Chow Hang-tung er afburðanemandi sem útskrifaðist úr háskóla í fremstu röð í Hong Kong. Hún hefur tileinkað líf sitt baráttu til verndar réttindum fólks, sem mannréttindalögfræðingur og aðgerðasinni.
Chow gegndi varaformennsku í Hong Kong-bandalaginu sem skipulagði stærstu minningarathöfn í heimi til heiðurs fórnarlömbum stúdentamótmælanna á Torgi hins himneska friðar. Árið 1989 voru hundruð, jafnvel þúsundir, einstaklinga myrtir á götum úti nálægt Torgi hins himneska friðar í Peking þegar hermenn skutu á friðsama mótmælendur sem kölluðu eftir efnahagslegum og samfélagslegum breytingum.
Kínversk stjórnvöld vilja að fólk gleymi þessum atburði en Chow hefur gert það að köllun sinni að halda minningu fórnarlambanna á loft.
Á árunum 2020 og 2021 bönnuðu stjórnvöld í Hong Kong minningarathöfnina á grundvelli lýðheilsuverndar í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Þann 4. júní 2021, á minningardegi atburðarins á Torgi hins himneska friðar, hvatti Chow fólk á samfélagsmiðlum til að minnast hans með því að kveikja á kerti. Hún var handtekin sama dag fyrir að „auglýsa eða vekja athygli á óleyfilegri samkomu“.
Chow afplánar nú tuttugu og tvo mánuði í fangelsi fyrir það eitt að minnast með friðsamlegum hætti fórnarlamba þessa hræðilega atburðar. Hún á yfir höfði sér frekari fangavist fyrir að ógna þjóðaröryggi með friðsamlegum aðgerðum sínum. Þrátt fyrir þetta skín hugrekki Chow í gegn.
„Það væri lygi að halda því fram að ég sé ekki hrædd en ekki svo hrædd að ég leyfi mér að aðhafast ekkert,“ segir Chow.
Krefstu þess að stjórnvöld í Hong Kong leysi Chow úr haldi í dag!