Ana Maria Santos Cruz er ástrík móðir. Hún nýtur þess að fara á tónleika og menningarviðburði með dóttur sinni í Salvador í Brasilíu. Frá því að hún missti son sinn Pedro Henrique hefur henni liðið eins og hún hafi glatað hluta af sjálfri sér.
Á stuttri ævi sinni náði Pedro Henrique að afreka margt. Hann var aðgerðasinni og talsmaður kynþáttaréttlætis og mannréttinda. Pedro Henrique skipulagði friðargöngur í Tucano í Bahía í Brasilíu. Í þessum árlegu göngum sameinaðist fólk til að vekja athygli á lögregluofbeldi sem beinist fyrst og fremst gegn samfélagi svarts fólks.
Þessum samtakamætti var mætt með ógnunum og andúð lögreglu. Lögreglumenn fóru að hafa eftirlit með Pedro Henrique, hótuðu honum og beittu hann ofbeldi fyrir aðgerðastarf sitt. Pedro Henrique var myrtur þann 27. desember 2018, 31 árs að aldri. Þrír hettuklæddir menn réðust inn á heimili hans þar sem hann svaf við hlið kærustu sinnar. Hann var skotinn átta sinnum í höfuð og háls. Kærastan hans bar kennsl á mennina þrjá sem hún sagði vera lögreglumenn.
Lögreglumennirnir sem grunaðir eru um morðið á Pedro Henrique voru ákærðir árið 2019 en tæplega fimm árum síðar starfa þeir enn innan lögreglunnar. Rannsókn á morðinu er ekki enn lokið og ekki er byrjað að rétta í málinu. Þrátt fyrir hótanir og sorg vegna sonarmissisins hefur Ana Maria sýnt hugrekki í leit sinni að sannleikanum um dauða sonar síns ásamt því að kalla eftir réttarhöldum og ítarlegri rannsókn á málinu.
Krefstu réttlætis fyrir Pedro Henrique.