lögreglan í Papúa Nýju-Gíneu hefur notað smokka sem sönnunargögn gegn vændisfólki, sem er oft útskúfað og ásakað um að vera „smitberar“. Þetta virkar letjandi á margt vændisfólk þegar kemur að því að útvega sér upplýsingar og þjónustu varðandi kynheilbrigði þar með talið hvað varðar HIV/alnæmi.
,,Þegar lögreglan nær okkur eða hefur okkur í haldi, ef þeir finna smokka á okkur þá lúskra þeir á okkur og segja að við séum að bjóða fram kynlíf eða að við séum að breiða út sjúkdóma eins og HIV. Lögreglan biður um peninga, hún hótar okkur eða segir okkur að láta af hendi ákveðna upphæð. Við látum þá af hendi þar sem við erum hrædd um að ef við gerum það ekki þá muni hún ganga í skrokk á okkur.“
Mary, kona í vændi.
Buenos Aires, Argentína
Formlega séð eru sala eða kaup á vændi ekki ólögleg í Buenos Aires; en í reynd er vændisfólk gert saknæmt í gegnum röð laga sem refsa tengdu athæfi og tekst ekki að greina á milli vændis með samþykki viðkomandi aðila og mansals. Rannsókn Amnesty International leiddi í ljós að mikið þyrfti að koma til þess að vændisfólk í Buenos Aires kærði ofbeldi til lögreglunnar.
,,Hann [viðskiptavinur] borgaði mér og ég var við það að fara út úr bílnum þegar hann greipum hálsinn á mér og skar mig með hníf. Ég gaf honum alla þá peninga sem ég var með á mér auk farsímans míns og hann sleppti mér.“
Laura, sem stundar götuvændi.
Hún segist ekki hafa tilkynnt ofbeldið eða þjófnaðinn til lögreglunnar þar sem henni fyndist það vera tímasóun: ,,[Þeir] munu ekki hlusta á mig vegna þess að ég starfa á götunni.“ Vændisfólk er oft stöðvað á götum úti vegna geðþóttaákvarðana lögreglu og sumir sæta síendurteknum sektum og skilorðum. Það að lögregla og saksóknarar í Buenos Aires láti útlit, klæðnað eða hegðun einstaklinga hafa áhrif á hvernig þeir framfylgja þeim lögum, sem glæpavæða samskipti í kringum vændisstarfsemi á almannafæri, er ólögmætt. Hins vegar á þessi gerð persónugreiningar sér oft stað – þar sem lögreglan beinir spjótum sínum sérstaklega að transfólki í vændi í aðgerðum sínum.
Vændisfólk sem starfar í eigin húsnæði er þá oft látið sæta ofsafengnum og tímafrekum rannsóknum og áhlaupum af hálfu lögreglunnar í Buenos Aires, auk kúgana og múta. Vændisfólk í Buenos Aires greindi einnig frá vandamálum varðandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu, þar á meðal gífurlegri útskúfun og mismunun.
,,Við höfðum engan raunverulegan aðgang að heilbriðisþjónustu þar sem að í hvert skiptisem við fórum á sjúkrahús var hlegið að okkur eða við vorum þau síðustu sem komumst að hjá læknunum.“
Viðmælandi, sem verið hafði í vændi.
Amnesty International komst að því að þetta leiddi til þess að sumt vændisfólk forðaðist þjónustuna algjörlega.
Noregur
Í Noregi er ólöglegt að kaupa kynlíf en það eitt að selja kynlíf er það ekki. Aðrar athafnir tengdar vændi eru refsiverðar eins og að „stuðla að vændi“ og leigja húsakynni sem notuð eru til að stunda vændi. Þrátt fyrir háa tíðni nauðgana og ofbeldis af hálfu viðskiptavina og skipulagðra glæpagengja, þarf mikið að koma til, til að vændisfólk kæri ofbeldi til lögreglu.
,,Ég fór í hús manns. Hann kýldi mig tvisvar í kjálkann. Ég sagði lögreglunni ekki frá. Ég vil ekki að það komi fram í skránum mínum.“
Aðili, sem stundar vændi.
Amnesty International hefur heyrt af því að sumt vændisfólk, sem tilkynnt hefur ofbeldi til lögreglunnar í Noregi, hafi verið borið út af heimili sínu eða rekið úr landi í kjölfarið. Samkvæmt norskum lögum, á vændisfólk það á hættu að vera borið út nauðugt þar sem húsráðandi getur átt yfir höfði sér kæru fyrir að leigja húsnæði til þess ef það er svo nýtt til að selja vændi. Ef húsráðendur bera fólk ekki út, þá höfðar lögreglan mál á hendur þeim … Lögreglan hvetur húsráðendur til að taka lögin í sínar eigin hendur og framfylgja þeim sjálfir útskýrði fulltrúi norskra samtaka sem berjast fyrir réttindum vændisfólks. Fólk sem stundar vændi getur ekki ákveðið að starfa saman til að auka öryggi sitt, eða leigt sér þjónustu eins og öryggisgæslu frá þriðja aðila, þar sem slíkt myndi falla undir það að „stuðla að vændi“ í lögunum.
Ef að viðskiptavinur er slæmur þá þarft þú sjálf/-ur að takast á við það allt til enda. Þú hringir aðeins á lögregluna ef þú heldur að þú munir deyja. Ef þú hringir á lögregluna, þá missir þú allt.
Viðmælandi sem stundar vændi í Noregi
Hong Kong
Í Hong Kong er vændi ekki ólöglegt ef um er að ræða eina manneskju sem að starfar í eigin íbúð. Hins vegar setur slík einangrun vændisfólk í viðkvæma stöðu og í aukna hættu á að verða fyrir ráni, líkamlegri árás eða nauðgun.
,,Ég hef aldrei kært nokkurn glæp eins og nauðgun þar sem ég er hrædd um að verða ákærð fyrir að falbjóða vændi.“
Queen, sem stundar vændi.
Vændisfólk í Hong Kong nýtur ekki aðeins takmarkaðrar verndar lögreglu heldur er það stundum sérstakt skotmark hennar. Rannsókn Amnesty International sýnir að lögreglufulltrúar misbeita oft valdi sínu til þess að koma sök á og refsa vændisfólki í gegnum ginningar, kúganir og þvinganir. Leynilögreglufulltrúum er veitt leyfi til að þiggja ákveðna kynlífsþjónustu frá vændisfólki í starfi sínu til þess að komast yfir sönnunargögn. Amnesty International skráði einnig tilvik þar sem lögreglan, eða einstaklingar sem kváðust tilheyra henni, sögðu vændisfólki að það gæti komist hjá viðurlögum með því að gefa þeim peninga eða „frítt“.
Transfólk sem stundar vændi verður oft fyrir barðinu á sérstaklega hrottafengnum aðgerðum af hálfu lögreglunnar, þar á meðal ágengri og niðurlægjandi líkamsleit sem framkvæmd er á transkonum af karlkyns lögreglufulltrúum. „Það er mikið af káfi og háði“ segir lögfræðingur sem verið hefur í málsvari fyrir transfólk sem stundar vændi í Hong Kong. Eftir handtöku getur kvenkyns transfólk sem stundar vændi verið sent í gæsluvarðhald ætlað körlum og á sérstakar deildir fyrir fanga sem þjást af geðröskunum.
Engin réttlæting á misnotkun
„Á alltof mörgum stöðum í heiminum nýtur vændisfólk ekki lagaverndar og þjáist vegnahræðilegra mannréttindabrota. Þessar aðstæður eru aldrei réttlætanlegar. Stjórnvöld verða að vinna að vernd mannréttinda allra, vændisfólks þar með talið. Afglæpavæðing er aðeins eitt af þeim nauðsynlegu skrefum sem stjórnvöld geta tekið til að tryggja vernd gegn skaða,misneytingu og þvingunum,“ segir Tawanda Mutasah.
Helstu spurningar og svör varðandi stefnuna má finna hér
Tengt efni
Allt starf Amnesty International er fjármagnað og drifið áfram af einstaklingum eins og þér. Hvert framlag — hver aðgerð vegur þungt.
Fyrir ungt fólk sem vill hafa áhrif minnum við á ungliðahreyfingu Amnesty International en hópar eru starfandi um land allt.
Styrktu & skrifaðu undir áköll með símanum
Einfalt og áhrifaríkt aðgerðanet
Vertu með í netákallinu, þar sem meðlimir fá tilkynningar í tölvupósti um alvarleg mannréttindarbrot sem krefjast tafarlausra viðbragða.
Þú ætlar að styðja og .
Skrifaðu undir og Amnesty á Íslandi sendir viðeigandi aðilum bréf í þínu nafni. Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.
Engar aðrar persónuupplýsingar en nafn þitt munu fylgja bréfinu á viðkomandi stjórnvöld.