Netfréttakona fangelsuð

Fangelsuð vegna fréttaumfjöllunar um kórónuveiruna

Þegar Wuhan-borg í Kína var lokað í kjölfar örrar útbreiðslu kórónu­veirunnar var Zhang Zhan ein örfárra sjálf­stæðra netfrétta­manna sem skýrðu frá krísu­ástandinu.

Lögfræð­ing­urinn fyrr­ver­andi var stað­ráðin í að varpa ljósi á sann­leikann og ferð­aðist í þeim tilgangi til borg­ar­innar í febrúar 2020. Zhang Zhan greindi frá því á samfé­lags­miðlum að yfir­völd hefðu tekið til fanga óháða blaða­menn og áreitt fjöl­skyldur smit­aðra einstak­linga. Sjálf­stæðir netfrétta­menn voru eina uppspretta órit­skoð­aðra beinna upplýs­inga um kórónu­veirufar­ald­urinn í Kína þegar hann kom fyrst til sögunnar í Wuhan-borg.

Sjálf­stæðir blaða­menn og fjöl­miðla­fólk sæta linnu­lausum árásum og áreiti fyrir að afhjúpa upplýs­ingar sem stjórn­völd myndu vilja þagga niður.

Zhang Zhan hvarf spor­laust í Wuhan-borg í maí 2020. Yfir­völd stað­festu síðar að hún væri í haldi lögreglu í Shanghai í 620 km fjar­lægð frá borg­inni. Í júní 2020 hóf Zhang Zhan hung­ur­verk­fall til að mótmæla varð­haldinu. Í desember sama ár var hún orðin mjög veik­burða og mætti í hjóla­stól í fyrir­töku í dómsal. Dómari dæmdi hana í fjög­urra ára fang­elsi fyrir að „stofna til ágrein­ings og valda vand­ræðum“.

Zhang Zhan var flutt í kvennafang­elsi í Shanghai í mars 2021. Yfir­völd meina henni enn fjöl­skyldu­heim­sóknir.

„Við eigum að varpa ljósi á sann­leikann, sama hvað það kostar,“ segir Zhang Zhan. „Sann­leik­urinn hefur ávallt verið dýrkeypt­asta verð­mæti veraldar. Hann er líf okkar.“

Krefðu kínversk stjórn­völd um að leysa Zhang Zhan tafar­laust úr haldi.

Þau þurfa þína hjálp!

Þín undirskrift getur bjargað mannslífi

Kína

Fangelsuð vegna fréttaumfjöllunar um kórónuveiruna

Zhang Zhan skýrði frá útbreiðslu kórónuveirunnar í Wuhan-borg. Hún greindi frá því á samfélagsmiðlum að yfirvöld hefðu tekið til fanga óháða blaðamenn og áreitt fjölskyldur smitaðra einstaklinga. Hún var síðar tekin til fanga og dæmd í fjögurra ára fangelsi.

Palestína

Hótað lífláti fyrir að afhjúpa ofbeldi ísraelska hersins

Janna Jihad er 15 ára gömul og býr á Vesturbakkanum, sem er hernuminn af Ísrael. Hún var aðeins sjö ára þegar hún hóf að taka upp á símann sinn mannréttindabrot ísraelska hersins. Janna hefur verið áreitt og henni hótað lífláti.

Nígería

Læstur í neðanjarðarklefa fyrir mótmæli

Imoleayo Michael studdi mótmæli á samfélagsmiðlum gegn sérsveitinni SARS sem er alræmd fyrir ofbeldi. Í kjölfarið var hann læstur í neðanjarðarklefa í 41 dag. Hann stendur frammi fyrir fölskum ákærum og margra ára fangelsisvist.

Úkraína

Ráðist á baráttufólk fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks

Frjálsu félagasamtökin Sphere hafa barist fyrir réttindum kvenna og hinsegin fólks frá árinu 2006. Á undanförnum árum hafa ofbeldisfullir andstöðuhópar gegn hinsegin fólki skipulagt tugi árása á starfs- og stuðningsfólk Sphere en enginn sætir ábyrgð.

Erítrea

Sætti þvinguðu mannshvarfi 15 ára

Ciham Ali var aðeins 15 ára þegar stjórnvöld námu hana á brott í hefndaraðgerð gegn föður hennar. Níu ár eru nú liðin frá því að hún sætti þvinguðu mannshvarfi. Enginn veit hvar hún er í haldi.

Mexíkó

Skotin á mótmælum gegn ofbeldi á konum

Wendy Galarza berst fyrir réttlátara samfélagi fyrir konur í heimalandi sínu. Þær sæta oft árásum, eru niðurlægðar og myrtar. Hún týndi næstum lífi sínu við að fordæma ofbeldið.

Taíland

Stendur frammi fyrir lífstíðardómi vegna friðsamlegra mótmæla

Panusaya, kölluð Rung, kallar eftir jafnrétti og tjáningarfrelsi. Í mars 2021 var hún fangelsuð í 60 daga á grundvelli laga sem banna gagnrýni á konungsríkið. Nú stendur hún frammi fyrir fjölda ákæra og á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Hvíta-Rússland

Unglingur barinn, gefið raflost og fangelsaður

Mikita Zalatarou, sem er flogaveikur, var 16 ára þegar hann var handtekinn og ásakaður um að kasta bensínsprengju í átt að óeirðalögreglu. Hann var í kjölfarið fangelsaður, pyndaður og dæmdur í fimm ára fangelsi.