„Náttúrulyfin okkar, berin, maturinn, dýrin, vatnið og menning okkar hafa verið hér um ómunatíð. Okkur ber skylda til þess að vernda þessa lífshætti fyrir ófæddu börnin okkar.“ Þetta eru orð Sleydo sem tilheyrir frumbyggjaþjóðinni Wet’suwet’en og býr á landi sem forfeður hennar hafa búið á í þúsundir ára.
Árið 2019 hóf fyrirtækið Coastal GasLink Pipeline ltd (CGL) lagningu gasleiðslu á landi Wet’suwet’en án samþykkis höfðingjanna og ættflokka þeirra. Wet’suwet’en-þjóðin á rétt á því að ákveða hvaða framkvæmdir eiga sér stað á hennar landsvæði.
Sleydo og annað baráttufólk vilja vernda land forfeðra sinna og rétt annarra einstaklinga til hreins, heilnæms og sjálfbærs umhverfis og hófu aðgerðir til að stöðva lagningu gasleiðslunnar. En friðsamlegum aðgerðum þeirra hefur verið mætt með hótunum, áreitni og refsingum.
Árið 2018 féllst hæstiréttur í Bresku-Kólumbíu á kröfur fyrirtækisins CGL og setti lögbann til að fyrirbyggja hindranir á lagningu leiðslunnar. Lögreglan hefur framfylgt lögbanninu með fjórum ofbeldisfullum aðgerðum á landsvæði Wet’suwet’en með beitingu vopna, þyrlna og hunda. Yfir 75 einstaklingar sem berjast fyrir landsréttindum hafa verið handteknir.
Í einni af árásunum í nóvember 2021 var Sleydo handtekin ásamt 30 öðrum baráttumanneskjum. Hún var síðar dæmd sek um „glæpsamlega vanvirðingu“ fyrir að óhlýðnast lögbanninu um að halda sig í fjarlægð frá framkvæmdasvæði gasleiðslunnar þrátt fyrir að leiðslan sé á landi forfeðra hennar. Baráttufólkið fyrir landsréttindum hefur lagt inn kröfu hjá hæstarétti Bresku-Kólumbíu þar sem það telur að brotið hafi verið á réttindum sínum í árásum lögreglu. Framtíð baráttufólksins veltur á niðurstöðu þessarar kröfu. Að öðrum kosti á það yfir höfði sér fangelsisvist.
Krefstu þess að stjórnvöld í Kanada hætti að gera baráttu Wet’suwet’en fyrir landsréttindum glæpsamlega.