Maryia Kalesnikava atvinnutónlistarkona hefur ánægju af tónlist, list og samvistum við annað fólk. Hún nýtur þess að hitta fólk og læra af því. Hana dreymir um Belarús þar sem borin er virðing fyrir öllu fólki og því leyft að tjá sig frjálslega.
Það varð til þess að hún tók þátt í kosningabaráttu fyrir forsetakosningar í ágúst 2020. Hún vann fyrir frambjóðandann Svyatlönu Tsikhanouskaya í samstarfi við Veraniku Tsapkala. Konurnar þrjár ákváðu að sameina krafta sína í kjölfar þess að helstu karlframbjóðendur höfðu verið fangelsaðir eða neyðst til að flýja. Í landi þar sem tjáningar-, félaga- og fundafrelsið er verulega takmarkað gáfu konurnar þrjár mörgum von þar sem þær kölluðu eftir breytingum.
Það er útbreitt álit að stjórnarandstaðan hafi unnið en kosningaúrslitum verið hagrætt. Í kjölfarið hóf Alyaksandr Lukashenka sitt sjötta kjörtímabil. Svyatlana og Veranika voru neyddar í útlegð og Maryia varð mest áberandi í stjórnarandstöðunni. Hún fór fyrir friðsömum mótmælendum, stóð andspænis ofbeldisfullum lögregluþjónum og myndaði hjartalaga merki með höndunum fyrir framan óeirðalögreglu.
Maryiu var rænt af yfirvöldum í Belarús 7. september 2020. Grímuklæddir menn drógu hana inn í sendiferðabíl og keyrðu að landamærunum þar sem henni var hótað og þrýst á hana að yfirgefa landið. Hún flúði út um sendibílsgluggann og reif vegabréfið sitt í sundur til að forðast brottvísun úr landi. Maryia var handtekin, færð í varðhald og síðar dæmd í 11 ára fangelsi, meðal annars á grundvelli ákæra um „að grafa undan þjóðaröryggi“ og „öfgastefnu“.
Maryiu er haldið við hræðilegar aðstæður. Hún fær takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu sem hún þarfnast. Henni er neitað um öll samskipti við fjölskyldu sína og lögfræðinga. Að auki er hún einangruð frá öðrum föngum í fangelsinu. Fjölskylda hennar og vinir hafa ekki heyrt í henni í rúmt ár.
Krefstu þess að stjórnvöld í Belarús leysi Maryiu Kalesnikava úr haldi.